miðvikudagur, 1. október 2008

Láki litli og vopnabrakið

Palladómar mínir um persónur og leikendur í Glitnisharmleiknum (tagíkómedíunni?) hafa vakið nokkur viðbrögð, bæði í athugasemdakerfinu og eins í persónulegum tölvupóstum til mín.

Mér líður svolítið eins og Láka litla í barnasögunni sem alltaf var að gera eitthvað af sér....og hafði frekar gaman af því. Ég skal játa að ég hef verið býsna ljótur strákur en auðvitað skemmti ég mér svolítið yfir því að hreyfa við fólki og heyra vopnabrak í fjarska eins og Egill þegar þingheimur barðist um silfrið á Þingvöllum forðum.

Sumum finnst ég vera dómharður og kann það vel að eiga við rök að styðjast. Ég lít svo á að hlutverk bloggara sé mjög mikilvægt í okkar fjölmiðlaumhverfi þar sem hóparnir sem eiga bankana þrjá eiga hver sinn fjölmiðil og bláa höndin hefur lengst af haldið RÚV í heljargreipum.

Að sjálfsögðu verður maður að krydda matinn vel og bjóða upp á safaríkar steikur. Ekki síst við sem skrifum langhunda. Vonandi hef ég ekki sært neinn um of með þessu skrifi mínu, en sannleikanum verður jú hver sárreiðastur.

Mér hefur til dæmis verið bent á að Geir H. Haarde hafi haft samband við Ingibjörgu Sólrúnu og sett Björgvin G. Sigurðsson og Össur Skarphéðinsson inn í málin. Gott og vel orðalag mitt um að Björgvin hafi verið sniðgenginn fæst ekki staðið – og biðst ég afsökunar á því. Á hinn bóginn virðist málið ekki hafa verið á forræði bankamálaráðherra og forsætisráðherra nýtt sér út í æsar að formlega heyrir Seðlabanki Íslands undir forsætisráðuneytið.

En bankamálaráðherra virðist ekki hafa ráðið ferðinni í málinu þótt málefni viðskiptabanka séu á hans könnu heldur verið furðu passívur sem og öll Samfylkingin. Sumum kann að þykja það nastý ályktun af þessu að Björgvin hafi brugðist sem foringjaefni. Það má kannski til sanns vegar færa og skal ég taka þá fullyrðingu til baka.

En ég fæ þó ekki betur séð en hann og hans flokkur hafi að mestu verið þolandi og látið Geir og Davíð vaða yfir sig. Það er t.d. ofar mínum skilningi að Davíð Oddsson ákveði hverjir séu stjórnendur bankans. Hver kaus hann?

Ég fer síðan heldur ekki ofan af því að Inigbjörg Sólrún hafi staðið sig frábærlega í málefnum UNIFEM en virst full áhugalítil um efnahagsmál sérstaklega Evrópumálin. Að ekki sé minnst á gengismálin. Þar hefur Björgvin G. Sigurðsson hins vegar staðið vaktina og eins staðið sig mjög vel í málefnum neytenda. Og gerir vonandi áfram.

Þetta tengist hins vegar því að það er afar óheppilegt að oddviti stjórnarflokks sé í utanríkisráðuneytinu og langdvölum erlendis. Væri því vel til fundið að Ingibjörg Sólrún hefði stólaskipti við td. Össur Skarphéðinsson í næstu hrókeringum á stjórnarheimilinu. Össur hefur að því best verður séð frekar gaman af því að vera í útlöndum. Hér kæmu Þórunn og Björgvin líka til álita enda sá síðarnefndi sláandi líkur David Milliband, utanríkisráðherranum breska!

Loks hefur verið bent á að ég hafi látið hjá líða að nefna Árna Mathiesen og Þorgerði Katríni. Því er til að svara að Árni var í aftursætinu hjá Davíð sem er þó skárra en að vera í skottinu eins Samfylkingin. Þorgerður Katrín var svo eina ferðina enn á íþróttaleik í útlöndum og fer engum sögum af því að það hafi verið talað við hana.

Enginn hefur hins vegar nefnt Guðjón Friðriksson og Ólafs sögu helga sem hann hefur í smíðum. Einhvern veginn læðist að mér sá grunur að nú verið handritið lesið yfir og dregið úr mestu gífuryrðum forsetans um að Íslendingar væru öðrum þjóðum snjallari í viðskiptum og útrásarvíkingarnir verðugir arftakar Leifs heppna.

Fundur Vínlands varð held ég engum til skaða nema nokkrum skrælingjum, en margt bendir til þess að farið hafi líkt með útrásarvíkingunum okkar og Íkarusi sem flaug of nálægt sólinni með þeim afleiðingum að vængirnir brunnu og hann steyptist í sjóinn. Vonandi eru Íkarusar okkar Íslendingar syndir.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bara góður. Innilega sammála þér í flestu. Mest þó: Hver í fj... kaus Davíð? Getur enginn komið böndum yfir hann? Eru engar reglur um "vanrækslu í starfi vegna aðgerðaleysis" þegar seðlabankastjórar eiga í hlut?
Og getur einhver svarað einfaldri spurningu: Hvernig á þessi litla þjóð, sem þarf að kaupa nánast allar nauðsynjar frá útlöndum og er þar að auki veðsett upp fyrir haus í erlendri mynt, að lifa af næstu misseri? Hvað munu aðföngin, sem nú er verið að kaupa inn í evrum og dollurum, eiginlega kosta? Hvernig ætlar Davíð að létta landslýð þann barning? Hvenær verður verðtrygging lána tekin af?
Hjarta mitt grætur með unga fólkinu sem er og hefur verið að stofna heimili, eignast börn og bú. Og gamla fólkinu, burtséð frá því hvort það átti hlutabréf í Glitni eður ei.
Guð hjálpi þeim; ekki gera Davíð og co. það...

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir frábæran pistil Árni, en þú misskildir þetta örlítið - við vorum nefnilega ekki að eignast ríkisbanka heldur Seðlabanka og auðvitað ræður Davíð þar.

Nafnlaus sagði...

Ég myndi ekki taka það til mín. Þetta var snilldar pistill.

Það var hálf ógeðfellt að horfa á Davíð Oddsson svara spurningum fréttamannanna um hlutu sem ríkisstjórnin ætti að svara, greinilega ekki búinn að fatta að hann er ekki lengur aðal.

Nafnlaus sagði...

Veikingarhrina krónunnar, sem einkenndi seinni hluta september, hefur haldið áfram í dag og ekki sér enn fyrir endann á henni. Gengið veiktist enn um 2,6% í dag og hefur nú lækkað um tæp 27% á einum mánuði gagnvart erlendum gjaldmiðlum.

Seðlabankinn situr undir vaxandi ámæli vegna ástandsins sem skapast hefur. Greiningardeild Kaupþings spyr í Hálffimm fréttum í dag hvar Seðlabaninn sé.

Greiningardeildin segir seðlabanka annarra landa hafa dælt inn fé inn á markaði en Seðlabanki Íslands aðeins 40 milljörðum inná markað hér. Ummfjöllunin er Greiningar Kaupþings er eftirfarandi:

“Á síðustu vikum hafa fjármálastofnanir um víða veröld hamstrað allt það lausafé sem þau mögulega geta - sem hefur leitt til þess að gjaldeyrismarkaðir eru hættir að virka með eðlilegum hætti. Seðlabankar um víða veröld hafa brugðist við og dælt öllu því lausafé sem þeir mega inn á fjármálamarkaði – í innlendum og erlendum gjaldmiðlum.

Íslenskir bankar hafa fundið fyrir þessum þrengingum og hafa væntanlega brugðist með því að halda í hvern dollar og hverja evru. Vonir stóðu til að þegar komið væri fram yfir mánaðarmót og væntanlegur björgunarpakki frá bandarískum yfirvöldum næði fram að ganga færu gjaldeyrismarkaðir í eðlilegra horf.

Seðlabanki Íslands hefur frá áramótum einungis dælt nettó um 40 milljörðum króna inn á markaðinn. Þrátt fyrir aukin endurhverf viðskipti hefur stóraukin ríkis- og útgáfa innstæðubréfa hreinsað krónur aftur út úr kerfinu. Á sama tíma geisa einhverjir mestu stormar á fjármálamörkuðum í manna minnum.

Fram kemur í tilkynningu Seðlabankans um málefni Glitnis að tilgangur með inngripum ríkisins sé að tryggja stöðugleika í fjármálakerfinu. Ef markmiðið var að tryggja fjármálalegan stöðugleika hljóta hins vegar að vakna upp spurningar hvers vegna engar hliðaraðgerðir fylgdu með í kjölfarið fyrir fjármálakerfið. Seðlabankinn hefði t.d. getað aukið aðgang að lausafé í innlendri og erlendri mynt.

Nafnlaus sagði...

Áddni (les Barón Von Schnaevarr)!
Þú ert schnillingur ... SNILLINGUR!!!
Nei, en að öllu gamni slepptu þá ertu hvass, sehr scharf.
Gaman að lesa eithvað sem bragð er af og ekkert moð.
Tell it like it is and keep on keeping it real ...

Westside