Rauði þráðurinn í íslenskum stjórnmálum þessa dagana er klofningur á milli rauð-brúns bandalags sem hefur náin samskipti við Kína og andúð á ESB að leiðarljósi og hins vegar hófsamra miðjumanna sem vilja náin samskipti við lýðræðisríki, með inngöngu í ESB og öflugt samstarf innan NATO að leiðarljósi.
Fyrri hópurinn samanstendur af öflum yst á vinstri- og hægri væng íslenskra stjórnmála, fyrir þeim fara vinstri-grænir, íhaldsarmur Sjálfstæðisflokksins, og Ólafur Ragnar Grímsson. og sumpart Morgunblaðið.
Málflutningur þessa hóps gengur út á það að á viðskipti á milli ríkja á tuttugustu og fyrstu öld gangi út á viðskiptasamninga milli ríkja rétt eins og á tímum Sovétríkjanna. Þá eru forsendurnar þær að þrjú hundruð þúsund Íslendingar séu líklegir til að fá betri samning en fimm hundruð milljónir Evrópusambandsbúa. Sumir eins og forseti lýðveldisins virðast telja að þegja eigi þunnu hljóði um mannréttindabrot Kínverja í von um aukin viðskipti og stuðning við framboð í öryggisráð SÞ.
Í hinum hópnum eru stærstur hluti íslensku þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnunum, rúmur meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingarinnar eða lýðræðisflokkanna eins og þeir hétu einu sinni. Svo virðist sem flestir hófsamir menn á Íslandi hafi nú áttað sig á því að þótt EES samningurinn hafi markað tímamót, verður vart unað við það að Ísland taki upp hráa löggjöf ESB – nú síðast alla matvælalöggjöfina- án þess að hafa nokkuð um innihaldið að segja. Það er tímanna tákn að ESB andstæðingar nota æ sjaldnar þau rök að fullveldisafsal felist í aðild – flest bendir til að fullveldið aukist við aðild. Brottför Bandaríkjahers hefur sýnt að vinátta við Bandaríkin er ekki valkostur við Evrópusambandið – allra síst dettur Morgunblaðinu það í hug.
Útflutningur Íslands til Kína nema um tveimur og hálfum milljarði á ári. Útflutningur til Evrópu er hundrað sinnum meiri. Engu að síður telur hið vanheilaga bandalag Ólafs Ragnars og Illuga Gunnarssonar að þeir hagsmunir séu ríkari en aðrir hagsmunir, til dæmis hvað varðar vaxtastig, verðlag og lýðræðishalla. Þeir virðast á köflum telja að við eigum að leggja ríkari áherslu á samskipti við kínverska kommúnista en að rækta vináttu við bræðraþjóðir í Evrópu.
Þorsteinn Pálsson, ritstjóri og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins gerir ræðu forseta Íslands á smáríkjaráðstefnu í Andorra að umræðuefni í merkum leiðara í Fréttablaðinu á dögunum. Þar hélt forsetinn því fram að staða Íslands sé vel tryggð með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu og þeim möguleika að gera tvíhliða fríverslunarsamning við Kína.
Þorsteinn skrifar: “Þó að kínversk stjórnvöld vilji nú gera fríverslunarsamning við Ísland er ekkert sem bendir til þess að við munum til lengri tíma ná betri viðskiptastöðu á þeim markaði en Evrópusambandið. Líklegra er að pólitísk langtímasjónarmið fremur en viðskiptaleg búi að baki vilja stjórnvalda í Kína til þess að semja við Ísland á undan öðrum Evrópulöndum. Síðustu atburðir gefa fremur ástæðu til að skoða þau pólitísku sjónarmið en að draga þá ályktun að með slíkum samningi muni Ísland tryggja framtíðarstöðu sína í alþjóðasamfélaginu.”
Þorsteinn gagnrýnir forseta lýðveldisins harðlega en kurteislega í leiðara sínum og segir: “ Ef utanríkisstefnan á að byggjast á sveigjanleika sem gerir okkur kleift að gera tvíhliða fríverslunarsamning við Kína en útilokar upptöku evru er verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Það væri léleg hagsmunagæsla sem bæri vott um utanríkispólitík í vegvillum."
Að lokum bendir Þorsteinn á eftirfarandi: “Eftir stjórnarskrá lýðveldisins er forseti Íslands æðsti handhafi framkvæmdavalds í utanríkismálum þó að öll raunveruleg völd og ábyrgð í þeim efnum hvíli á utanríkisráðherra. Í því ljósi verður að skoða ræðu forsetans á smáríkjaráðstefnu í Andorra í síðustu viku. Meðan utanríkisráðherra tekur ekki annað fram verður að líta á hana sem stefnu ríkisstjórnarinnar sem ráðherrann hefur ábyrgst.”
Engum dylst að í fjölskyldu Ingibjargar Sólrúnar er mikil og einlæg vinátta í garð Kínverja og mikill áhugi á kínverskri menningu. Ég ber fulla virðingu fyrir því og deili raunar þessum áhuga á Kína.
Það er hins vegar annað mál að Ingibjörg Sólrún hlýtur fyrr eða síðar að svara þeim stjórnskipunarlegu og hápólitísku spurningum sem brenna ekki síst á íslenskum jafnaðarmönnum og Þorsteinn Pálsson greinir skilmerkilega í leiðara sínum.
Er hún í Evrópuliðinu eða Kínaliðinu? Ef hún er í Evrópuliðinu hlýtur hún fyrr eða síðar að þagga niður í fyrrverandi formanni Alþýðubandalagsins og gera öllum ljóst að hún ræður utanríkisstefnu Íslands, ekki hann.
þriðjudagur, 15. apríl 2008
Þaggar Ingibjörg niður í Ólafi Ragnari?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Ert þú að kalla okkur sem erum ekki á afsalsstefnu skrifræðisKrata á boð við ykkur ESB sinna í mínum ástsæla flokki, -Brúnstakka??
Sumum gæti mislíkað það en trauðla öllum.
Allt er betra en að ganga útlend valdi á hönd. ÞEtta vita ALLIR sannir S´lafstæðismenn en innan Flokksins hefur því miður borið á undirlægjuhætti fyrir Bretum og jafnvel Frökkum. Skelfilegur fjandi en skiljanlegur, að sem ekki rennur blóð höfðingja í æðum allra, sumir eru þrælslundaðir og undirlagðir furðulegri art að vilja vera undir erlendt boðvald settir.
Ég og fl. Sjálfstæðismenn (í Réttri merkingu þess farga orðs) erum á því, að segja okkur úr EES og hefja tvíhliða samninga við Evrópusambandið, að hætti Sviss.
Aurmálin skipta ekki höfuðmáli, heldur reisn hins íslenska þjóðernis og vissuna um, að við séum herrar okkar örlaga en ekki vesælir leiksoppar dutlunga mis spilltra Evrópskra pólitíkkusa og þeirra EMBÆTTISMANNA sem ekki eru kosnir til eins eða neins en skipaðir í valdastóla.
Miðbæjaríhaldið
Stoltur Sjálfstæðismaður og um fram allt Íslendingur
Þetta er sérkennileg greining, sem þolir illa nána athugun. Af henni mætti helst skilja að Öryggisráðsframboðið sé runnið undan rifjum vina Rauða-Kína frá vinstri og hægri. Eins og flestum ætti að vera kunnugt er frumkvæðið að þessu ævintýri komið frá hinum Evrópusinnaða fyrrum formanni Framsóknarflokksins - og sem Samfylkingin hefur tekið upp á arma sína.
Gagnrýnisraddir á framboðið hafa nær einvörðungu komið frá fólki í Sjálfstæðisflokki og VG.
Hugmyndin um að forsetinn sé að reka einhverja prívat-utanríkisstefnu til að greiða fyrir öryggisráðsframboði og vinna þannig gegn Evróputengslum - í óþökk formanns Samfylkingarinnar er því fráleit. Skemmst er að minnast þess þegar utanríkisráðherra byrjaði starfsferil sinn á ferð um Afríku, til að vinna framboði Íslands fylgis. Þar lýsti hún því yfir að það væri sérstakur styrkur Íslands að standa utan við ESB og gæfi kost á sjálfstæðri utanríkisstefnu. Með slíka vini þurfa íslenskir ESB-sinnar ekki á óvinum að halda.
Hvað er það konkret sem við fengum út úr EES samningnum sem ekki hefði verið hægt að fá með samningum um tollamál?
BJ
Skrifa ummæli