mánudagur, 6. október 2008

Bregðumst ekki trausti Geirs!

Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi og ein helsta vonarstjarna Sjálfstæðisflokksins telur ekki að forsætisráðherra eða seðlabankastjóri eigi að sæta ábyrgð fyrir hrun íslensks efnahagslífs. Hvað þá að íslenskir auðkýfingar eigi að borga brúsann fyrir áhættusækni sína sem nú er að stefna íslensku þjóðinni í þrot. Nei, Gísli Marteinn vill að öll dýrin í skóginum séu vinir.

Gísli Marteinn telur að nú ríði á að íslenska þjóðin bregðist ekki traustinu. Orðrétt:

"Framundan eru erfiðir tímar og ég vona svo sannarlega að forsætisráðherra haldi áfram að tala beint við okkur um ástandið og að við bregðumst ekki traustinu og gerum það sem í okkar valdi stendur til að þreyja þorrann og góuna. Svo komum við eldri og þroskaðri undan vetri, hvenær sem honum lýkur."

Jamm. Íslenska þjóðin á ekki að bregðast trausti Davíðs og Geirs. Gísli Marteinn getur að vísu ekki annað en elst og þroskast en ef við "bregðumst ekki traustinu" gæti farið illa fyrir okkur Íslendingum. Sporin hræða.

Þegar austur-þýska alþýðan reis upp gegn einræði kommúnisma á þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1953, fordæmdi stjórnarflokkurinn þjóðina og sagði að hún ætti ekki svona góða stjórn skilið.

Aldrei hefði ég búist við að Gísli Marteinn tæki upp merki Walters Ulbrichts en enginn veit sína ævi fyrr en öll er.

3 ummæli:

Heiða sagði...

Mér finnst nú yfirleitt ekkert skemmtilegt að lesa bloggfærslurnar þínar..... En þú hefur algjörlega brillerað í dag.

Held ég lesi daglega héðan í frá

Nafnlaus sagði...

Ósammála Heiðu. Og fréttaviðtalið geeegjað og ólíkt því sem við eigum að venjast hér heima.
Getið þið fréttamenn (og fyrrverandi) ekki farið að segja reynslusögur úr stéttinni? Alla vega til að skýra fyrir okkur af hverju hún er orðin svona lufsuleg; íslenska frétta- og blaðamennskan. Maður er búinn að vera á gubbunni svo lengi; hættur að nenna að lesa á pappír að mestu því grautarhugsunin bætiast við lufsuháttinn.

Heiða sagði...

Heyrðu nafnlaus.... kíktu á færslu Árna hérna á undan þessari... þar er reynslusaga handa þér