mánudagur, 14. júlí 2008

Dýr biðleikur Björns

Útspil Björns Bjarnasonar um að taka upp evru á grundvelli EES samningsins er engan vegin ný hugmynd. Illugi Gunnarsson, alþingismaður stakk upp á þessu í ræðu á Iðnþingi í byrjun mars sem sálufélagi Björns, Styrmir Gunnarsson, sagði að markaði tímamót í forystugrein í Morgunblaðinu. En það er kannski til marks um hve lítið mark var tekið á leiðurum Styrmis undir það síðasta að bæði orð Illuga og leiðarinn virðast fallin í gleymskunnar dá!

Orð Illuga á sínum tíma voru athyglisverð vegna þess að hann hafði sjálfur verið í fylgdarliði Geirs H. Haarde, forsætisráðherra þegar hann heimsótti Brussel og sagðist eingöngu hafa rætt við Barroso og Olli Rehn, stækkunarstjóra ESB um inngöngu Króatíu í sambandið – eins og frægt var.

Geir ræddi sem sé að eigin sögn ekki neitt um hvaða skilmálar biðust Íslendingum hjá ESB sem er makalaust – ef rétt reynist. Hins vegar lýsti forsætisráðherrann því yfir að til þess að taka upp Evru yrði Ísland að ganga í Evrópusambandið, önnur leið væri ekki fær. Nú talar Björn Bjarnason, eins og Illugi samherji hans á sínum tíma, gegn formanni sínum. Geir hefur reyndar sjálfur helst viljað taka upp dollarann, en eftir stendur að stríðandi fylkingar í Sjálfstæðisflokknum eru sammála um eitt: að kasta íslensku krónunni fyrir róða.

Geir H. Haarde segist ekki hafa rætt við forystumenn ESB um inngöngu Íslands í sambandið en það gerði ég þegar ég tók mér frí frá störfum og vann mynd (sjá: http://www.visir.is/article/20080603/FRETTIR01/703892087/0/) og rit um þessi mál fyrr á þessu ári. Þar á meðal ræddi ég við Olli Rehn sem sér í framkvæmdastjórninni um aðildarviðræður nýrra ríkja í ESB:

--Árni Snævarr: Er aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu hugsanleg án aðildar að Evrópusambandinu? Olli Rehn: “Nei ekki fyrir þróaðan efnahag eins og er á Íslandi. Þess eru dæmi að evran hafi verið notuð sem gjaldmiðill utan ESB, í Kósovó og Svartfjallalandi en þar var þýska markið notað áður og því síðan skipt út fyrir evrur. Ísland yrði hins vegar að ganga í Efnahags- og myntbandalag Evrópu og uppfylla efnahagslega skilyrði.” (Ísland og Evrópa: Mótum eigin framtíð, Samtök iðnaðarins, 2008, bls. 28-29)

Þetta er væntanlega það svar sem Geir og Illugi hefðu fengið ef þeir hefðu spurt um hvernig kaupin gerðust á eyrinni fyrir Ísland- en þeir segjast bara hafa rætt um inngöngu Króatíu í ESB. Hvers vegna beið Björn Bjarnason í meir en fjóra mánuði áður en hann tók undir hugmynd Illuga? Hvers vegna ætti hann að fá annað svar en ég fékk og Geir fékk eða hefði fengið ef hann hefði gefið sér tíma til að ræða um annað en Króatíu við Rehn og Barroso?

Mitt svar: vegna þess að hann er bara að kaupa sér tíma, að leika millileik og vonast til að staðan í refskákinni skáni af sjálfu sér. Á meðan blæðir íslenskum fyrirtækjum og almenningi út með handónýta mynt eins og Geir og Björn hafa nú viðurkennt og hæstu vexti í heimi.

Hve lengi eigum við Íslendingar að borga fyrir að forystumenn Sjálfstæðisflokksins séu ekki menn til að horfast í augu við staðreyndir?

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Beint í mark !

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Ef pólistiskar hugsjónir væru við lýði fyrir hönd fólksins í landinu, hefðum við átt að ganga í ESB á unda austur-evrópuþjóðunum....og fá betri díl!

Nafnlaus sagði...

Þetta steinliggur hjá þér Árni. Enn ætlar þjóðin að láta draga sig á asnaeyrum!

Nafnlaus sagði...

Sæll Árni,

Stjórn peningamála á Íslandi væri sannarlega betur komið í höndum Trichet og Evrópska Seðlabankans heldur en Davíðs Oddsonar og hins íslenska banka.

Björn þorir ennþá ekki að viðurkenna það berum orðum.

Bestu kveðjur,

Sveinn

Halli sagði...

ÁS: "Er aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu hugsanleg án aðildar að Evrópusambandinu?"

Olli Rehn: “Nei ekki fyrir þróaðan efnahag eins og er á Íslandi. [...] Ísland yrði hins vegar að ganga í Efnahags- og myntbandalag Evrópu [...]".

Þannig að þú spurðir hann hvort við gætum gengið í myntbandalagið án inngöngu í ESB, og hann svarar því til að við getum ekki tekið upp evru einhliða þar sem við erum með svo þróaðan efnahag, heldur yrðum við að ganga í myntbandalagið.

Svaraði hann því semsagt ekki í viðtalinu hvort hugsanlega kæmi til greina að semja við ríki utan ESB um aukaaðild að myntbandalaginu (með nauðsynlegum breytingum á regluverki sambandsins)?

Nafnlaus sagði...

Það er ekki hægt annað en að draga þá ályktun, að Björn Bjarnason sðé að reyna að tefja Evrópuumræðuna á Íslandi. Í handbolta væri þetta kallað leikleysa, eða leiktöf, sem lið stunda, þegar þau eiga við ofurafl að etja.

Nafnlaus sagði...

Geir og Illugi hefðu eflaust séð í gegnum það, hefðu þeir fengið álíka svar og Olle Rehn gaf þér, það er svo mikill útúrsnúningur að mér finnst furðulegt að þú hafir látið selja þér það, hvað þá að þú hafir ákveðið að birta það.

Gerðir þú þér enga grein fyrir muninum á því sem Króatía og Svartfjallaland gerðu og því að ganga í gjaldmiðilssamstarfið?