fimmtudagur, 2. október 2008

Besti vinur aðal og vopnið sem hverfur

Ég verð að viðurkenna að mér brá í brún þegar Sindri Sindrason hætti að vera aðstoðarmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og gerðist viðskiptafréttamaður Stöðvar 2. En kannski var það ekkert ólíkt því þegar blaðafulltrúi Halldórs Ásgrímssonar settist í fréttastjórastól sömu stöðvar. En ég hugsaði með mér veldur hver á heldur.

Stöð 2 virðist hins vegar hafa fallið rækilega á prófinu undanfarna daga fyrst með Drottningarviðtali allra Drottningarviðtala sem Sindri tók við Jón Ásgeir og síðan með viðtali þar sem ráðist var á Agnesi Bragadóttur.

Ekki það að slík viðtöl séu neitt nýnæmi. Ég minnist þess að þegar Gísli Marteinn ræddi við Davíð Oddsson og Kjartan Gunnarsson hélt ég í bæði skipti að viðtalið myndi enda með kossaflensi.

En þetta voru hins vegar dægurmálatengd viðtöl, en ekki fréttaviðtöl og þótt brotavilji Gísla Marteins hafi verið einlægur, er hlutur Sindra sínu verri.

Það ætti hver maður að sjá í hendi sér að besti vinur aðal á ekki að taka aðal-viðtalið. Hann hefur hvorki hlutlægni né trúverðugleika til þess.

Ágætur fyrrverandi yfirmaður minn á ljósvakamiðli sagði mér eitt sinn að það ætti enginn að velkjast í vafa um hverjar hvatir auðmanna sem eignuðust fjölmiðla væru. Þeir sæu í hillingum þvílíkt vopn fjölmiðlarnir væru. Hins vegar áttuðu þeir flestir á því fyrr en síðar að það vopn hyrfi í höndunum á þeim um leið og þeir reyndu að beita því.

Ég held að það sé nokkuð til í þessu.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sindri talaði Jón Ásgeir.
Sölvi talaði við Agnesi.
Þeir eru ekki sami maðurinn.
Talaði þessi fyrrverandi yfirmaður þinn ekkert um að kanna staðreyndir?

Unknown sagði...

Það er hægt að taka undir þetta hjá þér Árni, að heppilegra hefði verið að láta annan mann taka þetta viðtal í ljósi fyrri tegsla Sindra og Jóns Ásgeirs. Þetta var þó engan veginn neitt í líkingu við það, þegar dóttir oddvita sjálfstæðismanna í borgastjórn þjarmaði að, sem fyrirspyrjandi í Kastljósþætti, þáverandi borgarstjóra R-listans.

Ég get hins vegar ekki orða bundist yfir framgöngu Agnesar Bragadóttur í í Íslandi í dag í gærkvöldi. Hún er vinnuveitendum sínum til skammar og satt best að segja átti ég von á meiri breytingum til hins betra við ritstjóraskipti á Mogga.

Það er eins og hver annar brandari, að AB skuli dregin fram sem blaðamaður og hlutlaus þjóðfélagsrýnandi í svona fréttaþætti. Þeir, sem hafa vondan málstað að verja grípa hins vegar auðvitað oft til hávaða og fúkyrða til að breiða yfir málefnaþurrðina.

Nafnlaus sagði...

Sindri og Sölvi bera báðir nöfn sem byrja á s-i. Þeir eru líka báðir ljóshærðir. En það þýðir samt ekki að þeir séu sami maðurinn Árni minn.

Nafnlaus sagði...

En þeir gætu alveg verið og mega alveg mín vegna, að sársaukalausu, ... vera það!

Felix Leiter

Nafnlaus sagði...

Ljóshærðir, ungir, sætir strákar. Nöfnin byrja á S og báðir vita þeir lítið og eru ekki upp á marga fréttamanna-fiska. Auðvelt að bræða saman. Ég hélt líka að það hefði bara einn tekið þessi viðtöl.

Árni Snævarr sagði...

Ég er búinn að leiðrétta rugling minn og ber við elli, sjón- og heyrnarleysi. Bið þá SS-menn afsökunar - en ég hygg að aðalatriði málsins liggi ljós fyrir - það er vægast sagt óheppilegt fyrir fjölmiðil að fyrrverandi aðstoðarmaður taki fréttaviðtal við forstjórann.
Og síðast en ekki síst óheppilegt fyrir forstjórann sjálfan. Furðulegt að Sindri skuli ekki sjá þetta sjálfur og biðjast undan að taka viðtalið. Kv. Árni

Nafnlaus sagði...

Mér mátti ekkert gera til að hefta umsvif auðmanna. Samfylkingin, forseti Íslands og Baugur sáu til þess að hér mátti ekki setja fjölmiðlalög.
Nú stefnir í að ríkasti maður þjóðarinnar eigi öll dagblöðin.
Er eitthvað undarlegt við að málum skuli vera svona komið og tekin séu drottingarviðtöl við JÁJ í fjölmiðlum sem hann á (ennþá)?

Nafnlaus sagði...

Ráðist á Agnesi Bragadóttur???

Á annarri bloggsíðu hér á Eyjunni er kvartað hástöfum (réttilega) undan Moggakrákunni og yfirþyrmandi gaggi hennar í þessu viðtali. Og undrast hvers vegna hún fékk að vaða uppi. (Sjá Pétur sem telur Sölva vera að koma sér í mjúkinn hjá Bjögga með því að fara um hana silkihönskum! Jæja... einmitt.) Aðrir velta því furðu lostnir fyrir sér að hún skuli titla sig blaðamann - að hún skuli sem slík ekki hafa hinn minnsta áhuga á að hlusta á Sigurð G. sem sat þessa fundi sem allt snýst um heldur urlast og grípa frammí ef minnst er á Davíð öðruvísi en undir hljómi fuglasöngur, hafandi eftir fúllyndar og óviðurkvæmilegar dylgjur Bíbís frænda um Baugsmiðlana. (Að kollegar hennar á öðrum miðlum séu þá leiguþý?) Common, Árni. Menn hafa alla tíð haft einhverjar furðulegar hugmyndir um ágæti Agnesar sem blaðamanns. Sem hafa dæmt sig sem órar t.d. með dagbókarfærslum Matta. Hún er málpípa en ekki blaðamaður. Og þessu reyndir hún, skv. Styrmislínunni sem maður var að vona að heyrði fortíðinni til, að klína á aðra blaðamenn af því hún þekkir ekkert annað og telur alla starfa á þennan veg. Svo er ekki.

Þessar samsæriskenningar, þetta leiðindapíp og staðhæfingar um blaðamenn sem einhvers konar málaliða er ömurlega þreytandi söngur - en óþolandi frá gömlum blaðamanni eins og þér, Árni minn. Eða ertu þá með öðrum orðum að segja að þú hafir ávallt haft hagsmuni eigenda þeirra fjölmiðla sem þú starfaðir við að leiðarljósi?

Bestu kveðjur,
Jakob