miðvikudagur, 16. apríl 2008

Frábært Ingibjörg Sólrún!

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á heiður skilinn fyrir að láta rannsaka atvikið sem varð á Kjúklingastræti þar sem tvær manneskjur létu lífið í árás á íslenska friðargæsluliða.

Fram að þessu hafa íslensk stjórnvöld stungið hausnum í sandinn. Viðbrögð íslenska höfuðsmannsins urðu fleyg: “Shit happens”.

Þegar ég vann á Fréttablaðinu ráð ég afganskan blaðamann til starfa fyrir okkur og lét hann taka viðtöl við fjölskyldu afgönsku stúlkunnar sem lést. Kristinn Hrafnsson gerði síðan stuttan þátt um litlu stúlkuna fyrir Kompás á Stöð 2.

Það leikur enginn vafi á því að ákvörðunin um rannsóknina er gerð í kjölfar áhrifamikils og góðs innslags Kristins en ég hef áður sagt hér á þessum vettvangi að umfjöllun hans hafi verið á heimsmælikvarða.

Utanríkisráðuneytið hefur gert sitt til að þagga umfjöllun um þetta niður og ég hef fyrir satt að reynt hafi verið að leggja stein í götu Kristins í Kabúl. Sjálfur mátti ég þola köpuryrði á Rauðarárstígnum fyrir umfjöllun mína og félaga minna á Fréttablaðinu á sínum tíma um atvikið.

Það er því enn meira fagnaðarefni að utanríkisráðherra hafi nú snúið við blaðinu og fengið tvo mæta fyrrverandi hæstaréttardómara til að fara í saumana á málinu. Svona á að gera það Sóla!

PS Ég breytti pistlinum eftir að mér barst réttmæt og kurteislega orðuð athugasemd þar sem bent var á að eitthvað væri málum blandið þar sem ég hafði setningu eftir Geir H. Haarde- hann hefði augljóslega ekki verið utanríkisráðherra á þeim tíma sem um ræðir. Hafði sjálfur étið þetta upp eftir öðrum bloggara en dreg þetta tilbaka og biðst hlutaðeigandi afsökunar.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Leiðinlegt að við skulum ekki hafa merkilegri forsætisráðherra en Geir Haarde - þótt hann taki Davíð Oddssyni vissulega fram.

Viðhorf Geirs til fangaflugsins var svipað því sem þú lýsir í pistli þínum. Sem utanríkisráðherra sagði hann einfaldlega að það hefði ekkert fangaflug verið sannað, og vitnaði í Kondí orðum sínum til áréttingar. Um síðir var svo auðvitað sannað það sem allir vissu. - Kaldrani.

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Það er nú langur vegur í siðferðilegu tilliti frá framsóknarhyskinu sem gegndi þessu starfi áður til ISG

Nafnlaus sagði...

Sæll Árni,
Rétt skal vera rétt. Árið 2004 þegar umrætt atvik átti sér stað í Kjúklingastræti var Geir H. Haarde fjármálaráðherra.
Kveðja,
Ragnheiður Elín Árnadóttir
alþingismaður og fv. aðstoðarmaður Geirs H. Haarde