Mann setur hljóðan við að lesa röksemdir Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur fyrir skipan Sigríðar Önnur Þórðardóttur í embætti sendiherra. Ingibjörg segir “að þetta snúist um að fjölga konum í utanríkisþjónustunni en af því að þær séu svo fáar þar starfandi þurfi að fara út fyrir hópinn til að sækja nýjar og þess vegna hafi Sigríður Anna orðið fyrir valinu.”
Ingibjörg Sólrun reynir ekki að halda því fram að Sigríður Anna sé skipuð vegna þess að hún sé svo hæf til að gegna embætti sendiherra. Sigríður Anna hafði mörg tækifæri til að sýna hæfileika sína í utanríkismálum sem formaður utanríkismálanefndar en nýtti þau ekki. Fjölmiðlar komu yfirleitt að tómum kofunum hjá henni enda virtist hún ekki hafa mikinn áhuga á málaflokknum. Með fullri virðingu fyrir Sigríði Önnu, held ég að flestum beri saman um að hæfileikar hennar njóti sín betur á öðrum sviðum en þessum.
Ég tel það beinlínis móðgun við konur að skipa í embætti eingöngu á grundvelli kynferðis enda mun þetta varpa skugga á komandi embættisveitingar, í hvert skipti sem kona er ráðin. Sá grunur mun ævinlega læðast að mönnum að konur séu skipaðar kynferðis sins vegna en ekki hæfileika. Gréta Gunnarsdóttir sem einnig var skipuð sendiherra verður þannig að sætta sig við að spurningamerki verður sett við ráðningu hennar.
Það er dapurlegt að sjá Ingibjörgu Sólrúnu láta kreddu villa sér sýn enda hefur hún löngum verið málsvari siðbótar í íslenskum stjórnmálum. Allir sem vilja vita að Valgerður Sverrisdóttir – einn besti utanríkisráðherra sem við höfum átt- neitaði að skipa Sigríði Önnu í þetta embætti en það gerir arftaki hennar nú og klæðir í femínískan búning. Sú smjörklípa blekkir engan. Þessi ráðning er pólítísk samtrygging.
Egill vinur minn Helgason fullyrti hér á Eyjunni um daginn að sendiherrar væru álíka nauðsynlegir og uxakerrur. Ég tel að það sé ofmælt. Ég hef á árum mínum erlendis og í starfi sem blaðamaður séð að margir íslenskir sendiherrar og aðrir starfsmenn utanríkisþjónustunnar eru fyllilega starfi sínu vaxnir. Hins vegar segir það sig sjálft að þegar hvaða leikfimikennari sem er getur orðið sendiherra vegna pólitískra tengsla eða kona eingöngu vegna kynferðis, er ekki von á góðu.
Hins vegar skulum við ekki gleyma því að ef Ísland gengur í Evrópusambandið eignum við prýðilegt elliheimili fyrir afdankaða stjórnmálamenn. Þar má sjá gamalkunnug andlit úr pólítík á árum áður. Ég man eftir þremur fyrrverandi forsætisráðherrum evrópskra ríkja í svipinn Poul Nyrup Rasmussen Anneli Jaamtamaalike og Michel Rocard. Kannski bætist Davíð Oddsson í þennan hóp einn góðan veðurdag. Fín laun, róleg innivinna. How about it, Davíð?
sunnudagur, 16. mars 2008
Kynferði - ekki hæfileikar
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Nú færðu skammir frá Stebba bróður fyrir þetta niðurlag.;-)
Annars lipurlega skrifað sem endranær. Nice penmanship sem þar heitir.
Guðni til Læks ;-)
Sammála þér með að Valgerður hafi verið góður utanríkisráðherra.
Skrifa ummæli