Það er hárrétt hjá Agli Helgasyni að umræðan um leiðtogafund NATO á Íslandi hefur verið skammarlega lítil. Ég hef að vísu skrifað um einn anga dagskrár fundarins sem eru deilur Grikkja og Makedóna en fyrst fáir taka til máls ætla ég að leggja örlítið í púkkið.
Tvennt skiptir okkur Íslendinga þó talsvert meira máli. Bandaríkjamenn þrýsta mjög á NATO ríki, ekki síst Frakka, Ítali og Spánverja að taka meiri þátt í hernaði í Afganistan. Engum blöðum er um það að fletta að helsta ástæða þess að Ísland hefur styrkt “friðargæslu” sína í Afganistan, er einmitt þessi þrýstingur Bandaríkjamanna. Þeir hafa beint og óbeint í hótunum við NATO ríkin um að þau verði sniðgengin hér eftir, ef þau leggja ekki sitt af mörkum. Tæpast er deilt um það að það er herlausu Íslandi í hag að NATO styrkist fremur en veikist. Það kann því að vera skammsýni hjá leiðarahöfundum Morgunblaðsins að mótmæla veru Íslands í Afganistans að hætti Þjóðviljans því í stað þess að grafa undan Ingibjörgu Sólrúnu kunna þeir að vera grafa undan Íslandi í NATO.
Forvitnilegt er að fylgjast með utanríkisstefnu Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands þessa dagana. Hann reynir ákaft að vingast við Breta og hann hefur margoft lýst yfir áhuga sínum á að bæta samskiptin við Bandaríkjamenn. Sarkozy hefur tekið vel í að auka herstyrk Frakka í Afganistan og verður athyglisvert að sjá hvað kemur út úr fundinum í Búkarest að þessu leyti.
Bandaríkjamenn geta að vísu að hluta til sjálfum sér um kennt um hvernig málum er komið því þeir afþökkuðu þátttöku NATO á sínum tíma í Afganistan. Það hefur síðan ýtt undir þá skoðun að stríðið þar sé einkastríð, ekki bara Bandaríkjamanna, heldur Bush forseta sjálfs.
Hitt atriðið sem skiptir Ísland máli eru hugmyndir um aukið hlutverk Evrópusambandsins í varnar- og öryggismálum. Margt bendir til að framtíð Íslands í þeim efnum liggi í tengslum við Evrópusambandið. Nú þegar erum við aðilar að Schengen og færa má rök fyrir því að stærstur hluti öryggismála okkar (“soft security”) við núverandi aðstæður flokkist undir samstarf af því tagi.
Engu að síður er eðlilegt að Ísland leiti til lengri tímar litið eftir “hörðu öryggi” – eða hefðbundnum landvörnum þótt ekkert ríki ógni okkur. Bandaríkjamenn eru á braut og þótt öryggistrygging NATO sé í gildi er ekki óeðlilegt að horfa til Evrópu og fylgjast með gangi mála. Öllum má ljóst vera að Bretar og Frakkar eru einu umtalsverðu herveldi Evrópu.
Jean-Pierre Jouyet, Evrópuráðherra Frakka segir í viðtali í tilefni Búkarestfundarins að jarðvegurinn sé nú orðinn frjór fyrir auknu hlutverki ESB í varnarmálum. Jouyet segir að Bandaríkjamenn séu nú opnari en nokkru sinni áður fyrir sérstöku hlutverki ESB í varnarmálum utan ramma NATO. Jafnframt að ríki Austur-Evrópu séu farin að ljá máls á þessu. Ein af ástæðunum er áhugi á að ESB taki alfarið að sér hlutverk alþjóðasamfélagsins í Kosovo en vissulega eru mótív Frakka dýpri. Jouyet segir: “Ef maður er Evrópusinni og vill að Evrópa leiki hlutverk á heimsvísu, verður maður að sjá til þess að hún hafi bolmagn til þess. Ef við tökum ekki ábyrgð á Balkanskaga, verður Evrópu aðeins stærri útgáfa af Sviss.”
Frakkar taka við formennsku í ESB til hálfs árs 1. júlí.
miðvikudagur, 2. apríl 2008
Búkarest, Evrópa og Afganistan
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli