fimmtudagur, 5. júní 2008

Og sigurvegarinn er....

Það er sannkölluð knattspyrnuveisla framundan: Evrópukeppnin í fótbolta. Eiginlega skyggir fátt á þá gleði nema að ég væri alveg til í að skipta á Svisslendingum og Austurríkismönnum og til dæmis Englendingum og Dönum.
Ekki að ég hafi trú á því að Englendingar gerðu mikið í keppninni, hins vegar er svo gaman að fylgjast með ensku þjóðarsálinni að maður tali nú ekki um allt pöbbalífið hér í Brussel í kringum ensku leikina.

Mér sýnast fimm lið vera sterkust: Frakkland, Ítalía, Spánn, Þýskaland og Portúgal.

Frakkar hafa ekki sýnt miklar rósir í undirbúningi EM og raunar virðast sumir leikmenn liðsins á síðustu metrunum. Lillian Thuram og Claude Makelele eru komnir á miðjan fertugsaldur og satt að segja furðulegt að Raymond Domenech þjálfari skuli ekki hafa skipt þeim út með það í huga að HM er eftir tvö ár. Þeir eru hins vegar ekki leikmennirnir sem virðast ryðgaðastir.

Patrick Vieira er sífellt meiddur og þar að auki eru varnarmennirnir William Gallas og Willy Sagnol búnir að vera meiddir. Domenech er að mörgu leyti sérsinna í vali sínu á liðinu og þannig eru Mexes hjá Roma og Bacara Sagny hjá Arsenal ekki í hópnum. Boumsong, einhver slakasti haffsent í sögu ensku deildarinnar er á bekknum, öllum velunnurum franskrar knattspyrnu til mikils hrellings. Þá kýs þjálfarinn fremur að hafa Eric Abidal hjá Barcelona í vinstri bakvarðarstöðunni en hinn frábæra Patrice Evra. Lyonmarkmaðurinn Gregory Coupet er stór og stæðilegur markmaður og fær loks að spila á stórmóti.

Búist er við að Jeremy Toulalan hjá Lyon leysi Vieira af hólmi og er ég satt að segja undrandi á því og tel bæði Diarra hjá Portsmouth og Mathieu Flamini sterkari leikmenn. Florent Malouda hefur verið út að aka síðan í síðustu heimsmeistarakeppni en Eric Ribery er hins vegar verðugur arftaki Zinedine Zidane sem primus motor á miðjunni.

Frammi er svo Thierry Henry, af gömlum vana en hinn stórefnilegi Benzema hjá Lyon virðist hafa tryggt sér sæti frammi, þótt Nicolas Anelka hafi verið að spila mjög vel með franska landsliðinu allengi – mun betur en hjá Chelsea. Jókerinn er svo Gomis hjá St. Etienne sem gæti hrellt markmenn þótt hann verði ekki í byrjunarliði.

Ítalir eru með mjög gott lið og góðan þjálfara í Roberto Donadoni. Fabio Cannavaro verður að vísu ekki með en það hefur aldrei verið skortur á góðum miðvörðum á Ítalíu og gera má ráð fyrir sterkri ítalskri vörn sem þar að auki skartar besta markmanni í heimi Buffon. Zambrotta er þó ekki svipur hjá sjón en hann var um tíma besti hægri bakvörður í heimi. Miðjan er mjög sterk með Andrea Pirlo hjá Milan eða jafnvel De Rossi hjá Roma í aðalhlutverki og Milanjaxlinn Gattuso ef hann sleppur í lið.

Frammi er hinn frábæri Luca Toni hjá Bayern en hann gæti orðið ein af stjörnum keppninnar.

Spánverjar hafa mjög góða einstaklinga en eins og allir vita virðast þeir aldrei komast alla leið. Lið með Fernando Torres, Cesc Fabregas, Iniesta, David Villa og Xavi innanborðs er ekki auðsigrað. Ég óttast hins vegar að það skorti járnkarl á miðjunni og þetta eru líka ótrúlega lágvaxnir leikmenn.

Portúgalir skarta besta knattspyrnumanni heims Christiano Ronaldo en eiga marga aðra frábæra leikmenn eins Richardo Carvalho í vörninni, Simao, Petit, Meireless, Deco, Nani og frábæra kantmanninn Quaresma.

Þjóðverjar eru Þjóðverjar og munu berjast eins og grenjandi ljón. Liðið er rútínerað og Michael Ballack mun berjast eins og ljón. Of margir af bestu leikmönnum Þýskalands hafa hins vegar ekki verið í stuði og Jens Lehmann ætti löngu að vera búinn að leggja hanskana á hilluna.

Mín spá er hins vegar sú að Portúgalir leiki við Þjóðverjar í undanúrslitum og komist í úrslitaleikinn. Frakkar munu vinna Ítali í undanúrslitunum en tapa fyrir Portúgölum í úrslitaleik – jafnvel þótt þeir hafi haft tak á þeim í lengri tíma. Nema helv. Þjóðverjarnir taki þetta af gamalli venju!

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikið innilega vona ég að þú hafir rangt fyrir þér. Ég gjörsamlega þoli ekki Portúgal....og þetta er ástæðan http://www.youtube.com/watch?v=7qE2NkBmBe0

Nafnlaus sagði...

Er Ribéry ekki Franck?

Aupa Espana!

Nafnlaus sagði...

Franck var það!! mikið rétt kv. ÁS

Nafnlaus sagði...

Flottur pistill hjá þér. Held að Frakkarnir eiga eftir að vera í tómu basli. Fara í mesta lagi í 8 liða úrslit og tapa þar ef þeir þá komast þangað. Þjálfari þeirra verður rekinn eftir þetta mót.

Ítalía klárar þetta nokkuð sannfærandi. Vona samt að Holland vinni þetta líkt og þeir gerðu 1988 :)

Kveðja,
Örvar