þriðjudagur, 8. apríl 2008

Engar upplýsingar af öryggisástæðum

Ólafur Ragnar Grímsson, er eldri en tvævetur í pólitík og hann kann svo sannarlega þá list að hafa vaðið fyrir neðan sig. Engum heilvita manni dettur í hug að fara í framboð gegn sitjandi forseta Íslands – það er engin hefð fyrir því á Íslandi.

Enda á hvaða forsendum ætti slíkt framboð að vera? Embætti forseta Íslands er nánast valdalaust, nema við mjög sérstakar aðstæður. Forsetakosningar á Íslandi yrðu eins konar fegurðarsamkeppni fyrir fullorðna eða ræðukeppni í mærð. Hingað til hefur sá unnið sem hefur þótt líklegastur til að flytja innihaldslausustu og væmnustu ræðuna, plantað hríslum í ófrjóa mold án þess að springa úr hlátri og étið sjöþúsundir sortir af hnallþórum án þess að kasta upp.

En Ólafur Ragnar teflir ekki á tvær hættur og því nýtir hann sér þá kontakta sem hann óneitanlega hefur. Forsetinn er vissulega vel kynntur á Indlandi. Ég þekki ég af eigin raun því hann brást drengilega við beiðni minni um aðstoð þegar ég lenti í klóm skrifræðis á Indlandi áður en hann varð forseti. Hafði hann hinn mesta sóma af. Tímasetningin á Nehru verðlaununum er óneitanlega vel tímasett.

Ólafur ræktaði líka mjög tengslin við bandaríska demókrataflokkinn hér á árum áður og nú uppsker hann eins og hann sáði með heimsókn Al Gore tíu mínútum fyrir kosningar – ef til þeirra hefði komið.

Auðvitað væri það Ólafi Ragnari eitur í beinum ef eitthvert peð byði sig fram gegn honum því allt mínna en 95% stuðningur væri ósigur. Ég held að almenningur vilji ekki sjá forsetakosningar og raunar held ég að Ólafur njóti ótrúlega mikil stuðnings. Að minnsta kosti þekki ég engan sem hefur sérstakan áhuga á því að endurtaka skrípaleikina úr kosningunum 1980 og 1996.

En þótt engin ástæða sé til annars en að leyfa Ólafi Ragnari að halda áfram að leika kóng á Bessastöðum er ekki þar með sagt að ekki eigi að vera eðlilegt aðhald að forsetanum rétt eins og öllum öðrum kjörnum fulltrúum. Staksteinar Morgunblaðsins benda þannig á að Ólafur Ragnar gefi almenningi langt nef þegar farið er fram á upplýsingar um flug hans í einkaflugvélum. Blaðið leggst gegn flugi ráðamanna í einkaþotum:

“Það á líka við um forseta Íslands. Morgunblaðið hefur ekki getað fengið upplýsingar um ferðir forsetans í einkaþotum í eigu einkaaðila á skrifstofu forsetans og þau rök færð fram að ekki væri hægt að veita þessar upplýsingar „af öryggisástæðum“(!)”

Þessar röksemdir eru hlægilegar. Að sjálfsögðu mun blaðið fara fram á þessar upplýsingar í krafti upplýsingalaga ef einhverjar töggur eru í ráðamönnum þess. Og forsetinn mun veita þær. En ekki fyrr en öll hætta á mótframboði er liðin. Og ekki fyrr en Al Gore er farinn svo ekki sé hægt að spyrja óþægilegra spurninga um hvort samræmi sé á milli þess að boða baráttu gegn loftslagsbreytingum og fljúga eins og kóngur í mengandi einkaþotum.

Fjölmiðlar hljóta líka fyrr en síðar að beina sjónum sínum að framgangi forsetans í málefnum Kína. Mun forsetinn taka þátt í opnunarhátíð Ólympíuleikanna? Munu forsetinn og ríkisstjórnin verða samstíga í ákvörðun um að taka þátt í athöfninni eða sniðganga hana? Hefur forsetinn einn vald til að ákveða þátttöku sína? Hefur forsetinn sína eigin utanríkisstefnu? Hann hefur sjálfur gefið til kynna að það séu ráðherrarnir sem eigi að hlíða forsetanum en ekki öfugt.

Ég sagði að fjölmiðlar hljóti líka að beina sjónum að forsetanum. Kannski er þetta oftrú á íslenskum fjölmiðlum. Í sannleika sagt er miklu sennilega að enginn segi múkk og hér eftir færist í vöxt að bera við þjóðaröryggi þegar farið er fram á upplýsingar sem stjórnvöldum er þvert um geð að veita.

Nixon og Kissinger stunduðu þann leik - og komust ekki upp um það fyrir rest. Washington Post er hins vegar ekki gefið út á Íslandi.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þegar kemur að því að veita stjórnvöldum aðhald, þá er ástand íslenskra fjölmiðla bágborið. Það er aðalhlutverk fjölmiðla.

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Embætti forsetans á Íslandi er þess eðlis að það er lítil ástæða fyrir fjölmiðla að veita því athygli nema forsetinnn grípi til óvenjulegra aðgerða eins og Ólafur Ragnar gerði raunar þegar hann lét pennann liggja í stað þess að staðfesta umdeilt fjölmiðlafrumvarp. Þá var sannarlega ástæða til að gefa gaum að þessum dugmikla og einarða forseta. Líka þegar hann fær fín verðlaun, eins og nú á dögunum, en þá er athyglin af öðrum toga. Hann hefur gegnt embættinu með sínum hætti. Það gerðu forverar hans líka. Margir hafa kunnað hans lagi vel, aðrir miður. Forseti heldur ekki embættissessi nema eitt kjörtímabil í senn og sjálfsagt væri að efna til kosninga ef einhver kæmi fram sem veitti honum raunverulega keppni. En kjósendur nenna ábyggilega ekki neinu apaspili í kringum forsetakosningar núna. Sá kóti er búinn, í bili a.m.k. Auðvitað á kostnaður við forsetaembættið að liggja fyrir eins og önnur opinber útgjöld. Svo er það álitamál hversu langt á að ganga í að sundurliða hann. Væri það gert til hins ítrasta gæti það sjálfsagt haft óheppileg áhrif á öryggishagsmuni embættisins.

Nafnlaus sagði...

Fredrik Reinfeldt ætlar ekki að "boycotta" opnunarathöfnina af þeirri einföldu ástæðu að hann ætlaði sér aldrei að vera viðstaddur..."in the first place", erfitt fyrir menn að hætta við e-ð sem að þeir ætluðu aldrei að gera.
Sem sagt. Engir miðar, hótel eða einkaþotur hafa verið pantaðir á þeim bæ!!!

kv. João Heavylunge