miðvikudagur, 26. mars 2008

Capello kennir mannasiði

Enskir fjölmiðlar fara mikinn í gagnrýni sinni á Javier Mascherano og Ashley Cole sem báðir hafa sýnt dómurum dónaskap undanfarið í ensku knattspyrnunni. Framkoma þeirra var til skammar og vekur spurningar um hvers vegna verið er að veita tugmilljónum af almannafé í knattspyrnu.
Ætlar einhver að segja mér að knattspyrnumenn almennt séu góðar fyrirmyndir? Fyrir utan dónaskapinn á leikvellinum eru enskir knattspyrnumenn alræmdir fyrir sukksamt stóðlífi, hómófóbíu, landlægt kynþáttahatur og almenna siðblindu. Látum það liggja milli hluta en verra er að þeir eru þekktir fyrir að þykjast vera yfir það hafnir að fara á salerni til að kasta af sér vatni, heldur pissa í blómapotta í fjölmennum samkvæmum. (Þetta á ekki bara við um enska knattspyrnumenn.).
Mér þykir hins vegar miður að það gleymist hvers vegna Cole var bókaður í umræddum leik. Það var fyrir ruddalegt brot sem hæglega hefði getað kostað andstæðing hans beinbrot. Mér finnst það mun alvarlegra mál en hvimleitt tuð í dómurum. Cole fékk einungis gult spjald fyrir brotið en engu að síður réðust Terry, Lampard og Cole að dómaranum á sérlega ógnandi hátt. Tilviljun að þetta eru allt Englendingar?
Þetta atvik hefur þegar kostað Terry fyrirliðastöðuna í enska landsliðinu og hugsanlega Cole stöðuna. Það væri hið besta mál ef Capello hinn ítalski kenndi þeim mannasiði. Og gerði kannski kröfu um að landsliðsmenn væru klósettvanir. Síðan mætti gera þá kröfu líka í íslenska landsliðinu. Hver veit.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

held nú að það sem hafi kostað Terry fyrirliðastöðuna hafi verið það að hann lagði rúmlega 20milljónkróna Bentley-inum sínum í fatlaðrastæði þegar hann fór að versla í seinustu viku. Flestir enskir fjölmiðlar birtu af þessu fallegar myndir - fyrirliðinn gæti ekki labbað nokkra auka metra.