föstudagur, 2. janúar 2009

Skífu-Jón, komdu heim!

Það er óskaplega dapurlegt að horfa upp á mitt gamla fyrirtæki Stöð 2 og sérstaklega minn gamla vin Sigmund Erni Rúnarsson verða sér til skammar. Kryddsíldin var hneyskli. Að bjóða ráðamönnum gjaldþrota þjóðar á kampavínsfyllerí í miðborg Reykjavíkur eins og ekkert hafi í skorist er veruleikafirring.

Að sjálfsögðu var boðað til mótmæla. Og þar sem Geirjón var í fríi var vitað mál hvernig þetta myndi fara. Þetta var eins og setja hausinn á höggstokkinn. Það var feigðarflan að halda fast í að hafa útsendinguna á Hótel Borg. Það var úr vöndu að ráða fyrir lögregluna og ber að harma að lögreglumennn hafi meiðst, starfsmenn Stöðvar 2 verið beittir ofbeldi og hótelið skemmt. En hér er á ferðinni alvarlegt dómgreindarleysi forsvarsmanna Stöðvar 2.

En gott og vel.

Sigmundur Ernir og Ari Edwald, forstjóri 365 (eða hvað það fyrirtæki heitir þessa stundina) hafa leikið ótrúlegan afleik með því að halda því fram að mótmælendur væru að ráðast gegn Stöð 2. Vissulega má margt slæmt um það fyrirtæki segja en hvers vegna Sigmundur og Ari setja sig við hliðina á gjaldþrota stjórnarherrunum er mér hulin ráðgáta.

Fjölmiðlafyrirtæki verður að laga sig að tíðarandanum hverju sinni. Tíðarandinn er ekki hliðhollur stjórnarherrunum. Yfirlýsingar Ara og Sigmundar um “stjórtjón” fyrirtækisins eru beinlínis hallærislegar: 2-3 milljónir. Þetta eru ekki einu sinni samanlögð mánaðarlaun þeirra félaga.

Ara er vorkunn að hafa svona lítið vit á viðskiptum. Hann hefur nefnilega ALDREI rekið fyrirtæki á ævinni. Þessi skemmtanastjóri íslenska viðskiptalífsins var einfaldlega keyptur til að setja mannlegan svip á fyrirtæki í eigu Baugs.

Nú hefur hann hins vegar komið óorði á fyrirtækið og verður væntanlega látinn fara fljótlega.

Jón Ásgeir finnur örugglega einhvern enn þægari. Baugsvæðing Stöðvar 2 heldur nefnilega áfram. Nú er Freyr nokkur Einarsson kominn inn á gólf fréttastofunnar sem sérstakur varðhundur eigenda og ef einhver skyldi velkjast í vafa um hver boðskapurinn er, hefur þeim vafa verið eytt með því að reka umsjónarmann Íslands í dag og setja þar inn Sindra Sindrason, fyrrverandi (núverandi?) blaðafulltrúa Jóns Ásgeirs.

Þetta er mjög dapurleg þróun því lengst af hef ég talið það öfugmæli að tala um Stöð 2 og Fréttablaðið sem Baugsmiðla. En ég hef áhyggjur af þróuninni og óttast að uppgangur Sindra sé eins og kanarífuglinn í kolanámunni. Fyrirboði um grímulausa Baugsvæðingu.

Ég trúi ekki öðru en að starfsmenn Stöðvar 2 sakni nú Jóns Ólafssonar í Skífunni. Hann hefði aldrei sýnt af sér slíkt dómgreindarleysi. Og reyndar held ég að Jón hafi verið býsna góður eigandi Stöðvar 2. Ég minnist þess að eitt sinn gaf Jón Njarðvíkurkirkju forláta orgel. Allir fjölmiðlar landsins greindu stuttlega frá þessum höfðingskap Skífu-Jóns, nema einn: Stöð 2.

Og hann lét það gott heita. Jú jú, Jón setti sitt mark á dagskrá Stöðvarinnar að ekki sé talað um blessaða Bylgjuna. Jón var hins vegar greindur og ískaldur í hugsun og vissi sem var að ef hann notaði vald fjölmiðilsins myndi það leysast upp og hverfa. Og verða fullkomlega verðlaus.

Þegar Elín Hirst, sérstakur fulltrúi Kjartans Gunnarssonar og Hannesar Gissurarsonar á fréttastofunni , var látin fara, gat hún varla nefnt eitt dæmi um hvernig Skífu Jón hefði otað sínum tota.

(Ég held ég hafi verið eini maðurinn sem mótmælti brottrekstri Elínar, en það er önnur saga. Ekki græddi ég mikið á því, enda ekki hátt skrifaður hjá þeim sem réðu, Kjartani mági mínum og þeim öllum. )

Kosturinn við Jón Ólafsson var nefnilega að hann hafði bara áhuga á peningum og bæta álit sitt í þjóðfélaginu. Hann vissi sem var að hvað fréttirnar varðar, gerði hann það best með þvi að leyfa vitleysingum eins og mér að leika lausum hala í fréttmennsku.

Ég tek skýrt fram að ég þekki Jón sáralítið og hef haft mjög lítið af honum að segja persónulega. En í mínum huga stendur hann upp úr í hópi eigenda íslenskra fjölmiðla. Það er að vísu ekki hörð samkeppni.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Komdu bara sjálfur heim.

Kári Ind. sagði...

Góður pistill Árni. Alltaf hressilegt að lesa þín skrif.

Nafnlaus sagði...

Góð greining á stöðunni Árni. Ef Sindri er kanarífuglinn hvað viltu þá kalla fréttastofu undir stjórn Óskars Hrafns Þorvaldssonar? Dómgreind Ara er nákvæmlega núll. Nú eða hann vill gera hvað sem er til að hanga í pilsfaldi eigandans.

Nafnlaus sagði...

joð

Fínn pistill. Hef samt aldrei áttað mig á hvers vegna Elín fékk þennan Kjartans og Sjalla stimpil? Mas. heyrði ég Sigurð G Guðjónsson, hann af öllum segja þegar þetta kom til tals í þætti fyrir skömmu að hann hafi aldrei séð neitt í vinnubrögðum hennar sem réttlæti þessa kenningu.

Nafnlaus sagði...

Sæll Árni!

Mér virðist menn rugla hér öllu saman í einn graut, þeirra á meðal þú, Egill og Jónas sem nánast lýsið velþóknun á þessum aðgerðum.

Eitt er að skilja má reiðina en hitt er hvert hún beinist og hvernig hún birtist. Þið virðist hafa sterkar skoðanir á Kryddsíldinni, að það sé slæmur þáttur, en það bara kemur málinu ekkert við. Mér sýnist einboðið að ef þessir forystumenn flokkanna hefðu verið þarna á Borginni í segjum útvarpsþætti hjá Halla Thorst, Tvíhöfða, Agnesi Bragadóttur, Jóni og Gulla... ehh, segjum bara í Kastljósinu... þá hefðu viðbrögð ykkar verið allt önnur. Ykkur hefði sennilega þótt hroðalegt að þetta tækifæri væri ekki nýtt til að spyrja þennan hóp út í eitt og annað. Flest bendir til að þið sjálfir hefðuð gjarnan viljað vera í hlutverki spyrla. En ekki Simmi. Þar með eru menn ekki samkvæmir sjálfum sér.

Það var eins og með þennan fáránlega fund þarna í Háskólabíói þar sem leikstjórinn Gunnar ofmetnaðist. Ráðherrar mættu á pallinn en fengu ekki að svara einni einustu spurningu. Hvurskonar samræður eru það? Mér sýnist menn öskra á svör en vilja ekki hlusta. Þá er kannski ekki von á góðu.

Mér finnst banalt að gamlir fjölmiðlahundar skuli nota þetta tækifæri til að sparka í kollega, viðra andúð sína á einhverjum fjölmiðlum, gera upp gamlar skuldir (hvað veit ég?) og reyna í leiðinni að koma sér vel við mótmælendur. Ekki kann góðri lukku að stýra að kalla hlutina ekki sínum réttu nöfnum.

Kveðja,
Jakob

Nafnlaus sagði...

Góður pistill.
Mér finnst sérkennilegt hvað má og hvað má ekki í mótmælum. Bitlaus mótmæli hafa greinilega engan tilgang. Stjórnarherrarnir koma fram og segja sem svo í mæðulegum tón að "fólk hafi rétt til að mótmæla". Ef mótmælin eru stjórnarherrum hinsvegar ekki að skapi breytist fólk í skríl.
Frábært útspil frá hendi stjórnarherranna að senda fótgönguliða úr Seðlabankanum með svæfingarlækni sem "wingman". Þeir finna þessum kónum þá eitthvað að gera. Skyldu þessir snillingar óttast um atvinnuöryggi sitt? Vonandi. pj

Nafnlaus sagði...

Já, ég held að ég verði að vera sammála því að það var mikið dómgreindarleysi að hóa saman þessu liði niður á Hótel Borg við Austurvöll í einhversskonar kampavíns froðusnakk á gamlársdag.

Og til þess að bæta gráu ofan á svart, þá var þátturinn kostaður af Rio Tinto Alcan.

Þarna var verið að bjóða hættunni heim.