mánudagur, 2. febrúar 2009

Evrópuvörn Samfylkingar

Árni Páll Árnason, sá ágæti Evrópusinni sendi mér nokkrar línur sem ég birti hér með ánægju:"

"Í verkefnaskrá ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna eru tekin mikilvæg skref í átt til aðildar að ESB. Breytingar verða gerðar á stjórnarskrá sem gera kleift að breyta stjórnarskránni með sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu. Með því er aflétt þeirri hindrun sem stjórnarskrá setur í veg aðildarferlisins að óbreyttu, þar sem þörf er á samþykki tveggja þinga með kosningum á milli til að stjórnarskrá verði breytt. Þegar þessar breytingar verða gengnar í gegn mun unnt að breyta stjórnarskránni til samræmis við aðild að Evrópusambandinu í sömu þjóðaratkvæðagreiðslu og fara mun fram um aðildarsamninginn sjálfan. Hér er því tryggt að af aðild geti orðið fljótlega á næsta kjörtímabili, ef vilji ríkisstjórnar stendur til aðildar. Samfylkingin mun leggja höfuðáherslu á aðild í kosningunum."

Þetta eru góð tíðindi og nú skiptir miklu máli að menn á borð við Árna Pál vinni að því öllum árum að halda Össuri Skarphéðinssyni nýjum utanríkisráðherra við efnið.
Össur er Evrópusinni frá fornu fari en hættir til að gleyma hugsjóninni þegar hann lendir í vondum félagsskap, sérstaklega á Bessastöðum.

Fréttir herma að sá ágæti maður Kristján Guy Burgess verði aðstoðarmaður Össurar í bráðabirgðastjórninni. Sá ágæti piltur er of handgenginn forsetanum fyrir minn smekk enda hefur mér fundist á stundum eins og hann vilji frekar að Ísland gangi í Indland en ESB.
Eins og forsetinn.

Engin ummæli: