þriðjudagur, 3. febrúar 2009

Emilíana slær í gegn!

Emilíana Torrini hóf tónleikaferð sína um Evrópu og Bandaríkin með tónleikum hér í Brussel. Ég hafði að vísu misst af miðum enda uppselt nánast samstundis á tónleikana í Ancienne Belgique.

En viti menn þar sem ég var á leið heim á leið á laugardagskvöld rakst ég á þann öndvegishöld Sigtrygg Baldursson, trommuleikara úti á götu í Brussel. Bauð hann mér á tónleika Emilíönu og er óhætt að segja að það hafi verið hið besta mál.

Ég hef aldrei séð Emilönu á sviði og var eilítið efins um hvort sumt af lágstemmdara efni hennar, sérsaklega af Fisherman´s woman, kæmist til skila í tiltölulega stórum tónleikasalnum.

Það er skemmst frá því að segja að Emilíana heillaði áhorfendur upp úr skónum. Þessi stórglæsilega söngkona gaf sér góðan tíma til að spjalla við áhorfendur á milli laga (stundum fullgóðan kannski!) og gerði óspart grín að sjálfri sér.

Ef taugaveiklunar gætti stundum í kynningunum þá var flutningurinn oftast nær framúrskarandi, þótt enn eigi eftir að spila söngvara og hljóðfæraleikarana hundrað prósent saman.

Emilíana hefur einstaka rödd og henni vex ásmeginn sem lagasmiður með hverri plötu. Me and Amini er firnafínn diskur, þótt ég haldi meira upp á Fisherman´s woman sem er magnað verk. En þetta eru ólík verk og hverjum þykir sinn fugl fagur. Í rauninni telst það Emilíönu til tekna hve fjölbreytt verk hennar eru.

Bandið er þétt, samspil gítarleikaranna til fyrirmyndar og vanur maður og vönduð vinna á trommunum.

Emilíana er rétt að byrja.

Takk fyrir mig!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já, þótt ég sé ekki í yngri kantinn hef ég fylgst með ferli hennar. Hún er stórgóð og ég og barnabörnin syngjum og dönsum nýja diskinn í eldhúsinu á sunnudagmorgnum. Missti af tónleikunum hér heima.
Kveðja
Björn B.