Ég vildi mjög gjarnan geta orðað þetta öðruvísi en þetta er eingöngu að síður niðurstaða sem ég held að enginn skynsamur maður geti í raun mótmælt. Geir H. Haarde er nauðugur einn kostur: honum ber að lýsa því yfir að Ísland hafi ákveðið að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna.
Þetta mun að vísu einungis hafa takmörkuð áhrif á núverandi vanda en engu að síður skapa sóknarmöguleika og bæta stöðu okkar gagnvart evrópska seðlabankanum. Umfram allt myndi upptaka evrunnar tryggja stöðugleika hér þegar fram í sækir og koma í veg fyrir að drykkjutúr auðkýfinga og forystumanna þjóðarinnar endi í slíkum allsherjartimburmönnum sem nú herja á þjóðina.
Umræður um evruna hefur skyggt svo mjög á aðra þætti Evrópumála, að fáir hafa tekið eftir því að Sjálfstæðismenn hafa hægt og bítandi verið að fikra sig nær fylgi við aðild.
Í Evrópuskýrslu nefndar undir forystu Björns Bjarnasonar, voru nefnilega slegnar út af borðinu í einu lagi nokkrar veigamiklar röksemdir gegn aðild að Evrópusambandinu, þar á meðal:
Reikningar Tryggva Þórs Herbertssonar um tugmilljarða króna aðildarmiða að ESB eru léttvægir fundnir og komist að niðurstöðu sem þýðir að árgjaldið yrði 0.2 til 0.8% af útgjöldum ríkissjóðs eða 1 til þrír og hálfur milljarður króna, þegar dreginn hefur verið frá kostnaður við EES samninginn sem félli að sjálfsögðu niður.
Viðurkennt er að hlutfallslegur stöðugleiki tryggi að erlend ríki hafi ekki veiðireynslu af Íslandsmiðum.
Viðurkennt er að sumar greinar landbúnaðar gætu hagnast af aðild, þótt vissulega muni td. kjúklinga og svínarækt hreinlega leggjast af. Núverandi ráðuneytisstjóri landbúnaðarráðuneytis hefur viðurkennt að miðað við að samkomulag náist í Doha-samningalotunni kunni að vera meira skjól fyrir íslenskan landbúnað innan en utan ESB.
Við þetta má bæta:
Ísland fær aukinn áhrif á lagasetningu sem við verðum að taka upp óbreytta í gegnum EES. Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB segir að við höfum þegar tekið upp 75% af lagasetningu ESB.
· Með EES samningnum höfum tekið upp svo stóran hluta laga og regluverks ESB að allt tal um að við flækjumst í reglugerðafargani, eru út í hött: Við erum það nú þegar, að landbúnaðinum þó slepptum.
Sóknarfæri eru í byggðamálum, þám. samgöngumálum á landsbyggðinni við aðild að ESB.
Kostnaður hverrar fjögurra manna fjölskyldu við að halda úti evrunni var 1.7 milljónir árið 2007 miðað við þáverandi gengi eða alls 130 milljarðar.
Rannsóknir benda il að matvæli gætu lækkað um 25% í verði og föt og skór um 35% við inngöngu í ESB og upptöku evru. Útgjöld venjulegrar fjölskyldu myndi lækka um 215 þúsund á ári eða 18 þúsund á mánuði. Þetta er 5% aukning ráðstöfunartekna.
Vextir myndu sjálfkrafa lækka til samræmis við það sem gilti á evrusvæðinu, vaxtamunurinn er nú yfir tíu prósent.
Til að taka upp evruna þurfum við vissulega að laga til í efnahagslífi okkar, en það þurfum við hvort sem er að gera. Það verður sársaukafullt en það er nauðsynlegt og betra að taka út þjáningarnar strax en að fá sér efnahagslegan afréttara.
Erfiðasta atriðið fyrir Ísland að kyngja verður væntanlega að endanleg ákvörðun um heildarkvóta á Íslandsmiðum verður tekin formlega í ráðherraráði Evrópusambandsins. Flestir sérfræðingar eru þó sammála um að mjög fátt breytist í íslenskum sjávarútvegi við inngöngu í ESB ,annað en skuldir útgerðarinnar og landsmanna verða í heimamynt!
Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins sagði í viðtali sem ég tók fyrir Iðnþing í lok febrúar á þessu ári að hægt væri að hefja viðræður hálfu ári eftir að sótt hefði verið um aðild og viðræðurnar tækju 9-12 mánuði en því næst tæki við staðfestingarferlið. “Þannig að það ættu að líða um tvö ár frá því umsókn væri lögð fram þar til Ísland yrðir formlega aðildarríki ESB. Þannig að það er enn hugsanlegt að Ísland verði tuttugasta og áttunda aðildarríki Evrópusambandsins, ef til vill um leið og Króatía. Ég vona að þið takið þessu sem hvatningu!”
Ég ætla að gera þessi orð Olli Rehn að mínum. Eftir hverju erum við eiginlega að bíða?
föstudagur, 3. október 2008
Ein leið út úr vandanum: ESB, núna!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
12 ummæli:
æi hættu þessu að reyna hræða okkur þarna inn. Ertu ekki með fína tilgangslausa innivinnu núþegar?
Kratabulla sem reynir að komast inn í himmnaríki einskis nýtra skriffinna
Ojbara
Fyllilega sammála þér Árni. Slík yfirlýsing mynd strax hafa áhrif og ég sé raunar ekki hvernig íslenska ríkið og fjármálakerfið ætlar að komast í gegnum næstu dægrin án þess að stíga þetta skref. Þessu myndi að auki fylgja óhjákvæmileg mannaskipti í Seðlabankanum, sem markaðir, bæði innlendir og erlendir, myndu eflaust taka fagnandi. Það er ekki hægt að ætlast til þess að núverandi bankastjórn Seðlabankans hrindi í framkvæmd nýrri peningastefnu.
Ef ekki verður farin þessi leið sýnist mér ljóst að helsta vonin sé sú, að leita á náðir bandaríska seðlabankans um að taka upp dollar hér á landi og að bandaríski seðlabankinn verði þrautarvaralánveitandi íslenska bankakerfisins. Mögulegt er að það gæti gengið hratt í gegn en ég tel að Evran og Evrópuleiðin sé betri leið.
Hvað veist þú um áhrif slíkrar yfirlýsingar? Þú hefur engar forsendur til að meta þau.
Skiptir samningsstaða engu þegar gengið verður til viðræðna við ESB? Telur þú að samningsstaða Íslendinga væri traust ef gefin væri út yfirlýsing við þær hrikalegu aðstæður sem nú ríkja?
Furðulegt að reyndur fréttamaður láti slíka vitleysu frá sér.
Það er í raun mun brýnna að segja upp EES samningnum. Duglausir ESB kontóristar eru hluti af vandanum. Þetta myndirðu sjá ef þú reyndir að færa málefnaleg rök fyrir skoðunum þínum í stað þess að halda á lofti frösum á borð við "allir sem ekki eru fæddir í gær eru sammála um ..."
Það er alveg rétt að vegna skammsýnis íslenskra ráðamanna, er samningsstaða okkar heldur veikari nú en áður. En á hinn bóginnn þarf ekki að semja um mjjög mörg atriði. Enginn hefur veiðireynslu á Íslandsmiðum og því þarf ekki að ræða það, en ræða þarf deilistofna og aðlögunartíma fyrir landbúnað. Fátt annað. Yfirlýsingin ein útaf fyrir sig hefði ágæt áhrif til skamms tíma, ég veit ekki hversu mikil. En það er ekki aðalatriðið.
"...að Ísland hafi ákveðið að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna"
Hvaða rugl er þetta. Maður ákveður ekki að fara inn fyrr en maður er búinn að setja sér samningsmarkmið og ná þeim í aðildarviðræðum. Til hvers á ESB að koma til móts við okkur í aðildarviðræðum ef við erum búin að ákveða að fara þarna inn? Eins gott að þú ert ekki í samninganefndinni.
Að það stytti upp, þar sem að við berum okkur ekki eftir regnhlífinni. Engin hefð fyrir notkun slíks tilbúins skjóls hér á Roklandi ...
;-)
Paul Courant (og googlaðu hann ef þú kannast ei við, Árni) :-)
Sjálfstæðisflokkurinn með Davíð Oddson í brúnni hefur gert það að verkum að við neyðumst til að ganga í ESB. Sér grefur gröf.
Þú veist að það þarf að sækja um og við tekur langt ferli. Þú veist það er það ekki? Þetta snýst um meira en bara ganga inn um einhverja hurð.
dyr
nú ég ekki skilja afhverju ættu íslendingar að vilja í esb?Við höfum fisk til að selja sem fer minnkandi og afhverju þá að minnka hann enn meir og tapa allri söluvöru og þar með gjaldeyri sem við gæfum með esb aðild á silfurfati?álver er td skammsýn lausn enda yrði það nýtt af öðrum þjóðum ásamt raforku enda yrðum við að gefa bróðurpartinn af því til esb ekki satt?Afhverju ekki að hugsa um hinn almenna íslending frekar en einhverja nýríka sem hefa gaman af því að gambla með þessar krónur okkar og græða þar til allt þurkast upp ?Getum nú allveg eins verð merkt í hillurnar okkar nokkrar myntir og notast við þær okkur að kostnaðarlausu þó við notuðum það ekki sem opinberann gjaldmyðil!
Skrifa ummæli