föstudagur, 3. október 2008

Mesta eignatilfærsla frá siðaskiptum

Davíð gaf og nú vill Davíð taka.

Hugmynd Davíðs Oddssonar um þjóðnýtingu alls íslenska bankakerfisins felur í sér mestu eignatilfærslu Íslandssögunnar að minnsta kosti frá siðaskiptum.

Athyglisvert er að ráðherrar Samfylkingarinnar virtust telja fullkomlega eðlilegt að ókjörinn fulltrúi kæmi á ríkisstjórnarfund, læsi þeim pistilinn um hvaða flokkar skyldu skipa ríkisstjórn og leggja síðan til mestu þjóðnýtingu Íslandssögunnar. Þeir sögðu ekki orð. Þeim fannst ekkert athugavert við að Seðlabankastjóri talaði á þann hátt sem vart verður kallað annað en grímulaust valdarán – ef það er þá hægt að tala um rán þegar honum eru beinlínis afhent völdin.

Seta Samfylkingarinnar í ríkisstjórn hefur ekkert með stjórnmálaskoðanir hennar að gera heldur eingöngu vilja ráðherranna til að sitja í ríkisstjórn. Hvernig ætla þeir líka að borga evru-lánin sín á venjulegum íslenskum launum?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur að mestu hætt afskiptum af stjórnmálum frá því hún varð UNIFEM ráðherra. Hugurinn leitar óneitanlega til hennar í veikindum hennar sem koma upp á versta tíma. Vinur er sá sem til vamms segir og ég segi hreint út að við söknum okkar sköruglega borgarstjóra. Ég held að kjósendum hennar (fyrir utan miðaldra háskólakonur í 101 og 107) sé ekki skemmt.

Þögn Össurs Skarphéðinssonar er svo æpandi. Hann hefur ekki bloggað eða sagt orð síðan gamli vinur hans einkavæddi Glitni. Þegar Össur þegir er það eins og þúsundir málleysingja standi upp og hrópi á torgum.

Samfylkingin á þegar í stað að krefjast þess að Seðlabankastjóra verði vikið úr starfi. (Myndi Þorgerður Katrín styðja það?)

Geir mun hafna því og ég hef ekki trú á að samstarf takist við vinstri vænginn enda sé ég ekki að atvinnurekendur í flokknum myndu kyngja því.

Niðurstaðan verður því þingrof og kosningar þar sem Samfylkingin setur aðild að Evrópusambandinu á oddinn. Sjálfstæðisflokkurinn mun ganga lamaður til kosninga eða jafnvel klofinn enda ábyrgur fyrir efnahagsástandinu og hruni krónunnar og algjörlega hugmyndalega gjaldþrota eftir síðustu þjóðnýtingar hugmyndir.

Samfylkingin gæti meira að segja gengið til kosninga sem helsti talsmaður markaðshyggju í íslenskum stjórmálum enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn gengið gamaldags sósíalisma á hönd. Hún gæti svo kannski lagt til að Hannes Hólmsteinn yrði einkavæddur. Það yrði álíka róttæk einkavæðingar hugmynd og þjóðnýtingar hugmyndir Davíðs Oddssonar.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mesta eignaupptaka frá siðaskiptum. Var það ekki kvótagjöfin og einkavæðing bankanna?

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Hólmstæn einkavæddur? Áttu við að selja Háskóla Íslands, eða að Háskólinn selji bara hann, Hólmstæninn? Þ.e.a.s einkvæðing að hluta (0,0005 % cirkabout) eins Glitnir er einungis þjóðnýttur að hluta, þó að meirihluta sé.
Þvilík niðurlæging samt og perónulegur ósigur fyrir fyrrum sólkonung vorn, og núverandi keisara (að eigin skynjun), að leggja einnig til að fyrrum ríkisbankarnir sem að HANN seldi (frá okkur á tombóluverði, munið þið)séu einnig ómegnir og segi sig sömuleiðis til sveitar. Lengi lifi Sovét-Stalín Íslands! ;-)

Molotov (shaken and stirred) ;-)

Nafnlaus sagði...

Þú ert ekki alveg að ná þessu. Bankarnir eru GJALDÞROTA. Um er að ræða mestu skuldatilfærslu Íslandssögunnar. Eignirnar er nánast verðlausar, allavega í samanburði við skuldir.

Kristján Torfi

Nafnlaus sagði...

Þetta er rétt hjá þér og Þorvaldi Gylfa, það þarf að kjósa eða mynda stjórn um ESB án Sjálfstæðisflokksins. Hann er búin að sýna hvað hann getur í dag: Ekki neitt.

Einar Pétur.

Andrés Magnússon sagði...

Mikið vildi ég hafa skrifað þessa setningu: „Þegar Össur þegir er það eins og þúsundir málleysingja standi upp og hrópi á torgum.“

Nafnlaus sagði...

Því miður er alltof mikið til í því sem Kristján Torfi skrifar um bankana; þe. að þeir séu eignalausir. Hins vegar er mergurinn málsins að það er makalaust að Seðlabankastjóri messi á þennan hátt yfir ríkisstjórninni. Takk fyrir góða ábendingu, en vonandi verður í framtíðinni ekki talað um mestu "skuldatilfærslu Íslandssögunnar."

Nafnlaus sagði...

Berin ..., eru þau súr, Andrés?

Mikki refur