mánudagur, 6. október 2008

Þetta komst Glitnir upp með

Það er lærdómsríkt að horfa á viðtal NRK, norska ríkissjónvarpsins við Má Másson talsmann Glitnis. Hann harðneitaði að svara fullkomlega eðlilegum spurningum um bónusgreiðslur til ráðamanna bankans og beit svo höfuðið af skömmunni með því að heimta að atriðið yrði klippt út úr fréttinni.

Spurningin sem hlýtur að vakna hjá almennum áhorfenda er sú hvort þetta sé framkoma sem hann hafi vanist að komast upp með gagnvart íslenskum sjónvarps- og blaðamönnum. Ekki síst kannski vegna þess að aðaleigandi bankans á jú 365 og þar með Fréttablaðið, Stöð 2 og Bylgjuna líka.

Sá sem þetta ritar getur að minnsta kosti staðfest að eitt sinn er hann tók viðtal við yfirmann Greiningardeildar Íslandsbanka eins og hann hét þá, kom sá ágæti maður út af skrifstofu þáverandi bankastjóra og hann og upplýsingafulltrúi fyrirtækisins lögðu honum lokalínurnar fyrir viðtalið í áheyrn fréttmanns.

Ég sé enn eftir því að hafa ekki gert sérstaka frétt um það hvernig stjórnendur bankans tróðu fótum svokallaða Kínamúra sem eiga að vera á milli greiningardeildar og bankastjórnar að ekki sé talað um áróðursmeistara.

Skýrt skal tekið fram að enginn þessara starfa lengur hjá Glitni en tvö þau síðastnefndu fengu gullin handtök og kauprétt á hlutabréfum fyrir hundruð milljóna króna. Greiningadeild Glitnis hefur hins vegar lengi stundað einhverja undarlegustu og skammsýnustu greiningu á íslensku efnahagslífi sem um getur. Mjög í takt við annað starf bankans og skylda engan undra. Eftir höfðinu dansa limirnir.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ætli þessi ofurlaun og samningar hafi ekki verið nauðsynlegir til að fá þetta fólk til að gera eins og eigendur vildu sem vafalítið hefur oft verið á vægast sagt gráu svæði. Svo koma menn og tala um bankarán!!! Það fannst mér álíka gáfulegt og þegar Guðmundur í Byrginu hélt því fram að honum hefði verið nauðgað. Hlægilegt.

Nafnlaus sagði...

Fréttin er horfin nú í kvöld.

Nafnlaus sagði...

Varðandi viðtal norska blaðamannsins við Má Másson.
Í fyrsta lagi þá spyr maður sig að því hvers vegna blaðamaðurinn talaði ekki við einn af eigendum fyrirtækisins um það hvort þeir væru að taka peninga út úr fyrirtækinu í stað þess að ræða við almannatengslafulltrúann. Er það ekki frekar ódýrt? Af hverju var ekki talað við Þorstein Má? Var blaðamanni kannski nákvæmlega sama um allt svo fremi sem Silvíu-Nætur-attitjúdið hvað Íslendingar séu heimskir kæmist til skila. Mér sýnist á þessu viðtali að Már hafi verið algjörlega óundirbúinn fyrir þá yfirheyrslu og ásakanir sem blaðamaðurinn viðhafði. Að sjálfsögðu bað hann um að það yrði slökkt á myndavélinni þegar hann var allt í einu staddur í yfirheyrsluviðtali í æsifréttastíl. Það var hins vegar greinilega höfuðtilgangur blaðamannsins að láta viðmælanda sinn líta eins illa út og unnt var, enda er vinnsla allrar fréttarinnar gerð í æsifréttastíl um hvað Íslendingar séu heimskar eyðsluklær, talað við unglinga sem neytendur, Óli Björn blaðrar eitthvað um hvað við séum vitlaus á e-u kaffihúsi og svo er rætt við geðlækni, enda erum við geðveik, væntanlega. Alveg finnst mér makalaust hvað við Íslendingar erum alltaf til í að tala sjálf okkur niður við útlenska plebba-hvar er sjálfsvirðingin? Ég held að Norðmenn gætu lært betri fréttamennsku af okkur Íslendingum, þeir mundu samt örugglega ekki borga fyrir þá kennslu, þessir nirflar.