fimmtudagur, 15. janúar 2009

Rétt komment, rangt augnablik

Mér þykir leitt að segja það að svona einu sinni er ég sammála Gísla Marteini. Bloggarar og fjölmiðlar hafa ekki vitað hvernig þeir eiga að haga sér eftir að í ljós kom að Ingibjörg Sólrún hafði sent stjórnsýslufræðingnum mafíu-skilaboðin sem á íslenskan atvinnu-mælikvarða voru eins og að láta hana vakna upp með haus af dauðu hrossi í rúminu.

Að sjálfsögðu þekkir Gísli Marteinn aðferðafræðina sem lærisveinn Hannesar og Kjartans og wannabe vinur Davíðs Oddssonar. Um Ingibjörgu Sólrúnu og Davíð Oddsson virðist gilda: “Anything you can do, I can do better, because I am the tougher....” .

Davíð sendi að vísu skilaboðin í gegnum sendisveina eins og Hannes sem síðan tóku sér bessaleyfi til að tala óumbeðið í nafni foringjans, eins og stundum kom á daginn. Svona eins og litlir ómerkilegir mafíu-tuddar í innheimtudjobbum í Brooklyn.

Þetta var aðferð Ingibjargar Sólrúnar líka lengst af og því kemur mjög á óvart að hún hafi skipt um aðferð á mjög stuttum tíma og hafi nú í hótunum við fólk milliliðalaust.

Á hinn bóginn verður að viðurkennast að ekki verður betur séð en stjórnsýslufræðingurinnn hafi vitandi vits reynt að láta menn halda að hún ætti við Guðlaug Þór því varla er hún svo skyni skroppin að hún hafi búist við að fólk héldi að hótanirnar vegna ræðu um Gulla og heilbrigðismálin kæmu frá formanni Samfylkingarinnar. Sú ágæta kona er að vísu farin að miða alla stefnu flokks síns við að kóa með Sjálfstæðismönnum og bregðast eigin stefnu til þess eins að ríghalda í völdin. En samt: að skera Gulla niður úr snörunni, til hvers? Beats me.

En skýringin á þvi hvers vegna Ingibjörgu er hlíft- og það er staðreynd,- er auðvitað sú að það þykir ekki sæmandi að sparka í liggjandi mann, því hún er í alvarlegri aðgerð.

Ég vona að allir taki undir mér, líka Gísli Marteinn og svarta klíkan, að með henni skuli vera allar góðar vættir.

Gens una sumus.

Hvað sem öllu líður.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er alls ekki rétt að bloggheimar hafi þagnað eftir að sú vitneskja kom fram að Ingibjörg Sólrún hefði sent vinkonu sinni slík heillaráð. (Sjá t.d. Baldur Hermannsson)
Verð bara að segja að mér finnst ISG treysta dómgreind vinkonu sinnar afskaplega illa, þar talar ISG eins og svo oft, því miður af miklum hroka til vinkonu sinnar sem t.d. er með síst minni menntun.
Það hefur verið stórt vandamál hjá ISG. Ég óska henni góðs bata um leið og ég leyfi mér að vona að hún hugleiði hvernig hún geti talað eins niður til annarra sjúklinga sem í þessu landi búa og hafa maldað í móinn yfir því að eiga ekki einu sinni fyrir nauðsynlegum lyfjum og nú innlögnum eða annarri þjónustu á spítölum.

Nafnlaus sagði...

Sæll takk fyrir það. Verðum við ekki að hlífa Geir líka - hann sýnir ýmis einkenni áfallastreituröskunar. Ég er allavega hættur að mótmæla og farinn til fjalla.
Sá að þú værir búinn að "týna Íslendingum í þér". Til hamingju með það.
Beztu kveðjur Brússels...
skæruliðinn

Unknown sagði...

Hefði ekki nægt að lauma einum sviðakjamma undir sængina?

Nafnlaus sagði...

Góð grein frá þér að vanda. Þetta með kó-unina. Forysta Samfylkingar er greinilega aðeins við völd til að halda völdum. Ég hélt í einfeldni minni að Sjallar væru þeir einu með þennan þankagang. En ISG er heillum horfin. Nú er spurningin: Ætlar Samfylkingarfólk að horfast í augu við staðreyndir og skipta um forystu? Ekki þora Sjallar því, eða réttara sagt þeir eru of blindir til að sjá að breytinga er þörf.
pj

Nafnlaus sagði...

Sigurbjörg sagði orðrétt að ráðherra í ríkisstjórninni hafi komið til sín skilaboðum og leitt hefur verið líkur að því að það hafi verið aðstoðarmaður Ingibjargar sem hafi komið þeim skilaboðum til hennar og hafi svo setið á fremsta bekk af athuga hvort Sigurbjörg færi ekki örugglega eftir tilmælunum.

Hvað varðar Ingibjörgu að þá er farið fínna í hlutina með hana vegna þess að hún er í aðgerð en ekki síður vegna þess að hún er í útlöndum. Gullfiskaminni fjölmiðlanna mun kannski ekki duga til að halda þessu að henni þegar hún kemur heim en ég mun ekki gleyma.

Nafnlaus sagði...

Getur verið að ISG hafi vitað að SS ætti til að tala ógætilega og skaða með því sjálfa sig og vilja segja henni að gæta þess að slíkt hendi ekki.
Vegna þess að það var akkúrat það sem hún gerði með yfirlýsingu sinni um skilaboð frá ráðherra og þögninni daginn eftir.

Nafnlaus sagði...

Þú víkur að mér, segir, að ég hafi stundum umboðslaus talað í nafni Davíðs Oddssonar. Sjálfur kannast ég að vísu aðeins við að hafa talað í eigin nafni. En nefndu dæmi! Ef þú getur það ekki, þá stendur þú uppi marklaus. HHG