þriðjudagur, 3. febrúar 2009

Kosning Árna væru skilaboð um ESB

Það eru góð tíðindi að Árni Páll Árnason skuli hafa boðið sig fram til varaformennsku í Samfylkingunni. Það er fyllsta ástæða til þess að efla Evrópusinna innan Samfylkingarinnar enda finnst mér þetta samkrull við VG ekki boða neitt gott fyrir okkur áhugamenn um þátttöku Íslands í þessu pólitíska og efnahagslega varnarbandalagi.

Össur Skarphéðinsson er að mörgu leyti vindhani íslenskra stjórmmála. Hann lyftir fingri og finnur hvaðan áttin er og hagar svo seglum samkvæmt vindi. Aðild að ESB var mál janúarmánaðar hjá Samfylkingunni en jafnskjótt og febrúar rann upp, virtist málið að mestu gleymt. Ein vond skoðanakönnun kom og þá var málið gleymt -- í bili.

Össur var ekki fyrr sestur í utanríkisáðuneytið en hann hóaði í Kristján Guy Burgess, hægri hönd Ólafs Ragnars Grímssonar í klappliði útrásarinnar til að setjast sér við hlið í ráðuneytinu. Össur er allra karla bestur á góðum degi en má illa við vondum félagsskap. Ólafur Ragnar hefur alltaf haft slæm áhrif á Össur.

Kristján Guy Burgess er alls góðs maklegur. Dagsfarsprúður drengur, vel menntaður og vel kvæntur (enda svili Dags Eggertssonar ef mér skjöplast ekki – skyldi þó ekki skipta máli?). En það breytir ekki því ekki að þetta eru vond pólitísk skilaboð.

Þau eru ekki skilaboð til ESB um að nýi utanríkiráðherrann ætli sér að færa okkur nær aðild. Þau eru heldur ekki skilaboð um að Samfylkingin ætli að hafa augun á boltanum en eyða ekki kraftinum í minna verða hluti eins og öryggisráðsframboðið.

Allra síst eru þetta pólitísk skilaboð um að Samfylkingin hafi snúið baki við útrásarvíkingunum og hallelújakór forsetans í eitt skipti fyrir öll með því að efla til áhrifa náinn samstarfsmann Ólafs Ragnars, Björgólfs Thor og Róberts Wessmann.

Kristján Guy er maður áhugasamur um Barbados og Indland en öllu minna á Evrópu eins og fóstrar hans og vinnuveitendur. Síðast þegar fréttist var útflutningur Íslands til Indlands á við þokkalegt einbýlishús í Vesturbænum en útflutningur til Evrópu hundraðfaldur á við Kína.

Það hefur aldrei legið eins mikið á því og núna að koma upp pólitískum og efnahagslegum vörnum eftir þau skakkaföll sem við urðum fyrir með því að reyna að dansa línudans án öryggisnets með allt bankakerfið á herðunum.

Þetta gerir það enn brýnna fyrir Evrópusinna innan Samfylkingarinnar að styðja við bakið á Árna Páli Árnasyni í kjöri til varaformennsku í flokknum. Hann er á kjöraldri og hefur bæði menntun á sviði Evrópumála, reynslu úr pólitík og ekki síst lögmennsku sem kemur að góðum notum.

Bæði Samfylkingin og aðrir flokkar hljóta að viðurkenna hversu dýrkeypt það var Íslendingum að láta til dæmis dýralækna og sagnfræðinga (með fullri virðingu!) halda merki Íslands á lofti í stjórnmálum á alþjóðavettvangi þegar óveðrið skall á.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hann hefur ekki það gravitas sem þarf.

Fyrst og fre,st afsprengi fjölmiðlunar og í klíku Jóns Baldvins.

Hefur fátt til mála að leggja þegar raunveruleg þörf er á.

Nafnlaus sagði...

Það sem þú segir um Árna Pál er allt rétt og þau skilaboð sem þau senda.

Þetta með að Össur sé vindhani drykkjubolti er líka rétt en hann hefur þó sýnt og sannað nýlega að það er ástæða fyrir því að hann er í pólitík. Hann er survivor þó manni sé um megn að bera endilega virðingu fyrir honum.

Mér finnst hins vegar ansi hart hvernig þú dæmir aðstoðarmann hans. Þú segir hann hæfileikaríkan og kláran en með vitlausan fókus og slæma sögu/fortíð.

Það á við um ALLA í dag á Íslandi og þannig hefur það verið lengi. Ég þekki Kristján ekki neitt en tel afar hæpið að ætla nota það gegn honum að hafa unnið fyrir ÓRG, Björólf Thor eða aðra útrásarvíkinga.

Það mætti þá nota sömu aðferðarfræði og segja að flestir blaða-og fréttamenn séu slæmir af því að þeir unnu á vitlausum fjölmiðlum?

Þú dæmdir líka Björgvin G afar hart um daginn og það var ósanngjarnt mjög.

Svo ertu ekki sáttur við samkrull Samfylkingarinnar með Vinstri Grænum en varst samt á móti síðust ríkisstjórn! Hvað ríkisstjórn sérð þú eiginlega fyrir þér? Þá meina ég ekki í fullkomnum heimi heldur þeim sem við lifum í og við nú?

Gangi þér vel

Nafnlaus sagði...

Kristján Gay Burgues á þing!

Nafnlaus sagði...

Kannski var rosalega slæmt að hafa háskólamenntaðann dýralækni sem fjármálaráðherra en er mikiðbetra að hafa lesbíska flugfreyju sem forsætisráðherra?
Ég bara spyr, ég er enginn aðdáandi Árna og hef ekkert á móti Jóhönnu og þeirra fyrri störf skipta ekki öllu máli.
Fínt líka að sleppa tvískinnungnum með þetta.

Svavar

Nafnlaus sagði...

Nú þekki ég Árna Pál ekki neitt af öðru en því að ég hef hlustað mikið á hann í þinginu, í umræðuþáttum og í viðtölum við fjölmiðla. Mér finnst það mikill ljóður á Árna að oft verður málafylgja hans eitt alsherjar skítkast á pólitíska andstæðinga, upphrópanir og dylgjur. Maður fær þá á tilfinninguna að hann hugsi ekki áður en hann talar, eða hafi vondan málstað að verja.
Minna skítkast meira um rökstuðning Árni Páll það er mitt ráð til þín.

Ólafur