þriðjudagur, 25. mars 2008

Ofsóknir gegn utanríkisráðherra

Ég kenni í brjósti um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra. Morgunblaðið (les: Styrmir Gunnarsson) leggur hana í slíkt einelti að leita þarf áratugi aftur í tímann til að finna annað eins í íslenskum fjölmiðlum. Mér dettur einna helst í hug ofsóknir Vilmundar Gylfasonar gegn nágranna sínum af Aragötunni Ólafi Jóhannessyni.
Andstaða Styrmis og Morgunblaðsins við friðargæsluna í Afganistan er því undarlegri sem að blaðið fjallaði á sérstaklega jákvæðan hátt um friðargæsluna í Afganistan þegar strákaleikir Arnórs Sigurjónssonar og Halla höfuðsmanns stóðu sem hæst. Þá lutu íslensku friðargæsluliðarnir heraga, gerðu honnör gráir fyrir járnum íklæddir felulituðum einkennisbúningum og stunduðu skotæfingar.
Blaðið var líka býsna spennt fyrir Bílabúðar-Benna tímabilinu þegar íslenskir jeppagæjar lögðu sitt lóð á vogarskálar friðar og öryggis í heiminum með því að þeysast upp um fjöll og firnindi í Afganistan á upphækkuðum jeppum.
Staksteinar skifuðu á dögunum: “Í versta falli er utanríkisráðherrann að reyna að slá ryki í augu Íslendinga sem vitanlega eru mjög áhyggjufullir vegna veru íslenzkra „friðargæzluliða“ í landi blóðugra stríðsátaka, sem hvergi sér fyrir endann á..En spurningin er: Hvaða erindi eigum við Íslendingar yfirleitt í stríðið í Afganistan?” Í ljósi þess að blaðið hafði engar áhyggjur af stríðinu og studdi NATO sem endranær í nákvæmlega sama stríði, er engum blöðum um það að fletta að í þessu sem flestu öðru lætur blaðið stjórnast af persónulegri óvild Styrmis Gunnarssonar í garð Ingibjargar Sólrúnar.
Margt má vafalaust finna að embættisfærslu hennar enda er hún ekki fullkomin frekar en aðrir. En þetta á hún ekki skilið.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Staksteinar eru ekki einir um að finnast lítið til ISG koma. Þarf ekki annað en lesa ummæli hennar undanfarin ár og samþykktir Samfylkingar þegar hún var í stjórnarandstöðu, og bera saman við hegðun hennar núna, til að sjá að hún er með ómerkilegri populistum í íslenskri pólitík. Ég er ansi hræddur um að baklandinu sé að verða kalt. Að einkavinkonum hennar undanskildum sem kippt hefur verið inní velgjuna.

Nafnlaus sagði...

Ég sé eftir ad hafa kosìd Samfylkinguna thegar eg fylgist med athoefun utanrikisradherra.
Hun er ekkert skarri en fyrrum utanrikisradherrar og jafnvel verri en Valgerdur.
Ad kalla thad fridargaeslu ad stydja innrasarher sýnir hugsjónalegt gjaldthrot.
VarKrati