miðvikudagur, 18. febrúar 2009

Obama og Brown, Gore, Ban og Björk!

Hvarvetna í heiminum, hvort heldur sem er í Bandaríkjunum eða í Frakklandi, Kína eða Kóreu leita stjórnvöld leiða til þess að blása nýju lífi í kreppuhrjáð efnahagslífið. Athygli vekur að meira að segja nú þegar verulega kreppir að, þykir víðast hvar sjálfsagt að leita ýmiss konar grænna lausna.

Lítið hefur farið fyrir slíkri umræðu á Íslandi, þótt "grænn" flokkur, vinstri-grænir hafi nýlega sest í ríkisstjórn Íslands í fyrsta skipti. Aukin umsvif ríkisins eru ekki á dagskrá á Íslandi, heldur greiðsla skulda og niðurskurður á ýmsum sviðum. Hins vegar liggur fyrir að þessu mál komast á dagskrá hér á landi í næstu viku þegar efnt verður til ráðstefnu um þessi mál á vettvangi norræns samstarfs.
´
Á dögunum var mér falið í starfi mínu á vegum Sameinuðu þjóðanna að fá birta grein eftir þá Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og Al Gore, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og friðarverðlaunahafa Nóbels í fjölmiðlum á Norðurlöndum.

Þar segir meðal annars:

"Þessum efnahagshvata, auk álíka frumkvæðis annara ríkja, ber að verja til þess að færa hagkerfi heimsins inn í 21. öldina í stað þess að berja í bresti deyjandi iðngreina og úreltra ósiða gærdagsins.Ef dæla á billjónum dala til að viðhalda framleiðslu sem byggist á nýtingu kolefna og niðurgreiðslum til slíkrar framleiðslu, væri rétt eins hægt að setja féð í undirmálslánin á fasteignamarkaði sem voruþúfan sem velti hlassinu í fjármálakreppunni."

Greinin birtist fyrst í Financial Times en að öðru leyti hafði ég frjálsar hendur. Vanalega eru Morgunblaðið og Fréttablaðið beðin um að birta greinar af þessu tagi, á Íslandi en að þessu sinni valdi ég annan fjölmiðil: vefsíðuna www.nattura.info - sem Björk Guðmundsdóttir og félagar hennar settu á stofn síðastliðið sumar.

Ástæðan er einföld: Björk Guðmundsdóttir og náttúru-hreyfingin, náttúra.info hefur að mörgu leyti verið í fararbroddi í baráttu fyrir græna hagkerfinu á Íslandi bæði í orði og í verki. Málflutningur Bjarkar um sprotafyrirtæki og grænar áherslur ríma svo sannarlega vel við málflutning þjóðarleiðtoga á borð við Barack Obama og Gordon Brown að ekki sé minnst á þá "pennavinina" Al Gore og Ban Ki-moon.

Í heimalandi þess síðastnefnda hefur verið ákveðið að verja hvorki meira né minna en þremur prósentum þjóðarframleiðslu til grænna verkefna og í nýjum aðgerðum í Kína er gert ráð fyrir að tvö prósent verði græn.

Í næstu viku hittast forsætisráðherrar Norðurlanda á fundi í Bláa lóninu á ráðstefnu þar sem rætt verður um áhrif kreppunnar á aðgerðir í loftslagsmálum.

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og friðarverðlaunahafinn Al Gore taka mjög ákveðna afstöðu til þessa máls í grein sinni sem lesa má í heild á www.nattura.info:

"Milljónir manna frá Detroit til Dehli lifa nú erfiða tíma. Fjölskyldur hafa tapað störfum sínum, heimilum, sjúkratryggingum og jafnvel voninni um næstu máltíð. Þegar svo mikið er í veði verða ríkisstjórnir að vera vandfýsnar á úrræði. Við verðum að sjá skóginn fyrir trjánum og fórna ekki langtímahagsmunum á altari skyndilausna. Fjárfestingar í grænu hagkerfi eru ekki dýr kostur. Þær eru skynsamleg fjárfesting í réttlátari framtíð allsnægta."

Það er vissulega hægt að færa fram umhverfisvæn rök bæði með og móti byggingu álvera og virkjana á Íslandi. Spurningin er hins vegar hvort það sé ekki álíka gáfulegt að rífast um álver eins og að rífast um herinn: álverð er í lágmarki og lánsfé til stórframkvæmda liggur ekki á lausu - allra síst ef vafi leikur á því hversu umhverfisvænar framkvæmdirnar eru.

Engin ummæli: