sunnudagur, 15. febrúar 2009

Tími Jóns Baldvins er liðinn

Það er dapurlegt að fylgjast með skylmingum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Jóns Baldvins Hannibalssonar. Krafa Jóns Baldvins um að Ingibjörg víkji er um margt eðlileg að því leyti að formaður Samfylkingarinnar var í forystusveit ríkisstjórnar sem var steinsofandi á verðinum þegar Ísland fór á hausinn.

Rétt er hjá Birni Bjarnasyni að tabú hefur verið rofið – frammistaða Ingibjargar Sólrúnar hefur ekki verið til umræðu innan Samfylkingarinnar vegna veikinda hennar.

Þáttaka hennar í fundum með Sigurði Einarssyni í Kaupmannahöfn nægir ein út af fyrir sig til að hún skipi sér framarlega í flokk með klappstýrum útrásarinnar. Vissulega er ekki ægt að jafna því saman við forsetann sem taldi Íslendinga tuttugustu og fyrsta aldar jafnoka Feneyinga og Flórensbúa endurreisnarinnar og gaf í skyn að stökkbreyting hefði orðið á mannkyninu þegar íslenski útrásarvíkingurinn leit dagsins ljós.

Margt má finna að málflutningi Björgvins G. Sigurðssonar sem einn manna á Íslandi utan Bessastaða telur helstu fjölmiðla heims hafa rangt eftir forsetanum. Hins vegar er honum mikil vorkunn sem bankamálaráðherra þegar í ljós kom að formaðurinn hélt honum skipulega utan við ákvarðanatöku í bankamálum til að þóknast duttlungum Davíðs Oddssonar.

Viðbrögð hennar við upphlaupi Jóns Baldvins fólu í sér dómgreindarleysi. Það eru engin rök að Jón Baldvin hafi ekki viljað eiga líf vinstristjórnar undir duttlungum Hjörleifs Guttormssonar og gengið í eina sæng með Sjálfstæðisflokknum fyrir átján árum. Þarf að blanda Davíð inn í þetta mál? Og er það trúverðugt að kona sem notaði fyrsta tækifæri eftir að hún varð formaður til að setjast í stjórn með íhaldinu, gagnrýni Jón Baldvin fyrir það sama?

Formaðurinn virðist hafa Davíð Oddsson næstum því jafn mikið á heilanum og Hannes Hólmstein hefur þá Þorstein heitinn og Þorvald Gylfasyni. Hannes réðist ítrekað á bræðurna í ævisögu Jóns Þorlákssonar sem var látinn áður en bræðurnir fæddust.

Sannleikurinn er sá að Ingibjörg Sólrún hefur valdið mörgum aðdáendum sínum sárum vonbrigðum og fylli ég þann fjölmenna flokk. Hún skyldi ekkert eftir í utanríkisráðuneytinu að því er séð verður nema bætt samskipti við Sýrland og bestu vinkonu sína Kristínu Á. Árnadóttur, sendiherra og yfirráðuneytisstjóra.

Og víkur þá sögunni að Jóni Baldvin á ný. Ég var um langt árabil mikill aðdáandi Jóns Baldvins, jafnt pólitískt sem persónulega. Og er enn. Ég tel hann enn að mörgu leyti til merkustu stjórnmálamanna síðari ára. Því er hins vegar ekki að leyna að það sem gerir Jón svo heillandi sem persónuleika er að hann er breyskt ólíkindatól og einfari að hætti kattarins.

Ég taldi hann brenna allar brýr að baki sér með því að gerast sendiherra í Washington. Hann átti nóg eftir, en kaus hið ljúfa líf sendiherrastarfsins fram yfir þrældóminn í stjórnarandstöðu á Alþingi.

Því miður, þvi þarna kastaði Jón að mínu mati tengingunum, og það verður tæpast aftur snúið.
Allra síst vegna þess að tímasetningin á margboðaðri endurkomu hans í pólitík er vægast sagt mjög undarleg. Hvers vegna nú?

Og finnst engum holur hljómur í stuðningi Jóns við Jóhönnu Sigurðardóttur í ljósi sögunnar? Styður Jón virkilega konu sem hann sagði þröngsýna fyrir örfáum vikum?

Það er að vísu óréttlátt að nota kosningaúrslitin 1995 gegn Jóni Baldvin eins og gert hefur verið að undanförnu því þá bauð Þjóðvaki Jóhönnu fram. En klofningur Alþýðuflokksins var hins vegar blettur á ferli Jóns Baldvins. Gallinn við formennskutíð Jóns var hve einráður og hrokafullur hann var.

Það var ógæfa flokksins að honum skyldi ekki auðnast að vinna bæði með Jóni Sigurðssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur. Og sannast sagna er ofrdramb það orð sem fyrst kemur upp í hugann þegar formannstíð Jóns Baldvins er rifjuð upp. Það var heldur ekki stórmannlegt að fara í fýlu eftir tap í kosningum og stinga af í feitt embætti frá flokki í sárum.

Allt þetta hefur maður fyrirgefið Jóni Baldvin, sökum þess hve gáfaður og skemmtilegur hann er, en hvort það þýði að hann geti afmáð fortíðina, þegar honum sýnist , er allt annar handleggur.

Kolfinna dóttir Jóns Baldvins fullyrti í athugasemd við skrif mín hér á Eyjunni á dögunum að karl faðir hennar hefði aldrei sagt orðin “allt fyrir ekkert” um EES samninginn. Þar að auki hefði Jón Baldvin verið orðinn fylgjandi ESB aðild áður en blekkið var þornað á pappírnum

Segjum sem svo að Kolfinna hafi rétt fyrir sér. Og ég held að hún hafi það sumpart. Andstæðingarnir hljóta að spyrja: hvers vegna leyndi Jón Baldvin þing og þjóð þeirri skoðun sinni? Röksemdir Jóns og Sjálfstæðismanna um ágæti EES samningsins hvort sem hann notaði akkúrat þessi orð eða ekki, eru í rauninn myllusteinn um háls ESB sinna, enn þann dag í dag. Sannleikurinn er nefnilega sá að EES samningurinn var algjörlega galið framsal á fullveldi Íslands, hvað sem líður makalausi lögfræðiáliti sem Jón Baldvin knúði fram. En sleppum því í bili.

Jón Baldvin kom nýr og betri maður heim frá Bandaríkjunum. Það var hrein unun að hlýða á skarpa og málefnalega gagnrýni hans á bandarískt samfélag og nýja trú hans á norrænu velferðarkerfi.

Batnandi er manni best að lifa en það hefði verið enn betra ef Jón Baldvin hefði sleppt því að siga Sighvati Björgvinssyni eins og óðum hundi á heilbrigðis-og tryggingakerfið í Davíðsstjórninnni. Og það er eiginlega bara fyndið að hugsa til þess að nú skipi Olof Palme og sænsku kratarnir toppinn á vinsældalista Jóns Baldvins. Alla vega þessi misserin. Man einhver uppákomuna á Norðurlandráðsþingi í Þjóðleikhúsinu?

Og Jón Baldvin er því miður ekki laus við að spillingarstimpil. Sleppum afmælinu fræga en hvað kom hann mörgum vinum sínum á ríkisjötuna? Karl Steinar i Tryggingastofnun; Sighvat sem bæði er andsnúinn þróun og samvinnu í Þróunarsamvinnustofnun, Jón Sigurðsson í Seðlabankann, Eið Guðnason í sendiherrastöðu, Kobbi Magg hingað og þangað. -ég nenni ekki að reyna að muna þetta allt. .

Davíð tók upp merki Jóns Baldvins og skipaði enn fleiri vini sína sendiherra. Og hann hafði frítt spil því hann var búinn að leyfa helstu pólitísku andstæðingum sínum að snæða af allsnægtaborðinu. Þeir skiptu með sér kökunni: bæði Jón Baldvin, formaður Alþýðuflokksins og varaformaðurinn Guðmundur Árni fengu róleg vel launuð innidjobb og meira að segja Svavar Gestsson líka.

Voru þetta trúverðugir siðbótarmenn?

Það er alveg rétt hjá Jóni Baldvin að öldungar á borð við Adenauer og De Gaulle lyftu grettistaki á gamals aldri. En það voru líka menn á borð við Tsjernenkó og Andropov sem komust háladraðitir l valda og töfðu fyrir framförum.

Jón Baldvin Hannibalsson er með þvi allra besta sem gamla Ísland státaði af. En hann er samt gamla Ísland.

Hans tími er liðinn.

Það er kominn tími til kynslóðaskipta í Samfylkingunni eins og í íslensku samfélagi.

18 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jú einmitt.
Þrátt fyrir marga og góða kosti JHB sem stjórnmálamanns og mikla og fjölþætta reynslu hans er dálítið erfitt að sjá hann fyrir sér í hlutverki siðbótamanns og „hreinsitæknis“ í Samfylkingunni.

Nafnlaus sagði...

Jón Baldvin talar um að ESB hefði bjargað Íslandi. En hvað kom fyrir Írland með ESB og evru á bakvið sig?

Þetta frumhlaup hjá JB er bara terorismi og sýndarmenska.

Nafnlaus sagði...

Ég held satt að segja að þú Árni og fleiri ofmetið allrækilega áhuga Jóns Baldvins á endurkomu í stjórnmál.
Það er rétt hjá þér að hann er leifturklár og ég er þeirrar skoðunar að nú hafi hann beitt skerpu sinni til að draga fram hvernig komið er fyrir Samfylkingunni: Hún er að breytast í Sjálfstæðisflokk Davíðs Oddssonar þar sem ekki nokkur maður fer fram gegn Leiðtoganum og lætur sig ekki einu sinni dreyma um það.
Það er svo dæmigert fyrir íslenska fréttamenn að gera hótun Jóns að aðalpunktinum þegar fyrirsjáanleg viðbrögð Ingibjargar hljóta að vera það sem málið snýst um.

kv.
Pétur Maack

Nafnlaus sagði...

Gaman að sjá hvað þú ert mikið að koma úr felum sem Samfylkingarmaður þessa dagana, hvenær kemur framboðsyfirlýsingin?

Nafnlaus sagði...

Hæ þarna Nafnlaus:

Írar tala nú um að án ESB hefði landið lent í sömu aðstæðum og Ísland.

Nafnlaus sagði...

Sæll Árni

Tími Ingibjargar er liðinn. Svo einfalt er það. Í veikindum hennar kom veikleiki hennar berlega í ljós, hún treystir engum. Alveg eins og JBH. Þetta er alveg rétt sem JBH er að segja hún verður að víkja. Það getur vel verið að hún verði í framboði í apríl, en sem formaður og leiðtogi Samfylkingarinnar er hún búin. Ég er enginn aðdáandi Samfylkingarinnar,en þessi flokkur þarf aðila leiðtoga sem getur dregið vagninn, hvort Jóhanna er það er annað mál. Spurningin er: Er einhver annar í boði?

kv.

Helgi

Nafnlaus sagði...

Árni - það er einn grundvallarfeill í röksemdafærslu þinni.
Þegar Samfylkingin var í mótun, kom upp sú krafa frá grasrótinni að gamlir forystumenn vikju - gamlar væringar, svik og prettir þar sem Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur elduðu grátt silfur skildi skilið eftir og menn byrja með nýjan krataflokk með nýju fólki.
Jón Baldvin og Svavar Gestsson stigu til hlðar.
JBH hefur margoft lýst því yfir opinberlega að hann ætti margt ógert í pólitík.
Tímasetningin á endurkomunni.... Tvíeykið Ingibjörg og Össur héldu honum mjög ákveðið utan stjórnmála

Nafnlaus sagði...

Skörp greining, Árni.

Hirðin hans Jóns Baldvins hefði gert honum greiða með því að víkja honum frá þessari vitleysu.

Annars er Jón margra leikja maður í pólitík. Honum hugnast ekki illa að veikja ISG og hennar fólk, láta Jóhönnu sitja sem formaður, vinur hans Árni Páll verður varaformaður og síðan ótvíræður arftaki hennar þegar hún hættir þegar á næsta kjörtímabili!

Nafnlaus sagði...

Málið er að það vantar pólitískan vígamann sem er ekki að hugsa að sinni pólutísku framtíð, heldur hefur getu og vilja til að skera kerfið upp og niður. Jón er varla að hugsa um nema eitt kjörtímabil og gæti því verið góður kostur

Nafnlaus sagði...

Heyr, heyr.

Nafnlaus sagði...

Bæði Ingbjorg og Geir Haarde voru gjorsamlega blind i stjornartið sinni og karakterleysi Geirs kemur svo skyrt fram i viðtali við hann i BBC. Auðvitað verður Ingibjorg að vikja, hun verður að taka abyrgð a þeim hormungum sem við erum lent i. Eg held að Jon se nu betri kostur en margur annar i komandi tið, en þeir erfiðleikar sem við stondum frami eru griðarlegir.Endurreisn atvinnulifsins,heil kynsloð af ungu folki er i raun og veru gjaldþrota (framtiðin landsins), siðan uppgjor við viðskiptaglæpamenn , blau mafiuna,tannlaust og spillt eftirlift,siðblindar klappstyrur. Þetta er ekki eins manns verk en Jon getur miðlað af reynslu og innsyni sinu.

Nafnlaus sagði...

Það eru mjög erfiðir tímar framundan fyrir íslenskt samfélag og ekki af miklu að taka í sjóðum ríkisins. Gera má ráð fyrir a.m.k. 10 erfiðum árum þar sem eftirköst bankahrunsins munu birtast í pólitískum óstöðugleika í kjölfar þess samfélgshruns sem glatað traust og horfinn trúverðuleiki leiðir ef sér. Þeir stjórnmálamenn sem gefa kost á sér í þau vandasömu og erfiðu verkefni sem nú bíða stjórnmálanna og veljast til þeirra verka þurfa að gera sér grein fyrir því að þeir eru ekki að koma inn til að vinna sér til vinsælda. Nei, það mun gusta vel um þetta fólk. Hér þarf fólk með reynslu, heiðarleika, kjark, úthald og fórnarlund, en umfram allt vilja til að sjá fyrir endann á einu erfiðasta tímabili í sögu íslenska lýðveldisins án þess að slá sjálfum sér pólitískar kylfur í leiðinni. Nýtt fólk er ekki endilega ungt/yngra fólk, sem lítið sem ekkert hefur komið nálægt stjórnmálum. Nei, nýtt fólk getur verið fólk með gamla reynslu og nýja reynslu ofan á hana sem getur reynst sérlega vel við þær aðstæður sem nú eru upp á Íslandi, fólk sem ekki hefur smitast eða eitrast ef árferði útrásar- og græðgisvímu síðustu ára. Við þurfum stjórnmálamenn í forystu sem geta talað og samið jafnt við okkur hér heima sem leiðtoga erlendra ríkja, sem geta horfst í augu við þig og mig og fengið okkur til að treysta því að hann eða hún láta sig varða líf okkar og framtíð og að það muni ráða gjörðum þeirra. Við þurfum stjórnmálamenn sem aðhyllast stefnu sem tryggir að sú stjarnfræðilega eignatilfærsla sem hér hefur átt sér stað verði leiðrétt svo að réttlætiskennd þjóðarinnar verði ekki svo stórlega misboðið að varanlegur skaði hljótist af. Við þurfum stjórnmálamenn sem leggja allt í sölurnar til að jöfnuði verði komið á, jöfnuði sem best getur tryggt félagslega samstöðu þjóðarinnar til lengri tíma. En félagsleg samstaða er forsenda þess að afkomendur okkar fái í arfleið þá samfélagsgerð sem einkennir norræn verferðarríki með jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, menntun og framtíðartækifærum fyrir alla.
Til þess þarf stjórnmálamenn með framtíðarsýn, sem geta tekið á bráðavanda heimilanna og fyrirtækjanna í landinu án þess að missa sjónar af þeim verkefnum sem eftir standa þegar mestu eldarnir hafa verið slökktir, þ.e. að hér muni áfram búa þjóð sem vill og getur búið saman í sátt og samlyndi og vill byggja upp vinsamlegt samfélag fyrir alla.
Jóhanna er heiðarlegur eldhugi sem getur flest af þessu. Á ögurstund má sjá bregða fyrir hjá henni festu en einlægni og auðmýkt sem eru fágætir kostir stjórnmálamanna sem búa við ágengni fjölmiðla og leiðtogadýrkun flokkakerfisins. Jón Baldvin hefur snerpu, greind, kjark og innsýn stjórnmálamanns sem á reynslu sína að sækja bæði í þjóðmálin innanlands sem og til reynslu af alþjóðastjórnmálum. Þau gætu orðið frábært "emergency team" á þessum óvenjulegu tímum í sögu þjóðarinnar, "COBRA" Íslands í 2-3 ár. Ef þau aðeins gætu einsett sér að því að setja gamlar deilur að baki og að vinna að brýnustu hagsmunum þjóðarinnar í þessi 2-3 ár og horfið svo af vettvangi - þá er tíminn kominn fyrir nýja fólkið. Þá yrði tími þeirra Jóhönnu og Jóns Baldvins ekki aðeins kominn, heldur "full"kominn.
Aftur á móti tel ég því miður að tími og tækifæri Ingibjargar Sólrúnar hafi af mjög mörgum ástæðum runnið henni úr greypum. Hún gerði of mörg mistök á stuttum ferli sínum sem ráðherra og formaður stærsta jafnaðarmannaflokks Íslandssögunnar. Hún brást á tímum sem þjóðin þurfti hvað mest á því að halda að gildum og grundvallarsjónarmiðum jafnaðarstefnunnar yrði framfylgt af festu og eindrægni í stjórnarsamstarfi þar sem sú stefna átti undir högg að sækja í viðureign við lúmskar og lævísar aðferðir nýfrjálshyggjunnar. Það eru stóru vonbrigði íslenskra stjórnmála í dag.

Nafnlaus sagði...

Einar:

Mjög góð stúdía Árni og ég er sammála flestu.

En við skulum ekki vera að hnýta í forsetann fyrir að gera sitt jobb vel. Það var hans hlutverk að klappa upp Íslendinga í útlöndum.

Hann átti að sjálfsögðu að nota öll þau bestu orð sem hann gat fundið um íslenska viðskiptamenn þegar hann var að vinna þeim fylgi og opna dyr fyrir þá í útlöndum.

Við skulum ekki rugla því við hitt að viðskiptamennirnir misstu sig í skuldsetningu og spunnu þarmeð þessa ógurlega bólu sem sprakk.

Í Nýja Íslandi vil ég að forsetinn vinni mínu fyrirtæki brautargengi á erlendum vettvangi. Ef ég klikka á einhverjum grunnatriðum í mínum rekstri þá þýðir ekki að kenna honum um það þótt hann hafi kynnt mig vel.

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus kl. 23:10

Trú þín á gamla og reynda stjórnmálamenn er mikil. En því miður benda rannsóknir til þess að líkurnar á heilabilun eftir vissan aldur séu talsverðar. En að öllu gamni slepptu þá tel ég það heillavænlegast að Íslendingar fái frið fyrir "sterkum" og "gamalreyndum" stjórnmálamönnum, en snúi sér frekar að róttækum kerfisbeytingum á stjórnsýslunni og kosningafyrirkomulaginu í heild sinni. Það gæti forðað okkur frá öðru hruni síðar.
Kv, Toni

Nafnlaus sagði...

JBH á þakkir skyldar fyrir að orða hið augljósa. Ingibjörg er 2007, Jóhanna er 2009. Ef Jóhanna gerir sér ekki grein fyrir því að hennar tími er kominn, þá er illa komið fyrir Samfylkingunni og Sjálfstæðismenn munu verða komnir aftur til valda 1.maí. Vilja menn það? Er það það sem Jóhanna vill? Er það það sem Ingibjörg vill? Ef ekki þá stígur hún til hliðar. Þetta er augljóst. Þetta er ekki Samfylking um persónur heldur hugsjónir og það er skylda allra sem henni deila að leggja sitt af mörkum til þess að hún megi ná fram. JBH hefur gert sitt. Nú er það Jóhanna sem þarf að taka ábyrgð. Hennar tími er kominn og það þýðir ekkert að hörfa þegar á hólminn er komið.

kv, Einar Pétur.

Nafnlaus sagði...

Væri ekki ástæða til að tíunda þá "sendiherra" sem sitja hér heima og naga blýanta, sama hver hefur skipað þá. Davíð launaði Júlla Hafstein fyrir að klúðra kristnitökuafmælinu með því að skipa hann sendiherra og Ingibjörg Sólrún skipaði nýlega vinkonu sína sem sendiherra. Sendiherra hverra spyr ég bara. Þætti vænt um að fá upplýsingar um það.

Siggi Hrellir sagði...

Það er margt til í þessu Árni. Ég held að JBH hafi gert Samfylkingunni stóran greiða með þessu óvænta útspili því að ekki virðist nein endurnýjun í sjónmáli hjá forystunni.

Spurningin er hvort að JBH langi virkilega að henda sér aftur í stjórnmálin á efri árum eða hvort hann sé orðinn jafn vonlaus og ég um að ESB verði sett á oddinn í næstu ríkisstjórn. Það er enn verið að deila um það hvort að þjóðinni sé treystandi til að kjósa um að hefja aðildarviðræður!!

Nafnlaus sagði...

SNÚIÐ ÚT ÚR SNÆVARR
Eftir Jón Baldvin Hannibalsson
(Birt á www.jbh.is)
Árni Snævarr birtir snaggaralegan pistil á heimasíðu sinni (15.02.) þar sem hann tekur undir málflutning minn í ræðu (hjá Alþýðuflokksfélagi Reykjavíkur, 14.02.) og riti (í opnugrein í Mbl. 17.02.) um það að núverandi formaður Samfylkingarinnar geti ekki verið trúverðugur foringi í augum kjósenda í uppbyggingarstarfinu sem framundan er, vegna ábygðar sinnar á hruninu í tíð fyrri ríkisstjórnar. Satt að segja fyrirfinnst varla nokkur maður sem andmælir þessu sjónarmiði með haldbærum rökum (þótt ýmir láti ergelsi út af þessum óþægilegum staðreyndum hlaupa með sig í gönur).

Ég hef bara þrjár athugasemdir að gera við skrif Árna:
1.
Orðalepparnir “allt fyrir ekkert” um EES samninginn eru ekki frá mér komnir. Í lokalotu samninganna kom þar, að Franz Andriessen, viðskiptakommísar framkvæmdastjórnarinnar, sem sat andspænis mér við stórt fundarborð, taldi ástæðu til að hrópa yfir salinn: “Þið skuluð ekki halda það, Íslendingar, að þið fáið hér allt fyrir ekkert.” Heimkominn, þegar ég gerði grein fyrir samningsniðurstöðum, vitnaði ég til þessara orða Andriessens. Fjölmiðlar gripu frasann á lofti og fyrirsögnin varð einhvern veginn si sona: Jón Baldvin um EES-samninginn: ALLT FYRIR EKKERT!. Ég hef leiðrétt þetta ótal sinnum með litlum árangri. Frasinn situr frosinn í minni manna og svo spinna þeir einhvern lopa um að þetta lýsi réttilega mati mínu á samningnum og sé jafnvel skýringin á því að Íslendingar hafi ekki enn hunskast til að stíga skrefið til fulls með inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru. Nú er aumingja íhaldið, sem hefur ekki getað gert upp hug sinn um afstöðu til Evrópusambandsins þótt þeir hafi haft fimmtán ár til þess, farið að kenna EES-samningnum um hrun Íslands, hvorki meira né minna, fjórtán arum síðar. Í óðagotinu við að kenna öðrum um eigin misgerðir hafa þeir gleymt því að aðalástæða þeirra hingað til fyrir því að Ísland þurfi ekki að ganga í ESB hefur verið sú að EES-samningurinn hafi verið svo góður. Það rekst hvað á annars horn hjá íhaldinu eins og títt er um folk sem er á flótta frá sjálfu sér.
II.
Það var nógu erfitt að fá EES-samninginn samþykktan á alþingi með fárra atkvæða mun (þar sem landsbyggðararmur Sjálfstæðisflokksins
sveikst undan merkjum - undir leiðsögn Björns Bjarna) - þótt pólitískri ákvörðun um að stíga skrefið til fulls, eins og Svíar, Finnar og Austurríkismenn gerður væri ekki blandað inn í málið á því stigi Það var pólitískt ógerlegt á þeim tíma. Á hitt er að líta að fyrir kosningarnar 1995, strax haustið 1994, mótaði Alþýðuflokkurinn undir minni forystu þá stefnu að við ættum að sækja um aðild. Þetta er sú stefna sem Samfylkingin fékk í arf frá Alþýðuflokknum en hefur ekki fylgt eftir af neinum þrótti. Þeir sem segja að EES-samningurinn, án ESB aðildar og upptöku evru, þ.e. opnun þjóðfélagins, þar með fyrir alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum með veikan gjaldmiðil eins og krónuna eina að vopni, hafi verið “baneitraður kokkteill”, eins og jafnvel sumir þingmenn Samfylkingarinar eru nú farnir að kyrja – ættu að beina spjótum sínum að öðrum en okkur jafnaðarmönnum. Okkar stefna var sú að sækja um aðild og ganga inn í myntsamstarfið með upptöku evru, strax á kjörtímabilinu 1995-99, þegar við uppfylltum öll skilyrði. Því miður fengum við ekki fylgi til þess.Kjósendur verða því að sakast við einhverja aðra en okkur um það hvers vegna fór sem fór. Sumir eru vitrir eftirá – en aðrir fyrirfram!
III.
Örfá orð af gefnu tilefni um hina öldruðu bjargvætti þjóða sinna:
(a) Churchill var 66 ára, þegar hann var kallaður til Downingstrætis 10 til að bjarga þjóðinni í byrjun seinni heimstyrjaldarinnar. Hann var svo 77 ára þegar hann var endurkjörinn árið 1951 og sat eftir það í fjögur ár. Hann lét af embætti forsætisráðherra 81 ár.
(b) De Gaulle var 69 þegar hann var kallaður aftur, eftir að eftirmenn hans höfðu siglt fjórða lýðveldinu í strand. Hann sneið nýja stjórnarskrá utan um sjálfan sig og arfleiddi . lýðveldið að henni og sat á valdastóli þar til hann var 79 ára.
(c) Konrad Adenauer var kallaður til að reisa Þýskaland við úr rústum stríðsins. Hann var þá 73 ára og ríkti í fjórtán ár þar til hann var 87 ára.Og fórst það vel úr hendi.
(d) Deng Xiao Ping var 74 ára þegar hann steypti fjórmenningaklíkunni með ekkju Maos í fararbroddi af stóli og hófst handa við að endurreisa kínverska stórveldið úr rústum Maos. Enginn einn maður í veraldarsögunni hefur lyft jafnmörgum úr jafndjúpri örbirgð til jafngóðra efna á jafnskömmum tíma og hann. Hann var að þangað til hann var rúmlega níræður.

Hvað er fólk svo að bögga okkur heilaga Jóhönnu með því að við séum orðin of gömul? Við erum rétt að ná þroskavænlegum aldri!

(Höf. verður 70 ára 21. febrúar)