fimmtudagur, 17. júlí 2008

Írar ánægðastir með ESB

Ágætur maður og skemmtilegur penni sem skrifar undir nafninu Miðbæjaríhaldið sýnir mér þann heiður að senda mér tóninn og saka mig um “drottinsvik” fyrir að “vilja inn í hið nýja Kalmarsamband.” Látum drottinsvikin liggja milli hluta…

Sumir segja að ekki sé orðum eyðandi á málflutning af þessu tagi en ég held að slíkt sé hrokafull afstaða, enda verður aðild að Evrópusambandinu ekki samþykkt á annan hátt en með þjóðaratkvæðagreiðslu. Og þar hafa allir jafnan atkvæðisrétt.

Vandinn við umræðuna á Íslandi að hún er frumstæð og sífellt er verið að deila um staðreyndir. Tökum sem dæmi eina fullyrðingu Miðbæjaríhaldsins:
“Þið ESB sinnar eruð á hröðu undanhaldi á flestum stöðum á Nl-öndum, nema hér…Danir eru ekki par hrifnir, né Írar.

En hverjar eru staðreyndir málsins? Kannanir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lætur gera með jöfnu millibili eru almennt taldar áreiðanlegasti mælikvarðinn um vinsældir og óvinsældir ESB og stofnana þess hverju sinni. (Sjá: http://ec.europa.eu/public_opinion/index_en.htm)

Samkvæmt könnun sem gerð var strax í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar á Írlandi um miðjan júní , kom í ljós að 89% Íra styðja ESB aðild. Þeir hafa raunar lengi verið allra þjóða ánægðastir með sambandið og lái þeim hver sem vill: ESB-aðild er helsta ástæða ótrúlegs uppgangs þessarar ágætu frændþjóðar okkar á undanförnum árum.

Aðrir frændur okkar, Danirm eru þar oftast í öðru sæti en í Eurobarometer-könnun nú í vor sögðust 77% frænda okkar telja að Danmörk hafi haft hag af því að vera í ESB.
Rétt rúmur helmingur Svía er svo ánægður með ESB, en fimmti hver er óánægður – hinir taka ekki afstöðu. Því miður kann ég ekki finnsku og skildi ekki niðurstöður þeirrar ágætu þjóðar en Evrópumeðaltalið er 54% ánægja með aðild.

Hins vegar held ég að það sé óhætt að segja að ég hafi sýnt fram á að málflutningur Miðbæjaríhaldsins er staðlausir stafir sem byggjast á fordómum og óskhyggju eins og svo ótrúlega margt sem skrifað er um þennan málaflokk á íslensku.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gott þetta með hrokann...

Kom skemmtilega góður og nettur svoleiðis undir lokin hjá þér...

Nafnlaus sagði...

Miðbæjaríhaldið og aðrir sem talað hafa sem hæst gegn Evrópusambandinu hafa nú aldrei látið sannleikann flækjast fyrir sér...
IG

Magnús Þór sagði...

Hér er rödd frá Írlandi sem vert er að hlusta á.

http://www.davidmcwilliams.ie/

"Is it time to think the unthinkable? With banks shares in free-fall, lending collapsing and bad debts rising by the hour, what can we do? Now that the slowdown has spread well beyond houses and construction — evidenced by falling retail sales, rapidly rising unemployment and faltering tax revenues — is there an option out there, which, although dramatic, might be plausible in the context of the recession the country is facing?"

Nafnlaus sagði...

Þessi umræða um ESB aðild er svolítið einsog að ræða í smáatriðum fótboltaleik sem ekki hefur verið spilaður. Til að þjóðin geti myndað sér skoðun á hvort hún vill þarna inn eða ekki þarf þjóðin að hafa einhverjar forsendur. Þær fást einfaldlega með því að fara í aðildarviðræður. Stjórnmálamenn sem eru fulltrúar þjóðarinnar og þiggja fyrir það laun (og eftirlaun) ættu því að fara að vinna vinnuna sína. Skoða hver áhersluatriði okkar í viðræðum ættu að vera og fara í viðræðurnar. Síðan getur þjóðin greitt um það atkvæði hvort henni hugnast niðurstaðan eður ei eftir að málin hafa verið kynnt fyrir henni á yfirvegaðan hátt.

Nafnlaus sagði...

Þetta bull í David er mjög mikil skammtímahugsun. Hann er að tala um að Írland dömpi Evrunni til þess að redda sér í gegnum það skammtímaslömp sem þeir eru í. Írar þurfa bara að sýna meiri aga í opinbera geiranum.
Lítill sjálfstæður gjaldmiðill er ekkert annað en tæki til að redda lélegum stjórnmálamönnum út úr hagstjórnarmistökum. Ef að Magnús Þór og félagar komast einhvern tímann í ríkisstjórn þá vona ég að krónan verði til því peningaprentun verður eina mögulega leiðin út úr þeirri sorgarsögu sem þeirra hagvit á eftir að skapa...

IG

Nafnlaus sagði...

Þetta eru góðir og upplýsandi pistlar hjá þér, Árni Snævarr, varðandi ESB málin
Takk fyrir það.

Nafnlaus sagði...

Merkilegt hvernig Magnús skautar alltaf hjá því að tala um það sem hljóta að teljast óþægilegar staðreyndir fyrir hann, sbr. þessa með stuðning við ESB-aðild í Írlandi og hversu mjög Írar hafa notið góðs af ESB-aðild.

Jón Grétar sagði...

Þessari staðreynd mætti flagga aðeins betur og það myndi kannski beina umræðunni um Evrópusambandið inná málefnalegri brautir.

Varðandi David McWilliams sem Magnús bendir á og þannig málstað þá finnst mér það frekar ódýrt. Fyrst taka allt það góða sem sambandið bíður uppá og um leið og það fer að kreppa að, að þá eigi að dömpa sambandinu og/eða Evrunni. David og vinur hans Magnús mættu nú reyna að horfa aðeins lengra fram í tímann.

Nafnlaus sagði...

Í þessu samhengi mætti e.t.v.benda á að skv. nýjasta þjóðarpúlsi gallup er stuðningur við ríkisstjórn Íslands 52%.
Ef við tökum rök "sjálfstæðissinna" (les. einangrunarsinna) alla leið er ljóst að ánægjan er meiri innan sambandsins - að meðaltali altso. Af því leiðir auðvitað að við ættum að sækjast eftir aðild hið fyrsta, burtséð frá öllum raunverulegu rökunum...

PM