miðvikudagur, 12. mars 2008

A horse!, a horse! my Kingdom for a horse – Sjálfstæðisflokkurinn og ESB

Illugi Gunnarsson, alþingismaður hélt fróðlega ræðu á Iðnþingi á dögunum. Morgunblaðið segir að ræðan sæti miklum tíðindum og marki nýtt upphaf í baráttunni fyrir að Ísland gangi ekki í Evrópusambandið. Ef þetta er rétt er sú barátta komin í öngstræti.
Það sem merkilegast var við ræðu Illuga er að í henni fellst fullkomið málefnalegt rökþrot. Enginn frýr Illuga þó vits – allra síst ég. Ef ræðan er á annað borð stefnumarkandi þá er hún það fyrir þær sakir að andstæðingar ESB hafa gefið upp á bátinn röksemdir um að með því að halda okkur við EES samninginn stöndum við vörð um fullveldi okkar. Ekkert er fjarri sanni enda höfum við nú þegar tekið inn 75% eða meira af löggjöf Evrópusambandsins að sögn Olli Rehn, stækkunarstjóra framkvæmdastjórnarinnar, án þess að hafa tekið nokkurn meiri þátt í mótun hennar en hvaða lobbýisti í Brussel sem er. Í þessu ljósi er bara broslegt að hlusta á Illuga bölsóttast yfir bannsettu skrifræðinu í ESB – við höfum semsé tekið það upp í okkar lög og reglugerðir fyrir löngu. Illugi minntist ekki á orðið fullveldi. Hann nefndi þó í framhjáhlaupi að “forræðið” yfir fiskveiðum flyttist til Brussel. Illugi eyddi ca. 20 sekúndum í 20 mínútna ræðu til að ræða þetta mál enda er honum mæta vel ljóst að þótt endanlegir kvótar séu ákveðnir í ráðherraráðinu, miðast þeir við veiðireynslu sem Íslendingar einir hafa.
Hvað var þá eftir í ræðunni? Jú, Illugi hefur áhyggjur af því að ESB búar eigi ekki nógu mörg börn og séu því farnir að reskjast. Nú get ég út af fyrir sig fallist á það með Illuga að það væri óskandi að Ítalir og Spánverjar og jafnvel Þjóðverjar njóti meira barnaláns en nú er. Ég get einnig fallist á það með Illuga að það væri ánægjulegt ef hagvöxtur væri meiri á meginlandi Evrópu. Hins vegar breytir það ekki legu og sögu landsins. Illugi teflir því fram að Ísland myndi fá svo miklu betri fríverslunarsamninga við hagvaxtarríkin Kína og Indland ef við stæðum utan ESB en framkvæmdastjórnin gerir slíka samninga fyrir hönd aðildarríkja. Illugi fullyrðir að ESB eigi sífellt erfiðara með að gera slíka samninga meðal annars vegna “stærðar sinnar” (svo!!!). Hann nefnir ekki eitt einasta dæmi máli sínu til stuðnings, en látum það vera í bili. Röksemdafærsla Illuga gengur sem sagt út á það að Ísland (300 þúsund íbúar) sé í betri samningstöðu en Evrópusambandið (500 milljónir íbúa) gagnvart ríkjum á borð við Kína og Indland. Með öðrum orðum að Kínverjar og Indverjar sjái sér svo gríðarlegan hag í að eiga viðskipti við Íslendinga að þeir vilji leyfa þeim að njóta betri kjara en ESB búum sem eru 1500 sinnum fleiri? Að Ísland sé áhugaverðara viðskiptaland en Þýskaland, Bretland og Frakkland?
Lítum á staðreyndir málsins: útflutningur Íslands til Kína á síðasta ári var 2.4 milljarðar en 240 milljarðar til EES svæðisins. Tollar munu að meðaltali vera um tíu prósent. Kínverjar fylltust slíkum áhuga á hinum galvösku, myndarlegu Íslendingum að þeir myndu fella niður alla tolla, græddu íslenskir útflytjendur 240 milljónir. Er það mikið? Ekki miðað við viðskiptin við ESB en vissulega mikið miðað við útflutning til Indlands sem nam 79 milljónum á síðasta ári – eða rétt skítsæmilegum starfslokasamning hjá íslenskum forstjóra.
Um gjaldmiðilsmálin sagði Illugi raunar margt skynsamlegt, meðal annars minnti hann á niðurstöðu Brussel-ferðar forsætisráðherra: Upptaka Evru án Evrópusambandsaðildar kemur ekki til greina. Engu að síður færði hann rök fyrir því að við gætum tekið upp Evruna á grundvelli EES aðilar!!! Er þetta ekki fullkomin þversögn? Eða er Illugi að viðurkenna að Ísland sé í rauninni komið inn í ESB að öllu öðru leyti en því að taka þátt í að taka ákvarðanir um löggjöf þess? Allavega deplar hann ekki auga yfir því að framselja fullveldið í peningamálastefnu okkar til Evrópusambandsins. Getur það virkilega verið að Geir hafi ekki fitjað upp á þessu máli í Brusselferðinni? Hafði Illuga ferðafélaga hans ekki dottið þetta í hug? Hvers vegna var ekki spurt? Eða var spurningin lögð fram? Var svarið hugsanlega:Nei til að taka upp evruna verðið þið að ganga í ESB.
Þegar vel er að gáð er ræða Illuga skipulagt undanhald í Evrópumálunum. Þegar Evrópunefndin sem hann stýrir með öðrum hefur farið í saumana á þeim kaupum sem gerast á eyrinni, getur Illugi sagt sínum gamla húsbónda, Davíð frænda mínumm á Svörtuloftum og öðrum sjálfstæðismönnum: Evrópunefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að enginn mun veiða kvóta hérlendis, ESB búar munu eldast hvort sem okkur líkar betur eða verr, og við græðum of lítið á viðskiptum við Kína og Indland til að láta það ráða utanríkismálastefnu okkar. Það er staðfest að við höfum tekið upp 75% af reglum ESB og því halda rökin um skrifræðisbáknið ekki. Ef við bætum peningastefnunni við eykst þetta hlutfall verulega og enn eykst lýðræðishallinn. Við stöndum frammi fyrir því að setja þjóðina á hausinn með vaxtaokri. Þetta undanhald byrjaði í Evrópuskýrslu Björns Bjarnasonar sem afar fáir virðast hafa lesið en þar gáfu ESB andstæðingar þegar eftir í tveimur mikilvægum málaflokkum. Þar var viðurkennt að tollavernd landbúnaðar stæðist ekki til lengdar, atvinnulíf á landsbyggðinni og margar greinar landbúnaðar myndu jafnvel hagnast á inngöngu í ESB. Um sjávarútveginn gegnir sama máli og smjörklípuútreikningar Tryggva Herbertssonar um ofurkostnað við aðild að ESB voru slegnir út af borðinu.
Mín kenning er sú að hugmynd Illuga um að taka upp Evru á grundvelli EES sem og allur hans málflutningur sé tilraun til að fá gálgafrest til að skapa Sjálfstæðismönnum ráðrúm til að búa bakland sitt undir óhjákvæmileg sinnaskipti. Þeir hafa reynsluna af þessu samanber afstöðuna til EES 1991. Klisjan segir að sá sem hafi ekki verið kommúnisti á yngri árum hafi ekki hjarta en sá sem sé það ennþá hafi ekki heila. Ég ætla að snúa þessu við og segja að sá sem hafi ekki verið á móti ESB þegar það virtist stefna hraðbyri til federalisma og við áttum allt undir sjávarútvegi- hafi ekki haft heila. En á sama hátt segi ég að sá sem er tilbúinn að horfa upp á tugþúsundir landa sinna stefna í gjaldþrot út af vaxtaokri hafi ekki hjarta. Ég veit að menn á borð við Illuga Gunnarsson, Davíð Oddsson og Geir Haarde hafa bæði heila og hjarta. Við sem einu sinni vorum kommúnistar og þekkjum af eigin raun hvað það er erfitt að kyngja stolti sínu og viðurkenna að heimsmynd manns var röng, vitum að það tekur tíma að skynja “saung tímans” eins og Laxness orðaði það. En við verðum að vona að það taki ekki svo langan tíma að Ísland verði ein rjúkandi rúst þegar þeir hafa loksins áttað sig. Við inngöngu í ESB munu áhrif okkar á eigin mál aukast en ekki minnka – án þess að ég ætli mér þó að ýkja okkar áhrif á nokkurn hátt.
Ég vona að engum þyki það tilgerðarlegt að ég ljúki þessu dagbókarbroti með því að vitna í Ríkharð þriðja sjálfs Shakespeare (hef því miður ekki þýðingu Helga Hálfdanarsonar við höndina):”

KING RICHARD III: A horse! a horse! my kingdom for a horse!CATESBY: Withdraw, my lord; I'll help you to a horse.

Ég eftirlæt lesendum að skipa í hlutverk Ríkharðs þriðja og Catesby.

8 ummæli:

Gísli Baldvinsson sagði...

Já þú meinar? Er ekki Illugi frekar í hlutverki Hamlets? To be...og allt það?

Nafnlaus sagði...

Okkar saga hefur miklu skemmtilegri tilvísanir en eitthvað bull um Breta og kóngafólk þeirra.

Nei það mun ekki verða, að við gngum útlendu valdi á hönd.

Ég er sammála honum frænda þínum um, að við ættum að ganga úr EES og hefja tvíhliða samningaviðræur, ÁN UPPTÖKU SKRIFFINNSKUKERFA EB.

Þú segist hafa verið Kommi en nú virðist þú Krata tilbrigði.

Við sem erum þjóðhollir íhaldsmenn vitum, að jafnvel Finnar, Þjóðverjar og hugsandi Bretar, vilja úr þessari Kratavilpu.

Svo er það hreinlega ósatt hjá þér, að ferlið að hálfgerðri ríkisvæðingu bandalagsins sé stöðvuð. Lissabon sáttmálinn / ályktunin er ekkert annað en dulbúni stjórnarskrá.

Ég nú eins og forfeður mínir og sumir jafnaldrar í Ungmennahreyfingu okkar

Íslandi allt!

Miðbæjaríhaldið
vill margfallt frekar taka upp sviss franka en Evrusullumbullið

Nafnlaus sagði...

Tollmúrar Evrópusambandsins halda úti ýmsum vörum sem aðildarríkin geta ekki framleitt á samkeppnishæfu verði. Þegar kemur að landbúnaðarvörum er skaðsemin af þessu ekki augljós því að við erum með ennþá verra kerfi fyrir.

Hinsvegar hefur Evrópusambandið sett hömlur við innflutningi á öðrum vörum en landbúnaðarvörum, m.a hefur það tekið það stóra skref að vernda vefnaðarvörur, aðallega vegna Frakka.

Það segir sitt um hverskonar samband þetta er að Frakkar geti þvingað dýrum vefnaðarvörum upp á alla 500 milljón íbúa sambandsins til þess að vernda franskan iðnað.

Hér á Íslandi er engin vefnaðariðnaður. Af hverju ættum við að borga meira fyrir vefnaðarvörur svo að Frakkar losni við að taka til heima hjá sér?

Það sem meira er, þá er Evrópusambandið ekki að standa sig vel í samkeppnismálum yfirleitt. Ég yrði ekki hissa þótt að við sjáum meira af svona löguðu á komandi árum.

Það eru aðrar leiðir til þess að fá afnot af lágvaxtamynt ef það er það sem lokkar við sambandið.

Við eigum að standa utan við sambandið og versla við allan heiminn. Viljum við lækka matvælaverð þá eigum við að taka til heima hjá okkur, afnema tolla og flytja inn vörur frá löndunum sem ESB getur ekki keppt við. Við gætum auðveldlega haft hér matvælaverð sem ESB búar myndu öfunda okkur af.

Árni Snævarr sagði...

´Hvað sem vefnaðariðnaði innan ESB líður og tollmúrum er ljóst að föt og skór eru 35% dýrari hér en hjá þeim ESB ríkjum sem sanngjarnt er að bera okkur saman við. Ég á svo bágt með að skilja hvers vegna aðild að ESB útiloki viðskipti við önnur ríki. Halda einhverjir að Þjóðverjar, Bretar og Frakkar eigi bara viðskipti við ESB ríki? Það er ekkert í aðild ESB sem hindrar eins mikil viðskipti og okkur sýnist við td. Kína og Indland. Það er svo fögur hugsun að fella niður alla tolla á landbúnaðarvörur en aumingja íslenskir bændur ef ESB verður ekki til að hjálpa þeim í byggðamálum. kv. Árni Snævarr

Nafnlaus sagði...

Verðlag á Íslandi ræðst fyrst og fremst af eftirspurninni. T.d. hafði það afar lítil áhrif á verðlag á veitingastöðum að virðisaukaskatturinn var lækkaður. Ef Íslendingar borga 100 kr. fyrir mjólkurlítrann, hví skyldi einhver bjóða þeim hann á 95 kr.?

Við erum að hugsa til mjög langs tíma. Það að við séum að selja fyrir 240 milljarða til ESB ríkja í dag segir ekkert um það hvernig landslagið verður eftir 20-40 ár. Þá gætu önnur lönd hæglega hafa tekið yfir. Við þurfum alla vega að gæta þess mjög vel að loka okkur ekki inni. Við verðum að halda öllum dyrum opnum.

Það er líka athyglisvert að Ísland, Noregur og Sviss eru öll með ríkustu löndum álfunnar.

Nafnlaus sagði...

Andstæðingar ESB-inngöngu hamast á þeirri röksemd að við munum glata sjálfstæði okkar við inngöngu og að ESB-sinnar séu landráðamenn og "Quislingar" (sjá komment á bloggi fyrrverandi þingmanns). Hvernig útskýra þeir þá það að þau lönd í mið og austur-Evrópu sem losnuðu undan oki og járnhæl kommúnismans (nema Serbía og Hvíta-Rússland) láta það verða eitt af sínum fyrstu verkum að sækja um aðild að ESB? Fær maður fyrst frelsið bara til þess eins að kasta því í burtu "augnabliki" síðar? Þessi lönd hafa sjaldan eða aldrei verið frjálsari en nú. Gott dæmi: Slóvenía, sem nú hefur formennsku í ESB, en var árið 1991 aðeins lýðveldi í Júgósalvíu kommúnistaleiðtogans Tító. Annað dæmi: Eystrasaltslöndin, sem öll voru undir járnhæl Sovétríkjanna, en eru nú öll í ESB. Þessi lönd blómstra núna."Sjálfstæðisrök" ESB-andstæðinga halda einfaldlega ekki.

Nafnlaus sagði...

http://www.eggin.is/index.php?option=com_content&task=view&id=731&Itemid=9

Nafnlaus sagði...

Þakka góða grein.
Ég verð að viðurkenna sem fyrrverandi andstæðingur ESB þá eru rökin í dag fyrir aðild allt önnur en fyrir td. 2001.
Gjaldmiðlafrelsi, EES samningur, Útrás og stóriðjuframkvæmdir hafa breytt landinu. Sjávarútvegur hefur ekki sem betur fer ekki eins mikið vægi og áður (sem gefur sjávarútvegi tækifæri til hagræðingar). Sala gömlu bankanna og frjálsræðis til útrásar með ónýtta auðlind lífeyrissjóðanna var grunnur að stórum öflugum fjármálastofnunum.
Það hefur leitt til þess að seðlabanki Íslands er orðinn einsog sparisjóður í sjávarþorpi sem reynir að fjármagna sjávarútvegsfyritæki sem er með útgerð á mörgum stöðum hérlendis og erlendis.
Þessi umræða hefur margar hliðar sem betur fer og mikil nauðsyn á að upplýsa fólk um þær allar. Staðan er einföld og rökin þurfa að upplýsast. Takk