fimmtudagur, 8. janúar 2009

Löglegt?Siðlaust? Dómgreindarlaust!

Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri “Markaðarins”, fjármálafrétta Fréttablaðsins og umsjónarmaður samnefnds þáttar á Stöð 2 ber sig illa undan því að fjölmiðill hafi birt upplýsingar um einkahlutafélag hans.

Rétt er það að upplýsingar hafa verið sendar og framsendar um rekstur einkahlutafélags Björns Inga, Caramba.

Ársskýrslur fyrirtækisins bera það með sér að Björn Ingi hafi snöggauðgast af viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi og Exista, aðaleiganda fyrrnefnda fyrirtækisins. Það er að mestu í eigu svokallaðra Bakkabræðra.

Sáralítið gerist samkvæmt mínum upplýsingum í rekstri einkahlutafélagsins árin 2003 og 2004 en 2005 eru eignirnar skyndilega 60 milljónir í KB bréfum. 2006 er hagnaður ársins um 29 milljón krónur og eignir 32 milljónir, aðallega í Exista, helsta eiganda KB.

Björn Ingi ber sig hins vegar aumlega yfir rekstrinum síðan þá í pistli sínum á Visir.is í dag og segir: “Mest er okkar sparifé tapað í dag, rétt eins og svo margra annarra.”

Áhugavert væri að vita hvernig Björn Ingi fjármagnaði kaupin á bréfunum. Bauðst honum lán fyrir þeim með veði í sjálfum bréfunum? Ef svo er, má gera ráð fyrir að einkahlutafélagið verði gjaldþrota, en Björn Ingi sitji aðeins eftir með tap á pappírunum.

Allt frá því einkahlutafélagið var stofnað hefur Björn Ingi fjallað um málefni sem eru á mörkum viðskipta og stjórnmála. Caramba var stofnað þegar hann var blaðamaður á Mogganum en síðan haslaði hann sér völl í stjórnmálum.

Hann var aðstoðarmaður sjálfs Halldórs Ásgrímssonar, fyrst sem utanríkisráðherra en síðar sem forsætisráðherra (2003-2006). Ríkisbankarnir voru einkavæddir í árslok 2003 undir forystu Halldórs og Davíðs Oddssonar.

Björn Ingi varð borgarfulltrúi Framsóknarflokksins eftir harða og kostnaðarsama kosningabaráttu 2006 og var um tíma formaður borgarráðs uns hann sprengdi samstarf við D-listann vegna REI málsins. Hann var jafnframt lykilmaður í rekstri fyrirtækja fyrir hönd borgarinnar sem stjórnarformaður Faxaflóahafna og varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur.

Björn Ingi skrifaði í dag: “En nú hlakka ég auðvitað til að sjá upplýsingar um öll hin félögin sem nafnkunnir Íslendingar eiga og reka, svo unnt sé að bera saman hagnað og fleira til þess að hafa þetta allt saman samanburðarhæft. Fjölmargir stjórnmálamenn eru t.d. í fyrirtækjarekstri eða hafa verslað með verðbréf sem hluta af sínum sparnaði. Það er hið besta mál og ekkert óeðlilegt við það, hefði maður haldið.”

Óhætt er að segja að þetta sé athyglisverð yfirlýsing enda hlýtur sú spurning að vakna hvort stjórnmálamennirnir hafi búið yfir fyrirfram vitneskju um aðgerðir sem myndu hafa áhrif á hag þeirra.

Björn segist vita um stjórnmálamenn og ég get bætt því við að nokkrir blaðamenn stunduðu hlutabréfaviðskipti á sama tíma og þeir skrifuðu fréttir sem gátu haft áhrif á gengi þeirra. Man einhver eftir Softis? Oz? Decode?

Ekkert ólöglegt við það eftir því sem ég best veit og ekki formlega siðlaust því hvorki stjórnmálamenn né blaðamenn hafa sett sér skýrar siðareglur í þessum efnum, þótt dómgreind, almennt siðferði og siðareglur BÍ segi mönnum vitaskuld að þetta séu hagsmunaárekstrar sem beri að varast.

Björn Ingi hefur að sjálfsögðu skrifað mikið um málefni Kaupþings og Exista frá því hann tók upp þráðinn að nýju í blaðamennsku. Ég hefði kosið sem lesandi að vita að hann hefði mikilla hagsmuna að gæta af því að þessum fyrirtækjum gengi sem best.

Er ekki eðlilegt að bæði stjórnmálamenn og blaðamenn gefi upp helstu eignir sínar a.m.k. í fyrirtækjum? Er ekki holur hljómur í því ef Björn Ingi hringdi í Árna Mathiesen og bæði hann að upplýsa um fjármál þess síðarnefnda.

Björn taldi engan eiga neina kröfu á því að vita um einkahlutafélag hans og eignir hans í Kaupþing/Exista hefðu verið á fárra vitorði ef upplýsingarnar hefðu ekki verið birtar opinberlega hér á Eyjunni. Það skýtur þó skökku við ef blaðamaðurinn Björn Ingi, kvartar yfir því að blaða- og stjórnmálamanninum Birni Inga sé sýnt slíkt aðhald.

Sé einhver dugur í Birni Inga hlýtur hann eftir að hafa látið þessi orð falla um verðbréfabrask stjórmálamannai, að hann fari rækilega í saumana á því á síðum Markaðarins, í samnefnda sjónvarpsþættinum og í forystugreinum Fréttablaðsins. Nóg eru tækifærin.

Ég tek undir með honum að ég hlakka til að vita um “öll hin félögin.”

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Árni.

Ég minni á danska blaðamanninn sem var uppvís fyrir stuttu að hafa reynt að hafa áhrif á verð hlutabréfa í félögum sem hann átti hafði keypt í hlutabréf.

Þó er ég ekki að segja að Bingi hafi verið að gera það sama.

Nafnlaus sagði...

...ekki óeðlilegt að þingmenn og ráðherrar ávaxti fé sitt og bjóði fram krafta...

Nafnlaus sagði...

Þetta hefur enginn íslenskur fjölmiðill (þorað að?) fjalla um:

http://www.stm.dk/Index/mainstart.asp?o=156&n=1&s=1&str=stor

Nafnlaus sagði...

Gamall þulur:

Ekki er að undra ÓSKÖPIN hjá þessum manni Alinn upp undir verndarvæng mesta ólukku manns
landins um árabil.
Stundar einkabrask og er svo að
RÁÐLEGGJA ÖÐRUM!!!
Minnir mig á þegar RUV-sjónv. var með hlutabréfa frásögn-markaðinn og fann út "hástökkvar" vikunnar.
Gaman að einhver rifjaði´þá vitleysu upp!!!

Bjarni sagði...

Eitt sinn voru svona skítamakerí á svipuðum tíma og Rei Rei og Ró Ró málin voru að gerjast, nefndar mútur eða olía á hjól atburða.

Afar óþægilegt fyrir Binga að svona komist í hámæli og trúverðuleiki hans sem ,,Viðskipta fréttamanna" orðin akkurat 0,00

Miðbæja´rihaldið

Nafnlaus sagði...

Hvað er málið? Hvers vegna er það frétt að Björn Ingi og konan hans verðbréfamiðlarinn hafi verið með fyrirtæki sem fjárfesti í verðbréfum?
Þetta er ekkert annað en enn ein skítagusan frá Agnesi Bragadóttir. Til hamingju Árni að stíga niður á hennar level.

Hans Jakob Beck sagði...

Takk fyrir að blogga Árni.
Er ekki svo fjarað undan Sjálfstæðisflokknum, hugmyndafræði hans og ekki síst styrktaraðilum að jafnvel teflonmennirnir eru orðnir stamir?

Fólk er í skotstöðu með fúlgeggin fyrir næstu tillögur ráðherrans.

Nafnlaus sagði...

Hafa ekki allir fyrir löngu séð í gegnum þennan Björn Inga? Hann er bara ótýndur leigupenni og málaliði sem hefur þegið sín laun fyrir svoleiðis vinnu.

Fjölmiðlar eru svo meðvirkir að það þarf varla að nefna það. Hvað gerði t.d visir.is í gær þegar fréttin um Ólaf S. fór af stað. Ekkert, ok. birtu einhverja fréttatilkynningu og búið.

DV hefðu nú getað notað tækifærið og smjattað svolítið á Elton John, Þyrlunni hans Ólafs, flugvélinni, glæsihýsum etc. Það væri dáldið þeirra stíll. En þar var heldur ekkert fjallað um þetta. Skrýtið?