miðvikudagur, 1. október 2008

Sá weldur sem á heldur

Það eru áreiðanlega ekki öll kurl komin til grafar en miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir Íslendingi í útlöndum sem treystir á netsambandið eitt, virðist þó eftirfarandi blasa við um síðustu wendingar í í Glitnismálinu:


Eftirfarandi sitja uppi með Svartapéturinn:

Jón Ásgeir Jóhannesson: Ég bið vinkonur mínar afsökunar en ég finn ekkert betra orð en kellingavæl yfir ramakvein Jóns Ásgeirs. ” Davíð gerði Glitni ekki gjaldþrota. Það voru ráðamenn bankans, sem gerðu það. Þeir fóru of geyst og biluðu…,” skrifar Jónas Kristjánsson og hittir naglann á höfuðið. Áhættusæknir fjárfestar gera út á að græða meir en aðrir á góðum tímum en fall þeirra er hraðar og skellurinn harðari þegar á móti blæs. Þetta er ekkert nýtt.

Í rekstri Glitnis var teflt á tæpasta vað og ekkert B-plan virtist vera fyrir hendi. Bankinn féll eins og spilaborg við fyrstu ágjöf og þá var hlaupið til mömmu ríkissjóðs.

Ég ber virðingu fyrir Jóni Ásgeiri en það fer honum illa að vera pilsfaldakapítalisti. Og hvers vegna í ósköpunum bjóst hann við tekið yrði á honum með silkihönskum hjá Sjálfstæðisflokknum eða –for crying out loud- í Seðlabankanum. Jón Ásgeir talar um að stjórn Glitnis hafi samþykkt bankarán. Pétur Tyrfingsson orðar þetta skemmtilega: "En - mínir ágætu herrar! Það þarf ekkert að ganga að þessu tilboði ríkisins. Það hlýtur að vera hægt að snúa sér eitthvað annað og selja eitthvað úr þessu gríðarlega verðmæta eignasafni. Ef það er ekki hægt - nú þá er það einfaldlega verðlaust og þar með er ríkið ekki að gjaldfella neitt né stela neinu."

Þrjúhundruð milljóna maðurinn Lárus Welding: Fékk þrjú hundruð milljónir fyrir það eitt að ráða sig til starfa hjá Glitni. Setti bankann á hausinn innan við ári síðar. Sagði allt í góðu lagi viku áður en hann fór á hausinn. Hvernig dettur nokkrum manni í hug að endurráða hann sem bankastjóra? Er ekkert sendilsstarf laust hjá bankanum, sennilega myndu hæfileikar hans njóta sín þar betur. Mun sitja uppi með skömmina það sem hann á eftir ólifað.

Ofdramb og græðgi varð þrjú hundruð milljóna manninum að falli. Ef greiðslan hefur ekki verið innt af hendi, ætti ríkið annað hvort að leita leiða til að rifta samningnum eða borga honum með því að keyra vörubílshlass með 300 millum í smápeningum og sturta á stéttina hjá honum. Sá weldur sem á heldur.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var fjarverandi vegna veikinda og verður því ef til vill ekki hægt að leggja mat á hennar hlut. Hún hefur staðið sig prýðilega í málefnum UNIFEM síðan hún varð utanríkisráðherra og unnið vel að framboði Íslands til öryggisráðsins. Hún hefur nánast ekkert skipt sér af efnahagsmálum þótt hún sé oddviti annars stjórnarflokksins og verið áhugalaus og steinsofandi á vaktinni í Evrópumálunum.


Björgvin G. Sigurðsson lítur út eins og smástrákur með tertu í andlitinu. Geir H. Haarde virti hann ekki viðlits að því er best verður séð. Björgvin hefur staðið sig að mörgu leyti best Samfylkingarráðherra hingað til og litið hefur verið til hans sem framtíðarleiðtoga. Björgvin hefur brugðist vonum aðdáenda sinna – og ég er í þeim flokki. Niðurstaðan af þessu máli er sú að hann hafi enn ekki reynslu né styrk til að takast á við mál af þessu tagi. Í glímunni við Davíð og Geir reyndist hann efnilegur nýliði. En samt bara nýliði.

Varaformaður Samfylkingarinnar fær einkunnina AWOL. Ágúst Ólafur who?

Aðrir Samfylkingarmenn virðist vera í felum eða í útlöndum eða hvort tveggja. Málið er flokknum mikill álitshnekkir.

Flokkurinn þarf að útskýra rækilega hvers vegna hann var ósýnilegur í þessu máli og lét Sjálfstæðisflokknum ákvarðanatöku eftir, enda þótt bankamálin séu á könnu Samfylkingarinnar.

Geir H. Haarde: plúsar hans eru að hafa komið höggi á Jón Ásgeir sem hefur tekið stöðu Sovétríkjanna í heimsmynd Sjálfstæðisflokksins. Mínusarnir eru að hann lítur út eins og skósveinn Davíðs Oddssonar og lætur hann niðurlægja sig á ljósmyndinni þar sem gamli formaðurinn situr við stýrið. Geir sýnir í þessu máli að hann er meiri klækjarefur en margur hugði en spurningin hvort það er honum til framdráttar til lengri tíma litið að niðurlægja Samfylkinguna með þeim hætti sem raun ber vitni.

Geir þarf að útskýra á hvaða forsendum hann virðist hafa afsalað sér stjórn landsins í hendur Seðlabankans, sem meira að segja ákveður hverjir skipi bankaráð Glitnis eftir þjóðnýtinguna!!

Í fljótu bragði virðist blasa við að sigurvegari málsins sé Davíð Oddsson: Hann sýndi hver hefur valdið, setti Geir í farþegasætið og settist við stjórnvölinn. Um fram allt hefndi hann sín á Sovétríkjunum nýju Baugi. Það er hins vegar enn óljóst hvort Glitnir hefði ekki átt að fá lánafyrirgreiðslu fremur en að sæta þeim afarkostum að sæta þjóðnýtingu sem er jú upptaka eigna. Varla í anda Sjálfstæðisstefnunnar.

Vandi Davíðs er að hann þarf ekki að sanna neitt sem stjórnmálamaður og hefði aldrei átt að fara í Seðlabankann. Orðistír bankans er í molum.

Mér segir svo hugur að sigur Davíðs reynist vera Pyrrhosar – sigur: Að í sögulegu samhengi verði litið á Glitnismálið sem lokapunktinn í Baugsmálinu.

Og það var síður en svo óumflýjanlegt. Stjórnlist Napóleons fólst í því að trufla andstæðinginn ekki á meðan hann var að gera mistök. Enn er of snemmt að sjá fyrir lokaniðurstöðuna en í bili að minnsta kosti hefur Davíð með ofsa sínum og óbilgirni tekist að láta það líta svo út sem Jón Ásgeir sé fórnarlamb ofsókna. Í raun gróf hann sína eigin gröf en Davíð tókst ekki að stilla sig um að sparka í liggjandi mann.

13 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Árni!
Hæfileikum þínum er sóað þarna í útlöndum. Anderlecht ain´t what it used 2 b ... (að vísu voru Belgar góðir á ÓL, svo kannski er e-ð revival í gangi).

Hade

Insp. ... not!

Nafnlaus sagði...

Það sorglegasta við þetta er að afleiðingin af því að taka 200 milljarða af eigum manna út í þjóðfélaginu og færa til ríkisins verður fall hagkerfisins.
Eini ljósi punkturinn er kannski að með því að styðja þetta rugl mál er Samfylkingin að ýta þjóðinni inn í ESB því að eftir örfáa mánuði mun koma í ljós að við höfum ekki val um annað.

Nafnlaus sagði...

Margt gott í þessu Árni en ein vitleysa. Almenningur skynjar það ekki svo að JÁJ sé fórnarlamb og hér sé um einhverja hefnd að ræða gegn Baugsmönnum. Sú túlkun er líka fáránleg.
Almenningur sér nú í gegnum þesa auðmenn, vælið í þeim og pilsfaldakapítalismann, "greiningardeildirnar", lygina og þvættinginn. Þessir menn hafa komið landinu á hausinn. Ástandið er hriklaegt og á eftir að versna.
Þessir menn eiga engan stuðning og enga samúð hér. Þeir njóta einskis álits og ekki trausts.
Hafðu líka í huga að það eru þessir menn sem eru nú að ráðast að þjóðinni með stöðutöku gegn krónunni sem skilar óðaverðbólgu og ofurvöxtum.
Burt með þetta lið!

Unknown sagði...

Árni, þú gefur þér þá forsendu, að Glitnir hafi verið gjaldþrota. Þetta er röng forsenda og þar með stendur ekki steinn yfir steini af því sem þú skrifar. Þú vitnar í Pétur Tyrfingsson, sem með skrifum sínum sýnir glögglega fram á yfirgripsmikla vanþekkingu sína á eðli fjármála- og peningamarkaða. Lausafjárkrísa snýst nefnilega um það að erfitt er fyrir banka að nálgast lausafé. Skiptir þá engu hversu traustar og góðar eignir þeir eiga. Það eru ekki peningar á lausu. Við slíkar aðstæður stíga seðlabankar inn og lána gegn veði í eignum, sem eru traustar, þó að erfitt sé að breyta þeim í lausafé í miðri lausafjárkreppunni.

Þetta er í sjálfu sér ekkert flókið en víða virðist viljinn til að misskilja þetta vera sterkur.

Nafnlaus sagði...

Nú ef Glitnir var ekki á leið í þrot, hvað er það þá sem kemur í veg fyrir að hluthafar í bankanum gefi Seðlabankanum puttan og leiti á önnur mið eftir fjármögnun? Þeir eru ekkert búnir að samþykkja þessa ráðstöfun ennþá.

Nafnlaus sagði...

Ólafur, að sjálfsögðu var Glitnir orðinn gjaldþrota. Fjárstreymisvandamál hjá banka þýða gjaldþrot og ekkert annað. Glitnir leitaði til Seðlabankans, en ekki öfugt.

Unknown sagði...

Fjárstreymislandræði banka þýða engan veginn gjaldþrot hans. Það er hins vegar auðvelt að setja slíkan banka í greiðsluþrot. Það er þvingunin, sem eigendur og stjórnendur Glitnis stóðu frammi fyrir aðfararnótt mánudags. Um allan hinn vestræna heim hafa seðlabankar greitt aðgengi banka að lausafé gegn góðum tryggingum. Svo virðist sem íslenski seðlabankinn hafi kosið að gera það ekki gagnvart Glitni heldur þvinga eigendur til að afsala sér stærstum hluta eignar sinnar. Það er sláandi að fregna, að seðlabankinn hafi ekki einu sinni skoðað þau veð, sem Glitnir bað að veði gegn lánafyrirgreiðslu. Ég hvet sj til að afla sér þekkingar á hlutverki og stöðu seðlabanka, sem lánveitandi til þrautarvara. Ekki fæst annað séð en að seðlabankinn hafi illilega brugðist því hlutverki sínu um helgina, hvað sem því veldur.

Nafnlaus sagði...

Eru allir búnir að gleyma yfirtöku JÁJ á: 1. Baugi. Eru ekki málaferli þar vegna lágs yfirtökuverðs. Ekki var almennum hluthöfum vorkennt þar. 2.FL GROUP fjöldi fyrrum starfsmanna FL átti þar hlut og treysti snillingunum. Ekki var þeim vorkennt í yfirtökuverðinu.
Það er mjög holur hljómur í þessum gæjum sem stóðu fyrir örstuttu síðan og sögðust fara með bankana úr landi ef þeirra þarfir yrðu ekki uppfylltar.

Nafnlaus sagði...

"Aðrir Samfylkingarmenn virðist vera í felum eða í útlöndum eða hvort tveggja. Málið er flokknum mikill álitshnekkir."

Sammála þessu .... því miður!!

Nafnlaus sagði...

ég segi bara: Guði sé lof fyrir netið og bloggin. Það er ekki hægt að ljúga að okkur lengur í gegnum dýra prentmiðla sem auðmennirnir eiga.

Við erum öll búin að sjá hvernig þeir hirtu allt úr fyrirtækjunum með kaup&sölu og milljarða í eigin vasa.

Svo verður þetta ekkert skárra því ríkisvald í höndum sjálfstæðismanna mun alltaf halda almenningi á heljarþröm (les: lág laun, mikil vinna, verðtrygging).

Nafnlaus sagði...

Notaðu bara karlakjökur - þá þarftu ekkert að vera að móðga okkur ;)
Bryndís Ísfold

Nafnlaus sagði...

Var það ekki frekar Bjarni Ármannsson sem setti bankann í þrot, ég held að þrjúhundruð kallinn sé nú bara búinn að vera ausa.

Nafnlaus sagði...

Góður pistill Árni,

En hvað með fjármálaráðherrann?
Felast einhver dulin skilaboð um mat þitt á frammistöðu Árna Matt að þú gleymir honum í "frammistöðumatinu"?

PM