föstudagur, 17. október 2008

Ekki hægt að kenna EES um

Á dögunum vakti ég athygli á því hvernig Geir H. Haarde vísaði allri ábyrgð á gangverki fjármálakerfisins yfir á Evrópusambandið.

Sjálfum fannst mér þetta aðallega merkilegt sökum þess að forystumaður í stjórmmálaflokki sem reynt hefur að sýna fram á að EES löggjöf væri sáralítill partur af íslenskri löggjöf, skýrði nú þjóðinni frá því að Ísland hafi engu ráðið um löggjöf á sviði sem var amk. það mikilvægt að það hefur nú leitt til hálfgerðs þjóðargjaldþrots.

Ágætur maður sendi mér póst sem ég ætlað að spinna við hér á eftir til að vekja athygli á því að forsætis- og viðskiptaráðherra, hafa látið að því liggja að íslenskum stjórnvöldum hafi verið nauðugur einn kostur að leyfa Landsbankanum að setja þjóðina á hausinn með Icesave reikningunum.

Í Morgunblaðinu síðastliðinn sunnudag sagði þannig forsætisráðherra Geir H. Haarde: “Þessir reikningar [Icesave] eru leyfilegir samkvæmt EES-reglunum, en tryggingin fer eftir því hvort starfsemin er rekin í útibúi eða dótturfélagi.” Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur tekið í svipaðan streng: að vegna EES hafi Landsbankinn getað farið sínu fram og ekki hafi verið við ráðið.

En íslenskum yfirvöldum var í lófa lagið að grípa í taumana. Fjármálaeftirlitið getur nefnilega bannað stofnun útibús banka erlendis á EES-svæðinu. Lesandi bloggsins bendir þannig á að tilskipun ESB um málið geri ráð fyrir að hægt sé að koma í veg fyrir stofnun útibús á EES. Um það er fjallað í 4. mgr. 36. gr.laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Ég vitna hér orðrétt í bréfið:

"Fjármálaeftirlitið getur bannað stofnun útibús skv. 1. mgr. ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis sé ekki nægilega traust. Þetta ákvæði er í samræmi við 20. gr. tilskipunar ESB 2000/12/EB Íslenskur banki á ekki sjálfkrafa rétt til að stofna útibú Evrópska efnahagssvæðinu það er alveg kýrskýrt. Það var algjört glapræði og í raun stórkostlega vítavert að leyfa íslensku bönkunum að stofna útibú á tugmilljóna mörkuðum erlendi. Ástæðan fyrir því vitum við öll því hún er bæði einföld og augljós. Gífurlegur stærðarmunur er á Íslandi og öðrum löndum í öllu samhengi fjármálalegs eðlis. Á það bæði við um stjórnunalega þáttinn og þann fjárhagslega. "

En hvers vegna tók þá Landsbankinn þá örlagaríku ákvörðun að haga reikningum þannig að íslenska ríkið sat í súpunni við gjaldþrotið?

"Málið er að það er miklu ódýrara og fljótlegra að stofna útibú en dótturfélag eða kaupa banka sem verður síðan dótturfélag. Skýrir það að Landsbankinn var með útibú en ekki dótturfélag fyrir Icesafe. Allir sem að komu að málinu vissu eða áttu að sjá þessa augljósu staðreynd. Svo einfalt er það!"

Þetta eru mjög mikilvæg atriði: Fjármálaeftirlitinu var í lófa lagið að stöðva framgang Landsbankans. Eigum við að trúa því að ráðherrarnir hafi ekki vitað það? Mér þykir það með ólíklindum. Ríkisstjórnin ber því sjálf ábyrgð á þessu máli og getur ekki skýlt sér að baki EES. Hve miklu ætli Landsbankinn hafi tapað á því að reyna að spara smápeninga með þessum hætti? Hver bar ábyrgð á því?

PS Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hugsað til þess, fyrr en ég fékk ábendingu í dag, að lesendur sendu mér póst í stríðum straumum á eyju netfang mitt. Hef semsagt ekki opnað það mjög lengi! Ég þakka sendingarnar og bið þá sem skrifa um að láta þess getið hvort ég megi vitna í skrif þeirra og þá hvort það skuli gert undir nafni.

Engin ummæli: