sunnudagur, 25. janúar 2009

Afsögn sem breytir engu

Björgvin G. Sigurðsson hefur vikið forstjóra Fjármálaeftirlitsins úr starfi og sagt af sér embætti viðskiptaráðherra.

Þetta eru réttar ákvarða nir, en af hverju í ósköpunum beið hann í 4 mánuði með að taka þessar rökréttu ákvarðanir?

Björgvin axlar pólitíska ábyrgð en með því að bíða með ákvörðunina hefur hann sennilega endanlega klúðrað framtíð sinni sem pólitísks leiðtoga. Ef hann var þá ekki búinn að því með því að vera bankamálaráðherra sem söng útrás og fjárglæfrum bankanna lof fram á síðustu stundu.

Jónas Fr. Jónsson (Magnússonar, þingmanns Frjáslyndra) hlýtur að þykja það ósanngjarnt að vera gerður að blóraböggli, þegar Davíð situr sem fastast í Svörtuloftum. Að ekki sé minnst á Árna Mathiesen sem ætti kannski að snúa sér að heilsufari búfjár og nautgripa eins og hann hefur menntun til.

Ákvörðun Björgvins breytir þannig engu. Of lítið, of seint. Hann hefur valdið flokki sínu ómældum skaða.

15 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ja, ég verð nú að segja að fyrst Björgvin á þig sem vin - eins og þú hefur áður upplýst hér á síðunni - þarf hann svo sannarlega ekki óvini. Þú sparkar í liggjandi mann. Það er lítilmannlegt.

Nafnlaus sagði...

sú sem stjórnar er að valad meiri skaða núna!

Nafnlaus sagði...

Víst hefur þessi afsögn áhrif. Hún mun hafa dómínóáhrif, fleiri munu fara.

Auðvitað átti Björgvin að segja af sér strax 6. eða 7. okt. en ekki bíða í 4 mánuði og láta mótmælendur þurfa að hrekja sig úr starfi.

Nafnlaus sagði...

Árni:

Betra seint en aldrei.

Sýnir hugrekki, auðmýkt, styrk og þor.

Þetta mun hafa gífurleg áhrif og nú er komið að Árna Matt ef stjórnin ætlar að lifa og starfa áfram.

Annars tel ég að þú, Árni, ættir að slaka á dómhörkunni gagnvart fólki sem er að vinna erfið störf og axla ábyrgð.

Björgvin hefur stækkað en þú minnkað og ekki varstu nú stór fyrir.

Gangi þér vel...

Nafnlaus sagði...

Það er alveg glatað að hlusta á Ingibjörgu segja að þetta komi henni á óvart, að hún hafi aldrei minnst á þetta við hann. Þannig að það hefur aldrei hvarflað að einum né neinum að axla ábyrgð - frábær skilboð til okkar.

Hvar annarstaðar situr ráðherra áfram þegar málaflokkur hans hefur boðið afhroð? Ef kerfishrun verður, þá segir ráðherra af sér!

Það tekur ríkisstjórnina 4 mánuði að taka ákvarðanir sem blasa við... í það minnsta

Nafnlaus sagði...

Það er rétt Björgvin átti að fara strax en nú er spurning hvaða manni svartur fórnar

Nafnlaus sagði...

Ráðherrar Samfylkingar eru þegar orðnir missaga í þessu máli.

Formaður flokksins telur hreinsun FME lúta að framtíðinni á meðan Viðskiptaráherra segir þetta hluta af því að axla ábyrgð - sem vísar jú í fortíðina.

Í öðru lagi er því nú haldið fram að svigrúm sé til að gera breytingar á yfirstjórn Seðlabanka. Var það ekki hægt áður? Er það Samfylkingin sem hefur staðið í vegi fyrir breytingar?

Ég er sammála því að þetta breyti engu fyrir landið; fólk og fyrirtæki.

Þetta breytir sjálfsagt einhverju fyrir Samfylkinguna; er hægstætt fyrir ráðherra sem segir af sér, en sýnir kannski fram á enn stærri klofning en áður.

Nafnlaus sagði...

Þetta sýnir mikilvægi þess að við fengum að kjósa. Nú komast þeir ekki hjá því að hlusta á okkur.

Nafnlaus sagði...

Og svo kallar hann Bankahrunið "alþjóðlega lánsfjárkreppu" Come on. Þetta er ekkert að taka ábyrgð á því sem miður fór heldur því að þetta sé eitthvað svo ómögulegt allt saman hjá okkur og allir í fýlu.

Nafnlaus sagði...

Kannski er ástæðan fyrir því að Björgvin gerir þetta í morgun sú að þrátt fyrir að birst hafi dagsetning kosninga á föstudag, þá var fjölmennasti og kröftugasti mótmælafundurinn í gær. Hann hefur því viljað leggja sitt af mörkum til að uppfylla fleiri kröfur mótmælenda. Hann fær prik frá mér fyrir tiltækið.
Ég hefði viljað heyra frá honum kveðjuorðin: Ég treysti mér ekki til að starfa sem bankamálaráðherra við óbreytta stjórn Seðlabankans.

Sigurður Ásbjörnsson

Nafnlaus sagði...

joð

Satt og rétt. Maður sem ma. ræður sér sem einn aðstoðamanna, hægri hönd Jóns Ásgeirs, getur ekki verið ráðherra að skapi þjóðarinnar eða varið hagsmuni hennar.

Nákvæmlega 4 mánuðir eru liðnir frá því að hann átti að hundskast á brott.

Sá tími hefur örugglega nýst þessum aðilum giska vel til að fullkomna ætlunarverk sín að féfletta hana algerlega.

Hann stóð sig afturá móti afar vel sem ein klappstýran hjá útrásarbullunum ásamt forsetanum.

Kviknakta spunakonan sagði...

Búfjárhagsleg heilsa Árna fer sífellt versnandi og líklegra en ekki að hann verði sleginn af fyrir mjaltir - ásamt búpeningi sjálfstæðisflokksins.

En ég lít á afþökkun Björgvins á biðlaunum sem krosseignatengsl við eigin kosningasjóð.

Og úr því að ég er byrjuð:

Það er brýnt að þeir sem nú eru að öðlast kosningarétt átti sig á því að ókeypis pizza og bjór í kringum kosningar dregur 48 mánaða ófyrirsjáanlegar raðgreiðslur á eftir sér!

Nafnlaus sagði...

Er maður viðskiptaráðherra þegar maður hefur ekki talað við seðlabankastjóra?

Er maður viðskiptaráðherra ef maður er ekki einu sinni látin vita af ríkisyfirtöku banka?

Hvaða embætti var Björgvin eiginlega að segja af sér?

kv.
Sigurjón Njarðarson

Nafnlaus sagði...

Það er sama hvenær Björgvin hefði sagt af sér. Kverúlantar munu alltaf segja of, lítið of seint.

Viðskiptaráðherra tókst að halda bönkunum opnum, eftir hrunið. Hann hélt haus á meðan formaðurinn var á sjúkrahúsi. Ef hann hefði sagt af sér þá, þá hefðiru sagt að hann "vinur þinn" væri að flýja vandamálin, að skilja allt eftir í kaldakoli og sannaði að hann hefði ekkert að gera í ráðherrastól.

Því verð ég að taka undir #1.

Magnús Bjarnason

Nafnlaus sagði...

Nú þurfum við að losa okkur við fjármálaráðherra. Hann er ekki bara óhæfur, hann er líka óheiðarlegur, er í þessum töluðum orðum að stela banka í Hafnarfirði. Kom líka eigum varnarliðsins í hendurnar á bróður sínum, réð son seðlabankastjóra í dómaraembætti og fleira og fleira.

Hann er sá allra spilltasti og óhæfasti í þessari stjórn. Björgvin er eins og kórdrengur í samanburði.

Svo skulum við opna bókhald stjórnmálaflokkanna.