þriðjudagur, 7. október 2008

Bannað að gagnrýna

Nú þegar efnahagur þjóðarinnar er á heljarþröm og þjóðin bíður kvíðin og vonar að fyrrverandi KGB maður komi Davíð Oddssyni til hjálpar með skínandi Rússagulli, sýnir Jón Kaldal, ritstjóri Fréttablaðsins bloggurum þann heiður að tileinka þeim forystugrein blaðsins.

Það er stutt í kennimanninn í Kaldal. Hokinn af lífsreynslu og snilldartilþrifum í blaðamennsku talar hann eins og sönnum ritstjóra og stórblaðamanni sæmir niður til þeirra sem leyfa sér að taka þátt í umræðunni á » ábyrgðarlausan hátt » . Látum vera að hann reyni að halda því fram að gagnrýni bloggara stafi af innibirgðri reiði og einhverjum öðrum sálrænum kvilllum.

En það fer blaðamönnum alltaf illa að heimta ábyrgð og auðmýkt af starfsbræðrum sínum og öðrum þeim sem kveða sér hljóðs. Í gær hló þjóðin að Gísla Marteini þegar hann bað þjóðina um að beygja sig í duftið. Á dauða mínum átti ég hins vegar von en ekki þessu frá Kalda kalda :

« Þótt forystumenn stjórnmála- og viðskiptalífsins séu kannski ekki að skapi allra þessa dagana, stendur upp á þjóðina að svara kalli þeirra um að sýna samstöðu. »

Það er makalaust að íslenskur ritstjóri skuli lýsa því yfir hann ætli að « svara kalli þeirra (ráðamanna) um að sýna samstöðu ».

Með því hefur hann lýst því yfir að hann og þá væntanlega Fréttablaðið ætli að víkja sér undan þeirri skyldu að sýna stjórnvöldum og öðrum valdhöfum aðhald, þangað til að einhverju óskilgreindu valdi þóknist að að segja að « nú sé tími til kominn. »

Sagan mun líka dæma íslenska fjölmiðla, ekki síst Fréttablaðið og 365 sem hafa amk. í viðskiptafréttum verið eins og klapplið og grúpíur mannanna sem sett hafa Ísland á hausinn.

Þarf að segja eitthvað meira um hvernig Jón Ásgeir lítur á fjölmiðla sína nú orðið en að hann skuli gera aðstoðarmann/upplýsingafulltrúa sinn að viðskiptafréttamanni Stöðvar 2 ? Finnst einhverjum það trúverðugt?

Ég tala ekki fyrir neinn annan en sjálfan mig en ég tek ekki þátt í þessu griðabandalagi þeirra sem í sameiningu bera ábyrgð á óförum Íslands.

13 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ekki ég heldur. Við verðum þá altént tvö í andófinu. Ég býst við fleirum...

Rögnvaldur sagði...

Það er undarlegt að láta okkur borga reikningin og láta svo eins og engin sé ábyrgur fyrir þeirri stöðu sem nú er uppi.
Nú er komið að því að stjórnmálamenn, fjölmiðlar og fjármálaspekulantar segi okkur hversvegna staðan er eins og hún er.

Nafnlaus sagði...

Coolfactor þessa svala gæja á Top Gear töflunni er minni er below freezing ...
Hefur nú aldrei fundist hann mikill fyrir (blaða)mann að sjá, hvað þá að skrif hans hafi verið einhver saga til næsta bæjar ...
Svo er það bara ...

Maður í Austurbænum

Nafnlaus sagði...

Manstu eftir Sveik góðadáta?

Hefði hann ekki samstaðið svipað og Kaldal?
Trúi maður á Austurríkiskeisara þá trúir maður á Austurríkiskeisara. Líka þegar hann er orðinn galinn. Líka þegar hann stendur berrassaður í vindstrengnum.

Annar maður í Austurbænum.

Nafnlaus sagði...

Árni þú hefur lög að mæla. Ef einhverjir eru naktir í umræðunni þá er það fjölmiðill Baugs 365 miðlar.

Kona í Vesturbænum.

Simmi sagði...

Kannski bara ábending að menn eigi að tala varlega. smbr http://andres.eyjan.is/?p=695 sem er ekkert annað en rakið FUD

Nafnlaus sagði...

Sammála þér Árni. Þeir sem starfa hjá 365 eru líka löngu búnir að gleyma um hvað óháð blaðamennska snýst en verja með kjafti og klóm þá sem borga launin þeirra. Sorglegt... Gat samt vart annað en hlegið þegar Sölvi hóf Ísland í dag á því að segja eitthvað á þessa leið: "þetta hrun, þessi atburðarás sem var sett af stað (væntanlega af seðlabanka) þegar Glitnismenn komu í "MESTA SAKLEYSI" á fund seðlabankastjóra! Sakleysi!?? Óborganlega grátbroslegt.

Nafnlaus sagði...

Já og Mogginn og allir hafa verið rosalega gagnrýnir á helstu eigendur Landsbankans og Árvakurs sem gefur út 24 stundir og Morgunblaðið. Það eru góðu Bjöggarnir sem ætla að láta okkur sitja uppi með Icesave án þess svo sem að veifa okkur hughreystandi úr glugga einkaþotunnar sinnar.

Unknown sagði...

Væri ekki sniðugt að Alþingismenn sýndu samstöðu með þjóðinni, snéru bökum saman og afnæmu eftirlaunaósósann?

Nafnlaus sagði...

Sammála þér Árni. Það er alveg nauðsynlegt að öll þessi atburðarás verði skoðuð vandlega ofan í kjölinn, helst af óvilhöllum sérfræðingum, og öllum steinum velt við. Annars molnar bara meira og meira úr siðferði þessarar þjóðar. Hún þarf ekki á því að halda.

Ég snýti mér í forakt yfir þeirri þöggun sem verið er að reyna að knýja fram; að frjáls umræða megi ekki fara fram, eða þá að hún þurfi að vera í þessum eða hinum farveginum. Dæmi um það eru orð Péturs Blöndal um skýran og skynsamlegan málflutning Kristjáns Guðlaugssonar í Silfri Egils s.l. sunnudag. Þar talaði yfirlýstur frjálshyggjupostuli eins og forhertur kremlverji í Rússíá forðum.

Nafnlaus sagði...

Ágæti Árni

Á þessum viðsjárverðu tímum þurfum við verulega á beittum og skörpum gagnrýnendum að halda. Mér finnst þú hafa allt sem til þarf; greind, gagnrýna hugsun, þekkingu, hugrekki og rithæfileika en...
mér finnst þú gjaldfella sjálfan þig með persónulegum og klisjulegum árásum á borð við þessa:

"Nú þegar efnahagur þjóðarinnar er á heljarþröm og þjóðin bíður kvíðin og vonar að fyrrverandi KGB maður komi Davíð Oddssyni til hjálpar með skínandi Rússagulli."

Davíð Oddssyni? Þú veist alveg að þetta er pirringur og almannaklisja sem ómerkir allt það góða sem þú hefur fram að færa. Þetta er ekki árás á þig... ég er að biðja þig að halda uppi merki hugsandi manna þannig að mark sé á takandi.
Hættum að tala um Davíð! (Nema einmitt hann sé umræðuefnið). Ég er enginn aðdáandi hans en fyrr má nú fyrr vera...
Keep up the good work!

Nafnlaus sagði...

Árni, hvers vegna talar þú niður til allra?

Tap sagði...

Þrátt fyrir ástandið þá er það skylda landsmanna og fjölmiðla að leita svara og krefjast rannsóknar. Það hentar víst betur að benda á útlönd og kvarta yfir því að vinalönd hafi ekki reynst vinir í raun - færa þannig reiði og ótta landsmanna yfir á eitthvað annað. Fjölmiðlar nú til dags, og ekki bara á Íslandi, valda svo oft vonbrigðum með rollulegum stuðningi við ráðamenn, fyrirtæki og fjármálageirann (eins og augljóst var þegar Bandaríska þingið tróð í gegn björgunaraðgerð Paulsons - almennilega umræðu var aðeins að finna á ýmsum vefsíðum og bloggi).

Og kannski er gott að fólk ranki við sér og muni að sem þegnar í lýðræði þá verði þeir að fylgjast með og nota atkvæði sitt til að refsa eða verðlauna. Það er ekki eins og menn hafi ekki séð þetta fyrir - danirnir voru nú krossfestir í íslenskum fjölmiðlum fyrir að benda á spilaborg íslenskra fjármála árið 2006 og 2007.

Já, samstaða er fín, en fyrir hvern og hvað?