mánudagur, 6. október 2008

Geir biður okkur að passa börnin

Ræða Geirs svaraði engum spurningum. Hann er búinn að fara í marga í hringi og fátt bendir til þess að hann valdi hlutverki sínu. Hvatningar hans um að við tölum við börnin okkar eru góðra gjalda verðar en þær leysa engan vanda og leysa hann ekki undan ábyrgð.

Geir lýsti því hvernig bankakerfið var orðið mörgum sinnum (8-10 sinnum) stærra en þjóðarbúið. Var hann að uppgötva þetta núna? Þetta hefur einmitt verið kjarninn í málflutningi evru-sinna að vöxtur bankakerfisins kallaði á bakhjarl í evrópska myntbandalaginu.

Aðalatriðið í málflutningi okkar, því ég er Evrópusinni í húð og hár, er að Íslendingum beri að vera í sem nánustu tengslum við bræðraríki okkar, ekki aðeins á Norðurlöndum heldur í Evrópu allri.

Þegar leitað var til vinaríkja, virðist ekki einasta þeirra hafa orðið við beiðninni. Það eiga allir í erfiðleikum og hvers vegna á að bæta á vandann með því að koma Íslendingum til bjargar sem þar að auki eru annálaðir glæframenn í fjármálum?

Í þess stað hafa ráðamenn haft uppi gífuryrði um Evrópusambandið, hatast við Dani og sakað þá um nýlendustefnu þegar þeir hafa bent á veilurnar í fjármálalífi okkar. En það voru ekki Danir sem lágu í því heldur við Íslendingar, sem nú stöndum uppi skítblankir og einanagraðir.

Ekki vegna þess að vondir menn úti í heimi vildu okkur illt. Geir og forverar hans hafa hafnað ítrekað tilboðum Evrópusambandsins um aðild "og klæðskerasmíðaðar lausnir" eins og Olli Rehn orðaði það við mig í Evrópumyndinni sem ekki mátti sýna á RÚV.

Þetta er það hlutskipti sem Sjálfstæðisflokkurinn valdi okkur Íslendingum. Þetta eru þau örlög sem útrásarmennirnir (og viðhlæjandi þeirra á Bessastöðum) hafi skapað okkur

Heldur Geir að hann komist upp með að segja almenningi að éta kökur og passa börnin sín?

Það verður einhver að taka ábyrgð. Og það verður að taka ákvörðun sem verður ekki erfiði fyrir neinn nema Geir, Björn og Hannes. Og formanninn. Og þá á ég ekki við Geir smart sem segir að hvítt sé svart.

PS Fyrr í dag vék ég að Sigurði G. Guðjónssyni í pistli. Nú berast þær fréttir að Sigurður hafi hnigið niður á fundi og fengið vægt hjartaáfall. Sigurður er íþróttamaður góður og hefur klifið Kilimanjaro og ég veit að hann mun ná sér skjótt. Sendi honum mínar bestu kveðjur. Og hann ætti að geta huggað sig við það að enginn verður óbarinn biskup!

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það hefði líka verið gott ef hann hefði sagt hvað við ættum að segja við börnin.

Nafnlaus sagði...

Þú hafðir rétt fyrir þér. Það voru tvær lausnir: að ganga í EB eða slíta á alþjóðaviðskipti í einangrunarstefnu. Þeir völdu seinni kostinn, sem hefur einn meðmælenda (Davíð Oddson).

Amen.

Oddur Ólafsson sagði...

Ekki vildi Samfylkingin mikið ræða það fyrir síðustu kosningar að Bankarnir væru orðnir of stórir fyrir hagkerfið.

Samfó skuldar Ögmundi afsökunarbeiðni.

Unknown sagði...

Árni, þetta kemur allt fram í frumvarpinu sem verið er að ræða núna. Átti hann að segja frá því þegar ekki var einu sinni búið að ræða það í fyrstu umræðu?

Nafnlaus sagði...

http://www.cnbc.com/id/26986243

Nafnlaus sagði...

Á hvaða plánetu býrð þú eiginlega?

Seðlabanki Evrópu hefur ekki leyfi til þess að veita þrautavaralán.

ESB hefur ekki getað komið sér saman um neinskonar sameiginlegt viðbragð við krísunni. Það þýðir að hver þjóð þarf að sjá um sig. Þeir eru með sameiginlega mynt en geta ekki komið sér saman um sameiginlegt svar við krísunni! Loksins þegar ESB raunverulega þarf að samræma eitthvað þá vilja þeir það ekki.

Það getur líka þítt að margar þjóðir eigi ekki annan kost en að brjóta gegn öllum skilmálum myntbandalagsins í tilraunum sínum til að komast
úr vandanum. Þá er myntbandalagið úr sögunni.

Nafnlaus sagði...

Bíddu nú við. Gekk Sigurður G. á Kilmanjaro? Var hann ekki borinn þangað af Róberti Marshall?