fimmtudagur, 9. október 2008

Steinunn bjargar heiðrinum

Þrír blaðamenn sem ég met alla mikils; ritstjórarnir Jón Kaldal og Þorsteinn Pálsson og aðstoðarritstjórinn Steinunn Stefánsdóttir hafa undanfarna þrjá daga ritað forystugreinar í Fréttablaðið.

Jón Kaldal reið á vaðið og réðist harkalega að ónefndum bloggurum; líkti þeim við kverúlanta í þjóðarsál Rásar 2. Uppgjörið segir Jón “bíður betri tíma”. Af skrifum Jóns er ekki ljóst hvort hann persónulega, Fréttablaðið eða ríkisstjórnin eigi að ákveða hvar, hvenær og hvernig umræður um málið eiga að fara fram og hverjum verði leyft að tjá sig. Jón segir að það sé ófrjó hugsun að velta sér upp úr fortíðinni og talar um markaðstorg hugmynda (!!!!).

Það er alveg rétt hjá mínum gamla kollega Jóni Kaldal að það væri miklu betra ef umræðan hefði farið fram fyrir þjóðargjaldþrot en eftir. Ef Fréttablaðið, til dæmis, hefði sinnt þeirri frumskyldu sinni í blaðamennsku að sýna útrásarvíkingum og stjórnvöldum aðhald, værum við ef til vill í skárri stöðu en við erum. Þess í stað voru viðskiptasíður blaðsins eins og vettvangur klappliðs útrásarvíkinganna.

Þorsteinn Pálsson vildi greinilega ekki leyfa Jóni starfsbróður sínum að sitja einum að “ábyrgum málflutningi” á viðsjárverðum tímum.
Þorsteinn skrifaði í gær:

“Þegar skriftin blasti við á veggnum tók ríkisstjórnin á tröllauknu viðfangsefni af mikilli ábyrgð. Örugg framganga forsætisráðherra hinn örlagaríka dag 6. október 2008 og agað samstarf ríkisstjórnarflokkanna réði miklu um markvissa framvindu hlutanna. Ábyrg afstaða stjórnarandstöðuflokkanna, og alveg sérstaklega Framsóknarflokksins, var nauðsynleg forsenda þess að mál réðust með þeim hætti sem nauðsyn krafði.”

Lýsing Þorsteins á frábærri frammistöðu Geirs er með þeim hætti að maður spyr sig hvort honum sé alvara eða hvort hér sé á ferðinni svartasti húmor sem um getur.

Smátt og smátt áttaði ég mig á að manninum væri alvara. Mín fyrstu viðbrögð voru að við þyrftum ekki Prövdu, við hefðum Fréttablaðið. Önnur viðbrögð voru að fyllast sorg yfir því að það skyldi vera sjálfur Þorsteinn Pálsson sem þarna stýrði penna. Þorsteinn hefur í forystugreinum sínum verið rödd hófsemi og skynsemi og hann hefur haft hugrekki til þess að lýsa yfir stuðningi við Evrópusambandsaðild.

En þegar maður hélt að Fréttablaðið hefði endanlega skorist úr leik og gerst málpípa stjórnvalda kom bjargvætturinn Steinunn Stefánsdóttir til skjalanna og skrifar nýjan leiðara í Fréttablaðið í dag. Hann ættu allir að lesa, en ég læt fylgja með góðan kafla og skora á lesendur að bera saman við skrif Þorsteins hér að ofan:

“ Alla síðastliðna helgi beið þjóðin í ofvæni eftir niðurstöðum raðfundarhalda í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Seint á sunnudagskvöld mælti svo forsætisráðherra af tröppum ráðherrabústaðarins og sagði að ekki væri þörf á „sérstökum aðgerðapakka". Það var niðurstaða fundahalda helgarinnar.
Næsti kapítuli var ávarp sama forsætisráðherra innan við sólarhring síðar þar sem hann greindi þjóðinni frá því að staðan væri gerbreytt og að hann hygðist leggja fram frumvarp um neyðarlög í landinu. Alþingi samþykkti neyðarlögin.
Nú varð atburðarás hröð og bankar voru yfirteknir. Einnig var ákveðið að festa gengi íslensku krónunnar en vegna skorts á gjaldeyri var aldrei hægt að framfylgja þeirri ákvörðun og gengi krónunnar í algerri óvissu. Hins vegar hefur ekki verið hreyft við stýrivöxtum Seðlabankans þrátt fyrir að skipbrot stýrivaxtastefnunnar sé löngu ljóst.
Yfirlýsing seðlabankastjóra um væntanlegt lán frá Rússum, áður en það var frágengið, ásamt því að gefa í skyn að Íslendingar hygðust brjóta lög á breskum sparifjáreigendum var heldur ekki til þess fallið að auka tiltrú almennings á því að þjóðarskútan væri undir styrkri stjórn, auk þess sem þessar yfirlýsingar hafa skaðað ímynd Íslands enn frekar en orðið var í alþjóðasamfélaginu.
Í gær beið þjóðin eftir blaðamannafundi meðan þess var freistað að slökkva þá elda sem seðlabankastjóri hafði kveikt. Þjóðin vænti þeim mun meiri tíðinda af fundinum. Þau komu ekki.”

Hvað varð um ábyrgð og örugga framgöngu? Hér er atburðarásinni lýst nákvæmlega eins og hún var og ekkert dregið undan.

Staðreyndin er sú að viðvörunarbjöllur um útrásarfylleríið heyrðust mjög óvíða í samfélaginu. Fréttablaðið getur vissulega bent á að það hafi birt skrif Þorvaldar Gylfasonar, en að öðru leyti voru það “kverúlantarnir” í bloggheiminum sem með “fúkyrðaflaumi” eins og Kaldarl orðar það, stóðu vaktina. Að ógleymdum Agli Helgasyni sem hefur undanfarin ár borið höfuð og herðar yfir aðra í íslenskri blaðamennsku.

Steinunn líkir íslenskum ráðamönnum við strúta sem ekki vildu kannast við neina erfiðleika. En strúta tvo hefur hún við hlið sér í brúnni á Fréttablaðinu. Þorsteinn hefur gerst grúpía Geirs og Jón Kaldal hefur tekið upp merki Gísla Marteins og vill að öll dýrin í skóginum séu vinir. Hann krefst samstöðu en það er ekki skortur á samstöðu heldur systur hennar; þýlyndið og meðvirknin sem hafa komið okkur á þann stað sem við erum.

Jón Kaldal má kalla okkur bloggara kverúlanta og arftaka þjóðarsálar Rásar 2 og taka með Þorsteini þátt í sirkus Geira Smart þar sem hvítt er svart.

En mín góða skólasystir Steinunn Stefánsdóttir hefur bersýnilega ákveðið að þiggja ekki boð um að ganga í þann sirkus. Býð ég hana fyrir hönd kverúlanta velkomna í okkar hóp um leið og ég óska Fréttablaðinu til hamingju með að orðstír blaðsins hefur verið bjargað, því nýjasti leiðarinn hlýtur að vera nýjasta stefna blaðsins.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

það hefur kannski verið skipt um eigendur á fréttablaðinu í nótt!

Nafnlaus sagði...

Er þessi pistill Steinunnar ekki til marks um að eigendaskipti eru í rauna orðin eða að verða á Fréttablaðinu ? Hrun bankanna og fallin ítök útrásarvíkinagnna í bönkunum eru horfin og þeir þar með fallnir hér innanlands.
Frjásir menn halda nú um penna
Ekki veit ég það en mér finnst að svo sé...

Nafnlaus sagði...

Ekki sammála Árni. Þessi leiðari Steinunnar er ekki neitt. bara lýsing á atburðarás sem allir fylgdust með.
Hvað er merkilæegt við það?
Ég er undrandi að þú skulir skrifa þetas.
Fréttablaðið er rusl sem er rúið öllum trúverðugleika. Ritstjórar blaðsins sem varla teljast skrifandi eru í besta lagi aðhlátursefni.
Blaðið er búið að vera og þeir líka.
Good riddance