föstudagur, 28. nóvember 2008

Óbilgjarn? Nei ekki nógu óbilgjarn

Skrif mín um einkavinkonuvæðingu Ingibjargar Sólrúnar mælast misjafnlega fyrir. Flestir þeir sem tjá sig í athugasemdakerfinu eru að vísu sammála mér en hins vegar vekja andmælin mig til umhugsunar.

Nafnlaus skrifar: “Hatur þitt gangvart ISG er með ólíkindum Árni hvern andskotann ertu að drekka þarna í Brussel.Ingibjörg Sólrún hefur fyrir löngu stimplað sig inn sem besti stjórnmálamaður landsins.”

Annar nafnleysingi sagði mig hata Ingibjörgu og Ólaf Ragnar og spurði hvort þau hefðu gert eitthvað á minn hlut.

Og Kristín skrifar:

“Árni, mér finnst þú óbilgjarn maður.Hvernig væri að þú kæmir með eitthvað uppbyggilegt í umræðuna sem hjálpar í kreppunni heldur en að elta ólar við að leyta að einhverju málenfni,einungis til þess að kleggja (svo) á Ingibjörgu Sórúnu.Hún hefur sannað sig sem einn besti stjórnmámálaskörungur sem þjóðin hefur átt í áraraðir, enda kvenkyns.”

Þetta er svona kynjafræðileg útgáfa af “Right or wrong my country.”

Þetta eru mjög dæmigerðar röksemdafærslur hjá Íslendingum. Málefnalegri gagnrýni er ekki svarað einu orði með því að leggja mat á röksemdirnar, heldur er gagnýnandinn vændur um 1.) Persónulega óvild. 2.) Drykkjuskap 3.) Óbilgirni 4.) Gagnrýni eigi ekki rétt á sér, aðeins “uppbyggileg” umræða. (Stalín og Brésnef notuðu svipað orðalag en það er önnur saga!)

Ég vísa því á bug að um einhvers konar persónulega óvild sé að ræða. Ingibjörg Sólrún og Ólafur Ragnar hafa hins vegar gagnrýnt andstæðinga sína mjög harðlega fyrir ýmiss konar siðferðisbrest og talið sig vera á siðferðilega hærri plani en aðrir.

Ég hef haft talsverð samskipti við Ingibjörgu Sólrúnu faglega og raunar lítils háttar persónulega og mér er afskaplega vel við hana. Þess vegna gagnrýni ég hana því vinur er sá sem til vamms segir.

Þau gefa óneitanlega færi á sér.


Þannig hefur Ingibjörg Sólrún talið sig stunda annars konar stjórnmál, “samræðustjórnmál” og gefið til kynna að konur hefðu aðra nálgun en karlar sem væru meira eða minna að hygla klíkubræðrum sínum í "valdastjórnmálum."

Ég hef spurt hvort sú staðreynd að hún ráði nána vinkonu sína sem hefur litla reynslu í utanríkismálum sem sendiherra og fela henni að stjórna ráðherraskrifstofunni vegna veikinda ráðherra og ráðuneytisstjóra.

Hvers vegna í ósköpunum telst það hatur að gagnrýna utanríkisráðherrann á málefnalegan hátt?
Það er fráleitt að ég hatist við forseta lýðveldisins. Hann er hins vegar ekki undanskilinn gagnrýni og hann gefur svo sannarlega höggstað á sér, vikulega nú orðið.

Íslendingar eiga almennt mjög erfitt með að þola gagnrýna umræðu og viðbrögðin eru oftast af þessu tagi: sverta andstæðinginn, segja málflutninginn af annarlegum rótum eða höfundinn fyllibyttu eða geðsjúkling.

En umræðuhefð eigum við enga.

Skortur á gagnrýni er ein helsta ástæða þess hve illa er komið fyrir íslenskum efnahagi.

Fjölmiðlar voru meðvirkir og stjórnmálamennirnir líka. Þeir tóku íslensku bankamennina trúanlega og tóku þátt í að ata erlenda gagnrýnendur aur. Ég minni á blogg færslur Björgvins G. Sigurðssonar sem hann hefur nú tekið af netinu og klappstjórn Ingibjargar Sólrúnar á fundum í Kaupmannahöfn og kannski víðar með Sigurði Einarssyni og Kaupþingi.

Og menn á borð við Þorvald Gylfason voru úthrópaðir. Ég hef sumt af því sem klínt var á hann af valdhöfum þegar hann gagrnýndi efnahagsstjórn ekki einu sinni eftir.

Ég vísa því á bug að ég sé óbilgjarn. Það má hins vegar vel gagnrýna mig og aðra fjölmiðlamenn fyrir að vera ekki nógu óbilgjarnir og gagnrýnir.

19 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þessi embættisskipun ISG er argasti nepótismi og hefði aldrei gengið eftir í nágrannaríkjum ss. Danmörku.

Hér er danskur borgarstjóri gagnrýndur harðlega fyrir að ráða dóttur sína í stöðu hreingerningarkonu: http://www.bt.dk/article/20050326/nyheder/103260336/

Danskir læknanemar vinna eftir þessum línum: "Nepotisme skal undgås, hvorfor ansættelsen skal foregå under offentlige forhold efter et lighedsprincip."

-- hér eru lykilorðin "opinbert" og "jafnræði".

Var þess gæti í ofangreindu máli?

Nafnlaus sagði...

Blessaður ekki taka þetta alvarlega. Íslensk stjórnmál eru eins og léleg eftirlíking af Næturvaktinni:

“Þetta var bara misskilningur sjáðu til” segir Ingibjörg Sólrún Bjarnfreðardóttir.

“Þú gerir bara eins og ég segi þér, ég er yfirmaður hér!” segir Davíð Bjarnfreðarson.

“Já fínt! Já sææll! Ég er sko dúer, en þú, þú ert bara þinker” Segir Geir H. Ragnar.

"Hvernig líst þér á læðuna? Ég er að verða ógeðslega ríkur sjáðu til" Ólafur Ragnar...

Nafnlaus sagði...

Það er fráleitt að þú hatist við forseta lýðveldisins. En hvað með forsetafrúna? Þessa sem þú sagði að ætti að þegja og telja dementana sína?
Trúverðugleikinn; menn verða víst að passa upp á hann sjálfir.

Nafnlaus sagði...

Smá viðbót:

Háttsettur yfirmaður danskra varnarmála rekinn fyrir að hafa útvegað nágranna sínum verkefni:
http://avisen.dk/forsvarets-boligchef-fyret-for-nepotisme_80750.aspx

Og var ekki æðsti yfirmaður World Bank látinn fjúka fyrir nepótisma?

"Som den første præsident i Verdensbankens historie blev amerikanske Paul Wolfowitz forleden fyret. Wolfowitz ' fald, der formelt får effekt fra den 30. juni, blev udløst af den yderst fordelagtige aftale, som han sikrede sin veninde Shaha Riza, der var en af de godt 10.000 medarbejdere han havde under sig i Verdensbanken."

http://www.finansforbundet.dk/default.asp?ArtId=98464

Er ráðherra ekki á ansi hálum ís hérna?

Hvað segja kjósendur og flokksmenn?

Nafnlaus sagði...

En hvað með aðra? Eru þeir ekki gagnrýni verðir. Hvað t.d. með stjórnarandstöðunna sem kemur ekki með neinar lausnir. Vg sem lokaði á samstarf við Framsókn á Kosninganótt. Frjáslynda sem eru í raun 3 klofnir í Evrópumálum. Og svo náttúrulega Sjálfstæðismenn bæði á þingi og á Svörtuloftum. Það er ekki eins áberandi gagnrýni þín á þá nú síðustu misseri.

Nafnlaus sagði...

Þetta er einmitt ein aðferðin við að bæla niður gagnrýni - að uppnefna hana "hatur" sem er fáránlegt. Þeir sem telja sig yfir gagnrýni hafna nota einmitt mikið slíka útúrsnúninga.

Höldum áfram að gagnrýna allt og alla sem okkur finnst gagnrýnisverðir. Á venjulegu mannamáli heitir slíkt að veita aðahald og kemur hatri ekkert við.

Nafnlaus sagði...

Fáránleg athugasemd hjá Nafnlausum um stjórnarandstöðu sem kemur ekki með lausnir. Það er alveg sama hvað stjórnarandstaðan segir, ekkert er á það hlustað.

Og svo kemur þetta gagnrýni á Ingibjörgu Sólrúnu ekkert við.

Ég er sammála fyrirsögninni. Vandamál þitt, Árni, er að vegna þess að þú styður ESB ertu stimplaður sem „í liði“ og þar af leiðandi máttu ekki gagnrýna utanríkisráðherra. Þetta er svipað og „bláa höndin“ sem Hallgrímur Helgason kynntist eftir að hafa skrifað bók um Halldór Laxness sem Davíðsklíkunni féll í geð, þar með varð hann „svikari“ þegar hann síðan gagnrýndi þá.

Björn Jónasson sagði...

Blessaður Árni
Ég er sammála þér að það þarf að vera hægt að gagnrýna pólitískt án þess að fordæma persónulega. Það þarf að halda aðskildu, persónunni og gerðum hennar. Það er þáttur í vanda Íslands, hvað fjarlægðir eru litlar milli manna og valdaklasarnir eru fáir. Það er sama fólkið sem forvaltar alla fjórar valdamiðjurnar: Stjórnmál, dómsmál, viðskipti og fjölmiðla. Núna hefur opnast smá rifa sem nota má til að gagnrýna, þar sem ekki er ljóst hver hefur völdin í augnablikinu, valdamiðjan fjórfalda eða almenningur.
Er Ísland of lítið land til að ráða við lýðræðislegt stjórnarfar?

Nafnlaus sagði...

Hörður Már Karlsson.
Ekki láta drepa þig niður. Fínir pistlar. Er krati, en það þýðir ekki að mitt fólk megi ekki fá gagnrýni, og þetta var sko gagnrýnisvert. Og ekki bætti tímasetningin það.

Nafnlaus sagði...

Hvað erlenda samanburðinn varðar, af hverju á þetta að viðgangast á Íslandi en ekki annarsstaðar?

Á ráðherra að segja af sér?

Nafnlaus sagði...

Já, ráðherra á að segja af sér.
Doddi

Nafnlaus sagði...

árni minn þú stendur þig vel.

kaldhæðnin í þessari ráðningu ingibjargar er stórkostleg, en svona eru nú íslensk pólitík.

að halda að pólítíkin hér verði einvhernvegin öðruvísi á einni nóttu er full barnalegt.

gleymum því ekki að samfylkingin hefur þurft að horfa á frammarana í helmingaskiptunum í mörg ár og þeirra tími er loksins kominn.

það tekur allavega 2 kynslóðir til að breyta þessu -- því miður

Nafnlaus sagði...

Jú Árni; - þú ert "illskeyttur" í garð ákveðinna einstaklinga og stundum þannig að það er fremur persónulega meiðandi en málefnalega skarpt. Þú velur bara þann stíl. Held að þú skjótir yfir þegar þú reiðir til höggsins í garð ISG og ÓRG öðrum fremur. Þau eiga samt ekki að vera yfir efnislega gagnrýni hafin

Nafnlaus sagði...

Fyrst þú ert ekki óbilgjarn, ertu þá bilgjarn?

Sigurður Ásbjörnsson

Nafnlaus sagði...

Er ekki sammála að það taki tvær kynslóðir að breyta svona gildismati.

Annað hvort gerist það eða ekki.

Á stuttum tíma með stóru skrefi.

Hvernig á maður að ala börn upp á Íslandi þegar tilvísunin og réttlætingin er svona brengluð?

Ég tel að það sé einmitt tími núna til að hreinsa til

Nafnlaus sagði...

joð

Mér hefur virst Árni vera afar heill og sjálfum sér samkvæmur í sínum skrifum.

Bendir á hluti sem hann telur betur mætti fara.

Ég er oft ekki sammála honum, sem er alveg ágætt. Varðandi Ingibjörgu hitti hann naglan á höuðið.

Þess fyrir utan er Árni einn al besti penninn sem tjáir sig hér og á öðrum vetvöngum.

Nafnlaus sagði...

Er ekki málið ofureinfalt? Það er allt í lagi að gangrýna, hata og uppnefna fólk ef það "hinu" liðinu?

Íslensk stjórnmál eru svo gegnsýrð af áratuga hatri milli "hægri" og "vinstri" að okkur er nákvæmlega sama hvað stjórnmálamaður gerir og segir svo lengi sem hann er í "okkar" liði.

Það að utanríkisráðherra skipi bestu vinkonu sína sem sendiherra er bara eitt dæmi um slíkan hugsunarhátt.

Það var engin sjálfstæðismaður sem mótmælti þegar Jón Steinar Gunnlaugsson var skipaður hæstarréttardómari jafnvel þótt sannað væri að hann væri ekki hæfasti umsækjandinn. (sjáum bara á nýlegum dómum hversu góður dómari hann er.)

Unknown sagði...

Þessi gagnrýni á fullkomlega rétt á sér. Hér hafa ýmsir gallar á íslensku samfélagi verið raktir og fjallað um umræðuhefð, en stærsti gallinn í umræðuhefðinni er að fólk getur ekki tekið málefnalega á gagnrýni eins og þú segir. Fólk virðist ekki vera fært um að ræða ákvörðunina hlutlægt án þess að blanda persónum, í þessu tilviki þér (Árna) og Ingibjörgu Sólrúnu inn í málið.
Ef Geir Haarde hefði ráðið Hannes Hólmstein eða Kjartan Gunnarsson í stöðu ráðuneytisstjóra eða einhverja slíka stöðu þá hefðu allir, ég endurtek ALLIR, þar á meðal Ingibjörg Sólrún sjálf úthrópað Geir fyrir spillingu.
Það sem gerir þetta enn verra fyrir Ingibjörgu er, eins og bent er á, að hún hefur sett sjálfa sig á stall hins óspillta stjórnmálamanns og talið sig vera syndlausa þegar kemur að spillingamálum. Þetta eru því mikil vonbrigði fyrir okkur sem kusum hana og flokkinn hennar, því við áttum eflaust öll von á því að flokkurinn myndi ekki falla í sama pytt og Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn hafa synt í undanfarin 17 ár.

Þetta fær mann til að velta fyrir sér hvort kerfið sem við búum við sé ekki úrelt og ekki til brúks meðan við sem mannverur höfum ekki siðferðilegt þrek til að hugsa um hag almennings á undan okkar eigin hag. Og hvort stjórnmálaflokkarnir sem stofnanir og hvernig fólkið sem velst til forystu þar, sé yfirleitt til forystu fallið. Og hvort þeir sem hafi áhuga á stjórnmálum og huga á frama þar hafi yfirleitt þá mannkosti (les. siðferðisþrek) sem nauðsynlegir eru til að geta farið sómasamlega með umboð almennings.

Fyrir utan þetta þá má kannski segja að stjórnmálamenn hafa nú oftar en ekki tekið rangar ákvarðanir í gegnum söguna og því spyr maður sig hvort ekki sé löngu orðið tímabært að kollvarpa kerfinu sem við búum við.

Peace out.

Nafnlaus sagði...

Sjálfur sé ég ekkert að gagnrýni þinni. ISG hefur lengi vel lofað breyttum stjórnarháttum og þess vegna er ekkert óeðlilegt við það að bera miklar væntingar til hennar.

Ég held að málið snúist um það að á Íslandi er ætlast til þess að embættismenn séu eingöngu ráðnir til starfa á fagleum forsendum. Að þeir séu ekki pólitískt ráðnir (að aðstoðarmanni ráðherra undanskildum). Staðreyndin er hins vegar sú að ráðherrar skipa reglulega fólk í embætti sem eru tengd flokkum þeirra. Það er líka skiljanlegt. Í raun er ekkert athugavert við það að einhverjar stöður innan ráðuneytana séu pólitískar. Það þarf bara að hafa þetta uppi á borðinu. Einfaldast væri bara að skilgreina t.d. 3 eða 4 stöður í hverju ráðuneyti sem pólitískar stöður. Þar kæmi inn fólk sem er ráðið til þess að fylgja eftir þeim málefnum sem ráðherrar voru ksonir til þess að vinna að, og svo þegar ráðherra fer frá, þá fara þessir pólitísku embættismenn frá störfum sömu leiðis. Það er semsagt ekkert óeðlilegt við það að Ingibjörg Sólrún treysti Kristínu til þess að vinna með sér. Það ríkir greinilega mikið traust á milli þeirra, þær hafa unnið mikið saman áður og Kristín er eflaust vel til þess fallin að fylgja eftir stefnu ráðherra. Það þarf bara að viðurkenna að ráðning hennar er pólitísk, og þegar pólitíkusinn fer frá Utanríkisráðuneytinu er þá þurfa pólitískir aðstoðarmenn að fara sömuleiðis. Þannig er þetta t.d. í Bandaríkjunum - nú, þegar Bush fer frá völdum, hverfur heill her af pólitískt ráðnum embættismönnum frá störfum.

Svo er það náttúrulega stórfyndið að Birkir Jón Jónsson sé að setja út á þessa ráðningu. Ég man ekki betur en að hann hafi sjálfur, kornungur og reynslulaus verið ráðinn af Páli Péturssyni í Félagsmálaráðuneytið (reyndar sem aðstöoðarmaður ráðherra, minnir mig).