fimmtudagur, 3. apríl 2008

Eins og Andrés án Andar

Björn Ingi Hrafnsson hefur gengið til liðs við 365. Þar fyrir er hinn aðstoðarmaðurinn úr forsætisráðherratíð Halldórs Ásgsrímssonar, Steingrímur Ólafsson. Hann fór beinustu leið af biðlaunum sem blaðafulltrúi Halldórs í stöðu fréttastjóra Stöðvar 2.

Björn Ingi og Steingrímur án Halldórs eru eins og Gö án Gokke eða Andrés án Andar, Tinni án Tobba. Kannski er Halldór á leiðinni á Stöð 2 með grínþáttinn Segðu SÍS, eða nýja raunveruleik-útgáfu af “Viltu vinna milljón?” undir heitinu Finndu Finn! . Þar myndu keppendur bítast um bitlinga og skipta á milli sín samvinnufyrirtækjum og einkavæða banka á rússneskan hátt og enda svo á að græða helling á að skammta sjálfum sér kvóta.

Það má hugsa sér teningaspil þar sem maður gæti dregið spil : “Þú dettur í það og móðgar Finn Ingólfsson á Þorrablóti Framsóknar í Reykjavík Norður. Þú ferð beina leið í steininn og færð engin hlutabréf í einkavæddum ríkisfyrirtækjum á spottprís þegar þú ferð yfir byrjunarreitinn.”

En grínlaust er það hið besta mál að Björn Ingi snúi aftur í blaðamennskuna – það er kominn tími til að stjórnmálamenn viðurkenni að þeir eiga enga kröfu á sendiherradjobbum og öðrum bitlingum á ríkisjötunni, þótt þeim verði fótaskortur í pólitíkinni.

Og Nota bene: ég sé ekkert athugavert við að menn snúi aftur í blaðamennsku úr pólítikinni. Björn Ingi verður dæmdur af verkum sínum eins og aðrir og hann er óneitanlega reynslunni ríkari eftir dvöl sína í stjórnarráðinu og ráðhúsinu.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég þekki Denna nokkuð vel og veit að hann fékk ekki biðlaun, var ekki aðstoðarmaður og fór ekki beint úr ráðuneytinu á 365, var í Íslandi í dag áður en hann fór á fréttastofuna. Hann vann meðalannars nokkur verkefni fyrir mig þegar hann vann á eigin vegum að ýmsum verkefnum það ár sem leið frá því að hann hætti hjá hinu opinbera áður en hann var ráðinn í Ísland í dag. Varð ykkur eitthvað sundurorða gömlu vinnufélögunum fyrst þú þarft að ljúga upp á hann? :) Kært kvaddur Þ.S.

Árni Snævarr sagði...

Svona svona, ég minnist þess ekki að mér og Denna hafi nokkru sinni orðið sundurorða og pistillinn fjallar jú ekki um hann. Rétt er sennilega að hann fór að uppsagnarfresti loknum á Stöð 2 og varð fljótlega fréttastjóri. En að hann hafi ekki verið aðstoðarmaður Halldórs, tja það er túlkunaratriði. Þú veist að Denni er annálaður húmorist og allt er þetta jú bara góðlátlegt grín, enda margir bestu vina minna framsóknarmenn. Eða þannig, kv. Árni Snævarr

Nafnlaus sagði...

"Finndu Finn!" fannst mér fyndið.