laugardagur, 12. júlí 2008

Minningar (Eyja)manns og fílósóf úr Arnarnesi

Vorskipið færði mér að þessu sinni alla leið heim á Feneyjagötu (Rue de Venise) nýjasta hefti Herðubreiðar. Ég skal svo sem viðurkenna að ég reifi ekki blaðið upp í neinum flýti en greip það með þér nokkru síðar til að lesa í lest.

Sú grein sem situr hins vegar mest í mér er lipurlega stíluð grein Róberts Marshalls þar sem hann tvinnar saman hönduglega æskuminningar sínar og máttleysi íslenskra embættis- og stjónrmálamanna þegar EES samningurinn er annars vegar. Áhrifaleysi Íslendinga er algjört: við sitjum við sama borð og hvaða lobbýistar sem er. Það er hreinlega dapurlegt að lesa um hvaða möguleikar standa einna helst til boða: kvöldverður með norrænu ESB ráðherrunum sem mæta síðan ekki. Ég minnist þess hins vegar ekki að hafa lesið slíka fyrstu persónu frásögn af reynslu Íslands af þessum samningi.

Róbert er með fæturna á jörðunni en sama verður ekki sagt um félaga hans, orðhákinn músíkalska Guðmund Steingrímsson. Hann er á miklu flugi og skrifar lærða ritgerð um áhrifaleysi almennrar þingmanna og nýtur sinnar góðu menntunar í hvívetna. Grípur niður í háskólaritgerð, tæpir á teóríum og færir snjöll rök fyrir máli sínu. Hvað eftir annað tekur maður andköf yfir snilli heimspekingsins úr Arnarnesinu. En að loknum lestrinum sótti að mér undarleg tilfinning.

Ég er alls ekki að gera lítið úr Guðmundi þegar ég bendi á að í því spili sem hann spilar á síðum Herðubreiðar er vitlaust gefið því hann gleymir mikilvægri frumforsendu.

Í raun er er engu líkara en að Guðmundur sé í leiknum frúin í Hamborg en að þessu sinni má ekki nefna EES. Fingralipri harmónikkuleikarinn, hugmyndafræðingurinn og húmoristinn gleymir því nefnilega að það er tómt mál að tala um afköst Alþingis, áhrif og áhrifaleysi stjórnar- og stjórnarandstöðu, ráðherra og fótgönguliða ef ekki er tekið með í reikninginn að stór hluti allrar íslenskrar löggjafar kemur frá Brussel. Vel má vera að formlega séu lögð fram frumvörp í nafni hinna vösku ráðherra en oft hafa þeir ekkert um innihald þeirra að segja, fremur en fótgönguliðarnir í þingsalnum. Ef þetta er ekki tekið með í reikninginn verður niðurstaðan skökk.

(Getur það verið að margir jafnaðarmenn eigi mjög erfitt með að viðurkenna að í EES samningi Jóns Baldvins var gengið alltof langt í að afsala fullveldi? )

Í mörgum málum hafa meira að segja varaþingmenn eins Guðmundur og Róbert þá sjaldan þeir mæta vígfúsir í leikhúsið niðri við Austurvöll jafn mikil áhrif og sjálfur forsætisráðherrann: sem sagt engin. .

1 ummæli:

Þór Jónsson sagði...

Það rifjast upp fyrir mér við lestur þessa pistils að í aðdraganda EES-samningsins dirfðist ég í fréttaskýringu frá Svíþjóð fyrir Stöð 2 að tala um að aðild að honum takmarkaði fullveldi. Í viðtalsþætti sem Þórir Guðmundsson stýrði eyddu viðmælendur hans, pólitíkusarnir sem um véluðu, heilmiklu púðri í að leiðrétta fréttamanninn í Svíþjóð, EES-samningurinn hefði alls engin áhrif á fullveldi Íslands.