föstudagur, 14. nóvember 2008

Hvítt er svart í sirkus Sólu smart

Það verður að segjast eins og er að margt er í tilkynningu um sparnað í utanríkisráðuneytinu orkar tvímælis. Eini umtalsverði niðurskurðurinn sem tilkynntur er, er á kostnað fátæka mannsins í Afríku. Beinn sparnaður er lþó tiltölulega ítill, fyrst og fremst er frestað fyrirhugaðri aukningu útgjalda.

Síðan verður að segjast eins og er að sú fullyrðing að spara eigi fé með því að sameina skrifstofur ráðherra og ráðuneytisstjóra er beinlínis villandi.

Skrifstofa ráðherra er í raun aðeins ráðherrann og einn ritari. Sparnaður sem felst í sameiningu skrifstofa getur því ekki verið mikill: hugsanlega verður einn ritari rekinn. Og ekki sparar það neitt því nú á að ráða inn nýjan skrifstofustjóra með sendiherratign til viðbótar - dýrasta starfskraft sem hægt er að hugsa sér. Sendiherrann er ekki fenginn innan úr ráðuneytinu þar sem mun fleiri sendiherrar eru en póstar fyrir þá.

Nei Ingibjörg Sólrún réð eina bestu vinkonu sína úr kvennalistanum og fyrrverandi pólitískan aðstoðarmann úr borginni, Kristínu Á. Árnadóttur og skipaði hana sendiherra. Hver var sparnaðurinn í því? Er ekki Samfylkingin margbúin að lýsa því yfir að fagleg hæfni skuli ráða en ekki pólitískur klíkuskapur?

Kristín kom fyrst við sögu utanríkismála þegar hún var ráðin til að vera kosningastjóri framboðs Íslands til öryggisráðsins á síðasta ári. Árangurinn þar var sem kunnugt er mikil vonbrigði þótt vafalaust hafi ekki verið við hana að sakast.

Kristín er vissulega frambærileg manneskja. Það verður hins vegar að segjast eins og er að það er falskur tónn í þessari ráðningu. Með fullri virðingu fyrir Kristínu, þá er fátt ef nokkuð í ferli hennar sem bendir til að hún hafi reynslu eða þekkingu til þess mikla starf sem hennar bíður sem yfirráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins með það verkefni að stokka upp utanríkisþjónustuna.

Kristín er ekki eina nýráðningin til utanríkisþjónustunnar því þar starfar nú verkefnaráðin Þórhildur Þorleifsdóttir fyrrverandi þingkona Kvennalistans. Leikstjórinn góðkunni hefur það verkefni að halda alþjóðlegt málþing um ályktun Öryggisráðsins númer 1325 og er reyndar ekki eina konan sem fengin er utan úr bæ til að sinna því þarfa verkefni.

Það er ekkert nýtt að ráðherrar skipi góðkunningja sína í embætti og á það ekki síst við um utanríkisráðuneytið. Það væri að æra óstöðugan að telja upp alla þá sem Davíð Oddsson skipaði í sendiherrastörf og fæstir þeirra höfðu nokkuð komið nálægt utanríkismálum.

Samfylkingarmenn gagnrýndu skipanir á valdaárum Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar og kröfðust faglegra ráðninga. Sama var upp á teningnum við ráðningu Seðlabankastjóra.

Er skipan Kristínar Á. Árnadóttur trúverðug í ljósi þessa? Væri ekki nær að sleppa því að tala um gagnsæi, faglegar ráðningar, ráðdeild og sparnað og kalla hlutina réttum nöfnum?

Það var að vísu flott smjörklípa að klæða ráðninguna í umbúðir sparnaðarátaks og enn flottara að senda Albert Jónsson, pólitískt skipaðan (en prýðis hæfan) sendiherra frá Washington til Færeyja.

Skilaboðin með þessum ráðningum og einkum ráðningu Kristínar eru að þrátt fyrir mikla fjölgun starfsmanna sé utanríkisráðuneytisins svo illa skipað að þar sé ekki að finna mannskap og þekkingu til að halda málþing um öryggisráðsályktun 1325 og að stokka upp ráðuneytið.

Gárungarnir munu vafalaust tala um einkavinkonuvæðingu...

Til að bíta höfuðið af skömminni er það svo kallað sparnaður sem í raun og veru felur ekkert annað í sér en að fjölga í æðstu stjórn utanríkisráðuneytisins. Það er vissulega erfitt að viðurkenna slíkt þegar verið er að tala um sparnað og niðurskurð á öllum sviðum. Þó held ég að margir hefðu haft samúð með Íngibjörgu Sólrúnu ef hún hefði sagt hreint út að við núverandi aðstæður þyrfti hún að bæta við sig pólitískum aðstoðarmanni -- tímabundið.

Það er hins vegar á skjön við málflutning Samfylkingarmanna að gera pólitískan aðstoðarmann að fastráðnum sendiherra.

Þið munið Spilverkið sem söng (næstum því): "Við í Sirkus Sollu Smart/ trúum því að hvítt sé svart/Og bíðum eftir næstu frakt/ Í buxnadragt."

Ingibjörg Sólrún: það er einn sirkus í bænum og við megum ekki við því að þú bætir öðrum við. Láttu Geira um þetta - þetta fer þér ekki.

PS: Ég er sem sagt byrjaður að blogga upp á nýtt. Aðstæður hafa breyst og málfrelsi mitt aukist. Sjáum svo til hvað ég nenni að nöldra mikið....

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

fyrst Baldur og nú þú. Getið þið ekki bara haldið út loforð ykkar.

Unknown sagði...

Velkominn aftur. Ég býð svo spenntur eftir að ástandið verði þannig að þú getir útskýrt hótanirnar sem leiddu til bloggstoppsins.

Nafnlaus sagði...

Gott að þú ert mættur aftur til leiks, segi ég þó ég sé ekkert endilega alltaf sammála þér. En þegar þú ert góður þá ertu góður!
Hulda

Nafnlaus sagði...

Hver er eiginlega þessi nafntogaða ályktun Öryggisráðsins númer 1325?

Nafnlaus sagði...

Hver veitir Ingibjörgu Sólrúnu aðhald af hálfu Samfylkingar? Eru flokksmenn ánægðir með þessa vinkvennaráðningu hennar? Í mínum huga er hún ekki skömminni skárri en forverar hennar í starfi.
kv.Fríða

Nafnlaus sagði...

ja sorglegt að sjá eins eilla farið með góðan starfskraft eins og Albert - og ps. enn er opin skrifstofa í Winnipeg en í Pretoríu er skrifstofu í 2nd stærsta diplómatasamfélagi (á eftir Washington)lokað.

Einkennileg forgangsröðun - og er búið að reka ráðuneytisstjórann?

Og pps. er einhver fyrirmynd fyrir stöðu Kristínar í utanríkisþjónustum nágranna okkar eða þá í Vínarsáttmálanum - skrítið allt saman.