miðvikudagur, 16. apríl 2008

Að vera eða ekki vera jómfrú

Kurteist fólk spyr mig stundum að því hvort ég hafi ekki áhuga á að taka þátt í stjórnmálum. Svar mitt er ævinlega það sama að ég geri það ekki af því ég hafi svo mikinn áhuga á stjórnmálum. Það hefur líka verið komið að máli við mig og skorað á mig að fara í forsetaframboð. En það eru hrein ósannindi að báðir sem það gerðu, séu vangefnir. Bara annar þeirra er vangefinn, hinn var bara blánkur og vantaði pening fyrir bjór.

Íslenskir stjórnmálamenn hafa hins vegar fæstir nokkurn áhuga á stjórnmálum. Þeir hafa mikinn áhuga á bitlingum, utanlandsferðum og valdapoti en maður þarf ekki að taka þátt í pólitík til að svala slíkum þorsta ef hann er að kvelja mann á annað borð. Þótt pólitikusar séu á sífelldum ferðalögum sjást þess fá merki í þinginu, hvað þá borgarstjórn. Darfur, eitt helsta deiluefni samtímans, hefur verið nefnt ca. einu sinni á ári í þingræðum þau fimm ár sem þjóðarmorðið hefur staðið yfir.

Í Evrópumálunum hafa til dæmis allir stjórnmálaflokkar haft allar skoðanir einhvern tímann. Jón Baldvin var á móti ESB í gamla daga, síðan fann hann upp EES og snérist svo gegn því og gerðist fylgismaður aðildar. Davíð Oddsson var einna fyrstur til að ámálga aðild að ESB í aldamótaskýrslu Sjálfstæðisflokksins, hann vildi um tíma tvíhliðasamning við ESB og loks ærðist hann í andstöðu við allt sem evrópskt er nema EES sem hann þó var á móti - um tíma. Ólafur Ragnar hefur svo ekki bara haft allar skoðanir, verið með og móti hernum og allt það, heldur líka verið í velflestum stjórnmálaflokkum.

Svona mætti lengi telja.

Borgarstjórn Reykjavíkur er undir sömu sök seld bæði í flugvallarmálum og orku-útrásinni. Þar hafa allir haft allar skoðanir einhvern tímann. Skiptir fólk þar um skoðanir oft á dag? Oft á klukkutíma? Fer það eftir vindátt eða stöðu reikistjarnanna? Er kastað upp á það?

Hinn geðþekki borgarfulltrúi Sjálfstæðismanna Kjartan Magnússon bætist nú í hóp flokkaflakkara og skoðanaskiptenda. Og gerir það með stæl að hætti góðra KR-inga og Vesturbæinga. Hann sem barðist manna harðast gegn orkuútrásinni hefur nú tekið slíkum sinnaskiptum að eftir er tekið jafnvel í því höfuðvígi hringlandaháttar sem borgarstjórnin er.

Nú er hann orðinn forframaður í Orkugeiranum og sjá! þá er hann ekki lengur á móti orkutútrás borgarinnar. Hún má bara ekki vera neitt voðalega mikil mikil.

Svo ég vitni í fleyg ummæli Gennadí Gerasimov, talsmanns Gorbatsjovs um allt annað mál: "You cannot be a little bit virgin."

Engin ummæli: