DV birti athyglisverða frétt um að Magnús Örn Óskarsson, eigandi Borgarhjóla á Hverfisgötunni, hefði hengt upp miða í verslun sinni þar sem viðskiptavinum er tilkynnt að „júðar“ séu ekki velkomnir.
„Ég vil helst ekki fá júða, af því mér er illa við þá og er búið að vera það í mörg ár,“ segir Magnús Örn.
DV gerir vel í því að leita álits hjá séra Þórhalli Heimissyni sem segir:
„Mér finnst þetta óhuggulegt. Orðið Júði er gamalt orð sem var notað sem skammyrði yfir Gyðinga og er mjög sterk tilvitnun í nasismann,“ segir hann.
Þá bendir blaðið á að stjórnarskráin bannar mismunun eftir trú og kynþætti.
Haft er eftir Magnúsi að hann geri þetta af pólitískum ástæðum.
Nú veit ég ekki hvort fréttin var birt sama dag og þetta ömurlega skilti var sett upp. Hins vegar vill svo til að í gær 27. janúar voru liðin sextíu og fjögur ár frá því að Rauði Herinn frelsaði Auschwitz útrýmingarbúðirnar úr klóm morðvarga nasista.
Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst 27. janúar alþjóðlegan minningardag um Helförina. Það er leitt til þess að vita hvernig haldið var upp á daginn í reiðhjólaverslun við Hverfisgötuna.
Það er mikilvægt að menn sem eru andsnúnir hernaði Ísraela á Gasa, fyllist ekki heift í garð gyðinga sem slíkra og því skora ég á vini Palestínumanna á Íslandi að taka af allan vafa um afstöðu sína, af þessu tilefni.
Ég treysti því að menn eins og Salman Tamimi og Sveinn Rúnar Hauksson fordæmi þetta óvenjulega dæmi um gyðingahatur á Íslandi.
miðvikudagur, 28. janúar 2009
Gyðingahatur á degi Helfarar
þriðjudagur, 27. janúar 2009
Kastljós skúbbar loksins
Loksins Skúbbaði Kastljós. Lengst af hefur þátturinn verið skipaður að mestu leyti (með undantekningum) séð og heyrt fólki og nokkrum pólitískt skipuðum mönnumeins og vera ber á Íslandi.
En nú bar svo við í kvöld að Kastljós skúbbaði. Og þar var auðvitað á ferð "dóninn og fíflið" Helgi Selan sem er jú auðvitað dæmi um að menn geti verið góðir blaðamenn án þess að vera tækir á síður playboy/girl.
En hvernig kom þetta til?
Jú með þvi að taka viðtal með örfáum innklippsmyndum við Kristinn Hrafnsson burtrekinn fréttamann af Kompási.
Viðtalið við Kristinn var stórmerkilegt og ég mun koma að þvi´siðar. En takið eftir aumingjaskap ríkisstofnunarinnar sem þrátt fyrir að hafa heilan her af starfsfólki gerir fátt annað en taka viðtöl á færibandi.
Horfið á budgetinnn og starfsmannafjölann og segið mér svo hver hafi verið að standa sig betur, Kompás eða Kastljós.
Hvorki flugeldar né kampavín
Einhvern tímann hefði því verið fagnað með flugeldasýningum og kampavíni að Sjálfstæðisflokkurinn hrökklaðist úr stjórn eftir hátt í átján ára samfelld stjórnarsetu. En ég verð að viðurkenna að ég er heldur uggandi yfir því hvernig að málum var staðið.
Ingibjörg Sólrún tók loksins á málunum og bjó til margslungna Makkíavellíska fléttu. Henni var orðið ljóst að ef flokkurinn ætti að eiga von í kosningum, yrði að koma til móts við mótmælendur. En hvernig ætti að breiða yfir hve seint væri í rassinn gripið?
Björgvin rak yfirmenn fjármálaeftirlitsinis og sagði af sér sjálfur. Ég hef áður skrifað að það hefði verið afsögn sem engu breytti - svo seint koma hún. En þótt hún breytti engu siðferðilega, gerði hún það pólítiskt að því leyti að með þessu var búinn til þrýstingur á Sjálfstæðisflokkinn og hann króaður af úti í horni. Annað hvort yrði Davíð látinn fara eða skipt yrði um forsætisráðherra og honum hent þannig út.
Ég er nokkuð uggandi yfir þessari atburðarrás. Vissulega á Davíð að hverfa úr Seðlabankanum en ef sá kostur var fyrir hendi að hann færi á Morgunblaðið (var það virkilega raunhæft?) eða viki með þeim hætti að stofnanir væru sameinaðar hefði það vissulega verið ákjósanlegra.
Réttu viðbrögðin við bankahruninu hefðu verið að endurnýja forystu ríkisstjórnarinnar strax í október, reka viðskipta- og fjármálaráðherra og stjórnendur Fjármálaeftirlits og Seðalbanka og umfram allt lýsa yfir að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu.
Þetta hefði haft áhrif ef það hefði verð gert strax. Ég er ekki viss um að þetta dugi núna. Einfaldlega veit það ekki.
Það á svo eftir að koma í ljós hvort það reynist tvíeggjað sverð að stofna ríkisstjórn um að reka Davíð Oddsson.
Það er of snemmt að segja til um hvað verður, en svo virðist sem að Samfylkingin hafi krafist þess að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um ESB umsókn samhliða kosningum.
Hvenær var þessi kollsteypa ákveðin? Skyndilega var hugmynd sem hefur verið á lofti innan Sjálfstæðisflokksins orðin að úrslitaatriði um áframhaldandi stjórnarsetu af hálfu Samfylkingarinnar?
Þetta þurfa oddvitar Samfylkingarinnar að útskýra fyrir kjósendum, en sjáum hvað setur...
mánudagur, 26. janúar 2009
Afsögn og gagnrýni
Það verður að segjast eins og er að staðan er afar ruglingsleg í íslenskri pólitík og skammt stórra höggva á milli. Mér finnst hins vegar skjóta skökku við ef rétt er að það sé sáralítill málefnaágreiningur milli flokkanna, Samfylkingin hafi einfaldlega viljað forsætisráðuneytið. Til hvers? Til að reka Davíð? Eða bara til að láta líta svo út sem að hlustað sé á mótmælendur?
Með fullri virðingu fyrir Davíð er hann – úr því sem komið er – ekki stærsta vandamál þessa lands. Ekki þar með sagt að hann eigi að sitja, en ég held að önnur mál séu mikilvægari.
____________
Ég mátti þola alls kyns stóryrði í kommetnum hér á Eyjunni fyrir að fagna afsögn Björgvins G. Sigurðssonar. Sagt var að með vini eins og mig þyrfti Björgvin ekki á óvinum að halda, sparkað væri í liggjandi mann og svo framvegis.
Sumir telja slík ummæli kannski tittlingaskít en ég held að hér sjáist í hnotskurn einn stærsti vandi okkar Íslendinga. Í mínum huga er vinur sá sem til vamms segir. Ég sendi Björgvin G. tölvupóst þar sem ég hvatti hann til að segja af sér áður en ég gerði það opinberlega.
Það hefði verið honum fyrir bestu, Íslandi fyrir bestu og Samfylkingunni. Sannast sagna lítur flokkurinn ekki vel út eftir það sem á undan er gengið. Ég tek að vísu ofan fyrir Björgvin fyrir að víkja forystu Fjármálaeftirlitsins frá og víkja sjálfur, en þetta var alltof seint.
Það má vissulega líka spyrja sig hvort hægt sé að kenna Björgvin um fall bankanna því hann var jú nánast ekkert hafður með í ráðum. En formleg ábyrgð var hans og eins og pistill hans í ágúst sýndi þá hafði hann ekki hugmynd um hvað í aðsigi var.
Það er svo allt annað mál að Björgvin er margt til lista lagt og þessi afsögn ekki svanasöngu hans í pólitík. Engan veginn.
_________________
Á Íslandi hefur verið plagsiður að afgreiða gagnrýnendur sem kverúlanta og væna þá um að ganga erinda flokks, vina eða ættingja, nú eða fjárhagslegra hagsmuna.
Má ekki einfaldlega meta ummæli manns útfrá þeim sjálfum? Ég held við Íslendingar værum á betri stað ef við hefðum hlustað á gagnrýni td. Danske Bank eða Þorvaldar Gylfasonar í stað þess að afgreiða þau í ljósi einokunarverslunar Dana á Íslandi og inspektorskjör í MR þegar Þorvaldur tapaði fyrir Davíð sautjánhundruð og súrkál.
sunnudagur, 25. janúar 2009
Afsögn sem breytir engu
Björgvin G. Sigurðsson hefur vikið forstjóra Fjármálaeftirlitsins úr starfi og sagt af sér embætti viðskiptaráðherra.
Þetta eru réttar ákvarða nir, en af hverju í ósköpunum beið hann í 4 mánuði með að taka þessar rökréttu ákvarðanir?
Björgvin axlar pólitíska ábyrgð en með því að bíða með ákvörðunina hefur hann sennilega endanlega klúðrað framtíð sinni sem pólitísks leiðtoga. Ef hann var þá ekki búinn að því með því að vera bankamálaráðherra sem söng útrás og fjárglæfrum bankanna lof fram á síðustu stundu.
Jónas Fr. Jónsson (Magnússonar, þingmanns Frjáslyndra) hlýtur að þykja það ósanngjarnt að vera gerður að blóraböggli, þegar Davíð situr sem fastast í Svörtuloftum. Að ekki sé minnst á Árna Mathiesen sem ætti kannski að snúa sér að heilsufari búfjár og nautgripa eins og hann hefur menntun til.
Ákvörðun Björgvins breytir þannig engu. Of lítið, of seint. Hann hefur valdið flokki sínu ómældum skaða.
föstudagur, 23. janúar 2009
Óhamingju Íslands verður allt að vopni
Það setti að mér óhug þegar ég frétti að Geir H. Haarde, forsætisráðherra ætlaði að hætta formennsku í Sjálfstæðisflokknum vegna heilsubrests. Það er með ólíkindum að báðir formenn stjórnarflokkanna, fólk á miðjum sextugsaldri, skuli veikjast jafn illa og raun ber vitni á sama tíma og einmitt þegar áföll ríða yfir þjóðfélagið.
Ég hef ekki alltaf verið sáttur við Geir síðan hann tók við embætti forsætisráðherra frekar en margir aðrir landsmenn. Hins vegar held ég að allir geti verið sammála um að þar fer drengur góður.
Vonandi ná bæði Geir og Ingibjörg Sólrún sér að fullu af veikindum sínum.
fimmtudagur, 22. janúar 2009
Uppþvotta-Bjarni, Obama, óeirðir og Stöð 2
Einmitt þegar maður hélt að botninum væri náð hjá Ara Edwald og Stöð 2, bárust þær fréttir að hann hefði rekið á einu bretti aðalfréttaþul stöðvarinnar, aðalpródúsentinn, lagt niður helsta verðlaunaprógrammið og rekið alla starfsmenn þess.
Í stað Íslands í dag eru komnir annars vegar þættir til varnar auðmönnum og hins vegar helgimynd af stjórnmálamanni.
Þegar Barack Obama, varð forseti Bandaríkjanna, fyrstur hörundsdökkra manna; Bush-martröðnni lauk; mestu óeirðir í 50 ár urðu á Íslandi og ríkisstjórnin rambaði á barmi falls töldu stjórnendur Stöðvar 2 ástæðu til að hafa á dagskrá þátt sem auglýstur var á visi.is með þeim hætti að þar upplýsti eiginkona Bjarna Ben, þingmanns um frammistöðu hans með uppþvottabursta. Af hverju ekki bara að fara alla leið og fjalla um frammistöðu hans í rúminu? Það er hvort sem er ekki hægt að niðurlægja manninn meira en þetta!
Það eru aðeins “snillingar” sem geta látið sér detta þetta í hug. Að uppþvottaburstinn sé líklegri til að fanga athygli áhorfenda en byltingarástand á Íslandi og Barack Obama er einfaldlega frábært.
Rétt eins og að bjóða áhorfendum upp á það að í stað Íslands í dag eigi þeir að trúa og treysta annars vegar Sindra Sindrasyni fyrrverandi blýantayddara og töskubera eigandans og hins vegar Birni Inga Hrafnssyni sem þekktur varð fyrir að gera besta bissnesdíl Íslands að mati eiganda Stöðvar 2 egar hann reyndi að afhenda þeim góða manni og félögum hans helstu auðlindir Reykjavíkurborgar. Á skid og ingenting.
Aðeins snillingar telja það sjónvarpsstöð sinni til framdráttar að reka á einu bretti aðalfrétttaþulinn Sigmund Erni Rúnarsson sem er einn vinsælasti sjónvarpsmaður landsins (þótt hann pirri mig stundum eins og eyjarskeggjar punktur is vita...), Elinu Sveinsdóttur, aðalpródúsent og verðlaunafréttamennina Kristinn Hrafnsson og Jóhannes Kristjánsson.
Það er að vísu rétt að ég treysti Kompásmönnunum fremur illa til þáttagerðar um ágæti auðmanna og uppvask stjórnmálamanna. Og Sigmundi og Elínu dytti ekki í hug að að láta slíkar lofrullur koma í staðinn fyrir úttekt á helstu málum líðandi stundar.
Ekki trúi ég öðru en að Bjarni Benediktsson og eiginkona hans hafi skammast sín niður fyrir tær þegar þessi vitleysa var sýnd. Það er ekki þeim að kenna að það er hætt við að hér eftir verði aumingja Bjarni kenndur við þann hlut sem hann hatast mest við: Uppþvotta-Bjarni.
Hvað ætlar Jón Ásgeir að láta þessa dellu halda lengi áfram? Ari Edwald réttlæti brottekstur Sigmundar með því að Ernirinn væri þungur á fóðrum.
Ef Jón Ásgeir kíkir í bókhaldið sér hann að hann getur fengið þau öll Simma, Elínu, Kristinn og Jóhannes fyrir einn Ara Edwald. Og það sem meira er hann fengi í kaupbæti að hætt yrði að hlæja að Stöð 2 út um allan bæ
Nýr dagur má ekki klikka
Ef rétt er að enginn ráðherra Samfylkingarinnar hafi mætt á fund langstærsta flokksfélagsins í kvöld hafa tíðindi gerst. Við undanskiljum að sjálfsögðu Ingibjörgu Sólrúnu um leið og við sendum henni okkar bestu óskir, en það breytir ekki því að ef þetta er rétt er þar á ferð slikur hroki að fá dæmi eru um slíkt. Forysta flokksins hefur þá í raun gefist upp.
Flokksfélagið í Reykjavík hefur ákveðið að ganga úr stjórninni. Ráðherrar Samfylkingarinnar hafa ekkert umboð né traust lengur.Ég kenni hjartanlega í brjósti með Ingibjörgu Sólrúnu vegna veikinda hennar . En hún er ekkert betri en meðal Íslendingurnn sem hún skilur eftir með tugmilljóna skuld- við fæðingu. Hún verður að fara eins og aðrir Samfylkingarráðherrar. Eins og Oddný Sturludóttir, sagði í bloggi sínu í gær: enginn er ómissandi og þeir sem halda að þeir séu það ættu ekki að vera í pólitík. Þarna lætur ung og efnileg stjórnmálakona skína í vígtennurnar og er það vel.
Tími Össurar er liðinn því leit að olíu kemur ekki í stað gulllæðisins sem kom okkur á hausinn. Þórunn, er góður fagráðherra en svaf á vaktinni eins og aðrir og Jóhanna er of gömul þótt hún gæti verið leiðtogi til skamms tíma.
Björgvin Sigurðsson, minn gamli góðkunningi, sýndi af sér alveg óvenjulegt hæfileikaleysi og var þar að auki vanhæfur allan tímann sem svili Sigga. G. stjórnarmanns Glitnis.
Ég hef síðan einhvertekið spurt: tekur einhver mark á Ágústi Ólafi??Ég hef allavega ekki orðið var við það.
Hver er þá eftir?
Góði læknirinn minn: Dagur B. Eggertsson. Útilokunaraðferðin færir okkur Dag.
Og hann má ekki klikka.
PS eftir að ég skrifaði þennan pistil birtist skoðanakönnun þar sem í ljós kemur að stuðningur við Samfylkinguna minnkar mikið og fer úr 27,1% í 16,7%, en fylgi framsóknar fer úr 5 í 17 prósent. Þarf að hafa mörg orð um þetta?
þriðjudagur, 20. janúar 2009
Nýr kapteinn með lík í lestinni
Það voru óvænt en ánægjuleg tíðindi að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skyldi hafa verið kosinn formaður Framsóknarflokksins. Einhvern tímann hefði ég talið ólíklegt að Framsóknarflokkurinn myndi velja sér til forystu frjálslyndan ungan mann með staðgóða menntun erlendis frá.
Um leið og ég óska mínum ágæta kunningja og billjardfélaga Sigmundi Davíð til hamingju með kjörið, verð ég að viðurkenna að mér er ekki alveg ljóst fyrir hvað hann stendur.
Hann er kosinn sem utanaðkomandi maður sem ekki beri ábyrgð á skipbroti flokksins enda framboði hans beinlínis stefnt til höfuðs Páli Magnússyni og flokkseigendafélaginu, en er það svo?
Ekki ætla ég að láta syndir feðranna bitna á börnunum, en Sigmundur er vissulega sonur karls föður síns.
Var ekki Kögun, rússnesk einkavæðing á borð við sölu Búnaðarbankans til vildarvina flokksforystu Framsóknar?
Kemst Sigmundur Davíð hjá því að gera upp við spillta einkavæðingarfortíð Framsóknarflokksins? Ef færa á flokkinn frá hægri og inn að miðju, finnst manni eins og að þá muni hann nálgast félagshyggjufortíð flokksins og þá hlýtur Samvinnuhreyfingin að vera skammt undan.
Ef svo á að vera getur Sigmundur Davíð þagað yfir því hvernig Finnur Ingólfsson og Þórólfur Gíslason réðust eins og hrægammar á afganginn af SÍS með Samvinnutryggingar sem hryggjarstykki og lögðu allt í rúst? Einhvern veginn held ég að gömlu tryggingarkaupendur sem áttu að eignast félagið, taki því persónulega að eign þeirra hafi verið brennd á útrásarbáli.
Getur Sigmundur Davíð látið sem hann kannist ekki við Ólaf Ólafsson? Ólaf sem telur það ekki til fjárglæfra að taka stöðu gegn krónunni, flytja milljarða til Jómfrúareyja og búa til erlendar gervi-fjárfestingar til að kjafta upp hlutabréfin sín?
Eða Sigurð ráðherrason Einarsson sem telur enn að “viðskipti” af þessu tagi séu fullkomlega eðlileg?
Sigmundur Davíð heldur nú í siglingu sem karlinn í brúnni á framsóknarskútunni en vonandi gerir hann sér grein fyrir að það er lík í lestinni.
Og líkið, það er samvinnuhreyfingin og hún á skilið virðulega útför: afsökunarbeiðni nýs formanns Framsóknarflokksins fyrir fjárglæfra forystu flokksins. Fyrr er Sigmundur Davíð ekki til forystu fallinn í því að byggja upp nýtt Ísland á rústum þess sem hrundi undan Halldóri og Davíð.
mánudagur, 19. janúar 2009
Eins og að saka portkonu um lauslæti
Mikið óskaplega held ég að alþýða manna hafi mikla samúð með Ólafi Ólafssyni. Eða hitt þó heldur. Hann fetar í fotspór fóstbróður síns Finns Ingólfssonar og bregst við andstreymi með sannkölluðu karlakveini.
Ólafur varð uppvís að því að nota skúffufyrirtæki á Jómfrúareyjum (til að sleppa við skatt) og búa til lygasögu um erlenda fjárfestingu bróður emírsins í Katar til þess að kjafta upp hlutabréf í Kaupþingi og leyna því hver staða fyrirtækisins var.
Það er ekkert nýtt að Ólafur tengist erlendri gervi-fjárfestingu í íslenska bankakerfinu. Hann var potturinn og pannan á bakvið S-hópinn ásamt Finni Ingólfssyni en þeir auðguðust um milljarða króna með því að eppa kaupin á Búnaðarbankanum fyrir Kaupþing.
Fróðlegt væri að vita hvað nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins hefur að segja um þann hlut af sögu flokksins.
Ólafur hefur síðan orðið landskunnur fyrir bruðl og ósmekkvísi og verið landsmönnum til leiðinda og ama með vondum tónlistarsmekk (Elton John!?) og hvimleiðu þyrluflugi.
Ólafur kveinar að hætti vina sinna Finns og Björns Inga yfir ranglæti heimsins og segist ekki hafa grætt neitt á Jómfrúareyjaævintýri sínu fyrir emírinn í Katar.
Ólafur var einn af stærstu eigendum Kaupþings. Græddi hann ekki á því að hlutabréf hækkuðu með tilkomu þekkts erlend fjárfestis? Var hann ekki að mánipúlera markaðinn og blekkja fjárfesta?
Þegar Ólafur kvartar yfir því að hann hafi ekki haft neitt annað upp úr þessu en að vera kallaður fjárglæframaður setur mann beinlínis hljóðan.
Þetta er eins og portkona að kvarta yfir þvi að vera vænd um lauslæti.
fimmtudagur, 15. janúar 2009
Rétt komment, rangt augnablik
Mér þykir leitt að segja það að svona einu sinni er ég sammála Gísla Marteini. Bloggarar og fjölmiðlar hafa ekki vitað hvernig þeir eiga að haga sér eftir að í ljós kom að Ingibjörg Sólrún hafði sent stjórnsýslufræðingnum mafíu-skilaboðin sem á íslenskan atvinnu-mælikvarða voru eins og að láta hana vakna upp með haus af dauðu hrossi í rúminu.
Að sjálfsögðu þekkir Gísli Marteinn aðferðafræðina sem lærisveinn Hannesar og Kjartans og wannabe vinur Davíðs Oddssonar. Um Ingibjörgu Sólrúnu og Davíð Oddsson virðist gilda: “Anything you can do, I can do better, because I am the tougher....” .
Davíð sendi að vísu skilaboðin í gegnum sendisveina eins og Hannes sem síðan tóku sér bessaleyfi til að tala óumbeðið í nafni foringjans, eins og stundum kom á daginn. Svona eins og litlir ómerkilegir mafíu-tuddar í innheimtudjobbum í Brooklyn.
Þetta var aðferð Ingibjargar Sólrúnar líka lengst af og því kemur mjög á óvart að hún hafi skipt um aðferð á mjög stuttum tíma og hafi nú í hótunum við fólk milliliðalaust.
Á hinn bóginn verður að viðurkennast að ekki verður betur séð en stjórnsýslufræðingurinnn hafi vitandi vits reynt að láta menn halda að hún ætti við Guðlaug Þór því varla er hún svo skyni skroppin að hún hafi búist við að fólk héldi að hótanirnar vegna ræðu um Gulla og heilbrigðismálin kæmu frá formanni Samfylkingarinnar. Sú ágæta kona er að vísu farin að miða alla stefnu flokks síns við að kóa með Sjálfstæðismönnum og bregðast eigin stefnu til þess eins að ríghalda í völdin. En samt: að skera Gulla niður úr snörunni, til hvers? Beats me.
En skýringin á þvi hvers vegna Ingibjörgu er hlíft- og það er staðreynd,- er auðvitað sú að það þykir ekki sæmandi að sparka í liggjandi mann, því hún er í alvarlegri aðgerð.
Ég vona að allir taki undir mér, líka Gísli Marteinn og svarta klíkan, að með henni skuli vera allar góðar vættir.
Gens una sumus.
Hvað sem öllu líður.
þriðjudagur, 13. janúar 2009
Upplýst verði um ráðherrann
Ég skrifaði hér lærðan pistil um Guðlaug Þór Þórðarson í ljósi orða Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðings um að ráðherra hefði hringt í hana og haft í hótunum við hana. Flestir töldu að hún ætti við Guðlaug Þór enda fjallaði ræða hennar um hann.
Guðlaugur Þór segist ekki hafa hringt í hana og Sigurbjörg neitar að upplýsa hver það gerði. Þegar þessar upplýsingar lágu fyrir, henti ég pistli mínum um Guðlaug í ruslið því tilefnið var ekki lengur fyrir hendi. Ekki það að skoðanir mínar hafi neitt breyst en þar til annað kemur í ljós virðist þetta vera rangt og er beðist velvirðingar á því.
Teflon-manninum verða gerð skil síðar, en þá í öðru samhengi.
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir ætti hins vegar að hugsa sinn gang því á meðan hún upplýsir ekki hver ráðherrann var, liggja allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar undir grun og slíkt er óþolandi.
fimmtudagur, 8. janúar 2009
Löglegt?Siðlaust? Dómgreindarlaust!
Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri “Markaðarins”, fjármálafrétta Fréttablaðsins og umsjónarmaður samnefnds þáttar á Stöð 2 ber sig illa undan því að fjölmiðill hafi birt upplýsingar um einkahlutafélag hans.
Rétt er það að upplýsingar hafa verið sendar og framsendar um rekstur einkahlutafélags Björns Inga, Caramba.
Ársskýrslur fyrirtækisins bera það með sér að Björn Ingi hafi snöggauðgast af viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi og Exista, aðaleiganda fyrrnefnda fyrirtækisins. Það er að mestu í eigu svokallaðra Bakkabræðra.
Sáralítið gerist samkvæmt mínum upplýsingum í rekstri einkahlutafélagsins árin 2003 og 2004 en 2005 eru eignirnar skyndilega 60 milljónir í KB bréfum. 2006 er hagnaður ársins um 29 milljón krónur og eignir 32 milljónir, aðallega í Exista, helsta eiganda KB.
Björn Ingi ber sig hins vegar aumlega yfir rekstrinum síðan þá í pistli sínum á Visir.is í dag og segir: “Mest er okkar sparifé tapað í dag, rétt eins og svo margra annarra.”
Áhugavert væri að vita hvernig Björn Ingi fjármagnaði kaupin á bréfunum. Bauðst honum lán fyrir þeim með veði í sjálfum bréfunum? Ef svo er, má gera ráð fyrir að einkahlutafélagið verði gjaldþrota, en Björn Ingi sitji aðeins eftir með tap á pappírunum.
Allt frá því einkahlutafélagið var stofnað hefur Björn Ingi fjallað um málefni sem eru á mörkum viðskipta og stjórnmála. Caramba var stofnað þegar hann var blaðamaður á Mogganum en síðan haslaði hann sér völl í stjórnmálum.
Hann var aðstoðarmaður sjálfs Halldórs Ásgrímssonar, fyrst sem utanríkisráðherra en síðar sem forsætisráðherra (2003-2006). Ríkisbankarnir voru einkavæddir í árslok 2003 undir forystu Halldórs og Davíðs Oddssonar.
Björn Ingi varð borgarfulltrúi Framsóknarflokksins eftir harða og kostnaðarsama kosningabaráttu 2006 og var um tíma formaður borgarráðs uns hann sprengdi samstarf við D-listann vegna REI málsins. Hann var jafnframt lykilmaður í rekstri fyrirtækja fyrir hönd borgarinnar sem stjórnarformaður Faxaflóahafna og varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur.
Björn Ingi skrifaði í dag: “En nú hlakka ég auðvitað til að sjá upplýsingar um öll hin félögin sem nafnkunnir Íslendingar eiga og reka, svo unnt sé að bera saman hagnað og fleira til þess að hafa þetta allt saman samanburðarhæft. Fjölmargir stjórnmálamenn eru t.d. í fyrirtækjarekstri eða hafa verslað með verðbréf sem hluta af sínum sparnaði. Það er hið besta mál og ekkert óeðlilegt við það, hefði maður haldið.”
Óhætt er að segja að þetta sé athyglisverð yfirlýsing enda hlýtur sú spurning að vakna hvort stjórnmálamennirnir hafi búið yfir fyrirfram vitneskju um aðgerðir sem myndu hafa áhrif á hag þeirra.
Björn segist vita um stjórnmálamenn og ég get bætt því við að nokkrir blaðamenn stunduðu hlutabréfaviðskipti á sama tíma og þeir skrifuðu fréttir sem gátu haft áhrif á gengi þeirra. Man einhver eftir Softis? Oz? Decode?
Ekkert ólöglegt við það eftir því sem ég best veit og ekki formlega siðlaust því hvorki stjórnmálamenn né blaðamenn hafa sett sér skýrar siðareglur í þessum efnum, þótt dómgreind, almennt siðferði og siðareglur BÍ segi mönnum vitaskuld að þetta séu hagsmunaárekstrar sem beri að varast.
Björn Ingi hefur að sjálfsögðu skrifað mikið um málefni Kaupþings og Exista frá því hann tók upp þráðinn að nýju í blaðamennsku. Ég hefði kosið sem lesandi að vita að hann hefði mikilla hagsmuna að gæta af því að þessum fyrirtækjum gengi sem best.
Er ekki eðlilegt að bæði stjórnmálamenn og blaðamenn gefi upp helstu eignir sínar a.m.k. í fyrirtækjum? Er ekki holur hljómur í því ef Björn Ingi hringdi í Árna Mathiesen og bæði hann að upplýsa um fjármál þess síðarnefnda.
Björn taldi engan eiga neina kröfu á því að vita um einkahlutafélag hans og eignir hans í Kaupþing/Exista hefðu verið á fárra vitorði ef upplýsingarnar hefðu ekki verið birtar opinberlega hér á Eyjunni. Það skýtur þó skökku við ef blaðamaðurinn Björn Ingi, kvartar yfir því að blaða- og stjórnmálamanninum Birni Inga sé sýnt slíkt aðhald.
Sé einhver dugur í Birni Inga hlýtur hann eftir að hafa látið þessi orð falla um verðbréfabrask stjórmálamannai, að hann fari rækilega í saumana á því á síðum Markaðarins, í samnefnda sjónvarpsþættinum og í forystugreinum Fréttablaðsins. Nóg eru tækifærin.
Ég tek undir með honum að ég hlakka til að vita um “öll hin félögin.”
föstudagur, 2. janúar 2009
Skífu-Jón, komdu heim!
Það er óskaplega dapurlegt að horfa upp á mitt gamla fyrirtæki Stöð 2 og sérstaklega minn gamla vin Sigmund Erni Rúnarsson verða sér til skammar. Kryddsíldin var hneyskli. Að bjóða ráðamönnum gjaldþrota þjóðar á kampavínsfyllerí í miðborg Reykjavíkur eins og ekkert hafi í skorist er veruleikafirring.
Að sjálfsögðu var boðað til mótmæla. Og þar sem Geirjón var í fríi var vitað mál hvernig þetta myndi fara. Þetta var eins og setja hausinn á höggstokkinn. Það var feigðarflan að halda fast í að hafa útsendinguna á Hótel Borg. Það var úr vöndu að ráða fyrir lögregluna og ber að harma að lögreglumennn hafi meiðst, starfsmenn Stöðvar 2 verið beittir ofbeldi og hótelið skemmt. En hér er á ferðinni alvarlegt dómgreindarleysi forsvarsmanna Stöðvar 2.
En gott og vel.
Sigmundur Ernir og Ari Edwald, forstjóri 365 (eða hvað það fyrirtæki heitir þessa stundina) hafa leikið ótrúlegan afleik með því að halda því fram að mótmælendur væru að ráðast gegn Stöð 2. Vissulega má margt slæmt um það fyrirtæki segja en hvers vegna Sigmundur og Ari setja sig við hliðina á gjaldþrota stjórnarherrunum er mér hulin ráðgáta.
Fjölmiðlafyrirtæki verður að laga sig að tíðarandanum hverju sinni. Tíðarandinn er ekki hliðhollur stjórnarherrunum. Yfirlýsingar Ara og Sigmundar um “stjórtjón” fyrirtækisins eru beinlínis hallærislegar: 2-3 milljónir. Þetta eru ekki einu sinni samanlögð mánaðarlaun þeirra félaga.
Ara er vorkunn að hafa svona lítið vit á viðskiptum. Hann hefur nefnilega ALDREI rekið fyrirtæki á ævinni. Þessi skemmtanastjóri íslenska viðskiptalífsins var einfaldlega keyptur til að setja mannlegan svip á fyrirtæki í eigu Baugs.
Nú hefur hann hins vegar komið óorði á fyrirtækið og verður væntanlega látinn fara fljótlega.
Jón Ásgeir finnur örugglega einhvern enn þægari. Baugsvæðing Stöðvar 2 heldur nefnilega áfram. Nú er Freyr nokkur Einarsson kominn inn á gólf fréttastofunnar sem sérstakur varðhundur eigenda og ef einhver skyldi velkjast í vafa um hver boðskapurinn er, hefur þeim vafa verið eytt með því að reka umsjónarmann Íslands í dag og setja þar inn Sindra Sindrason, fyrrverandi (núverandi?) blaðafulltrúa Jóns Ásgeirs.
Þetta er mjög dapurleg þróun því lengst af hef ég talið það öfugmæli að tala um Stöð 2 og Fréttablaðið sem Baugsmiðla. En ég hef áhyggjur af þróuninni og óttast að uppgangur Sindra sé eins og kanarífuglinn í kolanámunni. Fyrirboði um grímulausa Baugsvæðingu.
Ég trúi ekki öðru en að starfsmenn Stöðvar 2 sakni nú Jóns Ólafssonar í Skífunni. Hann hefði aldrei sýnt af sér slíkt dómgreindarleysi. Og reyndar held ég að Jón hafi verið býsna góður eigandi Stöðvar 2. Ég minnist þess að eitt sinn gaf Jón Njarðvíkurkirkju forláta orgel. Allir fjölmiðlar landsins greindu stuttlega frá þessum höfðingskap Skífu-Jóns, nema einn: Stöð 2.
Og hann lét það gott heita. Jú jú, Jón setti sitt mark á dagskrá Stöðvarinnar að ekki sé talað um blessaða Bylgjuna. Jón var hins vegar greindur og ískaldur í hugsun og vissi sem var að ef hann notaði vald fjölmiðilsins myndi það leysast upp og hverfa. Og verða fullkomlega verðlaus.
Þegar Elín Hirst, sérstakur fulltrúi Kjartans Gunnarssonar og Hannesar Gissurarsonar á fréttastofunni , var látin fara, gat hún varla nefnt eitt dæmi um hvernig Skífu Jón hefði otað sínum tota.
(Ég held ég hafi verið eini maðurinn sem mótmælti brottrekstri Elínar, en það er önnur saga. Ekki græddi ég mikið á því, enda ekki hátt skrifaður hjá þeim sem réðu, Kjartani mági mínum og þeim öllum. )
Kosturinn við Jón Ólafsson var nefnilega að hann hafði bara áhuga á peningum og bæta álit sitt í þjóðfélaginu. Hann vissi sem var að hvað fréttirnar varðar, gerði hann það best með þvi að leyfa vitleysingum eins og mér að leika lausum hala í fréttmennsku.
Ég tek skýrt fram að ég þekki Jón sáralítið og hef haft mjög lítið af honum að segja persónulega. En í mínum huga stendur hann upp úr í hópi eigenda íslenskra fjölmiðla. Það er að vísu ekki hörð samkeppni.
fimmtudagur, 1. janúar 2009
Gleðilegt ár
Ég óska lesendum Eyjunnar gleðilegs nýs árs. Mig langar til að minna landa mína á að þrátt fyrir allt var árið 2008, árið þegar við fórum að tala meira saman eins og manneskjur. Hver veit nema að við höfum orðið betri þjóð - þegar til lengri tíma er litið.
Gleðilegt ár! kv. Árni