sunnudagur, 19. október 2008

Samfylkingin: sofandi að feigðarósi

Nýjasta skoðanakönnun um fylgi við aðild að Evrópusambandinu vekur nokkra undrun því á sama tíma og ýmsir framsóknar- og sjálfstæðismenn og málsmetandi máttarstólpar samfélagsins hafa “komið út úr skápnum” í Evrópumálum, eykst fylgið ekki.

Gleymum því samt ekki að það er yfirburðafylgi við málstaðinn!

Ég veit að það er fátt leiðinlegra en “I told you so” en engu að síður ætla ég að taka saman nokkra punkta í pistlum mínum þar sem ég gagnrýni Samfylkinguna fyrir að taka ráðherrastólana fram yfir þjóðarheill.

Þessir punktar gætu kannski orðið einhverjum óbreyttum Samfylkingarmanni að liði á fundi flokksins með formanni sínum í dag.


Barbados eða Evrópa, 21. mars

“Ég er nýkominn frá Íslandi og heyrði marga málsmetandi Samfylkingarmenn setja spurningarmerki við ofuráherslu á framboðið til Öryggisráðsins. Eru heimsóknir til Afganistans og Barbados málið á meðan íslenska krónan hrynur til grunna? Hverju sæta máttleysisviðbrögð Íslands um Tíbet á tímum mannréttindaátaks ? Og fyrst og fremst: Hvers vegna heyrist ekkert í formanni Samfylkingarinnar þegar Evrópusambandsaðild og upptaka Evru er loksins (loksins!) komin í forgrunn íslenskra stjórnmála?”

Sofandi Samylking, 21. apríl

“Sannast sagna hafa ráðherrar flokksins frekar vakið athygli fyrir ferðagleði sína en starfsgleði. Með fullri virðingu fyrir heita vatninu í Djibouti og ráðstefnu um þróun eyja á Karíbahafinu,er hætt við því almenningur hafi meiri áhyggjur af hruni krónunnar, hruni fasteignaverðs og okurvöxtum. Margir hafa óþægilega á tilfinningunni að Samfylkingarráðherrar séu svo ölvaðir af töfrum valdsins að þeir hafi gleymt því hvað þeir standa fyrir. Aðild Íslands að Evrópusambandinu er brýnni en nokkru sinni fyrr og það er löngu kominn tími til að ráðherrar Samfylkingarinnar hætti ferðafylleríi sínu og taki til við að hrinda vilja næstum sjötíu prósent kjósenda í framkvæmd.Samfylkingin ætti að hafa byr í seglum í skoðanakönnunum miðað þetta mikla fylgi almennings við málefni sem hún ein flokka hefur barist fyrir.Hefur framboðið til öryggisráðsins villt formanni flokksins sýn? Er hún sofandi á vaktinni?Er ekki nær að auka áhrif Íslands á sín eigin málefni með því að ganga í Evrópusambandið en reyna að auka þau út á við með kosningu í Öryggisráðið? “


Ingibjörg Sólrún, laxinn eða teninginn, 2. júlí

“Prófessorinn (Robert Wade, professor við LSE) bendir á að vandi íslensks efnahagslífs snúist ekki síst um að Seðlabankinn og jafnvel íslenska ríkið séu ekki nægilega stór í sniðum til að vera bakhjarl fyrir fjármálageirann og skuldir landsmanna.Samfylkingin hefur haft á stefnuskrá sinni að Ísland gangi í Evrópusambandið. Samfylkingin hefur líka leynt og ljóst á stefnuskrá sini að Ísland taki upp Evruna sem ekki verður gert á annan hátt en með inngöngu í ESB. Með því að taka upp evruna myndi íslenskt efnahagslíf og þar með bankarnir sjálfkrafa fá Seðlabanka Evrópu sem bakhjarl. Einhliða upptaka dollarans til dæmis hefði ekki þessi áhrif.”

Til hvers er Samfylkingin í pólitík?, 3 . júlí

“Til hvers er Samylkingin í pólítik? Til að vinna að framgangi hugsjóna sinna eða til að verma ráðherrastólana? Það má alveg saka mig um að vera naív en ég á enn pínulitla von um að það leynist kannski ekki hugsjónaglæður (það er til of mikils ætlast) heldur ábyrgðartilfnning hjá ráðamönnum flokksins.Landinu er að blæða út við núverandi aðstæður. Fyrirtækin eru að stöðvast vegna gjaldeyrisvanda, bankakreppu vegna bakhjarlsleysis og vaxtaokurs. Fjölskyldurnar eru að missa bíla sína og hús og matar- og bensínverð er að sliga jafnvel meðaltekjufólk. “

Þannig var ástandið fyrir hrunið; mér sundlar við tilhugsunina hve vont hefur versnað mikið. Samfylking flaut sofandi að feigðarósi. Ráðherar flokksins voru hver um sig uppteknir af gæluverkefnum hver á sínu sviði en á meðan gleymdist að gæta fjöreggs þjóðarinnar.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Árni.
Ég tek undir mál þitt. Ég hef velt því fyrir mér undanfarið hvert sé erindi Samfylkingarinnar í íslenskum stjórnmálum. Um hvað er hún eiginlega?

Er það virkilega svo að forysta hennar líti á það sem helsta hlutverk sitt að standa með brotnu og rotnu valdakerfi Sjálfstæðisflokksins?

Ég er ekki viss um að staða Íslands eftir uppgjörið sem nú fer fram á efnahagsmálum þjóðarinnar verði slík að Evrópusambandið kæri sig um þann liðsauka. Eins víst að skilaboðin þaðan verði þau að innganga og aðild að myntbandalaginu komi ekki til álita fyrr en eftir að staðan hefur verið lagfærð. Það mun taka langan tíma. Árafjöld.

Nafnlaus sagði...

Þetta undirstrikar aðeins það, að Samfylkingin er ekki starfi sínu vaxin, heldur ekki hvað lausn vandans varðar.

Í allri hreinskilni, þá sé ég engan mun á Samfylkingu, Sjálfstæðisflokki og Framsókn.

Nafnlaus sagði...

Samfylkingin er á góðri leið með að glata tækifærinu til að aðskilja sig frá gömlu valdaflokkunum. Hvað sem forustumennirni segja þá vex sú tilfinnings meðal almennings að Samfylking sé í engu frábrugðin Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum þegar kemur að valdastólunum. Þeir skulu ávalt teknir fram yfir málefnin.

óbreyttur nafnlaus kjafnaðarmaður

Nafnlaus sagði...

Sammála síðasta ræðumanni, enda þessir þrír flokkar sem leitt hafa landið síðustu seytján ár, eða þ.e.a.s. tveir þeirra hafa skiptst á að vera hækjur hins og er það aumt hlutskipti. Þetta hafa nefnilega verið Sjálftæðisáratugar (öfugt við Framsóknar áður). Framsókn var í lykilsaðstöðu hér á árum áður og stærði sig af því að vera opinn í báða enda. Þar sem að ísl. flokkar vinstra megi miðju hafa verið sjálfum sér sundurþykkir hefur það spilað beint upp í hendurnar íhaldinu + að nú er raunverulega bara einn flokkur til vinstri. Ergó. Ísl. stjórnmál hafa snúist um hver sængar hjá íhaldinu með líka þessum ágæta árangri. Þessir rekkjunautar hafa blánað upp og allir orðið samdauna. Eru allir á sömu bókina lærðir!

Will there be blood?

Nafnlaus sagði...

Tek undir varnaðarorðin.

En kommonn! Þeir sem skilja eftir athugasemdir hérna eru allir uppfullir af óskhyggju. Samfylkingin hefur verið stærsti flokkurinn í 4-5 könnunum í röð.

Það bendir nú ekki til þess að þjóðin jafni hennar frammistöðu við nær óslitna setu Framsóknarflokksins við kjötkatla ríkisins.

Nafnlaus sagði...

Vissulega er ég samála síðuhaldara um það að Samfylking hefur opinberað algert tilgangs og getuleysi í stjórnmálum. Vandamálið er að flokksmenn Samfylkingar hafa ekkert lagt fram í þeim vanda sem nú liggur fyrir annað en að úthrópa vilja sinn til að ganga í ESB. Þetta gera þeir þrátt fyrir að hafa gert stjórnarsáttmála um að slíkt brölt stæði ekki til.

En nokkuð annað vekur furðu hér,því er haldið fram að íslenskt efnahagslíf og þar með íslenskir bankar fái Seðlabanka Evrópusambandsins sem bakhjarl við að ganga í ESB. Hvernig má það vera? Hvaða rök færir síðuhaldari fyrir því? Hefur sá seðlabanki verið að bjarga mörgum bönkum aðildarríkjanna uppá síðkastið? Svar við þessu óskast hér.

Annað og ekki síðra mál,hver eru efnahagslegu skilyrðin fyrir því að fá að ganga í ESB? Hver þarf stöðuleikin að vera og hversu lengi þarf hann að hafa verið í landinu til að uppfylla þau skilyrði? Hver má verðbólgan vera? Hvernig eiga stýrivextir að vera? Hver má hallinn á ríkissjóð vera? Hvað með vöruskiptahalla? Nú þegar ljóst er að búið er að dæma þjóðfélagið til að taka á sig mikla niðursveiflu og slakari afkomu,eru þá líkur á að efnahagur þjóðarinnar færist nær kröfum ESB?

Væri ekki nær að koma skikki á þessi mál og skoða svo framhaldið með ESB og þá þegar og ef við uppfyllum skilyrðin til þess?

Guðmundur M.

Jónas Tryggvi sagði...

Nú er ég ótrúlega ósammála ykkur! Ég tel að Samfylkingin sé að spila mjög góða pólitík með því að vinna að inngöngu í Evrópusambandið í gegnum Sjálfstæðisflokkinn - en ekki gegn honum! Pólitík snýst um árangur, og í stjórnaranstöðu með upphrópanir um Evrópusambandsaðild hefði Samfylkingin ekkert meiri völd heldur en VG eða Ómar Ragnarsson hafa í umhverfismálum núna!

Við höfum aldrei verið nær því að sækja um í Evrópusambandið - og það myndi aldrei fara í gegn í þjóðaratkvæði ef Sjálfstæðisflokkurinn myndi leggjast gegn aðild af fullum þunga.

Samfylkingin er flokkur sem var stofnaður á því prinsippi að pólitíkin væri ekki bara svarthvít. Hreintrúarpólitík einsog VG stundar, þar sem er ekkert "komprómise" - aldrei slegið af hugsjónum - þýðir hreinlega að það væri aldrei náð neinum stefnumálum í gegn! Sem örugglega einn harðasti Evrópusambandssinninn í Samfylkingunni, þá hef ég sjaldan verið ánægðari með flokk minn, og tek undir með Ingibjörgu þegar hún segir; Fyrst IMF, svo ESB.

Jónas Tryggvi sagði...

Nafnlausir sem aðrir; nú snýst ESB aðild ekki lengur að því að fá Seðlabanka Evrópu sem bakhjarl - það er hreinlega of seint. Nú snýst ESB aðild um það að tvöfalda ekki öll lán almennings á næstu árum með verðbótum á tímum mögulega 50% verðbólgu á Íslandi!

Eina leiðin til að afnema verðtryggingu er að útrýma gengisáhættunni - og það verður aðeins gert með EMU aðild. Nú loksins hefur Ísland eitthvað að semja um þegar við göngum í ESB - við þurfum að fá undanþágur til að geta tekið upp evru strax, því krónan er verðlaus og ónýt - og er að knésetja íslensk heimli!

Baldur - hinn eini sanni sagði...

Og hverjum er ekki nákvæmlega sama um stöðu Samfylkingarinnar? Hennar helsta markmið er jú ekki annað en að verma stóla og hækjast undir Fálkaflokkinum...

Nafnlaus sagði...

Árni !

Mikið er gott að þú ert kominn heim í flokkinn með mági þínum !

Hverjir hafa verið fjármálin í áratugi, samfylkingin ?

Þú og Kjartan hafið örugglega komist að þessari niðurstöðu ?

Það breytist ekkert , því miður !

Sama hvað sjálfstæðisflokkurinn hefur gert , þá er sent út herlið til að senda svona skrif út !

Hvít lýgi var í Mogganum, þú nálgast það með þessu !