þriðjudagur, 1. apríl 2008

Makedónía til mæðu

Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún eru farin á leiðtogafund NATO í Búkarest. Þar mun Bush, Bandaríkjaforseti reyna að tryggja Úkraínu og Georgíu og síðan Albaníu, Króatíu og Makedóníu aðgöngumiða að NATO.
Sjálfsagt mál? Ó nei, Grikkir hóta að beita neitunarvaldi. Þeir féllust á það seint og síðar meir þegar Júgóslavía splundraðist að það lýðveldi sambandslýðveldisins sem kennt var við Makedóníu fengi að halda því heiti sem sjálfstætt ríki.

Makedónía, vagga veldis Alexanders mikla, náði yfir samnefnt norðausturhérað Grikklands og inn fyrir landamæri gömlu Júgóslavíu. Grikkir muna enn að skæruliðar grískra kommúnista herjuðu á heimaland sitt eftir síðari heimsstyrjöld frá griðastöðum innan landamæra Júgóslavíu Títós marskálks. En það hérað hét Vardar Banovina þangað til 1944 þegar Makedóníu nafnið var tekið upp. Annars vegar til að pirra Grikki, að þeirra eigin sögn og hins vegar til að réttlæta sókn suður Slava til Eyjahafsins.

Dora Bakoyannis, utanríkisráðherra Grikkja skrifar grein í Herald Tribune í dag og sakar Makedóna um óbilgirni. Þeir ýji sífellt að því að samnefnt hérað í Grikklandi sé hersetið slavneskt land þótt Grikkir hafi byggt það í 3500 ár. Grikkir hafi allra náðarsamlegast fallist á að þeir notuðust við heitið Fyrrverandi lýðveldi Júgóslavíu, Makedónía (FYROM) til bráðabirgða á meðan leitað væri að nýju nafni. Gríski ráðherrann bendir á að fylki í Bandaríkjunum heiti Nýja Mexíkó og virðist opna á einhverja slíka lausn. Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt til að ríkið verði kallað Lýðveldið Makedónía (Skopje).

En er þetta ekki deila um keisarans skegg? Jú, en sagan hefur kennt okkur að taka þjóðernisdeilur á Balkanskaga alvarlega. Skemmst er að minnast upplausnar Júgóslavíu en á fyrstu áratugum tuttugustu aldar börðust hreinlega allir við alla og Grikkir létu sitt ekki eftir liggja. Ástæðan fyrir að nú hefur soðið upp úr er vitaskuld NATO aðildin. En grísk stjórnvöld hafa líka barið í bumbur vafalaust til að hressa upp á vinsældir Karamanlis forsætisráðherra. Og vitanlega fékk hann gullið tækifæri þegar Makedónar skýrðu flugvöllinn í Skopje, Flugstöð Alexanders mikla.

Eitt er svo víst að gríski utanríkisráðherrann er varla hress með það grein hans í Herald Tribune er birt með tveimur öðrum undir yfirfyrirsögninni: "Makedónía og Grikkland."

Slíkt þykir ekki góð látína í Aþenu.