mánudagur, 16. júní 2008

Álver eða ESB

Á öndverðri síðustu öld þegar kommúnisminn var í dauðateygjunum, fékk ég Sunnudags-Moggann í hendurnar. Þar blasti við mögnuð svart-hvít ljósmynd af manni á hjóli í ömurlegu iðjuveri. “Flott hjá Mogganum að senda RAXa til Austur-Þýskalands”, hugsaði ég með mér en fréttir af ömurlegri mengun voru þá uppsláttarfréttir í öllum fjölmiðlum- líka hér heima.

En þegar ég opnaði blaðið kom í ljós að RAXi hafði að vísu ekið suður Keflavíkurveginn í leit að myndefni en hafði staðnæmst í álverinu í Straumsvík þar sem hann tók myndina góðu. Hann leitaði ekki langt yfir skammt.

Nafni minn Johnsen sem starfaði einmitt á Morgunblaðinu á þessum tíma skrifaði grein í sama blað á dögunum sem mér fannst með ólíkindum og hefur satt að segja valdið mér heilabrotum. Þar býsnast hann yfir því að þekktustu listamenn Íslands í heiminum, Björk Guðmundsdóttir og hljómsveitin Sigur Rós skuli leyfa sér að halda ókeypis tónleika fyrir Íslendinga í höfuðborginni. Hann segir listafólkið “mála skrattann á vegginn með því að nota tónleika til að hlaða upp (svo!) móðursýki.”

Mesta athygli í grein Árna vakti furðulega ósmekkleg árás hans á Björk Guðmundsdóttur sem hefur gert meira en nokkur annar Íslendingur til að vekja athygli á land og þjóð. Undanfarið hafa Íslendingar að vísu orðið blaðamatur erlendis fyrir fádæma axarsköft, hroka og flumbrugang íslenskra bisnessmanna. En meira að segja þeim tekst ekki að eyðileggja orðstír sem við eigum fyrst og fremst listamönnum okkar að þakka.

Áður en Björk og hennar samstarfsmenn komu fram á sjónarsviðið reyndu íslenskir popparar að ná heimsfrægð með því að apa eftir Ameríkönum. Ekki tókst betur til hjá Hljómum þegar þeir ætluðu að fjalla um mexíkóska matargerðarlist í textum sínum en að þeir kölluðu “Taco” Tasco í annars ágætu lagi “Tasco tostada.”

Þótt Björk syngi oftast á ensku sækir hún efnivið í eigin reynslu og umhverfi og er stolt af því að vera Íslendingar og eiga rætur í íslenskri náttúru. Allir aðrir en fáfróðir heimalningar vita að hún og Sigur Rós skírskota mjög til íslenskrar náttúru og sækja sér þangað innblástur.

Mér er til efs að nokkur einn einstaklingur hafi gert eins mikið í að auka ferðamannastraum til Íslands og Björk. Þetta ætti Vestmannaeyingurinn Árni Johnsen. Nú hefði ég ekkert á móti því að álver verði staðsett í Eyjum en mér segir svo hugur að Eyjamenn vilji miklu frekar fleiri túrista. En kannski að trúbadorinn sé á öndverðum meiði, hvað veit ég?

Þótt ég sé ekki persónulegur vinur Bjarkar get ég sem Reykvíkingur vitnað um það að hún er síður en svo aðeins einu sinni á ári á Íslandi eins og Árni Johnsen heldur fram.
Raunar er það út í hött að ætla að mæla málfrelsi íslenskra ríkisborgara eftir því hve marga daga þeir dveljast á Íslandi enda er hætt við því að þá yrði stungið upp í marga félaga Árna í ríkisstjórninni sem nú situr og fræg er að endemum fyrir ferðagleði.
Við hljótum að vega og meta skoðanir Bjarkar óháð því hve oft hún stimplar sig inn við komuhliðið á Keflavíkurflugvelli.

Árni ræðst að Björk fyrir að vilja draga úr áherslu á iðnvæðingu. Björk varar við skammtímasjónarmiðum: “Við erum ekki á móti virkjunum, en það eru bara svo margir aðrir góðir kostir, eitthvað sem er uppbyggjandi í 100-200 ár, en ekki eitthvað sem dugir bara í 20 eða 30 ár – og svo er ballið búið.”

Árni segir virkjanir þvert á móti langtímasjónarmið “innlegg á bankabók fyrir framtíðina.”

Nú hafa bæði til síns máls. En fyrst virkjanir eru langtímaverkefni, hvers vegna liggur þá svo mikið á að ekki megi leyfa náttúrunni að njóta vafans? Því svarar Árni ekki enda virðist málflutningur hans ganga út á að ala á útlendingahatri.

Björk sem er of rík og býr of mikið í útlöndum að mati Árna, ætti frekar að halda tónleika fyrir 700 Suðurnesjamenn sem óvart búa í kjördæmi þingmannsins. Þeir “misstu vinnuna á einni kvöldstund með dónalegu og ruddalegu brotthlaupi Bandaríkjanna frá Keflavíkurflugvelli.”

Getur það verið að þeir hafi misst vinnuna vegna loka Kalda stríðsins? Af sömu ástæðum og ógeðslegu verksmiðjurnar sem RAXi tók aldrei myndir af í Austur-Þýskalandi lokuðu? Hvers vegna áttu Bandaríkjamenn að hafa hér her áfram? Stafaði okkur ógn af Grænlendingum eða var vera hersins atvinnuátak fyrir Suðurnesjamenn? Árni getur sjálfur haldið tónleika til að harma endalok Kalda stríðsins og getur vafalaust fengið liðsstyrk frá Samtökum herstöðvaandstæðinga. Styrmir og Ragnar Arnalds gætu svo tekið dúett við undirleik Árna.

Þegar grein Árna er lesin í heild sinni kemur nefnilega í ljós að hann rekur allt sem aflaga fer til útlendinga og reynir að reka fleyg á milli höfuðborgar og landsbyggðar enda má Árna ljóst vera að hann sækir ekki fylgið sitt suður. Og sleppum því að langflestir þeirra sem fengið hafa vinnu við að reisa Kárahnjúkavirkjun og álver fyrir austan eru útlendingar enda aðeins 1% atvinnuleysi á landi elds og Ísa um þessar mundir - þrátt fyrir allt krepputal.

Árna tekst á ótrúlega lipurlegan hátt að spyrða Björk saman við Condoleezu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem leyfði sér að tala máli alþjóðlegra skuldbindinga og lýsa sig andsnúna hvalveiðum Íslendinga. Það þarf raunar engin umhverfissjónarmið til að vera á móti hvalveiðum. Ef Sjálfstæðisflokkurinn væri raunverulegur frjálshyggjuflokkur væri hann á móti þeim vegna þess að þær myndu ekki þrífast án ríkisaðstoðar. Hvernig geta Sjáflstæðismenn réttlætt að íslenska ríkið borgi með útgerð Kristjáns Loftssonar, eins ríkasta manns Íslands? Hvers vegna má þá ekki borga með hvaða útgerð sem er?

Ef Árna Johnsen væri í raun svo umhugað um framtíð Íslands og ekki síst landsbyggðarinnar, þá myndi hann hætta að ráðast gegn mörgum bestu dætrum og sonum þessarar þjóðar og beita sér fyrir því að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Ég held nefnilega að flestir umbjóðendur Árna myndu miklu frekar vilja hafa vexti og verðbólgu um 4% eins og er í Evru-löndunum og að matarverð lækkaði um 25%, eins og sérfræðingar telja að gerðist við inngöngu í ESB.

Við skulum ekki einu sinni fara út í þá byggðastyrki sem í boði eru meðal annars til samgöngubóta (var einhver að tala um göng til Eyja?). Og aukin áhrif okkar Íslendinga á þá löggjöf sem við þurfum að hlíta en tökum við upp þrjá fjórðu hluta laga ESB án þess að hafa neitt um inntak þeirra að segja.

Ég hef áður lýst því yfir að það væri nær lægi að Björk Guðmundsdóttir tileinki okkur Íslendingum en Tíbetbúum, Færeyingum eða Grænlendingum lagið “Declare Independence” á tónleikum á Íslandi og ítreka þá hvatningu hér með.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

(Árni Snævarr) ,,Ekki tókst betur til hjá Hljómum þegar þeir ætluðu að fjalla um mexíkóska matargerðarlist í textum sínum en að þeir kölluðu “Taco” Tasco í annars ágætu lagi 'Tasco tostada.'"

Að ekki sé minnst á "Freulein."

Hvað sem það nú þýðir.

Nafnlaus sagði...

Sæll Árni.
Það sem ekki hefur verið rætt um varðandi ESB eru meðal lífsgæði og framfærsla, miðað við Ísland. Einnig er alltaf sleppt tölum um atvinnuleysi og þá sérstaklega atvinnuleysi ungs fólks. Hvernig er því háttað í þesum löndum.
Það ungt fólk sem ég þekki frá ESB löndunum getur ekki búist við að starfa við neitt í samlíkingu við það sem við búumst við hér. Þau eru "intern", eða sjálfboðaliðar(oft) í mörg ár og geta ekki séð fyrir sér nema á bótum frá ríkinu. Þetta virðist vera staðreynd í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi og flestum skandínavíuríkjunum. Er þatta boðlegt til að byggja upp? Viljum við þetta kerfi?

Kv.
Sveinbjörn

Nafnlaus sagði...

'Eg veit ekki neitt atvinnuleysi hér í Danmörku og reyndar er svo mikill skortur á vinnandi fólki að svíar koma hingað í þúsunda tali á hverjum degi yfir eyrasundsbrúnna til að vinna fyrir utan þrjúþúsund pólska handverkara. Danska krónan hefur ekkert lækkað í mörg ár og vextir af húsnæðislánum eru 4 til 5 prósent svo að allur samanburður á Íslandi og Danmörku kemur ekki vel út fyrir íslendinga.

Nafnlaus sagði...

Sæll Sveinbjörn, hvaða kerfi er það sem við viljum eða viljum ekki? Ég sé ekki að það sé neitt miðstýrt kerfi. Við höfum ámóta reglur og Svíar, Danir og Finnar um að ráða og reka fólk sem eru sveigjanlegar og virðast gefast frekar vel. Í Frakkland er nánast ómögulegt að laga fjölda starfsfólks eftir hag fyrirtækisins. Við borgum hins vegar svo litlar atvinnuleysisbætur að það er enginn hvati að fara á bætur. Hins vegar hafa Íslendingar einfaldlega farið til útlanda, sbr. Hanstholm á tíunda áratugnum. Að þessu leyti hefur lítið verið að dæma íslenskar atvinnuleysistölur. Það sem eftir stendur er að hvaða þetta varðar er ESB ekkert kerfi. Það eru engar þær reglur í ESB sem skipta máli - sem við höfum ekki þegar tekið upp. Og ef ESB breytist verðum við skikkuð til að taka þær reglur upp í gegnum EES. Kv. Árni

Nafnlaus sagði...

Árni,

"Never argue with a fool, people might not know the difference."

Ekki eyða of miklu púðri á nafna þinn snærisþjófinn úr Vestmannaeyjum.

Kv

Sveinn

Nafnlaus sagði...

Tilvitnun:

"Það sem ekki hefur verið rætt um varðandi ESB eru meðal lífsgæði og framfærsla, miðað við Ísland. Einnig er alltaf sleppt tölum um atvinnuleysi og þá sérstaklega atvinnuleysi ungs fólks. Hvernig er því háttað í þesum löndum.
Það ungt fólk sem ég þekki frá ESB löndunum getur ekki búist við að starfa við neitt í samlíkingu við það sem við búumst við hér. Þau eru "intern", eða sjálfboðaliðar(oft) í mörg ár og geta ekki séð fyrir sér nema á bótum frá ríkinu. Þetta virðist vera staðreynd í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi og flestum skandínavíuríkjunum. Er þatta boðlegt til að byggja upp? Viljum við þetta kerfi?"

Þessi fullyrðing stenst ekki nánari skoðun. Ég er menntaður í upplýsingatækni- og þekkingariðnaðinum. Þetta er sú atvinnugrein sem að er í hröðustum vexti í gjörvallri Vestur-Evrópu nema á Íslandi. Ástæðan er hagkvæmt skattaumhverfi Evrópusambandsins gagnvart þessari atvinnugrein og aukið vægi hennar í alþjóðahagkerfi nútímans. Það er svo mikill skortur á fólki með menntun úr þessum geira að fyrirtæki í Vestur-Evrópu og BNA leita í auknum mæli til Asíu eftir starfsfólki. Á Íslandi er þessu öfugt farið. Atvinnutækifærin eru sárafá og stjórnvöld hafa lokað augunum fyrir frekari uppbyggingu á þessar atinnugrein á háskólastiginu og gera nákvæmlega ekkert til þess að laða að fyrirtæki í þessum rekstri til Íslands eða að styðja við bakið á þeim fyrirtækjum / einstaklingum sem að vilja byggja upp slíka starfsemi á Íslandi. Orku auðlindir Íslands eru ákjósanlegur kostur fyrir slíka starfsemi en íslensk stjórnvöld einblína þess í stað á álver og stóriðju til þess að byggja upp atvinnu. Sorglegt.

/JHJ

Nafnlaus sagði...

Ég held að málið sé að stjórnvöld hafi svo litla trú á gáfum, menntun, metnaði og hæfileikum þegna sinna (og þá sérstaklega sveitalýðsins), að það sé ekki hægt að bjóða þeim neitt nema verkamannavinnu. Þannig að álver eru að sjálfsögðu það eina sem kemur til greina.

Sveinbjörn, ungt fólk í nágrannalöndunum og í BNA vinnur sem sjálfboðaliðar til þess að öðlast reynslu á skjótan hátt og eiga meiri möguleika á góðum störfum innan stofnana, án þess að þurfa að byrja neðst og klifra upp metorðastigann.