föstudagur, 18. apríl 2008

Egill Rex Islandicus

Sannarlega góður dagur í gær. Fyrst jókst stuðningurinn úr tveimur í þrjá þegar fyrsti ódrukkni og ógreindarskerti stuðningsmaðurinn gaf sig fram. Síðan bættist hinn huxandi Eyju-Pétur í hópinn og virtist hafa fulla trúa á að ég gæti vaknað fyrir hádegi á Nýjársdag. Hmmm that will be the day!
Mér þykir leiðinlegt að bregðast vonum þessarar miklu fjöldahreyfingar en hér koma tíu ástæður fyrir því að nú eins og svo oft áður hef ég ekki áhuga á forsetaframboði – jafnvel þótt vellaunuð róleg innivinna sé í boði:

1. Hef ofnæmi fyrir majónesi.
2. Hef ofnæmi fyrir þeyttum rjóma.
3. Hef ofnæmi fyrir kínverskum harðstjórum.
4. Hef ofnæmi fyrir mærðarfullum sveitaprestum.
5. Hef ofnæmi fyrir þjóðrembu.
6. Vakna aldrei fyrir hádegi á nýjársdag.
7-9 Vondur vínkjallari á Bessastöðum eftir tólf ára vanrækslu bindindismanns.
10. Sjá 7-9.


Sjálfur hef ég löngum verið andsnúinn íslenska lýðveldinu. Hefði verið fínt að hafa danskan kóng eða drottningu. Við hefðum sloppið við þann hrylling sem íslenska forsetaembættið hefur ætíð verið að ekki sé talað um forsetakosningar. Síðustu tvennar kosningar hafa verið ömurleg lágkúra. Var býsna ánægður þegar Sigga systir mín var nefnd sem forsetaefni (hún hafði engan áhuga) lét mig dreyma um að ég gæti orðið baldni forsetabróðirinn, svona eins og Billy Carter var á sínum tíma.

Fyrst danska kónginum var kastað fyrir róða illu heilli, hef ég viljað stefna að íslensku konungdæmi. Sveinn Björnsson sendiherra væri góður kostur. Hann er aristókratískasti maður sem ég hef hitt, ljúfmenni og húmoristi og sjálfur afkomandi nafna síns fyrsta forseta lýðveldisins. Og svo tæki sonur hans við með tíð og tíma: sjálfur söngvari og drifsprauta Singapore Sling. Gæti ekki verið betra.

Þó rennum við konungssinnar svo sannarlega hýru auga til Egils Helgasonar. Ef einhver er alþýðlegur og aristókrati að upplagi, þá er það hann. Svo kann hann dönsku. Og frönsku.

Og manni er ekki í kot vísað með Kára sem krónprins – að ekki sé minnst á Sigurlaugu drottningu. Viss um að Egill I, myndi fyrirgefa mér hvað ég flutti leiðinlega ræðu í þrítugsafmælinu hans og gera mig að barón eða greifa.

Ólafur Ragnar hvað!

Gjört í Brussuborg,

Árni Snævarr, verðandi greifi af Grímstaðaholti.

PS annars væri Ásgerður dóttir mín prýðileg krónprinsessa og/eða greifynja - að ekki sé minnst á son minn Þorgrím. Konunglega skemmtileg börn.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Árni,

Þetta er valdalaust embætti að mestu, snýst aðallega um PR. Hvers vegna ekki að bjóða það út á 4 ára fresti? Hæfnisskilyrði eru t.d. að umsækjendur kunni að nota hníf og gaffal, tali ensku og baði sig reglulega. Þeir mega þess vegna borga með sér ef þeim finnst embættið flott og þá snýst það fra að vera kostnaður í að vera tekjulind. Jafnvel mætti bjóða það út alþjóðlega og íslenskur passi gæti fylgt með. Fjöldi hæfra umsækjenda með djúpa vasa myndi þá aukast verulega. Dorrit hefði til dæmis getað þá boðið beint í embættið án þess að þurfa að giftast Óla.

Kv

Sveinn

PS Annars líka ágæt hugmynd að fá Margréti Þjóðhildi aftur.

Nafnlaus sagði...

1-10 eru ástæður til framboðs. Einmitt svona forseta viljum við.

Hertu upp hugann. Kýld'áða maður!

Rómverji (ekki fullur, ekki ennþá)

Nafnlaus sagði...

Við deilum áhuga á íslensku konungdæmi. Mín hugmynd hefur reyndar verið sú að jafnvel halda konungsættakosningar, þar sem ættir væru í framboði með eitt höfuð sem konungsefni. Schram-ararnir gæti farið fram með Ellert, Thors-ararnir og allir Blöndalarnir gætu komið með sína fulltrúa. Ósk mín stendur hins vegar til þess að hin nýja konungsætt Íslands verði Eldjárnarnir. Með þig að fyrirmynd vill ég númera kosti þess að Eldjárnar verði konungar Íslands.

1. Afkomendur forseta, mjög vinsæls forseta og öflugs fræðimanns um íslenska siði og menningu.

2. Frábær konungskandídat. Þórarinn er einmitt týpan sem ég vil hafa á Bessastöðum.

3. Krónprinsinn heitir þá Úlfur. Það myndi útleggjast á ensku sem Wolf Fire-iron. Er eitthvaðs valara en það. Svo er hann líka í hljómsveit eins og þinn kandídat.

4. Þetta er fólk með góð listagen sem er frábært aukastarf með konungstign. Þá missum við kannski ekki launakostnað fram úr öllu valdi. Við gerum ráð fyrir því að fólkið hafi í sig og á að hluta til með tekjum af list sinni.

Mér finnst þetta borðleggjandi.

Nafnlaus sagði...

Þar fórstu alveg með það. Hvar finnur þjóðin annan sómamann sem uppfyllir hin bráðnauðsynlegu skilyrði nr. 1 til 6 á listanum þínum, að báðum meðtöldum?
Það er vissulega til í dæminu að flytja inn einhvern úrkynjaðan aumingja og gera að kóngi hérna yfir okkur. Ekki svo að skilja að við eigum ekki innlenda kandídata í embættið, en það gæti valdið misklíð í Flokknum ef farið væri að gera upp á milli þeirra.

Nafnlaus sagði...

Þetta er yfirgripsmikil vankunnátta hjá þér. Kemur líklega til, af þeirri óhrekjanlegu staðreynd, að þú ert af austfirkum uppruna, sem ekki getur talist öruggt merki um hreinræktað pedegree.

Hinnsvegar er svo, að á Vestfjörðum var til ætt nokkur, sem er klárlega hreinræktuð og því sú aleina, sem til greina kemur, ekki mikið af aurapúkum, sem mjög er títt með Eyfirðinga og allskonar afbrrigðum af þeim. Klæmnir hagyrðingar ekkert meir.

Níðsklednir sem betur gátu, svo sem Hjálmar frá Bólu.

Hin ættin er af uppruna frá Snorro í Borgarfirði.

Kjartan Gunnarsson hefði mjög vel komið til greina en föðurætt hans er að hluta að austan, svo Jón Örn Bjarnason, verður þá að axla þetta.

Sumsé, hreinræktunar vinna og Ræktun, skilar sér auðsjáanleg ef litið er til Djúps Vestur, þaðan eru hávaðinn af framsæknustu sonum og dætrum landsins.

Svo er að mínu mati algerlega ófært að viðkomandi sé mæltur á Frönsku, það gefur undir fótinn með allskonar miður karlmannlega eiginleika.

Sumsé.

Vestfirðing í djobbið

Miðbæjaríhaldið

Nafnlaus sagði...

Veit ekki betur að hann sé þegar innbyrtur, titillinn, eftir frumraunina frægu á Gamla Bíói á hinum þýsku ættjarðarsöngvum, Hr. hetjutenór; Barón Von Schnaevarr!
;-)