þriðjudagur, 20. janúar 2009

Nýr kapteinn með lík í lestinni

Það voru óvænt en ánægjuleg tíðindi að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skyldi hafa verið kosinn formaður Framsóknarflokksins. Einhvern tímann hefði ég talið ólíklegt að Framsóknarflokkurinn myndi velja sér til forystu frjálslyndan ungan mann með staðgóða menntun erlendis frá.

Um leið og ég óska mínum ágæta kunningja og billjardfélaga Sigmundi Davíð til hamingju með kjörið, verð ég að viðurkenna að mér er ekki alveg ljóst fyrir hvað hann stendur.

Hann er kosinn sem utanaðkomandi maður sem ekki beri ábyrgð á skipbroti flokksins enda framboði hans beinlínis stefnt til höfuðs Páli Magnússyni og flokkseigendafélaginu, en er það svo?

Ekki ætla ég að láta syndir feðranna bitna á börnunum, en Sigmundur er vissulega sonur karls föður síns.

Var ekki Kögun, rússnesk einkavæðing á borð við sölu Búnaðarbankans til vildarvina flokksforystu Framsóknar?

Kemst Sigmundur Davíð hjá því að gera upp við spillta einkavæðingarfortíð Framsóknarflokksins? Ef færa á flokkinn frá hægri og inn að miðju, finnst manni eins og að þá muni hann nálgast félagshyggjufortíð flokksins og þá hlýtur Samvinnuhreyfingin að vera skammt undan.

Ef svo á að vera getur Sigmundur Davíð þagað yfir því hvernig Finnur Ingólfsson og Þórólfur Gíslason réðust eins og hrægammar á afganginn af SÍS með Samvinnutryggingar sem hryggjarstykki og lögðu allt í rúst? Einhvern veginn held ég að gömlu tryggingarkaupendur sem áttu að eignast félagið, taki því persónulega að eign þeirra hafi verið brennd á útrásarbáli.

Getur Sigmundur Davíð látið sem hann kannist ekki við Ólaf Ólafsson? Ólaf sem telur það ekki til fjárglæfra að taka stöðu gegn krónunni, flytja milljarða til Jómfrúareyja og búa til erlendar gervi-fjárfestingar til að kjafta upp hlutabréfin sín?

Eða Sigurð ráðherrason Einarsson sem telur enn að “viðskipti” af þessu tagi séu fullkomlega eðlileg?

Sigmundur Davíð heldur nú í siglingu sem karlinn í brúnni á framsóknarskútunni en vonandi gerir hann sér grein fyrir að það er lík í lestinni.

Og líkið, það er samvinnuhreyfingin og hún á skilið virðulega útför: afsökunarbeiðni nýs formanns Framsóknarflokksins fyrir fjárglæfra forystu flokksins. Fyrr er Sigmundur Davíð ekki til forystu fallinn í því að byggja upp nýtt Ísland á rústum þess sem hrundi undan Halldóri og Davíð.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mæl þú allra manna heilastur Snævarr. Hér er au(ö)ngvu orði ofaukið og verður ekki í móti mælt.

Líklega hefði verið skár að stofna nýjan flokk en blása lífi í lík sem (út)lifað hefur vitjunartíma sínn!

Hehe ...

Thrainn Kristinsson sagði...

Sigmundur springur úr egginu sem fullskapaður atvinnustjórnmálamaður; hann segir ekkert sem er róttækt, gagnrýnir engan, er rólegur og yfirvegaður og alltí einu eru allir farnir að tala eins og Framsóknarflokkurinn sé búin að gera upp fortíð sína.

Frábært!

Nafnlaus sagði...

Valgerður Sverris sagði að Framsóknarflokurinn bæri ekki ábyrð á efnahagshruninu. Ef Framsókn ætlar að fara inn í kostningabaráttu með þetta viðhorf, þá verður prósentutalan fyrir fylgið ekki tveggja stafa

Nafnlaus sagði...

Það var bara einn formannsframbjóðandi sem vildi gera upp fortíð flokksins og láta rannsaka framgöngu hans í einkavæðingarferlinu. Flokkurinn hafnaði honum.

Nafnlaus sagði...

Enn ein "snilldin" hjá Finni. Skynjaði að menn ætluðu að hafna Páli vegna tenzla við fortíðina -kastar honum. Pikkar út Sigmund og stillir honum upp til formanns með svo stuttum fyrirvara að hinn almenni og heiðarlegi framsóknarmaður með von og blik í auga nær ekki að átta sig.
Kveðja,
Þorsteinn Egilson