Upp á vegg í félagsheimili Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnaresi hékk síðast þegar ég kom þangað ljósmynd af þáverandi formanni byggingarnefndar flokksfélagsins að afhenda formanni flokksins húsbygginguna. Jóhannes í Bónus að afhenda Þorsteini Pálssyni lyklana að félagsheimilinu nýbyggðu.
Það er útaf fyrir sig ástæða til að fagna því að Baugsmálinu er lokið fyrir dómstólum. Það er hins vegar engin ástæða fyrir Íslendinga til að vera stoltir af málinu því nær allar helstur stoðir þjóðfélags okkar brugðust í málinu.
Pólitísk umræða hefur skekkst gríðarlega mikið vegna þess klofnings sem varð á í íslensku viðskiptalífi og þar með hægri vængi íslenskra stjórnmála með Baugsmálinu. Í raun og veru er mjög erfitt að sjá skýrar pólitískar línur í málinu.
Hér er á ferðinni mál sem á rætur að rekja til andúðar Davíðs Oddssonar og hans helstu fylgismanna við nýríka kaupsýslumenn sem mér finnst ekki ósennilegt að rekja megi upphaflega til átakanna um meirihlutann í Stöð 2. Vinstri menn ættu hins vegar að athuga að þetta var deila á meðal hægrimanna sem sannir jafnaðarmenn hefðu aldrei átt að skipta sér af; hvað þá að láta þjóðina skipa sér í stríðandi fylkingar um málið eins og raun bar vitni. Ég held til dæmis að það hafi skaðað Samfylkinguna að áberandi menn í hennar röðum töluðu mjög máli Baugs.
Ég held að atburðarásin sé að mörgu leyti tilviljanakennd og inn í málið spilist bæði tilfinningar og hagsmunir ýmissa aukapersóna sem heltu olíu á eldinn. Það er þó allavega klárt samhengi á milli uppgangs Stöðvar 2 og þess að Sjálfstæðisflokkurinn læsti tönnunum í Ríkissjónvarpið. Tak sem hann hefur ekki sleppt.
Þótt feðgarnir Jón Ásgeir og Jóhannes í Bónus hafi um síðir keypt Jón Ólafsson og Sigurjón Sighvatsson út úr Stöð 2, var í upphafi þessara deilna þó ekkert sérstaklega náið samband milli þeirra. Ég minnist samtala við Jón Ásgeir þar sem hann bar sig illa undan fréttaflutningi mínum um Baug og hver er búinn að gleyma því þegar Þórhallur Gunnarsson, síðar dagskrárstjóri og Jóhanna veittu föður hans fyrirsát í Íslandi í bítið? Jón að minnsta kosti kenndi nafna sínum um.
Það sem nafnarnir áttu sameiginlegt var að þeir voru eins og segir í gömlu bröndurum Matthildinga en í hópi þeirra var Davíð Oddsson, að þeir voru “þeir sem mættu ekki í játningatímana lögreglunnar á mánudögum og miðvikudögum”: með öðrum orðum virtu ekki goggunarröð flokksins í atvinnulífinu og undirgengust ekki þær skyldur gagnvart Flokknum sem sjálfsagðar þóttu.
Sumar mannaráðningar skiptu máli (brottrekstur Elínar Hirst vóg þungt). Viðskipti við vildarvini Flokksins voru ekki að hans skapi (ýmis auglýsingamál plús að styrkir til Hannesar Hólmsteins og myndir hans fóru yfir á RÚV).
Flokkurinn taldi sig hafa staðið halloka frá því vinstrimenn náðu tökum á útvarpinu upp úr miðjum áttunda áratugnum og þeir óttuðust að sjónvarpið færi sömu leiðl Með öðrum orðum taldi Flokkurinn sig ekki hafa knúið fram “frjálst” útvarp og sjónvarp eins og það hét þá á “flokkskínverskunni”, til þess að menn utan vinahóps hans, eignuðust dótið. Þegar Stöð 2 reyndist að vissu marki gagnrýninn og opinn fjölmiðill og síður en svo taglhnýtingur Flokksins, runnu tvær grímur á menn.
Ég held þó að óútreiknanleg skapgerð Davíðs Oddssonar og hvernig ýmsir “vinir” hans notuðu sér veilur hans hafi skipt mjög miklu máli. Davíð varð sterkari leiðtogi en nokkur íslenskur stjórnmálaforingi síðan Bjarni Benediktsson var og hét. Öfugt við Bjarna heitinn efldust skapbrestir Davíðs með aldrinum og ekki bætti úr skák að eins og títt er um sterka leiðtoga fóru margir undirmenn hans að haga sér í samræmi við það hvernig þeir töldu að leiðtoginn vildi hafa hlutina – með réttu eða röngu.
Þetta er ekki sagan öll en svona var ástandið þegar Í þessu ljósi verður að skoða Baugsmálið. Við munum trúlega aldrei vita hvað nákvæmlega Davíð vildi og hvað skósveinar hans tölu hann vilja eða jafnvel lugu að öðrum að hann vildi.
Baugsmálið stóð í sex ár og Jón Ásgeir Jóhannesson var sakfelldur fyrir einn lið af fjörutíu. Það segir að ég held sína sögu. Margt misjafnt kom fram um viðskiptahætti hans og hans fyrirtækis en satt að segja hefur hann nú aldrei þótt neinn kórdrengur í bisness. Enda hefði hann sennilega aldrei náð þvílíkum árangri. Bisness er nefnilega ekki grein fyrir kórdrengi, séntilmenn verða oftar en ekki undir í baráttunni við ótínda götustráka eins og dæmin sanna.
Áður en Baugsmálið byrjaði var Davíð Oddsson almennt talinn einn mesti pólitíski leiðtogi sem Ísland hafði eignast. Með Baugsmálinu og afleiðingum þess gróf hann sér sína pólitísku gröf. Fjölmiðlamálið er að sjálfsögðu litli bróðir Baugsmálsins og hver stóð uppi með pálmann í höndunum en mesti tækfiærissinni stjórnmálasögu Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson? Þetta er ekkert minna en grísk tragedía fyrir þann góða dreng Davíð.
Auk Davíðs hefur embætti ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara beðið slíkt afhroð að Haldur Jóhannesson og Jón Snorrasson hljóta að segja af sér embættum. Þetta er ekki fyrsta málið þar sem þeir sýna af sér siðleysi og fullkomna fákunnáttu í lögfræði.
Því miður hefur Styrmir Gunnarsson sennilega eyðilagt Morgunblaðið og sinn eigin orðstír. Fréttablaðið var ekki mikið skárra en Stöð 2 merkilega mikið betri í fréttaflutningi sínum þótt ég hafi beinlínis blygðast mín þegar starfsmennirnir lögðu banana á tröppur Alþingis.
Að lokum þetta: er ekki sjálfsagt mál að opinber rannsókn fari fram á þessu máli? Eigum við Íslendingar ekki, þótt ekki sé nema bara einu sinni, að læra af reynslunni?
föstudagur, 6. júní 2008
Lærum af Baugsmálinu
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
6 ummæli:
Svei mér þá, það lá við að ég læsi greinina þína í einu andartaki, svo vel jörðuð var hún.
Og svei mér þá þvílík saga. Er ekki bara að kalla þessa Íslendingasögu nútímans a la sturlungatíð?
Þó svo að bókaarfur okkar sé meiriháttar, þá var ég þess vör í sumar að "afturábak" hugsanaháttur hefur sitt sérkenni.
Ég tók tali eldri mann í einu umhverfi bæjarins þar sem eldri borgarar búa. Ástæðan fyrir því var að í hverfinu var ein kjörbúð og þótti mér eftir að hafa verið að skoða vöruútboðið af forvitni og aðeins að gægjast eftir verði að það væri of hátt miðað við aðrar verslanir eins og Bónus.
Þar sem að eldri borgarar á sinn hátt eru háðir að komast í verslun í göngufæri, fékk ég þá tilfinningu að þá var það líka til að "fæða" eiganda þessarar verslunar sem hafði þessa góðu fæðukróka: gamla fólkið.
Eftir að hafa rætt við hann um stund ynnti ég eftir hver væri eigandi verslunarinnar og fékk ég það til svars að hann vissi hverra manna hann væri og það væri ágætt fólk.
Það kemur sem sagt fyrir að ég verð orðlaus eins og í þessu tilviki.
Hér var það mikilvægara með kunnáttu um hverra manna einhver var en að líta til staðreyndar um háa álagningu á þeim mat sem ellilífeyrisþeginn var háður.
Það er mikið lán að hafa menn hér á Eyjunni góðu eins og þig og Guðmund Gunnarsson sem tala djarflega og af þekkingu um hluti sem skipta máli í þessu þjóðfélagi,
Bara ein athugasemd.
Hvað kemur embætti ríkissaksónara Jóni Snorrasyni við?
Jón hefur ekki starfað á embætti ríkissaksóknara, amk ekki í seinni tíð.
Í raun kemur embætti ríkissaksóknara málinu lítið sem ekkert við.
Bogi Nilsson lýsti sig vanhæfan og í kjölfarið var Sigurður Tómas Magnússon skipaður.
Núverandi ríkissaksóknari var fangelsismálastjóri lengst af á meðan þessu máli stóð.
Jón Ásgeir var ekki bara sakfelldur fyrir einn lið af 40. hæstiréttir sagði líka að hann hafi brotið lög fyrir einn veigamikinn þátt. vöruveltumálið sem Arngrímur Ísberg, einn manna, skildi ekki.
Það mætti misskilja að ég hefði aðeins eina athugasemd við þenna pistil í síðasta kommenti.
Þær eru raunar mýmargar en ég nenni ekki að eltast við þær.
Eitt er þó óumdeilanlegt og það er það sem athugasemdin að ofan snýr að.
Mín skoðun er að í þessu máli var farið á stað með það að finna sekt, ekkert fyrirtæki stenst það, jafnvel þó ásetningur þeirra sé góður einn.
Það þarf að halda því til haga að réttarkerfi okkar byggist á jafnræði og meðalhófi - dettur einhverjum í hug að það hafi átt við hér.
"Mér finnst þetta óviðeigandi spurning"(ar)og afskipti af innanflokksmálum Sjálfstæðisflokksins. Ekki síður en þegar fréttamaður spurði Geir Haarde um afskipti hans af leiðtogaskiptum hjá borgarflokknum í kvöld.
Skrifa ummæli