mánudagur, 2. júní 2008

Fyrr myndu þeir einkavæða Hannes

Sjálfstæðisflokkurinn vann frægan sigur þegar Ríkisútvarpið var gert að opinberu hlutafélagi. Flokknum tókst að láta líta svo út sem að hlutafélagavæðingin væri málamiðlun af hans hálfu og andstæðingar Flokksins hlupu apríl og héldu að þetta væri fyrsta skref í átt til einkavæðingar.

Össur Skarphéðinsson er góður þegar hann er góður en hann er líka afspyrnu slakur á vondum degi. Mörður Árnason hefur aldrei verið honum skapbætir og frammistaða þeirra á þingi i þessu máli var eftir því.

Sjálfstæðisflokkurinn mun aldrei láta RÚV af hendi : fyrr myndi flokkurinn einkavæða Hannes Hólmstein en selja einkaaðilum Ríkissjónvarpið.

Hannes Hólmsteinn er reyndar hugmyndafræðingur þeirrar stefnu að yfirráð yfir Ríkissjónvarpinu sé einn hornsteinn herstjórnarlistar flokksins í stjórnmálum. Ástæða þess að flokkurinn rígheldur í menntamálaráðuneytið er ekki áhugi á skólamálum heldur yfirráðin yfir RÚV. Flokkurinn veit að markaðnum er ekki treystandi : götustrákar gætu keypt herlegheitin eins og dæmin sanna í einkabransanum.

Hér á árum áður gortaði Hannes af því að ekki hefði ráðinn svo mikið sem sumarfréttamaður á fréttastofu RÚV sjónvarps án þess að hann væri með í ráðum. Hvort þetta er rétt veit ég ekki, en svo mælti Hannes Hólmsteinn.

Flokkurinn hefur hins vegar farið tiltölulega vel með þetta vald sitt. RÚV hefur þannig fráleitt verið hreint málgagn Flokksins, en trúnaðarmenn flokksins hafa hins vegar með ítökum sínum tryggt að ekkert stórkostleg gerist þar inann dyra sem Flokkurinn veit ekki um og er honum ekki að skapi. Keyptar hafa verið myndir af Hannesi Hólmsteini og Hrafni Gunnlaugssyni en það er sennilega frekar dæmi um smá-spillingu en pólitískan áróður. Að þessu leyti stendur RÚV þó undir nafni sem bláskjár.

Með opinberu hlutafélagavæðingunni hefur Flokkurinn meiri tök á RÚV en nokkru sinni fyrr : menntamálaráðherra fer með eina hlutabréfið í fyrirtækinu. (Þorgerður Katrín er reyndar gott dæmi um ítök flokksins í RÚV ; hún var ráðin blaut á bakvið eyrun í yfirmannastöðu hjá RÚV með flokksskírteinið eitt upp á vasann. Hún reyndist prýðilega hæf en það er önnur saga...)

Eitt hefur hins vegar verið gegnumgangandi hjá RÚV í ár og jafnvel áratugi og það er andúð á Evrópusambandinu. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að yfirmenn Sjónvarpsins hafi ekki vit á fréttum en hvernig er hægt að útskýra að ekki sé ráðinn fréttaritari í Brussel þar sem 75 prósent löggjafar sem tekur gildi á Íslandi er sett ? (Til hvers að hafa fréttamann í Kaupmannahöfn ? ; til að fylgjast með Dóru Takefúsu fyrir hádegi og Frikka Weisshappel eftir hádegi ? )

Flokkurinn hefur eins og kunnugt er löngum verið þeirar skoðunar að Evrópusambandið sé ekki á dagskrá og hafa menn mátt kenna á refsivendinum fyrir það eitt að vilja ræða málið.


Seint á síðasta ári höfðu Samtök iðnaðarins samband við mig og báðu mig að taka að mér stjórn Iðnþings. og búa til nokkra myndbúta til sýningar á þinginu. Búseta mín í Brussel og sú staðreynd að ég kann til verka í sjónvarpi án þess að vera þar starfandi réði því að leitað var til mín. Fékk ég leyfi til þessa hjá vinnuveitanda og vann þetta í fríi frá minni vinnu.

Fljótlega hafði ég samband við gamlan og góðan kunningja minn Þórhall Gunnarsson, dagskrárstjóra sem ég hef haft í miklum metum bæði sem fagmann og félaga. Sagði ég honum forsögu málsins og virtist hann spenntur yfir viðfangsefninu. Hugmynd mín var að klippa saman myndbútana og búa til þátt.

Þegar hann fékk efnið í hendur hafði honum hins vegar snúist hugur. Ekki vegna þess að hann hefði nokkrar athugsamdir við efnistökin heldur vegna þess að Samtök iðnaðarins hefðu kostað þáttinn.

Nú er það svo að við Þórhallur höfum báðir stýrt sjónvarpsþáttum sem hafa verið styrktir í bak og fyrir af ýmsums einkafyrirtækjum en gert það með þeim hætti að starfsfélagar okkar hafa verðlaunað okkur fyrir á opinberum vettvangi.

Landsamband útvegsmanna borgaði í topp þáttaröð um sjávarútvegsmál, þar sem stuðningur við kvótakerfið og andúð á ESB voru höfuðþemu. Þróunarsamvinnustofnun hefur nýlega borgað þátt um þróunaraðstoð þar sem rætt var við alla starfsmenn hennar í Malaví nema tvo. Sjálfsagt tilviljun að það fólk var einmitt skeptískt á stefnu stofnunarinnar….

Íslensku flugfélögin og ferðaskrifstofur hafa endalaust boðið blaðamönnum í ferðir til að kynna nýja áfangastaði. NATO hefur borgað ferðir blaðamanna einus inni til tvisvar á ári í mörg ár og stjórnvöld buðu blaðamönnum á NATO fundinn í Búkarest. Oftast hefur hvergi komið fram hvaðan fé og frumkvæði hefur komið.

Í mínu tilfelli var það skýrt tekið fram hver borgaði brúsann og aldrei farið í felur með það. Sinnaskipti Þórhalls snérust eingöngu um að honum líkaði ekki styrktaraðilinn- hann hafði engar athugsemdir við framsetningu mína. Ekki eina einustu.

Ég dreg enga dul á það að Þórhalli er nokkur vorkunn því hér er um eldfim mál að ræða. Ég veit að á þessum tíma átti Þórhallur undir högg að sækja innan RÚV vegna launamála sinna og tel að hann hafi ekki viljað rugga bátnum með því að koma sér illa við Flokkinn á þessari stundu með því að makka við óvininn : alla sem vilja ræða á opinn og heiðarlegan hátt um Evrópusambandið ; kosti þess og galla.


Uppgerðar litillæti fer mér ekki vel og því undrast ég þegar dagskrárstjóri hafnar frambærilegu efni eftir verðlaunafréttamann hokinn af reynslu (!) um mál sem er efst á baugi í þjóðfélaginu og stofnuninni að kostnaðarlausu.

Að sjálfsögðu hrósaði Stöð 2 happi og sýndi þáttinn á kjörtíma á sunnudagskvöldi. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn vilji helst losna við einkageirann af markaðnum, er staðreyndin nefnilega sú að í þessu eins og öllu öðru er samkeppni af hinu góða og gerir þar að auki ritskotðun vonlausa.

Björn Bjarnason, hélt því nýlega fram að engu skipti hver væri ritstjóri á Morgunblaðinu, öllu skipti hverjir væru eigendur. Vissulega athyglisverð lýsing hjá syni ristjóra Morgunblaðsins til margra ára og aðstoðarritstjóra sama blaðs um langt skeið. Við vitum hver fer með eina hlutabréfið í RÚV. Við vitum líka að hún hefur nýlega skipt um skoðun og lýst því yfir að Evrópusambandið sé komið á dagskrá.

Ef Þorgerði Katrínu vantar númerið hjá Þórhalli þá er henni guðvelkomið að hringja í mig svo hún geti sagt honum að það sé ekki lengur Flokkurinn heldur flokksbrot sem reyni að þagga ESB í hel.

Með fullri virðingu fyrir Stöð 2, er þátturinn sem ég gerði um Evrópu, þátturinn sem RÚV átti ekki bara að sýna, heldur að hafa framleitt fyrir langa löngu.

Í þessu tilfelli er ekki hægt að segja annað um RÚV en að bláskjár er hann og bláskjár skal hann heita- hver sem ritstjórinn er.


PS
Eg vil taka það skýrt fram að ég ber engann kala til Þórhalls Gunnarssonar, en verk og vona að áralangur kunningsskapur okkar haldi áfram hér eftir sem hingað til. Eins og Þórhallur veit mæta vel er mér ýmislegt til lista lagt en falskur er ég ekki og segi mínar skoðanir beint út. Vinur er sá sem til vamms segir.

5 ummæli:

Halli sagði...

Og hver er slóðin á þáttinn?

Alex Björn Stefánsson sagði...

Heimdallur hefur löngum verið hið eina og sanna starfsmannafélag RÚV.

Nafnlaus sagði...

Alltaf athyglisvert þegar menn sem ekkert vita um innanflokksmál Sjálfstæðisflokksins telja sig geta fullyrt um þau.

Hjörtur J. Guðmundsson

Nafnlaus sagði...

Björgólfur má. Ekki Samtök iðnaðarins. Það er svo ótrúverðugt.

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Þetta er hárrétt hjá honum, hvernig stendur á því að þeir einkavæða allt nema heilaþvottaboxið?
Fjórðavaldið er of mikilvægur liður þegar flokkur telur sig eiga landið...
Þegar þeir reyndu að kæfa samkeppnina hérna um á árið var það einungis enn eitt skrefið í átt að fasisma hjá bláverjum.

Lunaris