laugardagur, 21. júní 2008

Höfundur hitaveitunnar slær í gegn

Sá mjög fínt viðtal CNN við Ólaf R. Grímsson, forseta Íslands. Skemmst er frá því að segja að ÓRG komst mjög vel frá þessu viðtali. Ég get held ég skrifað undir hvert orð sem hann sagði og auk þess kom hann vel fyrir. Talar mjög góða ensku og kemur vel fyrir sig orði. Það er ekkert verra að augljóst er á hreim hans að hann er ekki enskumælandi. Þannig á það að vera - honum er nauðsyn að hafa sérstöðu.

Það er hins vegar mun áhugaverðara hvað ÓRG segir EKKI.

Augljóst var að fréttamaður CNN var ekki vel undirbúinn og hélt greinilega að Ísland hefði svipaða stjórnskipan og Bandaríkin. Ólafi Ragnari datt ekki í hug að leiðrétta fréttmanninn þegar hann spurði hann hvað hann byggist við að hafa áorkað þegar næsta kjörtímabili lyki,

Það virtist ekki hvarfla að forsetanum að segja að það væri ekki undir honum komið því hann væri fullkomlega valdalaust talandi höfuð lýðveldisins og hefði aldrei nokkurn tíman komið nálægt umhverfismálum. Aldrei. Viðtalið á CNN var bersýnilega tekið upp fyrir nokkru af vetrarmyndunum að dæma. Einmitt á sama tíma og prófíllinn birtist um forsetann þar sem forsetanum var eignaður heiðurinn af öllum framfarasporum á þessu sviði frá því land byggðist.

Ólafur Ragnar er hins vegar mælskur vel og eftir að ég hafði horft á hann og hlustað var ég eiginlega farinn að trúa því að hann hefði fundið upp hitaveituna.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hann fann auðvitað upp hitaveituna eins og Gore fann upp internetið ;-)

Nafnlaus sagði...

Þeir sem tala mest um orkuútrásina eru þeir sem minnsta þekkingu hafa á orkumálum. Flestir virðast þeir koma úr pólitík eða ímyndar- og auglýsingageiranum. ÓRG er snillingur í að standa á öxlum annarra og kann að haga seglum eftir vindi. Fyrir stuttu ræddi hann mest um fjármálageirann sem framtíð Íslands en þegar bakslag kom í þau mál vippaði hann sér yfir í orkugeirann.

Nafnlaus sagði...

Tja..það er nú kannski til of mikils mæls að fyrrverandi atvinnupólítíkus sem hefur seinustu áratugina ræktað með sér færni í að þakka sér fyrir að sólin kemur upp taki allt í einu upp á því að vera hæverskur og auðmjúkur og þakka öðrum eitthvað

Nafnlaus sagði...

Ef hann hefði sagt: Ég er gjörsamlega valdalaus og hef ekkert hlutverk nema möuglega að kynna Ísland fyrir útlöndum - fyrir nú utan að mæta á 17. júní... hefði þá ekki fréttamaður CNN einfaldlega sagt: Heyrðu þá hef ég ekkert við þig að ræða. Þakka þér fyrir og vertu sæll?

Er hann ekki bara að vinna vinnuna sína? Það er öllum í Bandaríkjunum skítsama um íslenska stjórnskipan, hugsa að þeim sé líka alveg sama um hver gerir hvað á Íslandi.

Hins vegar er eim tamt að setja andlit við afrek. Er þá ekki bara allt í lagi að gefa þeim það?

Nafnlaus sagði...

Hann er einfaldlega ömurlegur.