miðvikudagur, 15. október 2008

Stjörnuspeking í Seðlabankann

Þessa stundina eru leiðtogar Evrópusambandsríkjanna 27 að koma til fundar í húsakynnum ráðherraráðsins, við hliðina á vinnustað mínum hér í Brussel. Í þann hópi gætu Íslendingar löngu verið komnir. Afleiðingar þeirrar skammsýni að halda að við Íslendingar værum svo duglegir og gáfaðir að við þyrftum ekki að taka þátt í helsta samstarfsvettvangi vina- og nágrannaþjóða okkar blasa við öllum landsmönnum.

Svo undarlegt sem það kann að virðast eru orsakir þess hluta kreppunnar á Íslandi sem er séríslenskur, að verulegu leyti fremur pólitískar, jafnvel sálfræðilegar, en efnahagslegar.
Það hafa fjölmargir varað við hættunni af því að efnahagskerfi okkar gæti hrunið og stæðist ekki sem undirstaða átta sinnum stærra bankakerfis.

Skýrsla um ástæðurnar fyrir efnahagsvanda Íslands, sem unnin var fyrir Landsbankann, var til umfjöllunar í fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi og hafa umræður um hana magnast að nýju í kjölfarið.

Það er fyllsta ástæða til krefjast skýringa á því jafnt frá forkólfum Landsbankans sem ríkisstjórnar og Seðlabanka hvers vegna sýrslu Willems Buiter og Anne Sibert var stungið undir stól.

Niðurstaða þeirra var að íslenskt hagkerfi væri of smátt fyrir umfang bankageirans. Ef Íslendingar ætluðu að halda bönkunum yrðu þeir að ganga í ESB og taka upp evru, ef Íslendingar ætluðu að halda í krónuna yrðu þeir að losa sig við hina alþjóðlegu bankastarfsemi.

Þetta var líka kjarni í ummælum manna á borð við Daniel Gros, forstjóra Center for European Policy Studies(CEPS) í sjónvarpsþætti sem ég gerði um Ísland og Evrópu síðastliðinn vetur en fékkst ekki sýndur í Ríkissjónvarpinu því dagskrárstjóranum hugnuðust ekki styrktaraðilar mínir.

Þetta eru kvistar á sama meiði. Allt þjóðfélagið hefur kóað með Sjálfstæðismönnum og öðrum einangrunarsinnum í því að mega ekki ræða hlutina. Þetta eru hinar pólitísk/sálfræðilegu skýringar kreppunnar: meðvirkni sem leiddi til þjóðargjaldþrots.

Nú eru Sjálfstæðismenn loks farnir að átta sig á því hvert Sirkus Geira smart fór með þjóðina og bæði Þorgerður Katrín og Eyþór Arnalds, einn af oddvitum Heimssýnar, félags ESB andstæðinga, eru nú til í að ræða aðild.

Það er kaldhæðnislegt að á sama tíma og forsætisráðherra, forseti og seðlabankastjóri voru steinsofandi við stýrið spáði Gunnlaugur Guðmundsson, stjörnuspekingur því fyrir
síðustu áramót að ríkið þyrfti að hlaupa undir bagga með bönkunum á þessu ári.

Vonandi er Gunnlaugur eins sannspár í eftirfarandi orðum: “Ég held að við leggjum niður krónuna og göngum í Evrópusambandið. Ísland mun ganga til liðs við heiminn og nýtt fólk komast til valda."

Gunnlaugur stjörnuspekingur hefur aldrei gefið sig út fyrir að vera hagfræðingur en ég er sannfærður um að það væri betur komið fyrir íslensku þjóðinni með hann við stýrið í Seðlabankanum en Davíð Oddsson.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Það var mikið að einhver þorði að segja þetta með stjörnuspekinginn.

Þetta hefði verið óhugsandi fyrir 60 dögum síðan, þú hefðir verið kallaður öllum illum nöfnum.

Löngu kominn tími á að við horfum aðeins út fyrir réttina.