mánudagur, 6. október 2008

Hvítt er svart í sirkus Geira smart

"Við í sirkus Geira smart
trúum því að hvítt sé svart..."
-- Spilverk þjóðanna


Fyrir viku þjóðnýttu Davið og Geir Glitni. Þeir gátu ekki staðist mátið að sparka af öllum kröftum lí iggjandi menn (Jón Ásgeir og félaga) sem gátu þó vissulega sjálfum sér um kennt hvernig komið var. Það var ekki fýsilegur kostur að lána ríkasta fólki Íslands 300 þúsunda á hvert mannsbarn en í stað þessa að knýja Baug og aðra hluthafa til að setja inn stórfé á móti var valin sú leið sem verst kæmi út fyrir eigendurnar. Sá galli var á gjöf Njarðar að með þessari aðgerð féll fjármálakerfið eins og spilaborg.

Breskur hagfræðiprófessor hefur sýnt mjög rækilega fram á hvernig þessi aðgerð gróf undan tiltrú á íslensku efnahagslífi erlendis; stórskaðaði aðra íslenska banka að ekki sé minnst á íslensku krónuna.

Davíð Oddson, seðlabankastjóri taldi ástandið svo alvarlegt að hann taldi líkur á að þjóðnýta þyrfti hina bankana lika og síðan mynda þjóðstjórn allra flokka. Davíð lætur eins og leki af ríkisstjórnarfundi sé málið. Lekinn skiptir engu: málið sýnir að Davíð skortir trúverðugleika til að gegna sínu starfi. Allir gruna hann um græsku.

Alla vikuna hafa ráðamenn fundað enda ástandið alvarlegt: algjör gjaldeyris- og fjármagnsskortur. Gengi krónunnar í frjálsu falli og annað hvert heimili á barmi gjaldþrots.

Eftir fundi alla helgina tilkynnir Geir H. Haarde að ”ekki sé þörf” á neinum aðgerðum.

Yfirlýsingar Geirs eru út og suður og engin glóra í aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Fundahöldin út af fyrir sig eru yfirlýsing um að stórkostleg hætta stafi að íslensku efnahagslífi og sama máli gegnir um yfirlýsingar Seðlabankastjóra. Ef niðurstaðan er sú að ekkert verði gert; spyr maður sig, til hvers var þessi sýning? Margoft var boðað að niðurstaða væri á næsta leyti. Þegar hún kemur ekki hljóta það að vera vonbrigði jafnt fyrir markaðinn sem almenning.

Geir H. Haarde virðist ekki hafa dug í sér til þess að grípa til nauðsynlegra efnahagsaðgerða og annara aðgerða sem nauðsynlegar eru til að endurvekja tiltrú á íslensku efnahagslífi: að reka Seðlabankastjórann sem enginn treystir og lýsa yfir að Ísland muni sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Vandi Íslendinga er meðal annars sá að við höfum gráan skrifstofumann þar sem við þurfum vígreifan foringja, en við höfum slagsmálahunda þar sem við þurfum mannasætta. Með vígamennina Ólaf Ragnar Grímsson og Davíð Oddsson á þeim stöðum þar sem sitja ætti vammlausir sómamenn á friðarstóli, þakkar maður bara Guði fyrir að Sigurður G. Guðjónsson skuli ekki vera biskup. Að biskupnum frátöldum höfum við menn sem gætu komið af stað rifrildi í tómu herbergi þar sem vera ættu menn sem bæru klæði á vopnin og væru öðrum fyrirmynd: þrautgóðir á raunastundu.

Geir H. Haarde hefur allaveg sýnt svo ekki verður um villst að ekkert er að marka yfirlýsingar hans; hann segir ósatt um efni funda og hefur tapað trúverðugleika sínum. Hann getur ekki slitið sig frá því að vera varaformaður Davíðs Oddssonar. Slíti hann sig ekki frá forvera sínum á hann ekkert erindi í forystu í íslenskum stjórnmálum á háskalegum tíma.

Íslendingar trúa því ekki lengur að hvítt sé svart í Sirkus Geira smart.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Saell Arni,

En hver kemur tha i stadinn?

Ingibjorg Solrun sem sokkti Reykavik i skuldafen og sveik loford um ad sitja ut kjortimabil sem borgarstjori?

Steingrimur J sem vill alla aftur i torfkofa?

Gudni sterki sem tok thatt i vitleysunni i tid Framsoknar og Ihalds i rikisstjorn.

Thad tekur thvi ekki ad minnast a Frjalslynda.

Ekki er neitt truverdugt leidtoga efni medal unglida Samfylkingar og Sjalfstaedisflokks heldur.

Endum vid ekki bara aftur sem hluti af Danaveldi eda Noregi?

Kv,

Sveinn

Unknown sagði...

Þetta er því miður rétt lesið í spilin hjá þér Árni. Seðlabankastjórinn fer sínu fram og hefur ítrekað staðfest vanhæfni sína í starfi. Forsætisráðherra er brjóstumkennanlegur, en enga á hann samúðina skilið því getuleysi hans bitnar á okkur hinum. En, það er nú sagt, að hver þjóð fái þá stjórn, sem hún á skilið. Eitthvað mikið hljótum við Íslendingar að hafa á samviskunni.