þriðjudagur, 27. janúar 2009

Hvorki flugeldar né kampavín

Einhvern tímann hefði því verið fagnað með flugeldasýningum og kampavíni að Sjálfstæðisflokkurinn hrökklaðist úr stjórn eftir hátt í átján ára samfelld stjórnarsetu. En ég verð að viðurkenna að ég er heldur uggandi yfir því hvernig að málum var staðið.

Ingibjörg Sólrún tók loksins á málunum og bjó til margslungna Makkíavellíska fléttu. Henni var orðið ljóst að ef flokkurinn ætti að eiga von í kosningum, yrði að koma til móts við mótmælendur. En hvernig ætti að breiða yfir hve seint væri í rassinn gripið?

Björgvin rak yfirmenn fjármálaeftirlitsinis og sagði af sér sjálfur. Ég hef áður skrifað að það hefði verið afsögn sem engu breytti - svo seint koma hún. En þótt hún breytti engu siðferðilega, gerði hún það pólítiskt að því leyti að með þessu var búinn til þrýstingur á Sjálfstæðisflokkinn og hann króaður af úti í horni. Annað hvort yrði Davíð látinn fara eða skipt yrði um forsætisráðherra og honum hent þannig út.

Ég er nokkuð uggandi yfir þessari atburðarrás. Vissulega á Davíð að hverfa úr Seðlabankanum en ef sá kostur var fyrir hendi að hann færi á Morgunblaðið (var það virkilega raunhæft?) eða viki með þeim hætti að stofnanir væru sameinaðar hefði það vissulega verið ákjósanlegra.

Réttu viðbrögðin við bankahruninu hefðu verið að endurnýja forystu ríkisstjórnarinnar strax í október, reka viðskipta- og fjármálaráðherra og stjórnendur Fjármálaeftirlits og Seðalbanka og umfram allt lýsa yfir að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu.

Þetta hefði haft áhrif ef það hefði verð gert strax. Ég er ekki viss um að þetta dugi núna. Einfaldlega veit það ekki.

Það á svo eftir að koma í ljós hvort það reynist tvíeggjað sverð að stofna ríkisstjórn um að reka Davíð Oddsson.

Það er of snemmt að segja til um hvað verður, en svo virðist sem að Samfylkingin hafi krafist þess að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um ESB umsókn samhliða kosningum.

Hvenær var þessi kollsteypa ákveðin? Skyndilega var hugmynd sem hefur verið á lofti innan Sjálfstæðisflokksins orðin að úrslitaatriði um áframhaldandi stjórnarsetu af hálfu Samfylkingarinnar?

Þetta þurfa oddvitar Samfylkingarinnar að útskýra fyrir kjósendum, en sjáum hvað setur...

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér leikur ávallt forvitni á að vita hversvegna þú og aðrir telja að fjármálaráðherrann, sá sem heldur utan um framkvæmd fjárlaga og fjármál ríkisins (sem voru í ágætum málum) hafi endilega þurft að sæta ábyrgð vegna bankahrunsins. Er fólki ekki kunnugt um verkaskiptingu stjórnvalda?

Nafnlaus sagði...

"Það er of snemmt að segja til um hvað verður, en svo virðist sem að Samfylkingin hafi krafist þess að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um ESB umsókn samhliða kosningum."

Þetta er ekki rétt. Krafan var sú að breyting yrði gerð á stjórnarskrá fyrir kosningar sem samþykkt yrði á næsta þingi. Þessi breyting átti að gera það kleyft að samþykkja stjórnarskrárbreytingar í þjóðáratkvæðagreiðslu en ekki á tveimur þingum eins og nú er. Þar með væri hægt að ganga inn í ESB á næsta kjörtímabili án þess að rjúfa þing.

Nafnlaus sagði...

Þessi ríkisstjórn hefur verið afar sein til allra verka. Bankahrunið er gott dæmi um það. Allar marktækar upplýsingar um hvert stefndi í bankamálunum lágu fyrir mörgum mánuðum fyrir hrun- en ekket aðhafst.
Þegar efnahagshrunið er orðið staðreynd í októberbyrjun- hefst sama verkleysið. Nauðsynlegum aðgerðum á stjórnmálasviðinu , í Seðlabanka og fjármáleftirliti er slegið endalaust á frest. Mótmælaaldan í þjóðfélaginu sá síðan um þá niðurstöðu sem nú liggur fyrir... Þjóðin var stjórnlaus.

Nafnlaus sagði...

Stefán heiti ég Benediktsson. Ætlaði bara að benda á að Mogginn, er í eigu fyrirtækis sem er á hausnum úti í bæ. Ekki Geirs eða Sjálfstæðisflokksins. Hvað átti ritstjórastóllinn að kosta þjóðina?

Árni Snævarr sagði...

Einn af hinum nafnlausu segir hér að ofan að ég misskilji að Samfylkingin hafi krafist þjóðaratkvæðis um ESB-umsókn. Heimild mín er tíu atriða listi Morgunblaðsins en síðasti liðurinn hjómar svo: "10. Kosningar til Alþingis verði haldnar 30. maí 2009. Samhliða þingkosningum fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu."

Er hægt að misskilja þetta?, kv. ÁS

Nafnlaus sagði...

Jæja, Árni

Þú er loksins farinn að átta þig á því hversu gífurlega miklu máli afsögn Björgvins skipti í raun, bæði siðferðislega, pólitískt og nú í sögulegu samhengi.

Hún var litla þúfan sem olli stjórnarslitum og skapaði nýja.

Er hægt að hafa meiri áhrif en það?

Nafnlaus sagði...

Sæll Árni.
Er ekki svolítið erfitt að ræða málin í þáskildagatíð?
Er þér reyndar sammála um að of lítið var gert og of seint.
Annars finnst mér spennandi tilhugsun að Davíð verði rekinn og fari svo í mál vegna þess til að sækja sér fébætur sem leggist við rífleg eftirlaun. Helst vildi ég að Davíð væri samtímis ritstjóri Moggans.

Nafnlaus sagði...

"Vissulega á Davíð að hverfa úr Seðlabankanum en ef sá kostur var fyrir hendi að hann færi á Morgunblaðið (var það virkilega raunhæft?) eða viki með þeim hætti að stofnanir væru sameinaðar hefði það vissulega verið ákjósanlegra."

Þetta er furðuleg staðhæfing. Má ég biðja um útskýringu eða rökstuðning?

Maður sem er athlægi út um allan heim sökum vanhæfis - er ekki bara sjálfsagt að honum sé sparkað án þess að hann lendi á silkipúða?

Nafnlaus sagði...

Það er einfaldlega svo að eitt af skrefunum í átt að viðreisn þessa samfélags er að í stól aðalbankastjóra Seðlabankans setjist maður sem sátt ríkir um. Vandamálið hefur verið að hann vill ekki fara og Geir vinur hans hefur leyft honum að sitja. Það getur verið að Davíð hafi enn þau völd að fólki finnist eitthvað erfið tilhugsun að honum verði vikið frá. Ég spái að þetta verði álíka aðgerð og að vísa Jónasi í FME frá: Lítill atburður í ljósi þess gríðarlega vanda sem þetta samfélag á í.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið völdum lengi vegna einfaldrar hugmyndafræði frjálshyggjunnar. Sú hugmyndafræði hefur reynst samfélaginu illa. Því fór sem fór.