þriðjudagur, 8. júlí 2008

Eri Óli Steph sammála Óla Steph?

Margir töldu það tímanna tákn þegar Ólafur Stephensen, ritstjóri 24 stunda tók við af Styrmi Gunnarssyni sem ritstjóri Morgunblaðsins, ekki síst fyrir þær sakir að Ólafur er jafn eindreginn fylgismaður aðildar Íslands að Evrópusambandinu og Styrmir er andsnúinn því.

Fyrir nokkrum mánuðum tók ég mér frí frá störfum og vann stuttan sjónvarpsþátt um Ísland og Evrópusambandið. Er óhætt að segja að af mörgum mælskum konum og körlum sem ég ræddi við voru fáir ef nokkrir jafn mælskir, rökfastir og raunsæir og Ólafur.

Sagt hefur verið um Ólaf og Styrmi að þeir eigi það eitt sameiginlegt að báðir skrifa þeir zetu – einir leiðarahöfunda Morgunblaðsins í seinni tíð. Af þessum sökum vöktu eftirfarandi Staksteinar um nýlega grein Sveins Andra Sveinssonar, hæstaréttarlögmanns, athygli mína:

“Málflutningur Sveins Andra er hins vegar ekki sannfærandi þegar hann segist ekki sjá nokkra galla við ESB-aðild. Af lestri greinar lögmannsins að dæma virðist til dæmis svo auðvelt að laga íslenzkan sjávarútveg að sjávarútvegsstefnu ESB að furðu sætir af hverju íslenzkir útgerðarmenn eru ennþá með þetta píp um áhyggjur sínar af auðlindinni.”

Staksteinar eru að vísu nafnlausir eins og ritstjórnargreinar Morgunblaðsins eru almennt. Hins vegar berast böndin að Ólafi vegna zetunnar. Mér fannst þetta athyglisvert vegna þess að í viðtali við Ólaf, þá ritstjóra 24 stunda, í Evrópumyndinni minni sagði hann:

“Það er tómt rugl og búið að sýna fram á með gildum rökum að það er engin hætta á að íslensk mið fyllist af útlendum togurum. Spurningin um sjávarútveginn er miklu frekar tilfinningaleg spurning um fullveldi en spurning um efnahagsmál. Það myndi í reynd mjög lítið breytast í sjávarútvegsmálum á Íslandi. Það sem myndi fyrst og fremst breytast er að lokaákvörðun um heildarafla á Íslandi yrði formlega tekin í ráðherraráði Evrópusambandsins.”

No ifs and buts.

Margir urðu til þess að halda því fram að vatnaskil yrðu við ritstjóraskipti á Morgunblaðinu í stefnu blaðsins í Evrópumálum. Þess hafa vissulega sést nokkur merki, td. í einu Reykjavíkurbréfi en ekki verður annað sagt en málflutningurinn sé afar hógvær – enn sem komið er. Þegar ég bar þessi skrif saman rifjaðist upp fyrir mér pistill Björns Bjarnasonar, leiðtoga hægri arms Sjálfstæðisflokksins, erki-Evrópuanandstæðings og fyrrverandi innanbúðarmanns á Morgunblaðnu. Hann gerði lítið úr mikilvægi ritstjóraskipta hvað Evrópumálin varðar:

“ESB-aðild er hins vegar mál af þeirri stærð, að skoðun ritstjóra kann að mega sín lítils, þegar til kastanna kemur. Fjölmiðlaafstaða í Bretlandi til Evrópumála sýnir, að það eru að lokum eigendur fjölmiðlanna, sem ákveða, hvort þeir hallist að stuðningi við Brusselvaldið eða ekki...Afstaða Björgólfs (Guðmundssonar) til Evrópusambandsins mun að lokum ráða miklu um afstöðu Morgunblaðsins. Goðsögnin um, að eigendur ráði engu um ritstjórnarstefnu blaða, er ekki annað en goðsögn.”

(Látum liggja milli hluta hvað Björn gerir lítið úr Ólafi í þessum skrifum, enda talar hann oftar en ekki með fyrirlitningu niður til annars fólks.)

Þessi skrif Björns vöktu litla sem enga athygli en þau verður að skoða í ljósi þess að hann var aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins (og sonur ritstjóra). Þau verður líka að skoða í samhengi við drottnun Sjálfstæðisflokksins yfir Ríkisútvarpinu um ára og áratugaskeið.

Hugsanlega segja þau meira um innræti Björns en raunveruleikann. Ég ætla að hins vegar að vona að orð Björns séu óskhyggja og að Ólafur Stephensen, ritstjóri Morgunblaðsins sé sammála Ólafi Stephensen, ritstjóra 24 stunda í Evrópumálunum. Reyndar hvarflar ekki annað að mér en að hann sýni í verki að hann er sjálfstæður í hugsun, skeleggur, góður penni og drengur góður - en hann þarf aðhald eins og aðrir. Og hananú!

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kæri Árni !
Margt gott og rétt hjá þér !
eeeee...n alltof miklir langhundar, rétt eins og í sunndudagsMogganum !

Nafnlaus sagði...

Skiptir afstaða Moggans einhverju máli lengur? Ekki get ég séð að fólk tali um afstöðu Moggans eða hinna blaðanna til ESB eða annara mála.
Ég held bara að fólki sé alveg sama um afstöðu blaðanna og að hún breyti nákvæmlega engu. Kaffihúsaspekingar og flokksdindlar lesa þetta sennilega en almenningi er sama. Blöðin er líka svo hörmulega léleg á Íslandi.

Nafnlaus sagði...

Það er því miður mikið til í þessu hjá ykkur báðum nafnlausu. Ég skrifa langhunda enda blogga ég fyrir sjálfan mig og engan annann og hef enga hugmynd um hverjir lesa.
Og því miður aftur er það alveg rétt hjá hinum nafnlausa að sennilega er flestum skítsama um afstöðu Moggans. kv. ÁS