Það fór aldrei svo að Kryddsíld, Stöðvar 2, leiðinlegasti sjónvarpsþáttur landsins, yrði ekki fréttnæmur. Á meðan ég var á Stöð 2 var þáttturinn gagnrýndur fyrir óheyrilegan kostnað og naut lítillar sem engrar hylli meðal áhorfenda og enn minna álits fagmanna.
Sjálfum fannst mér elítisminn oft keyra úr hófi fram og fannst stundum að yfirmenn mínir væru að setja sig á sama stall og viðmælendurnir: formenn stjórnmálaflokkanna.
Ef Kryddsíldar-tildrið hefur einhvern tíman átt illa við er það einmitt núna. Síðustu fréttir af Stöð 2 eru brottrekstrar starfsmanna og blankheit eigenda. Þarf það að koma á óvart að lúxúsboð þar sem eingöngu pólítisku toppunum í þjóðfélaginu er boðið, skyldi verða skotmark mótmælenda?
Þurfti virkilega að halda partýið á Hótel Borg?
Er ekki með upplegginu verið að taka að vissu leyti afstöðu til deilna í þjófélaginu? Er einhver furða að ungt fólk í dag líti svo á að það sé sami rassinn undir þeim öllum stjórnmálamönnum, útrásarvíkingum og fjölmiðlamönnum?
Sigmundur Ernir og Edda Andrésdóttir virðast ekki hafa áttað sig á því að víglínan í íslenskum stjórnmálum, er ekki nema að hluta til á milli stjórnmálaflokkanna, á milli hægri og vinstri, heldur á milli elítunnar annars vegar og fólksins hins vegar.
Það var farið að slá í kryddsíldina. Big time.
Sigmundi Erni Rúnarssynni hefur hins vegar ævinlega verið í essinu sínu í Krýddsíldinni og þótt hún bragðgóð í meira lagi. Það eru jú ekki mörg tækifæri fyrir fjölmiðlamenn að sitja til borðs með ráðamönnum og fá sér bjór og snafs.
Vísir.is sem til skamms tíma var undir stjórn Sigmundar hefur eftir honum dramatískar lýsingar á atburðum dagsins og tíundar réttláta reiði hans í garð mótmælenda og skrílsláta þeirra. Gott ef tjáningarfrelsið var ekki fótum troðið.
Vafalaust mun Sigmundur síðan segja fréttir af þessu á Stöð 2, og sjálfsagt verða birta myndir af glóðaraugum og lemstruðum starfsmönnum. Jafnvel verður skotið inn viðtalsbútum við Sigmund jálfan. Og visir.is mun ekki láta sitt eftir liggja.
Vísir.is hefur einmitt eftir Sigmundi í dag að góðvinur okkar beggja og gamall samstarfsmaður, Egill Helgason hafi horft á hinn ánægðasti og gott ef ekki ískrað í honum af kátínu.
„Það var brotist inn og rifið niður hurðir þannig að útsendingu var hætt. Á meðan stóðu ýmsir menn fyrir utan og það hlakkaði í þeim. Þar á meðal einn þekktur spjallstjórnandi hjá Ríkisútvarpinu," segir Sigmundur við Vísi.
(Tek fram að ég er hugsanlega “ýmsir menn” því ég labbaði yfir Austurvöll þegar nokkuð var liðið á atburðarásina.)
Egill bregst hinn versti við þegar visir.is ber þetta upp á hann og kallar blaðamann visis.is öllum illum nöfnum, þar á meðal þetta: “Þú ert afskaplega óvandaður fjölmiðlamaður - lélegur.”
Að sögn Egils, þvertekur Sigmundur Ernir fyrir að hafa látið þessi orð falla við sinn eigin fjölmiðil.
Hann hlýtur þar með að taka undir orð Egils um að visir.is sé “ómerkilegur vefur,” og blaðamaður hans sé “afskaplegar óvandaður fjölmiðlamaður.”
Það er ekki gott afspurnar ef fjömiðill getur ekki einu sinni haft rétt eftir yfirmanni á eigin stassjón.
Ekki er það heldur gott ef Sigmundur Ernir hefur sagt þetta um sinn ágæta kollega Egil Helgason. Dómgreindarlaust og hallærislegt.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, fréttastjóri Stöðvarinar verður að upplýsa okkur um hið rétta í málinu. Trúverðugleikinn er í veði. Eina ferðina enn.
Gleðilegt ár!
miðvikudagur, 31. desember 2008
Skemmtun elítunnar hleypt upp
fimmtudagur, 25. desember 2008
Fram og aftur blindgötuna með Birni Bjarna
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra er slyngur pólitískur penni. Í skrifum hans, einkanlega í hið ágæta tímarit Þjóðmál, lítur hann á málefni líðandi stundar útfrá mjög víðu sjónarhorni og lætur satt að segja gamninn geisa. Það er góðra gjalda vert og raunar hittar margar athugasemdir Björns í mark, sumar eru frumlegar, aðrar skemmtilega meinfýsnar.
Áður en lengra er haldið vil ég taka fram að það er til fyrirmyndar hversu duglegur Björn er í sínum daglegu skrifum. Hann hefur sterkar skoðanir og lætur þær óspart í ljós. Enginn getur kvartað yfir því að maður viti ekki hvar maður hefur Björn.
Í upphafi ritgerðar sinnar lýsir Björn yfir ákveðnum tilgangi að góðum fræðilegum sið og hann gerir mjög skarplegar athugasemdir um eitt og annað. Aðferð hans eins og svo oft áður er það sem nú er kallað að kópí-peista og birtir glefsur úr samfélagsrýni af vefnum og úr dagblöðum.
Ég er satt að segja ekki mikill aðdáandi franska rithöfundarins og heimspekingsins Jean-Paul Sartre en þó eru æskuminningar hans um að læra að lesa og skrifa stórskemmtilegar. Þar lýsti hann því hvernig hann samdi sína fyrstu skáldsögu barn að aldri. Hann skrifaði nokkurra lína frásögn en staðnæmdist síðan við eitthvað nafnorð. Ef það var orðið krókódíll ritaði hann upp færsluna um krókódíl úr Larousse, frönsku alfræðiorðabókinni.
Útkoman varð algjört rugl þótt alfræðimolarnir og athugasemdirnar um þá væru hver um sig athyglisverðir.
Í þessa gryfju virðist manni Björn hafa fallið því útkoman er við fyrstu sýn samhengislaust rugl.
En þegar betur er að gáð læðist að manni sá grunur að Björn sé vitandi vits fela slóð sína þegar hann glímir við sinn vonda málstað. Hann vilji hafa borð fyrir báru og gefi meðvitað færi á ólíkum túlkunum. Davíð Oddsson, hefur löngum verið átrúnaðargoð Björns og margur molinn hrokkið af gnægtaborði þess ágæta húmorista til dómsmálaráðherrans skapstirða.
Fyrst notaði Davíð hnéaðferðina í Matthilidi, síðan smörklípuaðferðina og loks Seðlabankaaðferðina sem var að hjúpa hugsunina niðdimmri þoku.
Björn veit að hann glímir við erfiðan málstað. Hann á bágt með að losna undan fargi fortíðarinnar og framtíðin er óljós. Þess vegna hvílir Seðlabankaþokan yfir skrifum hans.
Maður er því tilneyddur til að nota aðferðir sem minna á Kremlarlógíuna gömlu til að rýna í skrif Björns.
Og hefst nú lesturinn.
Ég er sammála Birni þegar hann rekur og gagnrýnir þjóðrembu útrásarinnar og auðvitað hefur Björn hárrétt fyrir sér þegar hann tætir í sig ræður og rit Ólafs Ragnars Grímssonar sem telur okkur jafnoka Feneyjinga og Flórensbúa á Endurreisnartímanum svo fátt eitt sé nefnt.
Hann vitnar sérstaklega til þeirra orða forseta Íslands að ein ástæða þess að Íslendingar stæðu öðrum þjóðum framar, væri sú að þeir þorðu þegar aðrir hikuðu, því: “Við vitum líka að ætíð er hægt að hverfa heim til Íslands ef illa fer í leiðangrinum og eiga hér hið besta líf.”
Einmitt.
Einhver hefði svarað Ólafi Ragnari, “étt ' ann sjálfur” en ekki hinn prúði Björn sem lætur sér nægja að segja að þetta séu nú hin “örgustu öfugmæli.”
So far so good hjá Birni.
Næst tínir hann til úr samfélagsumræðunni grein eftir Sumarliða Ísleifsson, sagnfræðing, annan gagnrýnanda forsetans sem telur að við þurfum að byggja í vaxandi mæli á samfélagslegri ábyrgð og náinni samvinnu þjóða. “Þá er ekki afarasælast að leggja áherslu á yfirburði, sérstöðu og hreinleika,” hefur Björn eftir Sumarliða.
Heyr, heyr segi ég, en nú skyndilega beygir Björn af þeirri leið sem manni sýndist hann vera að stefna í með því að stilla upp þessum andstæðu pólum.
Það er vissulega stundum erfitt að henda reiður á hugsun Björns. Í hvert skipti sem maður þykist sjá rauðan þráð, hendir hann inn alls ótengdum tilvitnunum eins og heimsósómaskrifum Ólafs rithöfundar Gunnarssonar og hugleiðingum Percy Westerlund, sendiherra sem enginn les.
Þetta leiðir nefnilega ekki neitt en í lokin kemur hann síðan aftur að aðalatriðinu.
Hann segir að þótt í EES hafi falist nánari samvinna við aðrar þjóðir en nokkru sinni fyrr, hafi þetta með einhverjum hætti (sem hann útskýrir ekki vel) ýtt undir ofurtrú Íslendinga á sjálfum sér.
Björn segir að krafan um inngöngu Íslands í ESB byggist ekki á uppgjöri við fjórfrelsið sem felst í EES, heldur vantrú á að við getum staðið á eigin fótum; “skapa þurfi þjóðinni nýtt skjól.”
Hér þarf að grípa til textagreiningar. Er Björn að segja að í raun séu tveir möguleikar? Uppgjör við fjórfrelsið; les úrsögn úr EES eða “nýtt skjól”: innganga í ESB?
Þetta er vissulega ekki mjög skýrt.
Fyrr í greininni hafði Björn raunar bent á að eftir bankahrunið hefði “enginn lagt til að EES-samningnum verði sagt upp.” Jafnframt sagði hann að færa mætti fyrir því gild rök að “aðild Íslands að EES án samstarfs við ESB í gjaldeyrismálum hafi ráðið miklu um getuleysi íslenska fjármálakerfisins andspænis ofvexti bankanna.”
Er hann ekki þar með að viðurkenna að “skapa þurfi þjóðinni nýtt skjól?”
Björn svarar því fyrr í ritgerðinni með því að ekki sé hægt að útiloka einhliða upptöku evru á þeim forsendum að þeir “vilja þetta ekki í Brussel.”
En í niðurstöðunum kemst hann síðan að þeirri niðurstöðu að með ESB-aðild værum við að “þrengja svigrúm okkar á of mörgum sviðum” sem hefðu ekkert með það að gera að hafa "hemil á áhættufíkn auðmanna.”
Þetta eru athyglisverð og óvænt rök, því hver hefur haldið því fram að aðild að ESB hefði eitthvað með þetta að gera? Þetta hefur ætíð verið á valdi ríkisstjórna Íslands sem Björn hefur setið í frá 1995 og stutt frá upphafi EES. Enn á ný lætur Björn eins og hann sé fræðimaður sem skrifi tímaritsgreinar stöku sinnum en hafi engin áhrif haft á að móta þann samtíma og stefnu sem hann gagnrýnir.
Ekki hef ég að minnsta kosti haldið þessu fram. Geir H. Haarde, forsætisráðherra og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherrar hafa báðir svarið af sér alla ábyrgð á regluverki fjármálakerfisins því þetta kæmi allt frá ESB!
Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar með Björn í stuðningsliði sínu seldi hins vegar vildarvinum helmingaskiptaflokkanna bankana á spottprís. Og stjórnvöld, fjármálaeftirlit og seðlabanki létu undir höfuð leggjast að hamla vexti bankanna með því að hækka bindiskyldu, neita þeim um að stofna útibú erlendis með innistæðuábyrgð íslenska ríkisins (amk. eftir Icesave) og setja reglugerð til að takmarka útgáfu jöklabréfa.
EES- aðild eða ESB verður með engu móti kennt um þessi atriði.
EES felur nefnilega í sér að við höfum tekið verulegan hluta löggjafar ESB (75 prósent segir Olli Rehn) sem einhverju máli skiptir, að sjávarútvegi og landbúnaði slepptum. Og meira að segja á þeim vettvangi förum við að mörgu leyti eftir ESB löggjöf jafnvel í viðskiptum við þriðju ríki.
Niðurstaða Björns er síðan þessi:
“Þjóðin hefur þegar fengið að súpa nægilega mikið seyðið af þeirri framgöngu allri, þótt henni séu ekki einnnig settir úrslitakostir varðandi aðild að Evrópusambandinu.”
Hverjir eru þeir úrslitakostir? Að við neyðumst til að ganga í ESB (sem við erum hvort sem er að mestu komin í) út af ónýtu krónunni og okurvöxtunum?
Það er enginn að setja Íslandi neina úrslitakosti.
Í skýrslu nefndar undir forsæti hans sjálfs var komist að þeirri niðurstöðu að sáralitlar líkur væru til þess að aðrar þjóðir fengju veiðihemildir í íslenskri lögsögu, margt benti til þess að á komandi árum nyti íslenskur landbúnaður “meira skjóls innan en utan ESB,” miklir möguleikar væru á byggðastyrkjum, kostnaður við aðild væri hverfandi og svo mætti lengi telja.
Aðild að ESB eru engir afarkostir: Við höfum tilboð um “klæðskerasaumaðar” lausnir eins og Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB orðar það, til að geta gengið reynslunni ríkari í það sem ég kalla efnahagslegt og pólitiskt varnarbandalag evrópskra lýðræðisríkja.
Nýr gjaldmiðill með bakhjarl í Seðlabanka Evrópu kemur í kaupbæti. Innganga í ESB og upptaka evru gæfi svo vissa en takmarkaða möguleika á að hafa áhrif á peningastefnuna í stað þess að kasta fullveldi á þessu sviði algjörlega fyrir róða og afhenda Evrópubankanum í Frankfurt.
Með ESB og evru fylgdu svo að vextir myndu lækka til samræmis við evrusvæðið og verðlag, sérstaklega matvælaverð, myndi væntanlega snarlækka.
Munurinn á því sem stóð Írum og evrulausum Ungverjum til boða en ekki Íslendingum í bankakreppunni er svo loks sláandi
Í ljósi þessa er undarlegt hvernig jafn gáfaður og gegn maður og Björn sveiflast svo til og frá í einni og sömu ritgerð. Hann segist vera að skrifa gegn ES B en virðist þó í rauninni vera óafvitandi (?) að skrifa gegn EES. Á sama tíma segir hann að enginn hafi dregið þá ályktun að segja þeim samningi upp í kjölfar bankahruns!!
En Björn er ekki bara gáfumaður, hann er stjórnmálamaður. Hann vill hafa vaðið fyrir neðan sig og áttar sig fyllilega á því að staða hans sem ESB andstæðings er mjög þröng.
Lykilatriðið í grein Björns er nefnilega orðið “úrslitakostir.” Fyrr í ritgerðinni hafði hann nefnilega gefið vörn krónunnar upp á bátinn, þannig að honum virðist nægja til að réttlæta sinnaskipti í Evrópumálum, að rætt verði við Evrópusambandið um einhliða upptöku evru.
Ég tel að slíkar viðræður séu tímaeyðsla, ef þær snérust eingöngu um leyfi til að taka einhliða upp Evru, án þess að nokkuð annað hengi á spítunni.
Slíkar viðræður gætu hins vegar hugsanlega (og vonandi) leitt til þess að í ljósi sérstakra aðstæðna, EES aðildar og möguleikans sem Björn nefnir á gjaldeyrissamstarfi ESB við þriðju ríki, muni ESB láta gott heita að Ísland þjófstarti í upptöku evru – að vissum skilyrðum uppfylltum.
Eitt þeirra væri að sjálfsögðu að við lýstum yfir aðild að Evrópusambandinu eða hefðum þegar samið um inngöngu en fengjum einhvern afslátt í aðlögun.
Átrúnaðargoð Björns, húmoristinn Davíð Oddsson var á sokkabandsárum sínum í Spaugstofu síns tíma undir nafninu Matthildi í útvarpi allra landsmanna. Þar gerði hann ásamt félögum sínum Þórarni og Hrafni, grín að ístöðuleysi og hentistefnu Framsóknarmanna í hermálinu.
Í einum söngtextanum sem vafalaust átti að koma úr munni Óla Jó og félaga, var talað um að ”í huga mínum/rennur kaninn inn og út/ upp og niður og í gegnum sjálfan sig/ í hnút.”
Við þurfum einhvern veginn að hjálpa mönnum á borð við Björn við að leysa evrópsku hnútana sem hafa niðurnjörfað hugsun þeirra.
Kannski eru þetta þó eftir allt saman öfugmælavísur hjá Birni, til þess eins fallnar að stika leiðina út úr heimastjórnarstefnunni og þeim ógöngum sem hún hefur leitt íslensku þjóina út í. Að stilla upp tveimur kostum sem báðum er lýst sem ómögulegum og segjast síðan fallast á málamiðlun og feta meðalveginn. Skyldi þó aldrei vera!
Svarið er nefnilega einfalt. Rétt eins og árið 1949 eigum við að taka kjarkmikið skref til ganga til liðs við evrópskar lýðræðisþjóðir. Í félagsskap þeirra eigum við heima og hvergi annars staðar.
Kostirnir sem Björn og þjóðin standa frammi fyrir eru að vissu leyti svipaðir þeim sem Bjarni faðir hans Benediktsson stóð frammi fyrir árið 1949.
Annað hvort fylgjum við ofstækisfullum einangrunarsinnum að málum og skellum í lás, eða lærum af reynslunni af EES og stígum skrefið til fulls í átt til aðildar að ESB.
Í annari ritgerð í Þjóðmálum bregður Hallur Hallsson, blaðamaður upp framtíðarsýn úr nýútkominni skáldsögu sinni Váfugli. Þar glíma íslenskir sjómenn við viðbjóðslega ÚTLENSKA fiskimenn eftir inngöngu Íslands í ESB.
“Þau höfðu hrifist af eldmóði og orðheppni stúdentaleiðtogans og fylgst með baráttu lýðveldis gegn ofurveldi Evrópu. Átökin á Austurvelli höfðu hneykslað þjóðina....”
Söguhetjan Krummi siglir svo lítandi "fráneygður" út um gluggann með “birtu yfir karlmannlegu andlitinu” og togvíraklippur að vopni til að “halastýfa helvítin”, “bilbæsku skrattakollana”, kyrjandi lag Gyfa Ægissonar “Stolt siglir fleyið mitt stórsjónum á!”
Val Björns og Sjálfstæðismanna stendur nefnilega á milli málstaðar okkar Evrópusinna annars vegar og málstaðar þjóðrembu-útrásarmanna með Ólaf Ragnar í broddi fylkingar og fáfróðra þjóðernissinnaðra heimalinga á borð við Hall Hallsson sem kann ekki einu sinni að stafsetja nafn Brussel á íslensku.
Ætlar Björn að skipa sér í hóp grjótkastaranna sem Hallur spáir að verði á Austurvelli gangi Ísland í ESB eins og varð 1949, þegar við gengum í NATO? Hvort ætlar Björn Bjarna að vera Bjarni Benediktsson eða Brynjólfur Bjarnason?
Er ekki kominn tími til að Seðlabankaþokunni létti og Sjálfstæðismenn rati út úr blindgötunni?
Hvort velja þeir Stolt siglir fleyið mitt eða Óðinn til gleðinnar? Gylfa Ægisson eða Beethoven?
Þið vitið hverju ég myndi svara. Gleðileg jól!
miðvikudagur, 24. desember 2008
Afsögn vegna sterkra vísbendinga
Hitti vinafólk mitt, íslenskan mann og belgíska konu hans í jólösinni. Þau fluttu til Íslands í haust og þið vitið öll hvað síðan gerðist. Við gátum ekki annað en hlegið að þessari tímasetningu þeirra en þau hafa búið alla sína hjúskapartíð ytra.
Ég held að þau hafi langað til að “vera með í veislunni” sem Árni Mathiesen, fjármálaráðherra hvatti þjóðina til að taka þátt í, í alræmdri þingræðu. Skömmu eftir að hjónin fluttu til Íslands réttlætti stjórnarformaður Fortis-bankans inngrip belgíska ríkisins í málefni bankans með þeim orðum að ef ríkið hefði ekki gripið inn í hefði enn verr farið: “Við höfðum engan kost, það voru allar líkur til þess að ef ekki hefði verið gripið inn í hefði belgíska ríkið orðið gjalþrota, eins og Ísland.”
Oft höfum við Íslendingarnir í Brussel óskapast út í pólitíkina í Belgíu enda ekki nema von. Belgía er talið eitthvað spilltasta land norðurálfu og þótt víðar væri leitað.
Ég held að við Íslendingar hættum að gagnrýna belgíska vini okkar fyrir landlæga spillingu. Og við getum alveg örugglega hætt að stæra okkur af því að búa við betra pólitísku siðferði en Belgar.
Belgíska stjórnin hefur sagt af sér eftir að dómsmálaráðherra landsins Jo Vendeurzen var sakaður um að hafa reynt að hafa áhrif á dómara í máli sem tengdist örlögum Fortis-bankans
Hæstiréttur Belgíu (Cour de Cassation) komst að þeirri niðurstöðu að “sterkar vísbendingar” væru um afskipti ráðherrans en “engar áþreifanlegar sannanir.”
Þetta þótti nóg til þess að ráðherrann sagði af sér og ríkisstjórnin fylgdi í kjölfarið. Hér hafa ráðherrar og seðlabankastjóri orðið uppvísir að því að tala við erlenda ráðamenn af slíkri ógætni og vanþekkingu að bankakreppa breyttist í þjóðargjaldþrot.
Hér á Íslandi ætlar ríkisstjórnin í heild að sitja sem fastast þar til rannsóknarnefnd sem hún skipar sjálf, hefur skilað niðurstöðum.
Það eru sterkar vísbendingar um að margt hafi farið aflaga en einhvern vegnn segir mér svo hugur að “sterkar vísbendingar” muni ekki duga ef ekki eru “áþreifanlegar sannanir” um mistök og pólitíska ábyrgð.
Ég held að við Íslendingar þurfum ekkert lengur að sækja til Belgíu þegar ábyrgðarleysi og pólitísk spilling er annars vegar. Við erum kóngarnir.
Gleðileg jól!
föstudagur, 19. desember 2008
Of lélegir lesendur fyrir DV
Að tala tungum tveim og tala sitt með hvorri fær alveg nýja merkingu við lestur ritstjórnargreina DV að undanförnu.
Ritstjóri blaðsins hefur orðið uppvís að ósannindum og hefur ekki manndóm í sér til að standa fyrir máli sínu, heldur skýlir sér á bakvið son sinn, sem er víst meðritstjóri hans.
Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni því sonurinn virðist hafa tamið sér ósiði föður síns og fer sannanlega með ósannindi.
Hann skrifar sitt hvorn leiðarann í prentútgáfu blaðsins og vefútgáfu. Og í stað þess að skammast sín, og biðjast afsökunar ræðst hann á allt og alla og rífst og skammast.
Sagt hefur verið um Ingibjörgu Sólrún réttilega: “Mikið óskaplega förum við í taugarnar á henni sem þjóð.” Sama mætti segja um þá DV feðga: Við lesendur DV eru greinilega ekki nógu góðir lesendur.
Þetta er löng tilvitnun en hér má ekki hagga orði:
“Ákveðinn hópur fólks stundar hatursáróður gagnvart blaðinu í ræðu og riti. […] Þannig var undirritaður gerður tortryggilegur í Morgunblaðinu og Kastljósinu vegna þess að gömul útgáfa af leiðara var birt á DV.is í fyrradag.
Undirritaður hafði uppfært leiðarann kvöldið áður í umbrotskerfi fyrir prentun, með þeim hætti að gagnrýni á brot fyrrverandi blaðamanns DV var tekin út, og almennum útskýringum á gildum eðlilegrar blaðamennsku bætt við. Leiðari sem fór til prentunar í blaðinu var því réttur. Eldri útgáfa var hins vegar tekin af ritstjórnarkerfi og birt fyrir mistök á vefnum morguninn eftir. Það var síðan leiðrétt, en Morgunblaðið og 20 bloggarar þess kusu að hunsa þær skýringar og halda áfram rógsherferð. Þetta geta umbrotsmenn DV staðfest, sem og starfsmaður DV.is og fréttastjóri á vakt.”
Vá. Rökfastur Jón Trausti og þvílík frásagnargáfa! Gömul útgáfa, gamlar skoðanir. Hvaða frekja er þetta í mönnum að vera herma upp á Jón Trausta leiðarann frá í gær? Það var annar dagur, annar maður.
Hvers lags lesendur eru þetta? Hvernig er hægt að bjóða einum ritstjóra (eða ritstjóraætt) upp á þetta?
Einn af kind. One of a kind. Við skiljum bara ekki snilldina á bakvið hugmyndaflugið sem óneitanlega þarf til að ljúga og verða tvísaga eins og þeir feðgar hafa orðið uppvísir að. Án þess að skammast sín.
Ég segir hér með af mér sem lesandi DV.
Það er ekkert að ritstjórunum, það erum við lesendur sem erum ekki nógu góðir fyrir blaðið. Þeir eiga betra skilið.
miðvikudagur, 17. desember 2008
Bachman, Turner, Ólafur og Össur
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar er maður sem hefur ríka réttlætiskennd. Nú þegar Íslendingar eru þúsundum saman að missa atvinnuna, húsnæðið og sjálfsvirðinguna er ekki við öðru að búast en af þessum sjálfskipaða sóma íslenskrar alþýðu, sverði og skildi, en að hann rísi upp til varnar þeim sem standa höllustum fæti á Íslandi.
Það gerir þessi mál- og ritglaðasti samtímamaður okkar með stæl á heimasíðu sinni.
Össur sem þekktur var fyrir andvökunætur sínar við tölvuna, varð svo kjaftstopp þegar gaf á bátinn hjá íslensku þjóðinni, að ekki heyrðist hósti né stuna frá honum svo vikum skipti. Og þegar Össur þegir er það eins og að mállausir menn hrópi þúsundum saman á torgum!
En nú hefur Össur fengið málið og ekki verður það af honum skafið að hann rís upp til varnar þeim sem minnst mega sín. Forseta lýðveldisins og demantadrottningunni hans.
Gefum Össuri orðið:
“Forsetinn á þessa stundina við að glíma hnitmiðað áhlaup óvildarmanna, sem á tímum þegar forbyltingin (svo!) hefur lækkað alla siðræna standarda, virðast hafa komist yfir stolin gögn úr stjórnsýslunni um bókhald þeirra hjóna. Afhverju skoðar lögreglan ekki hver stal bókhaldsgögnum forsetans? Samkvæmt því áhugaleysi virðist yfirmanni löggæslu finnast í góðu lagi þó farið sé inn í opinber skjöl sem ég hefði haldið að þyrfti sérstakan bókhaldslykil til að komast í. Kanski ríkislögreglustjóri sé farinn að virða upplýsingalögin á sinn hátt.”
Skorar fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar lögregluna að skoða bókhald Baugs? FL Group? Kaupþings? Landsbankans? Greiðslur auðmanna til forsetans? Að fara í saumana á spillingu og lögbrotum sem hvarvetna blasa við í rústum útrásarinnar?
Nei, hann hefur engan áhuga á því.
Hann hefur einungis áhuga á því að komast að því hver sagði satt og rétt frá masi forsetans um ágæti íslensku útrásarinnar og mannanna sem settu lýðveldið Ísland á hausinn.
Hér má ekki hagga orði. Hér kemur íslenskur stjórnmálamaður út úr skápnum. Hann kallar sig víst jafnaðarmann og hefur eins og forsetinn verið í tveimur flokkum sem kenndu sig við ALÞÝÐU. Ekki einum heldur tveimur. Fínt skal það vera.
Stingur hann niður stílvopni til að verja fólkið sem er að missa vinnuna? Beitir hann ritsnilld sinni til að biðja alþýðumanninum griða sem er að missa húsnæðið sitt? Grípur hann til varna til að verja sparifjáreigandann sem tapaði lífeyri sínum? Er hann að verja Jóa á bolnum?
Nei, Össur er ekki að verja þetta fólk. Eina sem Össur hefur til málanna að leggja í pólitík á þeirri vargöld sem nú stendur yfir, er að verja símakostnað forsetaembættisins.
Össur og forsetinn eiga það sameiginlegt – fyrir utan að þykjast vera að vinna fyrir alþýðuna- að hafa verið háværar klappstýrur útrásarinnar. Og þeir eiga það sameiginlegt að fyrirlíta íslenskt alþýðufólk. Það gildir nefnilega það sama um þá og ágætur “Eyjarskeggi” sagði um stöllu þeirra, Ingibjörgu Sólrúnu “Mikið rosalega förum við í taugarnar á henni sem þjóð.”
Ólafur Ragnar og Össur eiga það líka sameiginlegt að hafa mikið dálæti á Bachman-Turner Overdrive: “You ain´t seen nothin´yet.”
Og ef einhver væri svo góður að opinbera hvernig Ólafur Ragnar hefur látið forsetaembættið borgað alla sína einkaneyslu, myndi það vafalaust fara í taugarnar á Össuri Skarphéðinssyni. Ef óumdeildar upplýsingar um símakostnað forsetans fara svo fyrir brjóstið á Össuri, hvað myndi hann segja ef bruðlið yrði upplýst?
Einu sinni fyrir langa löngu var stjórnmálamaður sem hét Vilmundur Gylfason. Hann hefði sagt: Löglegt en siðlaust um þá staðreynd að Össur og Ólafur Ragnar skuli kalla sig jafnaðarmenn og kenna sig við alþýðu manna.
Hver veit nema að einn góðan veðurdag muni einhver fara með trúarjátningu þessa aðdáendahóps Bachman Turner Overdrive, Björgúlfs, Baugsfeðga og Kauþings: “You ain´t seen nothin´yet.”
mánudagur, 8. desember 2008
Formlegt fullveldi er lítils virði
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins slær tóninn í baráttu Heimastjórnararms Sjálfstæðisflokksins gegn ESB aðild í ræðu sem birt er vefsíðunni amx.is nýverið.
Þar leggur hann til atlögu við Evrópusinna og ber þeim á brýn að þeir séu reiðubúnir til að afsala yfirráðum þjóðarinnar yfir auðlindum sínum og afhenda útlendingum fullveldi þjóðarinnar.
Styrmir er hins vegar eldri en tvævetur í pólitík og hefur vaðið fyrir neðan sig og talar um að “formleg yfirráð yfir auðlindum hafsins í kringum Ísland,” myndu færast til Brussel.
Þeir sem ekki hafa fylgst náið með núönsum í Evrópuumræðunni átta sig kannski ekki á því hve mikilvægt orðið “formlega” er í þessari röksemdafærslu.
Því að það væri að mestu einungis “formlega sem eitthvað breyttist.” Styrmir gerir ekki einu sinni tilraun til að halda því fram að aðrar þjóðir eigi tilkall til veiðiréttinda í íslenskri lögsögu og er það vel að heimastjórnarmenn viðurkenni það.
En Styrmir lætur það samt hanga í lausu lofti því hann segir að í Brussel “hinar formlegu ákvarðanir teknar um hve mikið má veiða af einstökum fisktegundum, á hvernig skipum, með hvaða veiðarfærum, hvar og hvenær.”
Aftur er það “formlega” sem ákvarðanirnar verða teknar í Brussel. Styrmi viðurkennir meira að segja sjálfur að “við mundum vafalaust hafa sitthvað um það að segja, hvernig nýtingu þeirra yrði háttað.”
Íslenskir vísindamenn og stjórnvöld myndu sem fyrr gera tillögur um alla þætti varðandi veiðar og það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að sjá að hinar Evrópusambandsþjóðirnar hefðu lítið um þær að segja því þær hefðu engan rétt til veiða í íslenskri lögsögu.
“Formlega” yrðu tillögur bornar upp til samþykkis í ráðherraráði ESB en af hverju ættu ráðherrarnir að ráðskast með hvernig Íslendingar höguðu veiðum sínum, að því tilskyldu auðvitað að þeir stunduðu ekki grimmilega rányrkju?
Styrmir fullyrðir að Evrópusinnar haldi því fram að hægt sé að fá undanþágur frá sjávarútvegsstefnunni og byggi málstað sinn á þvi. Hann segir að slíkt séu draumórar og eingöngu skammtíma undanþágur fáist. Þar er ég algjörlega sammála honum.
Að mínu mati hefur alls ekki verið sýnt fram á það hvers vegna stórfelldar undanþágur eru nauðsynlegar.
Sá munur er á okkur og Noregi að helstu fiskistofnar okkar eru veiddir innan landhelgi okkar og við eigum að litlu leyti landhelgi samliggjandi að landhelgi annara ríkja, öfugt við Norðmenn.
Okkar staða er ólík vegna þess að enginn hefur veiðireynslu hjá okkur.
Svokallaður hlutfallslegur stöðugleiki sem er kjölfesta sjávarútvegsstefnunnar tryggir þetta. Hvers vegna ættum við að þurfa undanþágu þegar einmitt sjávarútvegsstefnan tryggir helstu hagsmuni okkar?
Í Evrópuskýrslu nefndar Björns Bjarnasonar er það svo slegið út af borðinu og sagt "ólíklegt" að atkvæði yrðu látin ráða til að breyta hlutfallslega stöðugleikanum.
Að sjálfsögðu ættum við að hafa vaðið fyrir neðan okkur og fá ákvæðiið um hlutfallslega stöðugleikann inn í aðildarsamninginn. Hann fengi þá þjóðréttarlega stöðu og væri ekki hægt að breyta því í óþökk Íslendinga.
Menn benda á rányrkju sem ESB ríkin hafa stundað. Það er alveg rétt. En hún er kominn til vegna of rausnarlegra kvóta og lélegs eftirlits. Hvort tveggja yrði áfram í höndum Íslendinga.
Samningar um flökkustofna færðust vissulega yfir á forræði ESB en það er ósannað mál að við bærum mjög skarðan hlut frá borði.
Menn get talað sig hása um að verja fullveldi Íslands en hvers virði var fullveldi okkar i gjaldeyrismálum?
Fullveldi hefur ekki lengur þá merkingu sem hugtakið hafði 1918. Nú deila ríki með sér fullveldi eins og til dæmis innan Evrópusambandið. Þeir sem segja að við glötum fullveldi okkar með inngöngu í ESB verða að útskýra hvers vegna 27 ríki í Evrópu hafa stigið það skref, þar á meðal Bretland, Frakkland og Þýskaland.
Styrmir: gleymdist að segja Sarkozy frá því að Frakkland væri ekki sjálfstætt ríki?
Ekkert ríki hefur hins vegar kosið að fara að dæmi Íslands og Noregs og Efta ríkjanna og láta EES samninginn nægja. Getur verið að enn einu sinni hafi komið í ljós að við Íslendingar séum ekki klárust í heimi?
Ólafur Stephensen, eftirmaður Styrmis á ritstjórastól Morgunblaðsins hefur orðað það þannig að “spurningin um sjávarútvegsmál” sé “miklu fremur tilfinningaleg spurning um fullveldi en spurning um efnahagsmál.”
Ríghéldum við ekki i krónuna af tillfinningalegri afstöðu til fullveldis sem átti sér engar efnahagslegar forsendur ?
Er ekki tími til kominn að við hættum að láta tilfinningarnar ráða ferðinni?
Aðild að efnahagslegu varnarbandalagi
Upptaka evru án aðildar aað ESB er tæknilega möguleg en kostnaðartölur sem hafðar eru eftir forstjóra Novators (tengdasyni Björns Bjarnasonar) eru vægast sagt ótrúverðugar svo mikil er óvissan. Hvað verður til dæmis um jöklabréfin margfrægu í íslenskum krónum? Andvirði þeirra hlaupa ekki á tugum milljarða heldur hundruðum.
Og á hvaða gengi ættum við að fastsetja evruna við íslensku krónuna? Nú er búið að fleyta henni, þótt ekki séu viðskipti með hana frjáls. Þeir sem hangið hafa á gjaldeyri sínum, neyðast nú til að flytja hann heim – einfaldlega vegna komandi áramóta og uppgjöra, segir vinur minn hagfræðingur mér. En hvað gerist eftir það?
Örmyntir sem fylgdu gömlu evrópsku myntunum frá fornu fari fylgdu inn í Evruna og sama gilti með Svartfjallaland og Kósovo. Eru það fordæmi fyrir Íslendinga? Nei segja forsvarsmenn ESB og benda á að sérmeðferð þessara ríkja eigi rætur að rekja til styrjaldarátaka og að í raun hafi þýska markið verið gjaldmiðill þessara þjóða.
Ef Ísland tæki upp evru einhliða væri slíkt dæmalaust í veraldarsögunni. Ríki hefur aldrei áður tekið upp mynt annars ríkis eða ríkjasambands í óþökk viðkomandi. Það veit engin hvaða afleiðingar slíkt hefði. Er slík áhætta það Ísland þarfnast einna helst á þessum óvissutímum? Er EES samningurinn svo traustur, eftir það sem á undan er gengið, að á þetta sé hættandi?
Og hefur reynsla síðustu mánaða ekki einmitt sýnt okkur að við þurfum bakhjarl í Seðlabanka Evrópu og ekki síður traust pólitískt bandalag við vinaþjóðir? Lánveitingar Seðlabankans undanfarið sýna að hann stendur við bakið á ESB ríkjum, meira að segja utan evrusvæðisins.
Til hvers að taka upp evruna, ef ekki fylgir með einn helsti kosturinn: að eignast bakhjarl í evrópska seðlabankanum? Og eignast hlutdeild í því fullveldi sem aðildarþjóðirnar deila með sér – Ísland ætti fulltrúa í stjórn hans.
Ein af mörgum þversögnum í máli Styrmis Gunnarssonar í ræðu sem hann flutti á fullveldisdaginn er einmitt hve fús hann virðist til að fórna enn meira fullveldi, þ.e sjálfstæðri mynt í Sýsifusar baráttu sinni við að halda okkur utan ESB í nafni þessa sama fullveldis.
Bandarísku herforingjarnir sem Styrmir studdi á sínum með ráðum og dáð í Víetnamstríðinu, orðuðu það þannig að til að bjarga tilteknu þorpi hefðu þeir þurft að eyða því. Einhvern veginn finnst mér eins og það sé nákvæmlega það sem Styrmir og vinur hans Davíð Oddssonar eru að gera, á fleiri en einu sviði.
Er það ekki mergurinn málsins að við þurfum að eiga aðild að því efnahagslega- og pólitíska varnarbandalagi sem Evrópusambandið er?
föstudagur, 5. desember 2008
Bankaleynd og pólitísk fjárkúgun
Davíð Oddsson er fyndinn það verður ekki af honum skafið enda er hann orðinn heimsfrægur á gjörvöllu Fjóni eftir drottningarviðtal Bent A Koch við hann í Fjónstíðindum.
Hver nema alvöru húmoristi myndi bera við bankaleynd frammi fyrir viðskiptanefnd Alþingis og neita að útskýra ummæli sem hann lét falla í opinberri ræðu sem Seðlabankastjóri!!! Svar: ósvífinn grínkarl sem hugsar um “engan annan en sjálfan sig”, eins og góður maður sagði.
Og hver nema Davíð Oddsson myndi leyfa sér að halda fram annari eins þversögn.
Malið reis vegna þess að hann blaðraði eins og Össur Skarphéðinsson á slæmum degi og opinberaði hvert leyndarmálið á fætur öðru í ræðu á fundi sem opinn var fjömiðlum.
Ekki eins og það væri neitt nýtt því Davíð hafði áður opinberaði allar forsendur stjórnvalda í Kastljosi þar sem hann átti stóran þátt í gjaldþroti íslensku þjóðarinnar með því að guma af því að aðeins brotabrot skulda erlendis yrðu borgaðar: “Við borgum ekki skuldir óreiðumanna.”
Bankaleynd?
Ef Davíð gat ekki skýrt þingnefndinni frá vitneskju sinni um orsök beitingar hryðjuverkalaganna, er hann ekki þar með að segja að hann sé endalaust búinn að rjúfa bankaleynd, bæði í Kastljósviðtalinu alræmda og ræðunni hjá Viðskiptaráði.
(Auðvitað eru milljarðatilfærslur Kaupþings sennilegasta ástæðan, en það er annað mál.)
Við værum vissulega betur stödd ef Davíð tæki bankaleynd alvarlega alltaf, ekki bara stundum.
Davíð Oddson er grínisti og hann er fyrst og fremst að gera grína að íslenskum stjórnmálamönnum sem þora ekki að svara ögrunum hans. Davíð bítur nú höfuðið af skömminni með því að hóta Geir H. Haarde að hann kljúfi Sjálfstæðisflokkinn ef hreyft verði við honum.
Var einhver að tala um pólitíska fjárkúgun?
miðvikudagur, 3. desember 2008
Stórfrétt: LÍÚ á móti ESB!
Það er ævinlega gaman að geta bent á það sem vel er gert. Til dæmis hversu þefvís fréttastofa útvarps er að varpa hulunni af því að Adolf Guðmundsson, nýr formaður LÍÚ, sé andsnúinn aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Eins og allir forverar hans og stjórn samtakanna frá upphafi… Ja hérna, hvar værum við ef RÚV segði okkur ekki stórfréttirnar!!??
Eftir þetta skúbb heldur svo rannsóknarblaðamennskan áfram:
Adólf segir að innganga í Evrópusambandið sé “ávísun á viðvarandi atvinnuleysi og launalækkun.”
Ekki er minnst einu orði á það í fréttinni hvernig á launalækkun myndi standa en því næst segir:
“Adolf lagði áherslu á að lítið hefði farið fyrir göllunum við ESB-aðild í umræðunni. Kostirnir hefðu hins vegar óspart verið tíundaðir. Adolf sagði að samkvæmt nýjustu tölum væri 17,7% fólks undir 25 ára innan ESB án atvinnu.”
Í alvöru talað: Eru þetta frambærilegar röksemdir? Nú er mér ekki kunnugt um hvað margir undir 25 ára aldri verða atvinnulausir innan skamms. Þótt mig gruni að hér sé eitthvað málum blandið og setji fyrirvara, bendi ég á að það er ekkert sem segir að slíkt myndi gerast á Íslandi. Ekki frekar en við yrðum skáeygð við að ganga í Kína eða upp til hópa sjálfsþurftabændur ef við gengjum í Indland; eins og sumir stjórnmálamenn virðast einna helst vilja.
En þetta er ekki neitt. Adolf segir: "Það er alveg skýr afstaða LÍÚ að inn í Evrópusambandið viljum við ekki fara því þá þurfum við að afsala okkur yfirráðarétti yfir auðlindinni og það kemur bara ekki til greina." Hann sagði sjávarútveg flokkaðan með landbúnaði í Evrópusambandinu og félli þar af leiðandi ekki undir frumrétt.
Fréttastofa útvarps hefur ekki fyrir því að skýra um hvað Adolf er að tala. Hann áttar sig á því að miðað við núverandi reglur hefur engin þjóð rétt á fiskveiðikvótum í íslenskri lögsögu, Íslendingar myndu sjálfir semja tillögur um skiptingu kvóta og sjá um fiskveiðieftirlit, þó vissulega þyrfti ráðherraráðið að gefa endanlegt grænt ljós.
Adolf grípur því í ógöngum sínum til þess ráðs að blanda sjávarútvegi og landbúnaði saman og þar sem það sé ekki ”frumréttur”, sé hægt að breyta reglunum okkur í óhag.
Þetta er smjörklípa að hætti Davíðs.
Adolf nefnir ekki að engin þjóð hefur lýst áhuga á að breyta ”hlutfallslega stöðugleikanum” sem myndi tryggja Íslendingum áframhaldandi yfirráð yfir eigin lögsögu. Og hvort heldur sem er vilja það mörg ríki (og framkvæmdastjórn ESB einnig) halda fast í þessa reglu að litlar sem engar líkur eru á nokkrum breytingum.
En það er sjálfsagt að hafa vaðið fyrir neðan sig. Norðmenn sömdu um tryggingar fyrir slíku í aðildarsamningi sínum að ESB. Ef Íslendingar færu að dæmi þeirra, væri þar með ekki hægt að hrófla við þessu án samþykkis Íslendinga því aðildarsamningurinn hefur þjóðréttarlega stöðu.
Maður spyr sig þegar útvegsmenn halda áfram málflutningi af þessum toga, hvar eru íslenskir Evrópusinnar? Ráðherrar Samfylkingarinnar eru víst í þagnarbindindi og kann það að vera af hinu góða, miðað við frammistöðu þeirra að undanförnu. En hvers vegna í ósköpunum hefur ekki verið gerð nein tilraun til að auka þekkingu á málum ESB á Íslandi? RÚV hefur sem kunnugt er lagt stein í götu þeirra sem hafa viljað stuðla að slíku - þótt tímarnir hafi nú breyttst.
Verður bulli af þessu tagi látið ósvarað?
"...hér á eftir ræði ég við sjálfan mig.:"
Gamlir félagar mínir af Ríkisútvarpinu (ég vann þar á öndverðri síðustu öld) eru komnir í uppreisn gegn Páli Magnússyni, útvarpsstjóra og segja lok, lok og læs og allt í stáli – fréttirnar lokaðar fyrir Páli.
Ég skil vel að fólki svíði brottrekstrar og launalækkun, ekki síst í ljósi þess hve örfáum starfsmönnum eru greidd há laun.
Á hinn bóginn er Páli nauðugur einn kostur: eigið fé Ríkisútvarpsins er á þrotum og miklar líkur á að möguleikar stofnunarinnar á að sækja sér fé á auglýsingamarkað verði takmarkaðir. Ef Páll hreinsaði ekki til og nýtti sér ekki reynslu sína í að reka “Bónus” útvarps- og sjónvarpsstöðvar á einkamarkaðnum væri hann ekki að standa sig í stykkinu.
Það má svo deila um það hvort eðlilegt sé að útvarpsstjóri sé hæst launaði ríkisforstjórinn. Einfaldlega vegna þess að þess hefur hingað til hvorki sést staður í dagskrá né rekstri.
Innlend dagskrárgerð er nánast engin og það er tímanna tákn að það þyki nægja að sami maður sé yfirmaður innlendrar dagskrárgerðar, stjórnandi Kastljóssins og helsti kynnir þess að auki. Það er freistandi að draga þá ályktun að innlend dagskrárgerð sé einfaldlega ekki það tímafrek að það þurfi ekki séstakan mann til að sinna henni.
Kastljósið státar af einu best launaða starfsfólki RÚV og nýtur þess að vera nánast eina framleiðsla stofnunarinnar í sjónvarpi.
Það hlýtur hins vegar að vera RÚV umhugsunarefni að Egill Helgason skaut þeim öllum ref fyrir rass og vann tvenn Eddu verðlaun á dögunum fyrir Silfrið og Kiljuna,(var hann líka besti sjónvarpsmaður?) og hlýtur því að teljast margra manna maki.
Félag fréttamanna beitti Pál Magnússon hins vegar skemmtilegum gambít með því að afþakka fréttalestur hans. Allir vita að Páli finnst það jafn eðlilegt og að draga andann að smeygja sér inn í stofur landsmanna og fylla upp í skjáinn um kvöldmatarleytið. Páll hefur brugðið sér í ýmissa kvikinda líki á síðustu áratugum en aldrei kveður hann fréttasettið. Jafnvel þegar hann var sjónvarpsstjóri Sýnar las hann fréttir á Stöð 2!
Forsendurnar fyrir því að afþakka “vinnuframlag” Páls í fréttatímum eru þó vægast sagt hæpnar eins og þær eru setta fram. – hann er jú prýðilegur fagmaður; tekur ekki krónu fyrir og sparar því aura skattgreiðenda.
Það þekkist hvergi á byggðu bóli að forstjóri fjölmiðlafyrirtækis lesi líka fréttir. Það er vissulega skringilegt að útvarpsstjóri lesi sjónvarpsfréttir, þótt það sé gaman að ímynda sér Andrés Björnsson og Vilhjálm Þ. Gíslason í fréttasetti.
Það segir sig hins vegar sjálft að ríkisútvarpið verður stundum að segja fréttir af sjálfu sér, til dæmis af hópuppsögnum útvarpsstjóra. Gefur það ekki auga leið að það skýtur skökku við að hann sjálfur sé að segja slíkar fréttir? Að hann segi fréttir og sé fréttaefni til skiptis?
Páll gæti hæglega þurft að segja: “Farið ekki langt, hér á eftir ræði ég ítarlega við sjálfan mig um stöðu RÚV á auglýsingamarkaðnum. Bara hér á RÚV!”
Það er augljóslega ekki heppilegt fyrir stofnunina að Páll sem liggur undir ámæli fyrir ofurlaun, tekur afstöðu til menningarpólitískra álitaefni og stýrir stórfyrirtæki sé jafnframt í hlutverki hlutlauss fréttalesara.
(Ekki stórmál, en pínu innlegg í debatt gamalla vinnufélaga minna og tækifæri til að lýsa samúð með því hvernig komið er fyrir RÚV, eins og svo mörgum öðrum vinnustöðum á landinu.)
föstudagur, 28. nóvember 2008
Óbilgjarn? Nei ekki nógu óbilgjarn
Skrif mín um einkavinkonuvæðingu Ingibjargar Sólrúnar mælast misjafnlega fyrir. Flestir þeir sem tjá sig í athugasemdakerfinu eru að vísu sammála mér en hins vegar vekja andmælin mig til umhugsunar.
Nafnlaus skrifar: “Hatur þitt gangvart ISG er með ólíkindum Árni hvern andskotann ertu að drekka þarna í Brussel.Ingibjörg Sólrún hefur fyrir löngu stimplað sig inn sem besti stjórnmálamaður landsins.”
Annar nafnleysingi sagði mig hata Ingibjörgu og Ólaf Ragnar og spurði hvort þau hefðu gert eitthvað á minn hlut.
Og Kristín skrifar:
“Árni, mér finnst þú óbilgjarn maður.Hvernig væri að þú kæmir með eitthvað uppbyggilegt í umræðuna sem hjálpar í kreppunni heldur en að elta ólar við að leyta að einhverju málenfni,einungis til þess að kleggja (svo) á Ingibjörgu Sórúnu.Hún hefur sannað sig sem einn besti stjórnmámálaskörungur sem þjóðin hefur átt í áraraðir, enda kvenkyns.”
Þetta er svona kynjafræðileg útgáfa af “Right or wrong my country.”
Þetta eru mjög dæmigerðar röksemdafærslur hjá Íslendingum. Málefnalegri gagnrýni er ekki svarað einu orði með því að leggja mat á röksemdirnar, heldur er gagnýnandinn vændur um 1.) Persónulega óvild. 2.) Drykkjuskap 3.) Óbilgirni 4.) Gagnrýni eigi ekki rétt á sér, aðeins “uppbyggileg” umræða. (Stalín og Brésnef notuðu svipað orðalag en það er önnur saga!)
Ég vísa því á bug að um einhvers konar persónulega óvild sé að ræða. Ingibjörg Sólrún og Ólafur Ragnar hafa hins vegar gagnrýnt andstæðinga sína mjög harðlega fyrir ýmiss konar siðferðisbrest og talið sig vera á siðferðilega hærri plani en aðrir.
Ég hef haft talsverð samskipti við Ingibjörgu Sólrúnu faglega og raunar lítils háttar persónulega og mér er afskaplega vel við hana. Þess vegna gagnrýni ég hana því vinur er sá sem til vamms segir.
Þau gefa óneitanlega færi á sér.
Þannig hefur Ingibjörg Sólrún talið sig stunda annars konar stjórnmál, “samræðustjórnmál” og gefið til kynna að konur hefðu aðra nálgun en karlar sem væru meira eða minna að hygla klíkubræðrum sínum í "valdastjórnmálum."
Ég hef spurt hvort sú staðreynd að hún ráði nána vinkonu sína sem hefur litla reynslu í utanríkismálum sem sendiherra og fela henni að stjórna ráðherraskrifstofunni vegna veikinda ráðherra og ráðuneytisstjóra.
Hvers vegna í ósköpunum telst það hatur að gagnrýna utanríkisráðherrann á málefnalegan hátt?
Það er fráleitt að ég hatist við forseta lýðveldisins. Hann er hins vegar ekki undanskilinn gagnrýni og hann gefur svo sannarlega höggstað á sér, vikulega nú orðið.
Íslendingar eiga almennt mjög erfitt með að þola gagnrýna umræðu og viðbrögðin eru oftast af þessu tagi: sverta andstæðinginn, segja málflutninginn af annarlegum rótum eða höfundinn fyllibyttu eða geðsjúkling.
En umræðuhefð eigum við enga.
Skortur á gagnrýni er ein helsta ástæða þess hve illa er komið fyrir íslenskum efnahagi.
Fjölmiðlar voru meðvirkir og stjórnmálamennirnir líka. Þeir tóku íslensku bankamennina trúanlega og tóku þátt í að ata erlenda gagnrýnendur aur. Ég minni á blogg færslur Björgvins G. Sigurðssonar sem hann hefur nú tekið af netinu og klappstjórn Ingibjargar Sólrúnar á fundum í Kaupmannahöfn og kannski víðar með Sigurði Einarssyni og Kaupþingi.
Og menn á borð við Þorvald Gylfason voru úthrópaðir. Ég hef sumt af því sem klínt var á hann af valdhöfum þegar hann gagrnýndi efnahagsstjórn ekki einu sinni eftir.
Ég vísa því á bug að ég sé óbilgjarn. Það má hins vegar vel gagnrýna mig og aðra fjölmiðlamenn fyrir að vera ekki nógu óbilgjarnir og gagnrýnir.
fimmtudagur, 27. nóvember 2008
Frekar húmor Davíðs en ráðningar
Það er dapurlegt að þurfa að viðurkenna opinberlega að maður sé sammála Framsóknarflokknum en svona er nú komið fyrir mér og íslenskum stjórnmálum. Birkir Jón Jónsson gagnrýnir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur harðlega fyrir skipan Kristínar Á. Árnadóttur, vinkonu sinnar og samstarfskonu til margra ára í sendiherraembætti.
Málsvörn Ingibjargar er fátækleg. Hún ber við veikindum sínum og ráðuneytisstjóra og segir að þar sem Kristín hafi verið skipuð skrifstofustjóri hafi orðið að gera hana að sendiherra.
Einmitt!
Þetta væru ágæt rök ef ráðherra hefði ráðið hjúkrunarkonu eða væri að skipa Kristínu tímabundið ráðuneytisstjóra í veikindaleyfi ráðuneytisstjóra. Það gerir hún ekki heldur skipar hana sendiherra, væntanlega til æviloka. Auk þess fjölgar hún í yfirstjórn ráðuneytisins. Mér sýnist raunar Ingibjörg hafa gefist upp á að halda því fram að hvítt sé svart og kostnaðaraukning sé sparnaður eins og hún gerði í fyrstu.
Auðvitað hafa allir ríka samúð með Ingibjörgu Sólrúnu og sannarlega varð ógæfu Íslands allt að vopni þegar hún veiktist um sama leyti og efnahagslega óveðrið skall á. Stjórnmál og stjórnsýsla eiga hins vegar ekki að snúast um hagsmuni einstaklinga sem veljast til forystu. Ingibjörg Sólrún getur ekki afsakað ófaglega ráðningu með veikindum sínum. Ekki frekar en Davíð.
Kristín hefur starfað undanfarið eitt ár í ráðuneytinu en hún var kölluð inn af götunni til að stýra kosningunni til öryggisráðsins. Er þetta nægileg reynsla af utanríkismálum til þess að vera sett yfir utanríkisráðuneytið á umbrotatímum?
Er það ofmælt að kalla þetta klikuskap? Eru það ekki dapurleg örlög fyrir Kristínu – sem er á mörgum sviðum prýðilega hæf manneskja- að verða eins konar Júlíus Hafstein Ingibjargar. Vissulega er hún betur menntuð en her ins vegar skipuð í mun hærri stöðu en Júlíus í gegnum sams konar klíkuskap.
Birkir Jón bendir réttilega á að ráðherra hefði fremur átt að taka sér Valgerði Sverrisdóttur, frábæran utanríkisráðherra framsóknar, til fyrirmyndar sem réði enga nýja sendiherra hvorki hæfa né óhæfa – en Davíð Oddsson sem skipaði vini sína út um allt.
Málsvörn Ingibjargar um að það vanti konur í sendiherrastörf er ágæt ef hún væri að senda hæfa konu á póst. En það er hún ekki að gera.
Ingibjörg Sólrún er vön að réttlæta flest með því að benda á að Davíð Oddson hafi verið helmingi verri. Nú sé einfaldlega komið að konunum. “Þori bæði get og vil” gæti hún verið að segja: konur séu komnar að kjötkötlunum og þeim sem bæði hafi klíku og píku verði nú raðað í embættin.
Gallinn er bara sá að ráðning Kristínar minnir einna helst á brandarann úr Matthildi um manninn sem sótti um sem götulögreglumaður í Matthildi en var umsvifalaust skipaður yfirmaður leyniþjónustunnar!
Ég hef ekkert út á Kristínu að setja en hún ætti að sinna einhverju þar sem óumdeildir hæfileikar hennar njóta sín betur en að vera sett blaut á bak við eyrun yfir gervalla utanríkisþjónustuna.
Ef Ingibjörg Sólrún vill endilega feta í fótspor Davíðs Oddsonar ætti hún frekar að taka sér húmor hans til fyrirmyndar en makalausar mannaráðningar.
miðvikudagur, 26. nóvember 2008
Pálmi Jónsson, verktaki snýr aftur
Nýlega rifjaðist upp fyrir mér skondin saga sem gerðist þegar ég starfaði á fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Pálmi Jónsson á Akri var þá formaður fjárlaganefndar og einhverjum datt í hug að leita álits hans á einhverju þjóðþrifamáli, sennilega vegna þess að tillögur ríkisstjórnarinnar fóru ekki alveg saman við hagsmuni umbjóðenda hans.
Fréttakona hringdi til Pálma íog viti menn!; hann hafði allt á hornum sér vegna tillagna ríkisstjórnarinnar.
Fréttakonan hugsaði sér gott til glóðarinnar, tók viðtal við Pálma upp á band. Reyndur fréttamaður heyrði upptökuna fyrir tilviljun og áttaði sig á því að hér væri eitthvað málum blandið. Var hringt í Pálma á ný sem staðfesti að hér væri vissulega Pálmi Jónsson á ferð en hann starfaði sem verktaki fyrir norðan!
Sami fjölmiðill komst í hann krappann fyrir skemmstu þegar strákpjakkur á Skaganum komst í viðtal með að villa á sér heimildir. Þá var spurt hvort fréttamenn ættu að biðja viðmælendur um skilríki.
Mér flaug þetta í hug í dag þegar í ljós kom að Bjarni Harðarson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, hefði upplýst í nýju greinasafni að hann hefði prívat og persónulega staðið fyrir því að ekki varð úr áfarmahaldandi stjórnarsamstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eftir alþingiskosningar í fyrra.
Þetta er skondið í ljósi þess að Bjarni sagði sjálfur í viðtali við Fréttablaðið eftir kosningar að hann hefði stutt stjórnarsamstarfið.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, segir allt vera í himna lagi og kosningar komi ekki til greina. Ingibjörg Sólrún segist líka vilja taka þátt í mótmælum gegn sjálfri sér, en ber við önnum vegna setu í ríkisstjórn.
Páll Magnússon, útvarpsstjóri hefur undanfarið vegið mann og annan í deilum við frjálsu útvarpsstöðvarnar og sagt þeim að éta það sem úti frýs þegar þær heimta RÚV af auglýsingamarkaðnum.
2005 sagði Páll þegar tilkynnt var um ráðningu hans í stöðu útvarpsstjóra að RÚV væri betur komið með því að vera ekki á auglýsingamarkaði.
Páll útvarpsstjóri heimtaði svo að G. Pétur Matthíasson skilaði spólu með efni sem sett var á YouTube og sýnir geðvonsku og tuddaskap Geirs Haarde. Hvers vegna heimtar Páll útvarpsstjóri ekki að Eyjan.is skili spólu sem sýnir ósamkomulag Páls Magnússonar útvarpsstjóraefnis (2005) og Páls Magnússonar, útvarpsstjóra (2008) um stöðu RÚV?
Hvers vegna ver hann ekki heiður nafna síns af sömu hörku og hann ver heiður forsætisráðherra? Hvers á Páll Magnússon, útvarpsstjóraefni að gjalda, Páll Magnússon, útvarpsstjóri?
Spyr sá sem ekki veit, því varla vill nokkur manni þessu fólki svo illt að halda því fram að þarna tali sama fólkið.
Hver getur skýringin á þessu verið?
Hvað með þessa kenningu: Er einhver arftaki Pálma Jónssonar verktaka kominn á kreik? Gengur einhver skrattakollur laus, platar sig inn á fjölmiðla og talar í nafni þjóðkunnra persóna þvers og kruss án þess að nokkur fái við ráðið? Eru tvífararar farnir að herja á íslenskt þjóðfélag?
Eða er líkt farið með íslenskum ráðamönnum og Leonard Zelig, kamelljóninu sem varð að gyðingi meðal gyðinga, blökkumanni meðal blökkumanna og nasista meðal nasista – allt eftir hentugleika?
Ef til vill er of langt gengið að líkja þessu ágæta fólki við þessa ágætu söguhetju Woody Allen, en er von að manni finnist eins og mottó þessa fólks sé sótt til ljóðskáldsins Arthur Rimbaud: ”Je suis un autre” – sem hljómaði svo hjá Megasi: “Ég er ekki ég, ég er annar.”
mánudagur, 24. nóvember 2008
Að tala við fólk eins og fífl
Mig setti hljóðan þegar ég las eftirfarandi um flokkstjórnarfundiSamfylkingarinnar.
"(Ingibjörg Sólrún) sagði einnig að fólk, sem mætti á útifundi og borgarafundi til að mótmæla ástandinu ætti hrós skilið fyrir málefnalega baráttu. „Ef ég væri ekki í ríkisstjórn væri ég þar," sagði Ingibjörg Sólrún
Gerir formaður Samfylkingarinnar sér virkilega ekki grein fyrir því að fólkið er að mótmæla meðal annars henni?
Og þegar flokksmenn hennar krefjast kosninga til þess að endurnýja umboð Alþingismanna, sakar formaðurinn þá um að setja flokkshagsmuni ofar þjóðarhagsmunum!!!! Egill Helgason hittir naglann á höfuðið þegar hann kallar þetta veruleikafirringu.
Samfylkingin virðist ekki hafa nokkurn skapaðan hlut fram að færa en hálfvolga andstöðu við Davíð Oddsson, seðlabankastjóra. Bókað er í ríkisstjórn að hann njóti ekki trausts Samfylkingarinnar en látið við það sitja. Davíð er vissulega óhæfur til að gegna sínu embætti en að greining flokksins á vandanum sé ekki dýpri er makalaust.
Í rauninni hefur Samfykingin verið einstaklega aðgerðalítil síðan hún settist í ríkisstjórn, að öðru leyti en því að gefa ráðherrum sínum kost á að kanna framandi lönd á kostnað skattgreiðenda.
Undirbúningur aðildarviðræðna hefur setið algjörlega á hakanum í utanríkisráðherratíð hennar og þá ekki síst nauðsynleg kynning á málefnum Evrópusambandsins.
Getur einhver sagt með hönd á hjarta að Ingibjörg Sólrún hafi sem formaður flokksins og ráðherra stundað samræðustjórnmál? Hefur lýðræði verið virkt innan Samfylkingarinnar? Hefur fagmennska í ráðningum verið í fyrrirúmi?
Ingibjörg Sólrún hefur gert viðskiptaráðherra sinn að algjöru fífli með því að upplýsa að hún hafi setið sex fundi með helstu ráðherrum Sjálfstæðismanna og seðlabankastjóra um bankamál án þess að boða bankamálaráðherrann á fund. Eru þetta samræðustjórnmál?
Þegar kreppan var hvað dýpst setti ISG á svið leikrit þar sem hún sagðist spara með því að sameina tvær skrifstofur í ráðuneyti sínu þegar hún var í raun að auka útgjöld með þvi að skipa reynslulausa vinkonu sína yfirráðuneytisstjóra með sendiherratign.
Er þetta fagleg ráðning? Eru það ekki vinnubrögð af þessu og svona grímulaus klikuskapur sem fólkið er að mótmæla? Og útúrsnúningum og rangfærslum og hálfsannleika? Að komið sé fram við fólk eins og fífl?
Ingibjörg Sólrún hefur tekið þátt í þvi´að halda upplýsingum skipulega ekki aðeins frá almenningi heldur samflokksmönnum sínum. Er það gagnsæi?
Hver er munurinn á Davíð Oddssyni og Ingibjörgu Sólrúnu? Stigsmunur- ekki eðlis.
Ógæfa Samfylkingarinnar og Íslands er að þrátt fyrir hroka sinn, gerræði og urræðaleysi; skort á sjálfsgagnrýni og auðmýkt, er ISG skársti kostur flokksins. Björgvin G. hefur misst traust allra, Þórunn er ekki líkleg til stórræðna, Ágúst Ólafur er tja hvað skal segja, efnilegur en varla meira en það.
Mistök Össurar í Giltnismálinu sýndu svo og sönnuðu að Davíð Oddsson spilar á hann eins og píanó. Hann er of ístöðulaus til að gegna forystuhlutverki. Og nú loks þegar hann fékk málið aftur, virðist hann telja að helsta von Íslendinga sé að leita að olíú. Af hverju ekki leita að gulli?
Ljóst er að nú þegar viðræður um aðild Íslands að ESB fara í hönd er það óheppilegt að utanríksráðherrann sé ekki heill heilsu. Þá er hætt við því að það verði óhentugt fyrir flokksformann að þurfa að dvelja svo vikum skiptir erlendis þegar viðræðurnar standa yfir.
Lausnin gæti falist í því að Ingibjörg Sólrún settist annað hvort í viðskipta- eða umhverfisráðuneytið. Þórunn Sveinbjarnardóttir er prýðilega vel að sér í utanríkismálum og væri gott utanríkisráðherraefni á venjulegum tímum. Einn er hins vegar sá maður í þingflokki Samfylkingarinnar sem hefur hárréttan bakgrunn. til að valda þessu verkefni.. Lögmaðurinn Árni Páll Árnason er þrautreyndur og slyngur samningamaður og sérfræðingur í Evrópumálum.
Í raun væri hann kjörið utanríkisráðherraefni til að takast á við Evrópumálin en hann gæti einnig fúnkerað sem eins konar Evrópuráðherra með þvi´að taka við af Björgvin G. Til vara legg ég til að hann verði gerður að aðalsamningamanni Íslendinga og sendiherra í Brussel ef henta þykir. Hans tími er kominn.
föstudagur, 21. nóvember 2008
Björgvin G. – því miður
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra segist fylgjandi því að þing verði rofið og kosið verði í vor. Björgvin lætur þessa skoðun í ljós sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands en lætur sem skoðanir hans sjálfs komi honum ekki við. Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur tekið í sama streng en nú hefur Ingibjörg Sólrún slegið á puttana á þeim. En eftir slíkar yfirlýsingar er auðvitað bara tímaspursmál hvenær stjórnin fer frá og boðað verður til kosninga.
Ráðherra sem lætur slíka skoðun í ljós getur ekki annað en sagt af sér og það ætti Björgvin raunar löngu að vera búinn að gera.
Ég vil taka það fram áður en lengra er haldið að ég er persónulega kunnugur Björgvin og er afar hlýtt til hans. Því tekur það mig sárt að samvisku minna vegna get ég ekki annað en fest þessar línur á blað. Björgvin hefði átt að vera búinn að segja af sér embætti um leið og ljóst varð að allir helstu bankarnir hrundu á hans vakt.
Ekki nóg með að hann hafi sungið útrásarsönginn fram á síðustu mínútu, heldur réðist hann gegn "úrtölumönnum" sem óttuðust að útrásin væri að sigla í strand og tók síðan niður heimasíðu sína til að fela slóðina. Þarna varð góðum dreng á í messunni og viðbrögð hans eru því miður af strútakyni.
Björgvin segir að hann þurfi þess ekki vegna þess að hann hafi ekki vitað neitt vegna þess að Fjármálaeftirlitið sagði honum ekki neitt og að formaðurinn sniðgekk hann. Síðan hvenær nægja slíkar röksemdir til að víkja sér undan ábyrgð?
Raunar hefur komið fram að Ingibjörg Sólrún sat sex fundi með varaformanni Sjálfstæðisflokksins, - afsakið forsætisráðherra- og Seðlabankastjóra um málefni bankanna án þess að boða bankamálaráðherrann á fund.
En þetta er bara enn ein ástæða fyrir Björgvin til að segja af sér. Formaðurinn treysti honum ekki til að sitja fundi um málefni bankanna. Hvers vegna ættu þá kjósendur að teysta honum?
Vissulega má margt um stjórnunarhætti Ingibjargar Sólrúnar að segja (samræðustjórnmál? gagnsæi? fagmennska?) og allar hennar þversagnir, en látum það vera að sinni.
Björgvin er ágætlega menntaður í sagnfræði og heimspeki og hefur starfað við stjórnmál alla ævi – en fátt annað. Kannski hafði hann ekki það sem til þurfti til að verða bankamálaráðherra að sinni.
Ekki bætti úr skák að kannski var framhjá honum gengið þegar mest á reið vegna þess að svili hans var bankaráðsmaður í Glitni.
Mér þykir það leitt að þurfa að segja þetta en Björgvin verður að segja af sér ætli Samfylkingin að ganga til kosninga í vor eins og hann leggur til. Ella hefur hvorki flokkurinn né hann nokkurn trúverðugleika.
Björgvin var óheppinn en hann er ungur og hann á eftir að koma aftur og verður mun sterkari og flokkurinn líka ef hann skynjar sinn vitjunartima – fyrstur manna.
fimmtudagur, 20. nóvember 2008
Forsetinn sem fórnarlamb
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands á það sameiginlegt með Davíð Oddssyni, Seðlabankastjóra að hafa aldrei sagt skilið við leðjuglímu stjórnmálanna.
Nú þegar bókin Saga af forseta er að koma út, þarf einhvern veginn að beina athyglinni að einhverju öðru en því að forsetinn hafi breytt embætti sínu í klappstjórn útrásarinnar.
Spunameistarar forsetans hafa bersýnilega talið það þjóðráð að sýna forsetann sem fórnarlamb nýjasta skúrks Íslands: gamals félaga ÓRG úr leðjuglímunni sjálfs Davíðs úr Svörtuloftum.
Og sakarefnin eru ekkert smávegis enda slá íslenskir fjölmiðlar þessu upp með viðeigandi hætti:
1. ) Davíð skrifaði forsetanum og minnti hann á að hann væri undir sömu lög settur og aðrir þegnar þegar þeir gengju í hjónaband.
2.) Júlíus Hafstein impraði á því að ef til vill þyrfti forsetinn ekki að leggja einn blómsveig á sautjánda júní.
Bréf Davíðs var ósmekklegt því vandséð verður hvers vegna það var á hans valdsviði að gera slíkt.
Þetta er hins vegar nauðaómerkilegt mál og ef þetta er það skársta í bókinni þá er hún ekki mikils virði. Auðvitað vilja allir lesa um "you ain´t seen nothin yet" klappstjórn forsetans og kjamsa á öðrum feitum bitum úr Ólafs Helgasögu - sjálfs helgramannasöguritara lýðveldisins, Guðjóns Friðrikssonar.
Hins vegar gæti Davíð verið fullsæmdur af nýjustu smjörklípu Ólafs Ragnars: að beina athyglinni frá útrásar-klappsýrunni Ólafi og að fórnarlambinu, forsetanum.
Þetta tekst í einn dag enda forsíðufrétt Fréttablaðsins og uppsláttur í Mogganum. Sé ekki ljósvakamiðlana hér í Brussel en geri ráð fyrir beinni útsendingu að minsta kosti á Stöð 2 og svo sérútgáfu af DV.
PS Mér er orðið ljóst að ég hef haft Guðjón Friðriksson, sagnfræðing fyrir rangri sök. Hann er að sjálfsögðu ekki höfundur bókarinnar um forseta Íslands enda hefur hann einungis skrifað bækur um mikilmenni þjóðarinnar. Mér hefur verið bent á það að nafni sagnfræðingsins, fyrrverandi undirmaður Ólafs Ragnars á Þjóðviljanum hafi ritað bókina. Eins og sést af athugsemdum í fjölmiðlum myndi enginn sagnfræðingur nota svo léleg vinnubrögð sem raun ber vitni. Á Þjóðviljanum tíðkuðust hins vegar önnur vinnubrögð sem kunnugt er. Beðist er velvirðingar á þessu.
PS II Eins og bent er á hér í athugasemdum þá leikur grunur á að bókinni hafi verið breytt eftir að útrásin sigldi í strand. Tek ég undir með athugasemdaritara um að fjölmiðlar sýni og sanni að þeir séu ekki klappstýrur eigenda sinna og upplýsi málið hið snarasta.
þriðjudagur, 18. nóvember 2008
Davíð kveikir í húsinu
Davíð Oddsson hefur engu gleymt. En hann hefur heldur ekkert lært. Ræða hans á Viðskiptaþingi er ekki ræða formanns stjórnar Seðlabanka Íslands heldur ræða stjórnmálamanns sem falið var að stjórna Seðlabanka Íslands, en hætti aldrei í pólitík.
Af ræðu Davíðs að dæma gæt hann rétt eins hafa dvalið á plánetunni Mars þangað til hann settist í stól Seðlabanka. Það er ekki af lestri ræðunnar að sjá að Davíð beri neinu ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut. Samt var hann forsætisráðherra frá 1991 til 2004 og beitti sér fyrir einkavæðingu bankanna og því hömluleysi sem því fylgdi.
Þungamiðjan í málsvörn Davíðs er sú að bankaeftirlit hafi verið flutt frá Seðlabankanum með lagabreytingu 1998 og það flutt til Fjármálaeftirlitsins. Væntanlega hefur það hins vegar verið Davíð sjálfur sem stóð fyrir þeirri lagabreytingu!?
Davíð segir réttilega að eitt helsta hlutverk Seðlabankans sé að berjast gegn verðbólgu. Hann sleppir hins vegar algjörlega að nefna bindiskylduna. Ekki nóg með að bindiskyldan hafi verið lækkuð á hans vakt, heldur var ekki gripið til þess ráðs að hækka hana jafnvel þó Davíð viðurkenni í ræðu sinni að hann hafi varð við því í hvað stefndi í febrúar á þessu ári.
Davíð sleppir bindisskyldunni og lætur sem það mál hafi ekki komið Seðlabankanum við!
Yngvi Örn Kristinsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, tók þátt í pallborði á fundi Viðskiptaráðs og benti þar á að þau stjórntæki sem hafa þurfti til að bregðast við stöðu bankanna væru til í Seðlabankanum. „Eitt af því sem ég benti á er að Seðlabankinn er birgur af stjórntækjum sem hefði mátt beita til að bregðast við stöðu bankanna. Seðlabankinn getur stjórnað bindiskyldu bankanna og hann hafði heimild til þess að setja á þá lausafjárreglur þannig að þeir legðu meira til hliðar af lánum til þess að mæta hugsanlegum erfiðleikum. Stjórntækin eru hvergi betri en í Seðlabankanum," segir Yngvi á Vísir.is.
Í ræðunni skýtur hann föstum skotum á ríkisstjórnina, fjölmiðla, fjármálaeftirlitið og bankana. Hann segist hafa talað við ráðherra ríkisstjórnarinnar hvað eftir annað, þeir hins vegar talað við bankastjórana og þeir sagt allt vera í lagi.
Þótt Seðalbankastjórinn kannist ekki við að Seðlabankinn hafi haft eftirlitsskyldu með bönkunum má samt lesa í skýrslu bankans um fjármálastöðugleika að hann og Fjármálaeftirlitið hafi gert álagspróf og niðurstaðan sé sú ”að fjármálakerfið
sé í meginatriðum traust. Íslenska bankakerfið uppfyllir kröfur
sem gerðar eru til þess og stenst álagspróf sem Fjármálaeftirlitið og
Seðlabankinn hafa gert.”
Þetta sagði Seðlabankinn í skýrslu í maí nokkrum mánuðum eftir að Davíð segist hafa varað við hruni bankakerfisins. Davíð bendir á hins vegar á í ræðu sinni að óhugsandi sé að nokkur seðalbanki ”hversu órólegur” sem hann væri, myndi nokkru sinni segja að allt benti til að ”bankar í hans landi, einstakir, jafnvel margir, að ekki sé talað um allir, stefndu innan skamms eða rakleiðis í þrot. Slíkir spádómar gætu nefnilega ræst fyrir sinn eigin tilverknað.”
Með þessum orðum gengisfellir Davíð allar skýrslur og yfirlýsingar Seðalbankans, og grefur undan sínum eigin trúverðugleika. En það er önnur saga.
Ræða Davíðs er reyndar innsýn inn í hið alltof nána samband Seðlabankans og stjórnvalda. Til að koma flokksfélögum sínum ekki illa, talaði Davíð opinberlega eins og að það gæfi örltíð á bátinn en ekkert meira.
Og það jafnvel þótt hann hafi í febrúar 2008 hafi sagt Geir og Ingibjörgu Sólrúnu og fleirum að niðurstaða bankamanna í Lundúnum væri að bankarnir hefðu komið sér og íslensku fjármálalífi,” í mikla hættu, og jafnvel ógöngur, með ábyrgðarlausri framgöngu……ef menn láta sér nægja að lifa í voninni verður of seint að bregðast við þegar ljóst verður að vonin rætist ekki.”
Nú er ljóst að allir vissu hvert stefndi – en enginn gerði neitt. En ef svo er hvers vegna sat hann auðum höndum og lét sér nægja að hringja í Geir?
Bindiskyldan sem hafði verið lækkuð eins og fyrr greinir, var ekki hækkuð eins og Kristján Vigfússon bendir á hér á Eyjunni. Og nú vitum við að eftir að Davíð og stjórnvöldum var ljóst í hvert stefndi var ekkert gert til að hindra útþenslu Icesave til Hollands sem var í maí.
Geir, Ingibjörg Sólrún og Björgvin G. Sigurðsson að ekki sé talað um Fjármálaeftirlitið hljóta að þurfa að skýra sitt mál.
Davíð Oddsson gerir enga greinarmun á sér sem stjórnmálamanni og embættismanni. Af ræðu hans sést best að hans helsta áhugamál er að verja arfleifð sína sem stjórnmálamanns. Allt annað verður að víkja.
En þótt hann klíni sökinni á Geir, Ingibjörgu Sólrúnu, bankana og fjölmiðlana er ljóst að hann ber mikla sök.
Og þá ekki síst fyrir hvernig hann stóð að Glitnismálinu þar sem hann virtist hafa minna áhuga á að bjarga því sem bjargað varð í bankakerfinu en að koma höggi á eigendur Glitnis.
Yfirlýsing hans um að greiða ekki skuldir óreiðumanna, gerði endanlega út af við orðstír Íslands og rak síðasta naglann í líkkistu hinna bankanna. Hvers vegna þurfti hann að gefa þessa yfirlýsingu? Hvers vegna lét hann sér ekki nægja að segja eins og ábyrgur Seðlabankastjóri að farið yrði eftir gildandi lögum og reglum?
Enn og aftur hlýtur maður að spyrja sig hvers vegna maður sem gat talað jafn tæpitungulaust þegar allt var komið í óefni, gat ekki varað íslensku þjóðina við því sem hann vissi að vofði yfir án þess að tala ”örlítið þokukennt” eins og hann orðaði það í dag?
En hvers vegna fór Davíð ekki í Kastljósið til Sigmars eins og venjulega eða hringdi í Elínu Hirst? (svo við höldum okkur aðeins við fjölmiðla ótengda bönkunum í eignarhaldi.) Eina skýringin á þessu, ef við höldum okkur við skýringar Davíðs, er sú að hann hefði ekki viljað rugga bátnum af tillitssemi við ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Flokkssins sem hann stýrði þar til fyrir fjórum árum og kom Landsbankanum í hendur Bjögganna fyrir hans atbeina.
Ræða Davíðs er lifandi sönnun þess að fagmenn eiga að ráða í Seðlabankanum ekki stjórnmálamenn.
föstudagur, 14. nóvember 2008
Loksins!Loksins!
Loksins loksins
Þá er Geir H. Haarde loksins hættur að berja höfðinu við steininn og er tilbúinn að viðurkenna staðreyndir: Sjálfstæðismenn eru búnir að opna á ESB. Loksins! Loksins!
Það þurfti þjóðargjaldþrot til að Sjálfstæðismenn viðurkenndu það sem öllum hefði átt að vera ljóst fyrir löngu að Ísland gæti ekki verið eitt og yfirgefið út í miðju Atlantshafi.
Nú tekur við slagurinn við Heimastjórnarmenn og spennandi verður að sjá viðbrögð Davíðs Oddssonar, Björns Bjarnasonar og Hannesar Hólmsteins. Kannski eru þeir búnir að gefast upp, hver veit?
Ekkert smávegis sem þessir menn þurfa að éta ofan í sig ef þeir ætla að halda áfram í pólítik og þar er Davíð jú enn, gamall slagsmálahundur lúinn og særður. Nú er ekkert eftir af því sem hann hefur staðið fyrir í pólitík: landið er herstöðvalaust, það er búið að þjóðnýta allt sem hreyfist, efnahagslifið í kaldakoli og við á leið í ESB.
Ef Ísland ætlar að hafa einhvern trúverðugleika hljóta þessir menn og forsætisráðherrann líka að víkja því þeir sáu ekki ljósið fyrr en eftir að hafa eyðilagt efnahag Íslendinga og einni samningsstöðu okkar við Evrópusambandið.
Haldið þið að einhver í ESB ríkjunum telji Geir og Davíð trúverðuglega eftir það sem á undan er gengið. Loksins loksins
Þá er Geir H. Haarde loksins hættur að berja höfðinu við steininn og er tilbúinn að viðurkenna staðreyndir: Sjálfstæðismenn eru búnir að opna á ESB. Loksins! Loksins!
Það þurfti þjóðargjaldþrot til að Sjálfstæðismenn viðurkenndu það sem öllum hefði átt að vera ljóst fyrir löngu að Ísland gæti ekki verið eitt og yfirgefið út í miðju Atlantshafi.
Nú tekur við slagurinn við Heimastjórnarmenn og spennandi verður að sjá viðbrögð Davíðs Oddssonar, Björns Bjarnasonar og Hannesar Hólmsteins. Kannski eru þeir búnir að gefast upp, hver veit?
Ekkert smávegis sem þessir menn þurfa að éta ofan í sig ef þeir ætla að halda áfram í pólítik og þar er Davíð jú enn, gamall slagsmálahundur lúinn og særður. Nú er ekkert eftir af því sem hann hefur staðið fyrir í pólitík: landið er herstöðvalaust, það er búið að þjóðnýta allt sem hreyfist, efnahagslifið í kaldakoli og við á leið í ESB.
Ef Ísland ætlar að hafa einhvern trúverðugleika hljóta þessir menn og forsætisráðherrann líka að víkja því þeir sáu ekki ljósið fyrr en eftir að hafa eyðilagt efnahag Íslendinga og einni samningsstöðu okkar við Evrópusambandið.
Það er nauðsynlegt að hreinsa til með nýrri stefnu og það verða Sjálfstæðismenn að gera. Ísland hefur engan trúverðugleika við samningaborðið, sitji Geir og Davíð áfram.
En nú er landið örlítið farið að rísa: Jibbí gaman gaman.
Hvítt er svart í sirkus Sólu smart
Það verður að segjast eins og er að margt er í tilkynningu um sparnað í utanríkisráðuneytinu orkar tvímælis. Eini umtalsverði niðurskurðurinn sem tilkynntur er, er á kostnað fátæka mannsins í Afríku. Beinn sparnaður er lþó tiltölulega ítill, fyrst og fremst er frestað fyrirhugaðri aukningu útgjalda.
Síðan verður að segjast eins og er að sú fullyrðing að spara eigi fé með því að sameina skrifstofur ráðherra og ráðuneytisstjóra er beinlínis villandi.
Skrifstofa ráðherra er í raun aðeins ráðherrann og einn ritari. Sparnaður sem felst í sameiningu skrifstofa getur því ekki verið mikill: hugsanlega verður einn ritari rekinn. Og ekki sparar það neitt því nú á að ráða inn nýjan skrifstofustjóra með sendiherratign til viðbótar - dýrasta starfskraft sem hægt er að hugsa sér. Sendiherrann er ekki fenginn innan úr ráðuneytinu þar sem mun fleiri sendiherrar eru en póstar fyrir þá.
Nei Ingibjörg Sólrún réð eina bestu vinkonu sína úr kvennalistanum og fyrrverandi pólitískan aðstoðarmann úr borginni, Kristínu Á. Árnadóttur og skipaði hana sendiherra. Hver var sparnaðurinn í því? Er ekki Samfylkingin margbúin að lýsa því yfir að fagleg hæfni skuli ráða en ekki pólitískur klíkuskapur?
Kristín kom fyrst við sögu utanríkismála þegar hún var ráðin til að vera kosningastjóri framboðs Íslands til öryggisráðsins á síðasta ári. Árangurinn þar var sem kunnugt er mikil vonbrigði þótt vafalaust hafi ekki verið við hana að sakast.
Kristín er vissulega frambærileg manneskja. Það verður hins vegar að segjast eins og er að það er falskur tónn í þessari ráðningu. Með fullri virðingu fyrir Kristínu, þá er fátt ef nokkuð í ferli hennar sem bendir til að hún hafi reynslu eða þekkingu til þess mikla starf sem hennar bíður sem yfirráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins með það verkefni að stokka upp utanríkisþjónustuna.
Kristín er ekki eina nýráðningin til utanríkisþjónustunnar því þar starfar nú verkefnaráðin Þórhildur Þorleifsdóttir fyrrverandi þingkona Kvennalistans. Leikstjórinn góðkunni hefur það verkefni að halda alþjóðlegt málþing um ályktun Öryggisráðsins númer 1325 og er reyndar ekki eina konan sem fengin er utan úr bæ til að sinna því þarfa verkefni.
Það er ekkert nýtt að ráðherrar skipi góðkunningja sína í embætti og á það ekki síst við um utanríkisráðuneytið. Það væri að æra óstöðugan að telja upp alla þá sem Davíð Oddsson skipaði í sendiherrastörf og fæstir þeirra höfðu nokkuð komið nálægt utanríkismálum.
Samfylkingarmenn gagnrýndu skipanir á valdaárum Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar og kröfðust faglegra ráðninga. Sama var upp á teningnum við ráðningu Seðlabankastjóra.
Er skipan Kristínar Á. Árnadóttur trúverðug í ljósi þessa? Væri ekki nær að sleppa því að tala um gagnsæi, faglegar ráðningar, ráðdeild og sparnað og kalla hlutina réttum nöfnum?
Það var að vísu flott smjörklípa að klæða ráðninguna í umbúðir sparnaðarátaks og enn flottara að senda Albert Jónsson, pólitískt skipaðan (en prýðis hæfan) sendiherra frá Washington til Færeyja.
Skilaboðin með þessum ráðningum og einkum ráðningu Kristínar eru að þrátt fyrir mikla fjölgun starfsmanna sé utanríkisráðuneytisins svo illa skipað að þar sé ekki að finna mannskap og þekkingu til að halda málþing um öryggisráðsályktun 1325 og að stokka upp ráðuneytið.
Gárungarnir munu vafalaust tala um einkavinkonuvæðingu...
Til að bíta höfuðið af skömminni er það svo kallað sparnaður sem í raun og veru felur ekkert annað í sér en að fjölga í æðstu stjórn utanríkisráðuneytisins. Það er vissulega erfitt að viðurkenna slíkt þegar verið er að tala um sparnað og niðurskurð á öllum sviðum. Þó held ég að margir hefðu haft samúð með Íngibjörgu Sólrúnu ef hún hefði sagt hreint út að við núverandi aðstæður þyrfti hún að bæta við sig pólitískum aðstoðarmanni -- tímabundið.
Það er hins vegar á skjön við málflutning Samfylkingarmanna að gera pólitískan aðstoðarmann að fastráðnum sendiherra.
Þið munið Spilverkið sem söng (næstum því): "Við í Sirkus Sollu Smart/ trúum því að hvítt sé svart/Og bíðum eftir næstu frakt/ Í buxnadragt."
Ingibjörg Sólrún: það er einn sirkus í bænum og við megum ekki við því að þú bætir öðrum við. Láttu Geira um þetta - þetta fer þér ekki.
PS: Ég er sem sagt byrjaður að blogga upp á nýtt. Aðstæður hafa breyst og málfrelsi mitt aukist. Sjáum svo til hvað ég nenni að nöldra mikið....
mánudagur, 20. október 2008
Kominn í bindindi
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra sagði við mig í fjölmenni eftir fyrstu tvo Eyjupistlana mína: "Hvar ætlar þessi maður að fá vinnu?"
Þetta var sagt í grínu en öllu gríni fylgir nokkur alvara. Nú er það svo að víða í hinum siðmenntaða heimi, þykir sjálfsagt að ráðamenn sæti gagnrýni. Heima kveinka menn sér yfir gagnrýni og enginn ber nokkurn tímann neina ábyrgð.
Viðbrögð við gagnrýni mína á viðtal við Dorrit Moussaieff hafa verið talsverð. Mikill meirihluti segir að þetta séu orð í tíma töluð. Aðrir telja hins vegar að forsetafrúin eigi að vera stikkfrí og forsetinn raunar líka.
En fúkyrðaflaumurinn og hótanirnar í minn garð vegna skrifa minna hér á Eyjunni, eru hins vegar með þeim hætti að ég sé mér engan hag í að halda þessu áfram.
Ég vil þakka lesendum lesturinn og óska útgefendum Eyjunnar til hamingju með vefsíðuna sem ég tel mikilvæga í íslenskri fjölmiðlaflóru.
PS
Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem hafa séð ástæðu til að leggja orð í belg um blogg-bindindi mitt í kommentunum. Mér finnst mjög vænt um margt sem þar hefur verið skrifað. Þeim sem finnst ég vera leiðinlegur er það guðvelkomið en hvers vegna voru þeir þá að lesa skrif mín? Nafnlausir ritsóðar dæma sig svo sjálfir.
Mér þykir hins vegar mikilvægt að leiðrétt tvennt. Mér hefur aldrei dottið í hug að taka orð Össurar bókstaflega, þetta var retórískt og meiningin einfalldega að það væri lítið á þessu að græða.
Össur er góður kunningi minn og hvarflar ekki að mér að hann vilji mér neitt illt. Og hann hefur aldrei kvartað yfir skrifum mínum enda er hann einn okkar besti Evrópusinni - og hlýtur því oft að hafa verið sammála mér.
Í öðru lagi er ég alls ekki kominn í blogg-bindindi útaf því sem skrifað er á kommentakerfinu. Mér gæti ekki verið meira sama og hárrétt sem einn bréfritari bendir á að það væri hin mesta hræsni að þola ekki slíkt.
Þær hótanir sem ég talaði eru annarar ættar og komu úr annari átt. Meira í ætt við að finna hestshaus á þröskuldinum en að vera vændur um fylleríi í kommentakerfi. (Skrifa raunar oftast á morgnana og er enn ekki farinn að drekka viskí með seríósinu.)
Og svo í lokin ég sagðist aldrei vera hættur að blogga að eilífu. Það hentar mér ekki í augnablikinu og mér finnst það ekki gaman í bili. Bindindið stendur þangað til það breytist. Þá kannski dettur maður í það aftur með stæl!
sunnudagur, 19. október 2008
Vertu heima að telja demantana
Eyju-bréf til Dorrit Moussaieff:
„ Ekki hefur verið eins mikil þörf fyrir mig hér, en ég hef samt lagt áherslu á að fá áhrifamikla útlendinga til landsins, einkum í markaðssetningu í hverri grein.“ Dorrit Moussaieff í sunnudags-mogganum í dag.
Dorrit, hvaða markaðssetning stjórnaði því að þú lést manninn þinn bjóða dæmda fjárglæfrakvendinu Mörthu Stewart til Íslands? Það er alkunna að öllu útrásarliðinu var boðið, en segðu mér var það vegna þess að þú taldir þau öll vera í svindlbransanum með Mörthu Stewart? Ef svo er, þá ertu klárari en ég hélt. Ef svo er þá ertu bara brilljant.
Því frómt frá sagt Dorrit þá finnst mér það koma úr hörðustu átt þegar þú gagnrýnir efnishyggju Íslendinga og talar um að gildin hafi orðið “óljósari”. Segðu mér Dorrit er boðið ykkar Ólafs Ragnars ekki einmitt frábært dæmi um þetta? Um hrun þeirra gilda sem fólust í setningu Hávamála (spurðu manninn þinn hvað það er): “Deyr fé deyja ,frændur, deyr sjálfr et sama; ek veit einn, at aldri deyr: dómr of dauðan hvern”.
Að þjóðhöfðingi Íslendinga haldi konu sem er dæmd fyrir fjársvik boð? Sem ékk ekki vegabréfsáritun til Bretlands? Varst þú að reyna að bæta vinkonu þinni það upp? Ekkert mál á Bananaeyjunni!
Slepppum því.
Sennilega má líkja því að refsa ykkur Ólafi Ragnari fyrir ófarir okkar eins að hýða klappstýrurnar.
En þið hafið samt verið klappstýrur og ekkert annað og þið getið ekki slitið ykkur frá því. Þegar þú segir :”Bíll þarf bara að vera á fjórum hjólum til að komast á milli staða og tilgangur úrs er að mæla tímann.” Bíddu nú við. Finnst þér það ekki skjóta skökku við að fólk sem sníkir far í einkaþotum auðmanna, þegar það ferðst ekki á kostnað ríkissins á Saga classs og þarf hvorki að fjármagna sinn eigin bíl né keyra hann sjálf, tali svona niður til venjulegs fólks? Ég veit að þið látið yfirleitt eins og þið þekkið ekki fólk sem ekki ferðast á einkaþotu nema af afspurn. En þótt þiðu bjoðið slíku fólki ekki í partý á Bessastöðum: hvar er hugmyndaflugið?
Og þú kona sem fædd er með Rolex-úr um úlnlið, ekki tala svona niður ti lfólks sem ekki getur gefið Swatch úr til barnanna sinna í fermingargjöf.
Í Mogganum var haft eftir þér: “Forsetafrúin leggur ennfremur áherslu á nýtni og sparsemi: „Ég hef lagt áherslu á það hér á Bessastöðum að endurnýta allt sem hægt er, litla hluti eins og álpappír, og stundum er gert grín að mér fyrir vikið. En það er engin ástæða til að sóa peningum.”
Dorrit mín. Það vita allir sem vilja vita að öll einkaneysla eiginmanns þíns, eins hæstlaunaða íslenska launamannsins Íslandi auk þinnar- miljónamæringsins- er borguð af islenska ríkinu. Takk fyrir hugulsemina að hugsa um litlu hlutina . En af hverju borgið þið ekki sjálf fyrir ykkar einkaneyslu? Af hverju þiggur eiginmaður þinn himinháa dagpeninga í hvert skipti sem hann fer út fyrir landsteinana þótt skattgreiðendur borgi öll hans útgjöld?
Hvernig vogarðu þér að tala svona? Hefurðu enga sómatilfinningu?
Þú segir : “Ég hef lagt áherslu á að matreiddir séu íslenskir réttir á Bessastöðum, það hefur verið gert síðan ég kom hingað og ég held að Íslendingar eigi að gera það sama. Til dæmis er oft boðið upp á svið í boðum. Það er nauðsynlegt að hverfa aftur að grunngildunum, sem skipta svo miklu máli í þessu afskekkta og harðbýla landi.”
Þetta er íslenska nútímaútgáfan af þeim fleygu orðum:: “Af hverju borða þau ekki kökur?” Í þínum huga og fortíð þýðir að huga að grunngildunum sennilega að hætta að hugsa um hlutabréf og fara að hugsa um demanta.
Hrun Íslendingar er miklu meira en það. Ég held að þú hvorki getir né hafir neinn áhuga né skilning á því.
Ekki vil ég falbjóða þig Dorrrit, þeirri sómakonu sem mér sýnist þú vera, fallöxinni, því fer fjarri. Hins vegar held ég að ef ef það sé rétt að þú“elskir Ísland” einsg og þú segir, þá gerir þú landinu fremur gagn með því að halda þig heima og láta Ólaf Ragnar hjálpar þér eins mikið og hægt er við að telja demantana þína.
Og ég vona svo sannarlega að þeir séu rosalega margir svo hann hafi mjög lítinn tíma til að tala um Ísland erlendis því hann gerir sannarlega landið ekki "“stórara” í hvert skipti sem hann opnar munninn.
Og ekki þú heldur.
Samfylkingin: sofandi að feigðarósi
Nýjasta skoðanakönnun um fylgi við aðild að Evrópusambandinu vekur nokkra undrun því á sama tíma og ýmsir framsóknar- og sjálfstæðismenn og málsmetandi máttarstólpar samfélagsins hafa “komið út úr skápnum” í Evrópumálum, eykst fylgið ekki.
Gleymum því samt ekki að það er yfirburðafylgi við málstaðinn!
Ég veit að það er fátt leiðinlegra en “I told you so” en engu að síður ætla ég að taka saman nokkra punkta í pistlum mínum þar sem ég gagnrýni Samfylkinguna fyrir að taka ráðherrastólana fram yfir þjóðarheill.
Þessir punktar gætu kannski orðið einhverjum óbreyttum Samfylkingarmanni að liði á fundi flokksins með formanni sínum í dag.
Barbados eða Evrópa, 21. mars
“Ég er nýkominn frá Íslandi og heyrði marga málsmetandi Samfylkingarmenn setja spurningarmerki við ofuráherslu á framboðið til Öryggisráðsins. Eru heimsóknir til Afganistans og Barbados málið á meðan íslenska krónan hrynur til grunna? Hverju sæta máttleysisviðbrögð Íslands um Tíbet á tímum mannréttindaátaks ? Og fyrst og fremst: Hvers vegna heyrist ekkert í formanni Samfylkingarinnar þegar Evrópusambandsaðild og upptaka Evru er loksins (loksins!) komin í forgrunn íslenskra stjórnmála?”
Sofandi Samylking, 21. apríl
“Sannast sagna hafa ráðherrar flokksins frekar vakið athygli fyrir ferðagleði sína en starfsgleði. Með fullri virðingu fyrir heita vatninu í Djibouti og ráðstefnu um þróun eyja á Karíbahafinu,er hætt við því almenningur hafi meiri áhyggjur af hruni krónunnar, hruni fasteignaverðs og okurvöxtum. Margir hafa óþægilega á tilfinningunni að Samfylkingarráðherrar séu svo ölvaðir af töfrum valdsins að þeir hafi gleymt því hvað þeir standa fyrir. Aðild Íslands að Evrópusambandinu er brýnni en nokkru sinni fyrr og það er löngu kominn tími til að ráðherrar Samfylkingarinnar hætti ferðafylleríi sínu og taki til við að hrinda vilja næstum sjötíu prósent kjósenda í framkvæmd.Samfylkingin ætti að hafa byr í seglum í skoðanakönnunum miðað þetta mikla fylgi almennings við málefni sem hún ein flokka hefur barist fyrir.Hefur framboðið til öryggisráðsins villt formanni flokksins sýn? Er hún sofandi á vaktinni?Er ekki nær að auka áhrif Íslands á sín eigin málefni með því að ganga í Evrópusambandið en reyna að auka þau út á við með kosningu í Öryggisráðið? “
Ingibjörg Sólrún, laxinn eða teninginn, 2. júlí
“Prófessorinn (Robert Wade, professor við LSE) bendir á að vandi íslensks efnahagslífs snúist ekki síst um að Seðlabankinn og jafnvel íslenska ríkið séu ekki nægilega stór í sniðum til að vera bakhjarl fyrir fjármálageirann og skuldir landsmanna.Samfylkingin hefur haft á stefnuskrá sinni að Ísland gangi í Evrópusambandið. Samfylkingin hefur líka leynt og ljóst á stefnuskrá sini að Ísland taki upp Evruna sem ekki verður gert á annan hátt en með inngöngu í ESB. Með því að taka upp evruna myndi íslenskt efnahagslíf og þar með bankarnir sjálfkrafa fá Seðlabanka Evrópu sem bakhjarl. Einhliða upptaka dollarans til dæmis hefði ekki þessi áhrif.”
Til hvers er Samfylkingin í pólitík?, 3 . júlí
“Til hvers er Samylkingin í pólítik? Til að vinna að framgangi hugsjóna sinna eða til að verma ráðherrastólana? Það má alveg saka mig um að vera naív en ég á enn pínulitla von um að það leynist kannski ekki hugsjónaglæður (það er til of mikils ætlast) heldur ábyrgðartilfnning hjá ráðamönnum flokksins.Landinu er að blæða út við núverandi aðstæður. Fyrirtækin eru að stöðvast vegna gjaldeyrisvanda, bankakreppu vegna bakhjarlsleysis og vaxtaokurs. Fjölskyldurnar eru að missa bíla sína og hús og matar- og bensínverð er að sliga jafnvel meðaltekjufólk. “
Þannig var ástandið fyrir hrunið; mér sundlar við tilhugsunina hve vont hefur versnað mikið. Samfylking flaut sofandi að feigðarósi. Ráðherar flokksins voru hver um sig uppteknir af gæluverkefnum hver á sínu sviði en á meðan gleymdist að gæta fjöreggs þjóðarinnar.
laugardagur, 18. október 2008
Svarið er iðjagrænt og evrópskt
Ég held að flestum sanngjörnum og skynsömum mönnum á Íslandi sé nú orðið ljóst að við getum ekki staðið utan Evrópusambandsins lengur. Eins og dæmin frá td. Ungverjalandi og Írlandi sýna, hefði aðild að ESB, að vísu ekki bjargað okkur frá hruni bankakerfisins en alveg örugglega frá því þjóðargjaldþroti sem nú blasir við.
Að því ógleymdu að Brown hefði aldrei hagað sér við ESB ríki eins og hann gerði við Ísland. Börn okkar og barnabörn munu gjalda fyrir skammsýni, heimóttaskap og ábyrgðarleysi Davíðs og Geirs, Björns og Hannesar og félaga. Að ekki sé minnst á bankana.
Hins vegar verðum við að horfa fram á veginn og fylgjast vandlega með þróun mála. Ýmsum kom á óvart hve afdráttarlaust Evrópusambandið var í yfirlýsingum sínum um að halda fast við fyrirætlanir um að skera niður losun gróðurhúsalofttegunda nú á krepputímum.
Ég hef lengi undrast hversu lítið er fjallað um þá staðreynd á Íslandi að auk þessa háleita markmiðs, hefur ESB sett sér annað markmið og það er að fimmtungur orkunotkunar komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Lengst af bjuggust menn við því að notkun lífræns eldsneytis væri helsta svarið, en tvær grímur hafa runnið á menn.
Nú virðist ljóst að aukin eftirspurn eftir lífrænu eldsneyti hefur haft í för með sér hækkun matarverðs þegar maís og fleira er notað sem eldsneyti og þar að auki valdið skógareyðingu og þar með ýtt undir loftslagsbreytingar.
Það er alveg ljóst að staða Íslands gagnvart Evrópusambandinu hefur snarversnað eftir að kreppan skall á.
Á sama tíma bendir margt til að Norðurlandasamstaðan haldi ekki lengur (Ekki bætir úr skák niðurstaðan í öryggisráðskosningunni þar sem við sem fulltrúar Norðurlanda vorum léttvæg fundin.)
Rökin fyrir Evrópusambandsaðild eru því þyngri en áður en aðstæður erfiðari.
Við verðum að skoða vel þau spil sem við höfum á hendi og hvernig við spilum þeim út. Þótt Nicolas Sarkozy, forseti Frakka sem eru nú um stundir í forystu ESB, hafi beygt Austur-Evrópuríki og Ítalíu, er alveg ljóst að nýju ESB ríkin í austri telja sig bera mjög skarðan hlut frá borði og vera í verri aðstöðu en aðrir til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.
En hér er sóknarfæri fyrir Íslendinga. Jarðhita er einmitt einna helst að finna í austurhluta Evrópu (og reyndar Ítalíu líka!) og miklir möguleikar á að nýta hann til raforkuframleiðslu. Íslenskir jarðhitavíkingar sem heimsóttu Slóvakíu fyrir nokkrum árum líktu landinu við svissneskan ost: landið var útúrborað í leit að olíu og gasi en alls staðar fundu menn aðeins heitt vatn og fussuðu og sveijuðu.
Á ráðstefnu sem Iðnaðarráðuneytið efndi til í samvinnu við ESB hér í Brussel kom fram að Slóvakía og fleiri lönd þar eystra gætu sótt fimm til tíu prósent orkuþarfar sinnar til jarðhita. Meira að segja Þýskaland og Ítalía gætu nýtt jarðhita til að fullnægja skyldum sínum um að nýta endurnýjanlega orku.
Ólafur Stephensen, nú ritstjóri Morgunblaðsins benti á þessa möguleika í viðtali við mig fyrir ritið Mótum eigin framtíð fyrr á þessu ári og sagði að orkulindir Íslands væru ofarlega á blaði í Brussel “ekki síst vegna þess að mönnum hugnast ekki að vera háðir orku frá Rússum. Ég held að við getum notað þessar orkulindir í samskiptum við ESB og jafnvel í aðildarviðræðum.”
Nú þegar öryggisráðsdraumurinn hefur breyst í martröð er ekki tími til kominn að sinna Evrópumálunum í stað þess að halda furðulegar ráðstefnur í Karíbahafinu?
Um leið er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að við fetum einstigið á milli nýtingar orkunnar og umhverfissjónarmiða. Eftir að fjármálageirinn annars vegar og Davíð og Geir hins vegar eyðilögðu orðstír Íslendinga sem “óreiðumanna”, hefur aldrei verið eins mikilvægt að halda í ímynd hreinnar nátturu.
Björk, Sigur Rós og fleiri eru það eina sem við höfum eftir sem jákvæða ímynd erlendis auk hreina vatnsins og fjallanna. Ef okkur á að takast að nýta okkar sóknarfæri í orkumálum , verðum við að leggja Landsvírkjunar-tuddaskap á hilluna og móta stefnu sem víðtæk samstaðar er um.
Framtíðin er græn.Og evrópsk.
föstudagur, 17. október 2008
Ísland féll ekki vegna kreppu
Nú er kosningin í öryggisráðið yfirstaðin og niðurstaðan er vonbrigði. Ég tel hins vegar út í hött að telja að kosningabaráttan sem slík eða fjármálakreppan hafi haft áhrif. úrslitaáhrif. Svo virðist sem ákafur málflutnngur okkar á lokasprettinum um að við værum ekki gjaldþrota hafi virkað á marga í þriðja heiminum (65 prósent atkvæða) eins og maður á balli sem labbar að konu kortér í þrjú og segi :" ég er ekki nauðgari".
Hefði kannski verið betra að auka þróunaraðstoð einnar ríkustu þjóðar í heimi? Sem við erum þrátt fyrir allt og allt.
Hins vegar er ljóst að td. Gro Harlem Brundtland hefur sagt það á semi-opin berum vettvangi að Íslendingar væru hugmyndafræðilega (þróunaraðstoð og fleira) ekki í stakk búnir til að taka að sér að verja norræn gildi í öryggisráðinu og utanríkisþjónustan væri ekki nógu góð til þess.
Mér skilst að Svíinn Jan Eliasson, stjórstjarna hjá SÞ og fyrrverandi forseti Allsherjarþingsins hafi tekið þátt i framboðinu á vettvangi í New York á síðustu dögunum.
Það má vissulega deila um hvort framboðið hafi átt rétt hjá sér yfirleitt miðað við að Ísland virðist aldrei hafa hirt um stefnumótun á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ég held að orsökin liggi fyrst og fremst hjá því að Austurríki (Hitler, Mozart, Freud, Zweig, Beethoven) og Tyrkland (Ottóman heimsveldið, brúin milli Evrópu og Asíu, Orhan Pamuk) hafi þótt betri kostir en Ísland (Þorskastríðið, Davíð Oddsson, Björk ,Hallgrímur Helgason) hafi samanlagt þótt merkilegri á meðal þjóða en við.
Ég veit ekkert um hvort stuðningur Norðurlanda hefur brugðist. Það kann að vera. En allavega er undarlegt að norrænt ríki falli í þessari kosningu. Saga til næsta bæjar.
Lítið notað sæti til sölu
Vonandi vinnur Ísland sæti í Öryggisráðinu. Við gætum auglýst það til sölu "lítið notað". Nú eða veðsett það.
Grínlaust þá högnuðust ríkin sem sátu í ráðinu þegar Íraksstríðið var yfirvofandi, mjög á baráttu Bandaríkjanna og Frakklands.
Og það væri Íslandi mikil lyfistöng ef við næðum kjöri. Hins vegar virðist sem mikil áhersla Íslendinga á að verja sig gegn umtali um fjárhagsvanda, hafa komið mönnum mjög í opna skjöldu á Allsherjarþinginu. Í grein í New York Times furðuðu fulltrúar skítblankra Afríkuríkja sig á þessum málflutningi.
Það er mjög erfitt að átta sig á því hverjir muni styðja Ísland þegar til kastanna kemur því atkvæðagreiðslan er leynileg. Sjálfur heyrði ég eitt sinn íslenskan sendimann lofa tilteknum frambjóðanda til framkvæmdastjóra stuðningi Íslands. Þegar ég innti hann eftir því hvort þetta hefði verið ákveðið, svaraði hann: "Auðvitað ekki, en svona er diplómasían."
Þessi orð eru skrifuð þegar atkvæðagreiðslan er að hefjast. Ég vona svo sannarlega að Ísland nái kjöri, þótt ég sé ekki bjartsýnn. Er ekki allt hey í harðindum?
Ekki hægt að kenna EES um
Á dögunum vakti ég athygli á því hvernig Geir H. Haarde vísaði allri ábyrgð á gangverki fjármálakerfisins yfir á Evrópusambandið.
Sjálfum fannst mér þetta aðallega merkilegt sökum þess að forystumaður í stjórmmálaflokki sem reynt hefur að sýna fram á að EES löggjöf væri sáralítill partur af íslenskri löggjöf, skýrði nú þjóðinni frá því að Ísland hafi engu ráðið um löggjöf á sviði sem var amk. það mikilvægt að það hefur nú leitt til hálfgerðs þjóðargjaldþrots.
Ágætur maður sendi mér póst sem ég ætlað að spinna við hér á eftir til að vekja athygli á því að forsætis- og viðskiptaráðherra, hafa látið að því liggja að íslenskum stjórnvöldum hafi verið nauðugur einn kostur að leyfa Landsbankanum að setja þjóðina á hausinn með Icesave reikningunum.
Í Morgunblaðinu síðastliðinn sunnudag sagði þannig forsætisráðherra Geir H. Haarde: “Þessir reikningar [Icesave] eru leyfilegir samkvæmt EES-reglunum, en tryggingin fer eftir því hvort starfsemin er rekin í útibúi eða dótturfélagi.” Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur tekið í svipaðan streng: að vegna EES hafi Landsbankinn getað farið sínu fram og ekki hafi verið við ráðið.
En íslenskum yfirvöldum var í lófa lagið að grípa í taumana. Fjármálaeftirlitið getur nefnilega bannað stofnun útibús banka erlendis á EES-svæðinu. Lesandi bloggsins bendir þannig á að tilskipun ESB um málið geri ráð fyrir að hægt sé að koma í veg fyrir stofnun útibús á EES. Um það er fjallað í 4. mgr. 36. gr.laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Ég vitna hér orðrétt í bréfið:
"Fjármálaeftirlitið getur bannað stofnun útibús skv. 1. mgr. ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis sé ekki nægilega traust. Þetta ákvæði er í samræmi við 20. gr. tilskipunar ESB 2000/12/EB Íslenskur banki á ekki sjálfkrafa rétt til að stofna útibú Evrópska efnahagssvæðinu það er alveg kýrskýrt. Það var algjört glapræði og í raun stórkostlega vítavert að leyfa íslensku bönkunum að stofna útibú á tugmilljóna mörkuðum erlendi. Ástæðan fyrir því vitum við öll því hún er bæði einföld og augljós. Gífurlegur stærðarmunur er á Íslandi og öðrum löndum í öllu samhengi fjármálalegs eðlis. Á það bæði við um stjórnunalega þáttinn og þann fjárhagslega. "
En hvers vegna tók þá Landsbankinn þá örlagaríku ákvörðun að haga reikningum þannig að íslenska ríkið sat í súpunni við gjaldþrotið?
"Málið er að það er miklu ódýrara og fljótlegra að stofna útibú en dótturfélag eða kaupa banka sem verður síðan dótturfélag. Skýrir það að Landsbankinn var með útibú en ekki dótturfélag fyrir Icesafe. Allir sem að komu að málinu vissu eða áttu að sjá þessa augljósu staðreynd. Svo einfalt er það!"
Þetta eru mjög mikilvæg atriði: Fjármálaeftirlitinu var í lófa lagið að stöðva framgang Landsbankans. Eigum við að trúa því að ráðherrarnir hafi ekki vitað það? Mér þykir það með ólíklindum. Ríkisstjórnin ber því sjálf ábyrgð á þessu máli og getur ekki skýlt sér að baki EES. Hve miklu ætli Landsbankinn hafi tapað á því að reyna að spara smápeninga með þessum hætti? Hver bar ábyrgð á því?
PS Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hugsað til þess, fyrr en ég fékk ábendingu í dag, að lesendur sendu mér póst í stríðum straumum á eyju netfang mitt. Hef semsagt ekki opnað það mjög lengi! Ég þakka sendingarnar og bið þá sem skrifa um að láta þess getið hvort ég megi vitna í skrif þeirra og þá hvort það skuli gert undir nafni.
miðvikudagur, 15. október 2008
Stjörnuspeking í Seðlabankann
Þessa stundina eru leiðtogar Evrópusambandsríkjanna 27 að koma til fundar í húsakynnum ráðherraráðsins, við hliðina á vinnustað mínum hér í Brussel. Í þann hópi gætu Íslendingar löngu verið komnir. Afleiðingar þeirrar skammsýni að halda að við Íslendingar værum svo duglegir og gáfaðir að við þyrftum ekki að taka þátt í helsta samstarfsvettvangi vina- og nágrannaþjóða okkar blasa við öllum landsmönnum.
Svo undarlegt sem það kann að virðast eru orsakir þess hluta kreppunnar á Íslandi sem er séríslenskur, að verulegu leyti fremur pólitískar, jafnvel sálfræðilegar, en efnahagslegar.
Það hafa fjölmargir varað við hættunni af því að efnahagskerfi okkar gæti hrunið og stæðist ekki sem undirstaða átta sinnum stærra bankakerfis.
Skýrsla um ástæðurnar fyrir efnahagsvanda Íslands, sem unnin var fyrir Landsbankann, var til umfjöllunar í fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi og hafa umræður um hana magnast að nýju í kjölfarið.
Það er fyllsta ástæða til krefjast skýringa á því jafnt frá forkólfum Landsbankans sem ríkisstjórnar og Seðlabanka hvers vegna sýrslu Willems Buiter og Anne Sibert var stungið undir stól.
Niðurstaða þeirra var að íslenskt hagkerfi væri of smátt fyrir umfang bankageirans. Ef Íslendingar ætluðu að halda bönkunum yrðu þeir að ganga í ESB og taka upp evru, ef Íslendingar ætluðu að halda í krónuna yrðu þeir að losa sig við hina alþjóðlegu bankastarfsemi.
Þetta var líka kjarni í ummælum manna á borð við Daniel Gros, forstjóra Center for European Policy Studies(CEPS) í sjónvarpsþætti sem ég gerði um Ísland og Evrópu síðastliðinn vetur en fékkst ekki sýndur í Ríkissjónvarpinu því dagskrárstjóranum hugnuðust ekki styrktaraðilar mínir.
Þetta eru kvistar á sama meiði. Allt þjóðfélagið hefur kóað með Sjálfstæðismönnum og öðrum einangrunarsinnum í því að mega ekki ræða hlutina. Þetta eru hinar pólitísk/sálfræðilegu skýringar kreppunnar: meðvirkni sem leiddi til þjóðargjaldþrots.
Nú eru Sjálfstæðismenn loks farnir að átta sig á því hvert Sirkus Geira smart fór með þjóðina og bæði Þorgerður Katrín og Eyþór Arnalds, einn af oddvitum Heimssýnar, félags ESB andstæðinga, eru nú til í að ræða aðild.
Það er kaldhæðnislegt að á sama tíma og forsætisráðherra, forseti og seðlabankastjóri voru steinsofandi við stýrið spáði Gunnlaugur Guðmundsson, stjörnuspekingur því fyrir
síðustu áramót að ríkið þyrfti að hlaupa undir bagga með bönkunum á þessu ári.
Vonandi er Gunnlaugur eins sannspár í eftirfarandi orðum: “Ég held að við leggjum niður krónuna og göngum í Evrópusambandið. Ísland mun ganga til liðs við heiminn og nýtt fólk komast til valda."
Gunnlaugur stjörnuspekingur hefur aldrei gefið sig út fyrir að vera hagfræðingur en ég er sannfærður um að það væri betur komið fyrir íslensku þjóðinni með hann við stýrið í Seðlabankanum en Davíð Oddsson.
þriðjudagur, 14. október 2008
Götustrákur gerist spakur seppi
Viðtal Helga Seljan við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands hefur eiginlega ekki fengið neina athygli í fjölmiðlum. Því miður er það sennilega dæmi um hversu forsetaembættið hefur hrunið í áliti á Íslandi frá því þessi pólitiski slagsmálahundur var kosinn forseti og tók við arfleifð menningarjöfra á borð við Kristján Eldjárn og Vigdísí Finnbogadóttur.
Helgi Seljan hefur verið kallaður “fífl og dóni “og oftar en ekki götustrákur í palladómum á netinu en í beina útsendingu frá Bessastöðum í gærkvöldi var mættur maður sem hefði getað verið fullsæmdur af því að vera hirðmaður í hirð Ólafs helga.
Hvar var ákafamaðurinn og siðbótarmaðurinn Seljan em slátraði Ólafi F. Magnússyni??
Ólafur Ragnar Grímsson er enginn aukvisi. Einungis pólitískt séní gæti nýtt sér tækfiæri (sem Davíð Oddsson gaf honum) til að breytast úr einum óvinsælasta stjórnmálamanni þjóðarinnar í að vera forseti. Á það embætti ekki að vera sameiningartákn þjóðarinnar?
Hver nema pólitískt séní gæti fengið að sitja eins og páfinn í viðtali hjá kardínála í ríkissjónvarpi Íslendinga þegar fjármálakerfið hefur sett Íslendinga á hausinn? Meira að segja þótt Johnny Rotten Íslands tæki viðtalið. Og meira að segja eftir að viðmælandinn, sjálfur forseti Íslands hefði haldið því fram í ræðu og riti að Íslendingar væru svo snjallir í fjármálum að endurskoða þyrfti allar teóríur um bissness upp á nýtt?
Þetta sagði Ólafur Ragnar í ræðu yfir viðskiptajöfrum og blaðamönnum í Lundúnum fyrir 3 árum sem hann nefndi: “HOW TO SUCCEED IN MODERN BUSINESS:
LESSONS FROM THE ICELANDIC VOYAGE”
“Of course, many factors have contributed to the success of this voyage, but I am convinced that our business culture, our approach, our way of thinking and our behaviour patterns, rooted in our traditions and national identity, have played a crucial role. All of these are elements that challenge the prevailing theories taught in respected business schools and observed in practice by many of the big American and British corporations.”
Það var og.
Helgi Seljan benti réttilega á lof Ólaf Ragnars um skort á “skrifræði” á Íslandi og spurði á sinn nýlærða kurteislega hátt á hvort þetta hefði ekki verið skálkaskjól fyrir að fara á svig við lög og reglur.
Hann spurði hann hins vegar ekki um þessi ummæli:
“Ninth is the importance of personal reputation. This is partly rooted in the medieval Edda poems which emphasise that our wealth might wither away but our reputation will stay with us forever. Every Icelandic entrepreneur knows that success or failure will reflect not only on his or her own reputation but also on the reputation of the nation. They therefore see themselves as representatives of a proud people and know that their performance will determine their reputation for decades or centuries to come.”
Ertu ekki að grínast Ólafur Ragar?
Stór ástæða fyrir þvi að enginn vill koma okkur til hjálpar er hrokinn og stórmennskubrjálæðið sem felst í orðum forsetans og útrásarvíkinganna hans:
“The track record that Icelandic business leaders have established is also an interesting standpoint from which to examine the validity of traditional business teaching, of the theories and practice fostered and followed by big corporations and business schools on both sides of the Atlantic. It enables us to discuss the emphasis on entrepreneurial versus structural training, on process versus results, on trust versus career competition, on creativity versus financial strength…Let me leave you with a promise that I gave at the recent opening of the Avion Group headquarters in Crawley. I formulated it with a little help from Hollywood movies: "You ain't seen nothing yet.”
Takið eftir að hann lofar "creativity against financial strength.”
Er hægt að eiga glámskyggnari forseta? Ber hann enga ábyrgð? Hvers vegna er tekið á honum með þeim silkihönskum sem braun ber vitni í Kastljósi?
Ég hef áður sagt um viðtöl Gisla Marteins við Davíð Oddssson og Kjartan Gunnarsson á sama vettvangi að logísk niðurstaða hefði verið að hann hefði kysst þá á munninn. Ég er alltof kurteis til að segja að lógísk niðurstaða Helgja Seljan við forsetann hefði verið að hann hefði kysst hann á rassinn.